16.12.1952
Efri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

88. mál, hitaveitur utan Reykjavíkur

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. N., sem hefur haft þetta mál, sem er stjórnarfrv., til meðferðar, hefur reynt að setja sig dálítið inn í það og rætt það við Gunnar Böðvarsson verkfræðing, sem hefur undirbúið málið og að mestu samið frv. f.h. ríkisstj. Það eru nokkrir staðir, sem hafa hug á því að koma á hjá sér hitaveitu. Má þar nefna Húsavík, Hveragerði, Hrísey o.fl., og það þykir þörf á því að setja l., sem mynduðu ramma um, hvernig slíkar hitaveitur komist á, þar sem aðstaða þykir til að koma þeim upp. Sá rammi er nú skapaður með þessum l. Við fljótan lestur þeirra var ég til að byrja með dálítið hræddur við þær undantekningar, sem gerðar eru í 1. gr., þar sem hitaveitukerfi af ákveðinni stærð þurfa ekki að vera með. Þetta er sett inn í l. af því, að á nokkrum stöðum, bæði hér í Rvík og annars staðar, eru smáhitaveitukerfi, flest frá stórum miðstöðvum í samliggjandi húsum með fleiri íbúðum, og það hefur ekki þótt rétt að neyða þessi hitaveitukerfi undir öllum kringumstæðum og alltaf til að vera í heildarveitunni. Við nánari athugun sáum við, sem Gunnar Böðvarsson benti okkur líka á, að ef þessar smáhitaveitur væru það margar eða lægju þannig, að þær væru í vegi fyrir því, að heildarhitaveita gæti komizt á í viðkomandi bæ, þá eru í 6. gr. gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að heildin geti tekið þessar smáhitaveitur eignarnámi og neytt þær til að vera inni í heildinni. Þetta þarf þó ráðherra að úrskurða að undangenginni rannsókn, þannig að þegar nánar er að gáð, þá er sú hætta, sem mér í fyrstu virtist geta legið í þessu, sérstaklega hvað Hveragerði snertir, í raun og veru ekki fyrir hendi. Það er að minnsta kosti alltaf hægt að koma henni burt, þótt það geti tekið dálítinn tíma og fyrirhöfn að gera það.

N. varð sammála um það, eftir að hafa lesið frv., reynt að setja sig inn í það og fengið um það upplýsingar frá verkfræðingnum, sem ég áðan nefndi, að mæla með því við hv. deild, að frv. yrði samþ. óbreytt.