06.10.1952
Efri deild: 4. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

19. mál, tekjuöflun til íþróttasjóðs

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég held, að það hljóti að vera einhver smámisskilningur hjá hv. 1. þm. N-M. um það, að íþróttamenn hafi verið hérna á þinginu í sambandi við þetta mál. Hins vegar lá fyrir þinginu í fyrra frv., sem var samþykkt og varð að lögum, um svokallað „Bingo“-happdrætti. En heimildin, sem þetta frv. byggist á, er í lögum frá 1940. Þar er tekið fram, að heimilt sé að stofna til þessarar tekjuöflunar, þessarar veðmálastarfsemi, til að auka tekjur íþróttasjóðs, og mér vitanlega hefur þetta ekki verið fyrir þinginu frá því að þau lög voru sett, svo að ekki getur verið um neina nýja umr. í þessu máli að ræða.

Ástæðan fyrir því, að brbl. voru gefin út, er aðeins sú, að það var byrjað á þessari starfsemi fyrri hluta ársins, eins og ég gat um áðan, en hafði satt að segja ekki verið athugað fyrr, en þetta var komið til framkvæmda og þeir menn, sem fyrir þessu stóðu, sáu, að þeir gátu ekki rekið það, ef þeir hefðu ekki sömu fríðindi og þau tvö happdrætti, sem ég gat um áðan, happdrætti ríkissjóðs og happdrætti háskólans, því að annars hefði að sjálfsögðu áður verið leitað slíkrar heimildar hjá Alþ. í sambandi við þá heimild, sem er í l. frá 1940, til þess að undanþiggja starfsemina skatti. Þeir komu þess vegna ekki fyrr til rn. en þessi veðmálastarfsemi var komin til framkvæmda. Eftir að búið var að gefa mér fulla skýringu á málinu og hvernig það lá fyrir, þá féllst ég á, að það mundi ekki vera hægt að reka það á öðrum grundvelli, og þess vegna voru brbl. út gefin. — Ég tel ekki, að það sé nein frekari skýring, sem hægt er að gefa í þessu sambandi, en það er sýnilegt, að ef þetta á að vera tekjulind fyrir íþróttasjóð eða fleiri stofnanir, þá er alveg greinilegt, að það er ekki hægt að framkvæma þetta svo, að það gefi nokkuð af sér, nema því aðeins að þetta happdrætti eða veðmálastarfsemi standi ekki verr að vígi, en happdrætti háskólans og ríkissjóðs.