15.01.1953
Efri deild: 49. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

88. mál, hitaveitur utan Reykjavíkur

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég skal ekki tala neitt um 2. liðinn. Ég reyndi að segja hlutlaust frá, bæði því, sem mælti með honum og á móti honum, en um 1. liðinn vil ég tala ofur lítið nánar.

Eftir 1. gr. frv. er ráðherra heimilt að veita bæjar- eða hreppsfélögum einkaleyfi með þeim skilyrðum, sem l. þessi ákveða, til þess að stofnsetja eða starfrækja innan umdæma sinna hitaveitur, sem annist dreifingu og sölu heits vatns eða gufu til almenningsþarfa. Einkaleyfi þessi skulu þó eigi ná til samhitunarkerfa, sem hafa minna hámarksafl en 250 kw. Svo segir aftur í 6. gr., að ef bæjarstjórn eða hreppsnefnd vilji koma upp hitaveitu, þá geti hún, ef nauðsynlegt þykir, tekið inn í hana hitaveitur, sem fyrir eru, þótt minni séu. — Það er hér um að ræða misskilning hjá þm. Barð. Og það skýrist kannske bezt með því að taka Hveragerði, þar sem eru 10–20 — ég veit ekki hvað margar stöðvar, sem hita upp hús, 5–10–25–30 kw. stöðvar, og hefur allur fjöldinn hitann frá ríkinu meira og minna óleyfilega, flest af þeim alveg óleyfilega, sumt með eldgömlum leyfum og fyrir sama sem enga borgun. t.d. greiðir öll garðyrkjustöðin í Fagrahvammi 30 kr. á ári fyrir allan hitann, sem hún þarf í öll gróðurhúsin og íbúðarhúsið, samkv. samningum frá einhverjum tíma milli 1930 og 1940 o.s.frv. Ef nú hugsað er til þess að koma á samveitu í Hveragerði og geta látið öll hús verða aðnjótandi hitans, þá er alveg gefinn hlutur, að það verður að taka öll þessi smáhús með. Og þeir segja mér, — þar kannske ber á milli, — en þeir segja mér, að 250 kw. samveita sé ekki fyrir nema kringum 100 manns, 20 íbúðir með 5 manns í hverri, og að þessi 50 kw., sem þm. Barð. vill hafa, séu vel fyrir eitt hús, sem í séu 4 íbúðir, alls ekki fyrir fleiri hús. Þetta segir Gunnar Böðvarsson, sem ég geri ráð fyrir að viti þetta betur en þm. Barð. Þá gæti farið svo, ef við lækkuðum þetta niður í 50, að það yrði ómögulegt að skipuleggja Hveragerði, því að allir þyrftu leyfi til undanþágu. Þess vegna held ég, að það sé mesti misskilningur, að það beri að skilja þetta eins og þm. Barð. gerir. Ég held það sé alveg rétt hjá þeim, sem sömdu frv., að það á að vera hægt að taka með í samveituna yfirleitt það, sem um er að ræða í byggðinni, nema það kvað vera hérna t.d. í Reykjavík, — það veit nú kannske hæstv. ráðh. betur, en mig minnir, að þeir nefndu hérna í Reykjavík eitthvert hús, sem bærinn ætti, bærinn hefði byggt og komið upp sérstakri hitaveitustöð fyrir, sem væri einmitt af þessari stærð, í því væru margar íbúðir og ekki kæmi til mála, þó að bærinn stækkaði sína hitaveitu í heild, að skylda það til þess að falla inn í, heldur ætti það að fá að vera utan við. Og svoleiðis tilfelli gætu verið fleiri. Ég held þess vegna, að það sé alveg rétt hjá þeim og n. taki réttan tón í því að vera með að fella fyrri breytinguna, hvað sem þessari seinni líður. Ég viðurkenni, að það séu vissir kostir við þá seinni, sem ég hef áður nefnt og skal ekki fara nánar út í núna. En mér sýnast gallarnir vera yfrið meiri og er þess vegna á móti henni, án þess að fara frekar út í það.