07.10.1952
Sameinað þing: 3. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

1. mál, fjárlög 1953

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hv. þm. Ísaf., Hannibal Valdimarsson, hefur nú gert fjárlagafrv. hin gleggstu skil. En þegar dæma á um gerðir ríkisstj. í fjárhags- og efnahagsmálunum, verður þó einnig að skoða málið frá nokkru viðara sjónarmiði, og mun ég leitast við að gera það.

Þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum, taldi hún það megintakmark sitt að gera verzlun landsmanna frjálsa og tryggja arðbæri útflutningsatvinnuveganna án aðstoðar ríkisvaldsins. Í þessu skyni lækkaði hún gengi krónunnar um 43% og sagðist um leið ætla að beita sér fyrir heilbrigðri fjármálastefnu ríkis og banka. Svo mjög treysti hún á töframátt gengislækkunarinnar til þess að koma jafnvægi á þjóðarbúskapinn, að hún rauk í það nokkrum mánuðum síðar að gera verulegan hluta innflutningsins frjálsan og afnema nær allt verðlagseftirlit. Áhuginn fyrir verzlunarfrelsinu náði hins vegar ekki til útflutningsins. Ýmsir máttarstólpar Sjálfstfl. höfðu og hafa enn hag af höftunum í útflutningsverzluninni. Þess vegna var „frjáls verzlun“ á því sviði óþörf.

Gengislækkunin hefði engan veginn þurft að reynast eins og hún hefur reynzt, ef samhliða henni hefðu verið gerðar skynsamlegar og réttlátar ráðstafanir til þess að endurskipuleggja sjálfan rekstur útflutningsatvinnuveganna og innflutningsverzlunarinnar, til tekjuöflunar og til þess að uppræta brask og óheilbrigða gróðamyndun. Það var hins vegar fásinna að treysta á gengislækkunina eina sem einhvers konar töfrabrögð til þess að koma sjúku og spilltu efnahagskerfi allt í einu á réttan kjöl. Afleiðingarnar urðu og eftir því. Erlendur varningur, nauðsynlegur og ónauðsynlegur, tók að streyma inn í landið. Það var auðvitað gagnlegt og nauðsynlegt að bæta úr þeim gífurlega vöruskorti, sem í landinu var, en það var sannarlega óþarft og ástæðulaust að hrúga inn í landið hvers kyns varningi, sem auðveldlega mátti framleiða í landinu sjálfu, svo að fjöldi iðnverkafólks varð tafarlaust atvinnulaus og nýtízku vélar starfslausar. Gífurlegur halli varð á verzlunarjöfnuðinum, en Bandaríkjastjórn hljóp undir bagga, m.a. með því að greiða stórar fjárhæðir inn á reikning Íslands hjá Greiðslubandalagi Evrópu. Síðan núverandi ríkisstj. tók við völdum, hefur endurgjaldslaus vöruinnflutningur til landsins numið 19 millj. dollara eða 310 millj. kr., miðað við núverandi gengi. Þennan sama tíma hafa útlán bankanna aukizt um hvorki meira né minna en 555 millj. kr.

Gengislækkunin reyndist hins vegar engan veginn duga til þess að tryggja arðbæri útflutningsatvinnuveganna og þó einkum ekki bátaútvegsins. Vorið 1951, eða ári eftir að gengislækkunin var samþykkt, var bátaútvegurinn að stöðvast. Ef það hefði verið rétt vorið 1950, að gengisbreyting ein væri nægileg og réttmæt sem bjargráð gegn hallarekstri útflutningsatvinnuveganna, þá hefði mátt búast við því, að ríkisstj. beitti sér fyrir nýrri gengislækkun. Það gerði hún þó ekki, heldur tók upp bátagjaldeyrisskipulagið svo nefnda, sem að vísu er óbein gengislækkun. Með því var í raun og veru tekið að skrá tvö gengi á krónunni, eitt fyrir bátaafurðir, en annað fyrir aðrar útflutningsafurðir. Þetta var gert þrátt fyrir það, að þeir sérfræðingar ríkisstj., sem undirbúið höfðu gengislækkunina, höfðu einmitt varað sérstaklega við því að fara inn á þá braut að skrá tvöfalt gengi á krónunni: Með bátagjaldeyrisskipulaginu hófst eitthvert mesta brasktímabil í sögu íslenzkrar verzlunar. Ýmsir milliliðir hagnýttu sér hið óvenjulega ástand út í æsar og skófluðu milljónum í vasa sína með litilli fyrirhöfn. Skýrslur þær, sem verðgæzlustjóri safnaði um álagningu, sýndu, að upphæð sú, sem milliliðir hækkuðu álagningu sína um frá því, sem áður hafði verið leyft, nam meiru en því, sem bátaútvegsmenn fengu í sinn hlut. Bátaútvegurinn fékk m.ö.o. ekki nema tæplega helminginn af viðbótarverðinu, sem neytendur voru látnir greiða. Ýmsum fór að detta í hug, að það hefðu kannske ekki verið bátaútvegsmennirnir fyrst og fremst, sem hefðu átt að hagnast á bátagjaldeyrisskipulaginu.

Eitt ár leið til viðbótar. Í ljós kom, að jafnvel bátagjaldeyriskerfið dugði ekki. Fleiri og fleiri vörum var að vísu bætt á bátalistann, svo að dýrtiðin óx í sífellu og kaupmáttur krónunnar minnkaði. Samt barðist bátaútvegurinn í bökkum, af því að vanrækt hafði verið að endurskipuleggja sjálfan reksturinn. Frystihús, saltendur og aðrir þeir, sem vinna úr fiskinum, græddu hins vegar vel, því að þeir gátu skammtað bátunum og þar með sjómönnum verðið. En litið fór fyrir því jafnvægi, sem lofað hafði verið, að sigla skyldi í kjölfar gengislækkunarinnar. Verzlunarjöfnuðurinn við útlönd varð óhagstæðari og óhagstæðari. Síðan ríkisstj. tök við völdum hefur hallinn á verzlunarjöfnuðinum numið hvorki meira né minna en 570 millj. kr., og er ekki nema nokkur hluti þess innflutnings vegna framkvæmdanna, sem unnið er að fyrir erlent aðstoðarfé. Annað eins hefur ekki gerzt áður í sögu þjóðarinnar. En minna virtist ekki duga til þess að opna augu ríkisstj. örlítið fyrir því, að stefna hennar í viðskiptamálum hefur verið ábyrgðarlaust ævintýri, framkvæmanlegt aðeins vegna þess, að hægt var að senda erlendum aðila reikninginn. En þegar það verður ekki lengur hægt, hljóta afleiðingarnar að verða þeim mun hastarlegri, því miður, og mun sá tími nú vera að koma. Þess vegna er ríkisstj. nú að snúa við af braut frjálsu verzlunarinnar. Hún er smám saman að taka aftur allan kjarna þess, sem hún hafði eftír sérfræðingum sínum vorið 1950, því að fyrir skömmu hefur ríkisstj. látið það boð út ganga, að framvegis verði ekki leyfður frjáls innflutningur á fjölmörgum vörutegundum, sem verið hafa á frílista síðan skömmu eftir að ríkisstj. tók við völdum, heldur megi nú aðeins flytja þær inn frá vöruskiptalöndunum, þar sem bæði er erfitt að fá margar þeirra, auk þess sem þær eru yfirleitt dýrari og lakari að gæðum. Með þessu er ríkisstj. að kistuleggja þá stefnu, sem hún boðaði þegar hún tók við völdum, án þess þó að hún hafi hreinskilni eða djörfung til þess að játa það og án þess að hún hafi gert sér grein fyrir, hvers konar heildarstefnu hún ætlar að fylgja í staðinn. En ráðstafanir þær, sem hún hefur verið að gera, eru hvorki fugl né fiskur, hvorki frjáls verzlun né skipulögð verzlun, heldur stefnulaust fimbulfamb, óhagstætt neytendum, skaðlegt iðnaðinum og til skapraunar duglegum og heiðarlegum aðilum í verzlunarstétt, en engum til gagns nema þeim, sem stunda viðskipti sem spákaupmennsku og brask.

Hafa menn almennt gert sér ljóst, gert sér grein fyrir, hvers konar reglur það eru, sem nú gilda í innflutningsmálunum? Ýmsar bráðnauðsynlegar vörur eru enn háðar leyfisveitingum, svo sem flestar byggingarvörur, og er innflutningur þeirra mjög takmarkaður sökum gjaldeyrisskorts, að því er sagt er. Á bátalistanum svo kallaða eru hins vegar ýmsar óþarfavörur, svo sem postulín og plastík-dót, og auk þess vörur, sem auðvelt er að framleiða í landinu, svo sem kerti, kex og leðurvarningur, svo að af öllum þessum vörum má því flytja inn svo mikið sem hverjum þóknast, ef aðeins er greitt af þeim tilskilið bátagjald. Mér hefur t.d. verið sagt, að nýlega hafi verið yfirfærð veruleg fúlga í dollara til kaupa á kertum, sem vandalaust er að steypa hér heima. Hér er m.ö.o. skortur á ýmsum bráðnauðsynlegum vörum, en samtímis er dýrmætum gjaldeyri hent út fyrir óþarfa og ýmiss konar innflutning, sem verður til þess að gera iðjuverkafólk í landinu atvinnulaust. Þetta er svo fráleitt, að eðlilegt er, að menn eigi bágt með að trúa þessu, jafnvel upp á þá ríkisstj., sem nú situr.

En þótt ríkisstj. sé búin að yfirgefa flestar þær meginreglur, sem hún boðaði í byrjun með svo miklum fjálgleik, heldur hún samt dauðahaldi í eina, þ.e.a.s. þá, að milliliðum skuli yfirleitt heimilt að leggja á vöruna það, sem þeim sýnist. Álagningarfrelsið hefur verið stjórninni miklu heilagri meginregla, en verzlunarfrelsið. Ýmsir aðilar í milliliðastétt hafa misnotað þetta álagningarfrelsi svo herfilega, að fullkomið hneyksli verður að telja. Ríkisstj. hreyfir samt hvorki hönd né fót, heldur horfir á allt saman, að því er bezt verður séð, með velþóknun. Ég sýndi fram á það í umr. hér á Alþ. í fyrra, bæði í umræðum um verðlagsfrv. okkar Alþfl.-manna og í eldhúsumræðum, hversu gífurlegt okur hefur átt sér stað í skjóli álagningarfrelsisins, og byggði á skýrslum, sem verðgæzlustjóri hafði safnað. Svar ríkisstj. var þá ekkert annað, en að ekki væri að marka álagninguna fyrst eftir að verzlunin væri gefin frjáls og markaðurinn væri að fyllast, hún mundi lækka síðar. Nú er komin nær tveggja ára reynsla á stefnu stjórnarinnar, nú ætti ástandið að vera orðið eðlilegt, og svo vel vill einmitt til, að verðgæzlustjóri er nýbúinn að birta nýja skýrslu um athuganir, sem hann hefur gert á álagningunni undanfarið. Það kemur í ljós, að álagning á vefnaðarvöru, flutta inn samkv. frílista, er í heildsölu 17.1%, meðalálagning, en það er hvorki meira né minna en nærri þreföldun á þeirri álagningu, sem leyfð var meðan verðlagsákvæði voru í gildi. Mig minnir, að ég hafi einhvern tíma heyrt hæstv. viðskmrh. segja, að hæfileg heildsöluálagning á vefnaðarvöru væri 10%. Samkvæmt því ætti hann að telja álagningu heildsalanna nú óhæfilega. Meðalálagning smásala er samkv. skýrslunni 31.5%, og það er aðeins 37% hækkun.

Til þess að gera grein fyrir því, hvað þessar tölur þýða raunverulega, má athuga, hversu mikið hefur verið flutt inn af vefnaðarvöru þeirri, sem verið hefur á frílista, síðan hann var gefinn út, eða öllu heldur hversu mikið hefur verið yfirfært fyrir vefnaðarvöru, þar eð sú vara hlýtur að hafa komið eða koma til landsins. Það er 91 millj. kr. Nú má athuga, hver álagningin reynist, ef gert er ráð fyrir sömu álagningu á þessa upphæð og álagningin hefur reynzt undanfarið samkv. skýrslu verðgæzlustjóra, en það ætti sízt að vera of mikið, hafi eitthvað verið að marka það, sem málsvarar ríkisstj. sögðu í fyrra, þ. e., að álagningin mundi stórlækka og vera orðin hófleg nú á þessu ári. En ef þannig er farið að, reynist heildsöluálagningin 24 millj. kr., en smásöluálagningin 51 millj., eða álagning milliliða samtals á vefnaðarvöru, innflutta samkv. frílista, 75 millj. kr. Álagningarhækkun heildsalanna umfram verðlagsákvæði hefur numið 15 millj. kr. Það er dálaglegur skildingur, og mun ýmsum finnast, að minna hefði nú mátt gagn gera.

Þegar álagning á bátagjaldeyrisvöru er athuguð, koma hinir furðulegustu hlutir í ljós. Til loka síðasta mánaðar hafa verið yfirfærðar fyrir bátagjaldeyrisvörur 101 millj. kr., en ekki eru allar þær vörur enn komnar til landsins. Stærstu vöruflokkarnir eru vefnaðarvara og fatnaður ýmiss konar, ávextir og bifreiðavarahlutar ásamt skrifstofuvélum. Fyrir vefnaðarvöru og fatnaði hafa verið yfirfærðar 25 millj. Sé miðað við síðustu skýrslu verðgæzlustjóra, er söluverð þessarar vöru 81 millj., og nemur álagning milliliða á vöruna 24 millj. kr., eða álíka upphæð og hún kostar erlendis. Það, sem yfirfært hefur verið fyrir ávöxtum, nemur 23 millj. kr. Miðað við síðustu skýrslu verðgæslustjórna er álagning milliliða á þennan ávaxtainnflutning 27 millj., og er það vafalaust lægra, en álagningin hefur raunverulega orðið. Til 19 millj. kr. innflutnings bifreiðavarahluta og skrifstofuvéla svarar 15 millj. kr. álagning, og þannig mætti lengi telja. Óhætt mun að fullyrða, á grundvelli skýrslna verðgæzlustjóra, að álagning á þá bátagjaldeyrisvöru, sem numið hefur í innkaupi erlendis um 100 millj. kr., nemi meira, en öðrum 100 millj. kr., og þetta lætur ríkisstj. sér vel líka. Henni finnst vist almenningur ekki of góður til þess að borga þetta.

Á s.l. vori virtist ríkisstj. þó rétt sem snöggvast fá dálítið samvizkubit út af öllu þessu. Hún reyndi að friða samvizkuna með því að gefa út bráðabirgðalög um heimild til þess að birta nöfn þeirra, sem gerðust sekir um óhóflega álagningu. Ég vona, að ríkisstj. sjálf lesi skýrslur trúnaðarmanna sinna, þ. á m. síðustu skýrslu verðgæzlustjóra, og nú langar mig til þess að spyrja: Finnst ríkisstj. hæfilegt að leggja 70% á kventöskur í heildsölu, finnst henni hæfilegt að leggja 60% í heildsölu á fótbolta eða 38% í heildsölu á bómullarefni eða 34% á tvinna eða 34–42% á sápu í heildsölu eða 68% á hárbursta eða 37% á ýmsa leir- og glervöru og járnvöru, allt saman í heildsölu? Þetta er sú harða samkeppni, sem hæstv. fjmrh. talaði um áðan í ræðu sinni. Líklega finnst ríkisstj. þetta allt saman hæfileg álagning, því að ekki hefur borið á því, að hún kæri sig um að nota sín eigin heimildarlög til þess að skýra frá því, hverjir leggi þannig á. Almenningur í landinu er hins vegar á annarri skoðun, og meðan ríkisstj. tekur málstað þeirra, sem þannig fara að, og heldur yfir þeim verndarhendi, mun almenningur fordæma hana fyrst og fremst.

Þannig er ferill ríkisstj. í viðskiptamálunum, mikilvægustu innanlandsmálunum, furðulegt hneyksli. Það er því ekki við því að búast, að slík stjórn haldi vel eða röggsamlega á málum í skiptum okkar við aðrar þjóðir heldur, enda hefur sú ekki orðið raunin á. Svo illa hefur hún haldið á ýmsu í sambandi við varnarsamninginn við Bandaríkin, að mörgum, sem voru samningnum fylgjandi, er miklu meir, en nóg boðið. Alveg að ástæðulausu hefur hún látið það viðgangast, að hermenn dveldu hér í Rvík daga og nætur, fjölmenntu á hina sárfáu skemmtistaði Reykvíkinga og tækju húsnæði á leigu til lengri eða skemmri tíma. Hermennirnir hafa ekkert hingað að sækja annað, en skemmtanir, en smábær eins og Reykjavík getur ekki gegnt slíku hlutverki. Það verður að vera verkefni hernaðaryfirvaldanna sjálfra að sjá þeim fyrir skilyrðum til dægrastyttingar.

Engri þjóð með heilbrigðan þjóðarmetnað þykir ánægja að því að vita af erlendum hermönnum í landi sínu. Slíkt hefur ávallt viðkvæm vandamál í för með sér, hvort sem um er að ræða Bretland, Þýzkaland, Danmörku eða Ísland, og það er íbúum smábæja ávallt áhyggjuefni, þegar herbúðir eru ekki fjarri, jafnvel þótt um innlendar herbúðir sé að ræða. Þess verður að minnast, að þótt herinn hér á Íslandi sé fámennur, er hann fjölmennur í hlutfalli við íbúatölu landsins. Í erlendum blöðum hefur verið nefnt, að hér séu um 4.000 hermenn. Það svarar til þess, að í Bandaríkjunum væru 4 millj. erlendra hermanna, í Bretlandi 1.3 millj. og í Danmörku 110 þús. Í Reykjavík munu ekki vera fleiri en 2.400 karlar á aldrinum 20–24 ára og innan við 3.000 konur. Er því auðséð, að jafnvel fámennur hópur hermanna á þessum aldri jafngildir mikilli aukningu í aldursflokknum. Sá tími verður vonandi sem stytztur, að hér þurfi að dvelja erlendur her, en meðan óhjákvæmilegt er talið, að slíkt tvíbýli sé í landinu, er tvímælalaust heppilegast, að hvor aðilinn búi að sínu. Á þann hátt verður gagnkvæm vinátta og virðing þjóðanna í heild bezt tryggð. Hinar tíðu heimsóknir hermanna til Rvíkur s.l. ár hafa valdið vandræðum, sem hefði verið hægt að komast hjá, ef ríkisstj. hefði sýnt árvekni, og hefur hún þó af ýmsum verið á það minnt, að hér væri vandamál á ferðinni, sem taka yrði föstum tökum.

Það, sem ég hef gert að umtalsefni á þessum fáu mínútum, hefur allt saman hnigið að því, að þessi ríkisstj., sem nú situr, sé furðulega giftusnauð í framkvæmdum sínum. Miklu fleira mætti raunar til nefna. Sannleikurinn er sá, að ástand íslenzkra þjóðfélagsmála er slíkt, að þeim, sem það hugleiða af alvöru, hlýtur að hrjósa hugur við því. Það er ekki aðeins, að efnahagsmál þjóðarinnar séu í sjálfheldu eftir mestu góðæri í sögu þjóðarinnar á fyrri helmingi síðasta áratugs og þótt Íslendingar hafi fengið sem óafturkræf framlög frá Bandaríkjunum 24.4 millj. dollara á s.l. 4 árum, eða tæpar 400 millj. kr., miðað við núgildandi gengi, þ.e.a.s. tæpar 100 millj. kr. á ári. Efnahagskreppan er þrátt fyrir allt ekki alvarlegasta vandamálið. Þjóðin og þó fyrst og fremst valdamenn hennar virðast hafa beðið tjón á sálu sinni. Réttarvitund hefur sljóvgazt og siðferðisþrek lamazt. Í opinberu lífi gætir nú meira siðleysis, en nokkurn tíma fyrr, og í viðskiptalífinu er rekin gagngerðari fjárplógsstarfsemi, en dæmi eru til um áður. Gæðingar skara eld að köku sinni af fyllsta blygðunarleysi, bæði þeir, sem eiga aðgang að ríkissjóði, bæjar- og sveitarsjóðum og að sjóðum hvers konar fyrirtækja. Stjórnmálamenn og stjórnmálablöð taka að sér að verja hina ótvíræðustu og ófyrirleitnustu fjárglæfra og lögbrot, ef þau eru framin af skjólstæðingum. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Engin úrræði í efnahagsmálum, jafnvel þótt góð og viturleg væru, mundu duga til þess að koma þjóðarskútunni á réttan kjöl á ný, ef þeim fylgdi ekki hugarfarsbreyting, ef þeim fylgdi ekki aukin ráðdeild, aukinn heiðarleiki, aukin skyldurækni, aukin ábyrgðartilfinning. Í þessum efnum eiga þeir, sem hafa mannaforráð í opinberu lífi og atvinnu- og viðskiptalífinu, að ganga á undan með góðu eftirdæmi, en í staðinn er það einmitt úr hópi þessara manna, sem sóttkveikjur spillingarinnar berast út í þjóðlífið, þótt allir eigi þar sem betur fer ekki óskilið mál.

Íslendingar verða að miða hætti sína alla við það að lifa af því, sem land þeirra og sjórinn umhverfis það gefur af sér. Á annan hátt bera þeir aldrei uppi til langframa þá íslenzku menningu, sem gefur lífi þeirra eilíft gildi. Sem betur fer getur þetta land og þessi þjóð búið við góð lífskjör, ef hún er trú sjálfri sér, vinnur vel og dyggilega og skiptir afrakstrinum bróðurlega,lætur engan búa við skort og engan lifa í óhófi. En margt þarf að breytast á landi hér, til þess að svo verði. Ef stjórnarfar það, sem nú er í landinu, á að haldast, mun seint sækjast að þessu marki. Það, sem gerast þarf, er, að verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn í bæjum og þorpum taki höndum saman við bændur í sveitum og láti samstarf sitt verða upphaf nýrra tíma í efnahagsmálum og félagsmálum á Íslandi.