07.10.1952
Sameinað þing: 3. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

1. mál, fjárlög 1953

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. Barð. sagði, að það væri sýnt, að fjmrh. ætlaði ekki að leggja fram frv. að nýjum skattalögum. Þetta er misskilningur. Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um þetta enn þá. Stafar það af því, að undirbúningi þessara mála er ekki lokið.

Hv. þm. Ísaf. sagðist ætla að ræða hér um fjárlögin áðan. Hann byrjaði með því að taka það fram, að fjárlfrv. væri alltaf að hækka, og vildi ekki láta bera fjárlfrv. saman við fjárlfrv., sem ég lagði fram siðast, heldur saman við fjárl. Þetta er auðvitað alveg út í hött hjá hv. þm., því að vitanlega er alveg eðlilegt að bera þær tillögur, sem ég legg fyrir þingið núna, saman við þær tillögur, sem ég lagði fyrir þingið þá, og ekkert annað en þetta sýnir mína stefnu eða stefnu stjórnarinnar. Þetta ætti hv. þm. að leggja sér á minni.

Þá sagði hv. þm., að það væru miklar búsifjar, sem þjóðinni væru gerðar með þessum háu fjárlögum, og hélt ég þá og sjálfsagt aðrir áheyrendur, að hann ætlaði að fara að gera grein fyrir því, hvernig Alþfl. ætlaði að lækka fjárlögin, þ.e., hverjar væru tillögur hans sér í lagi um lækkun á fjárl., en það var öðru nær. Þegar hér var komið sögu, hætti hv. þm. sem sé snögglega að tala um fjárl. og fór að tala um allt annað. Hann fór að tala um málefni manna í tveimur eða þrem hreppum í N.-Ísaf jarðarsýslu. Enn fremur fór hv. þm. að minnast á það, að Austfirðingar væru settir hjá í raforkumálum og það væri undarlegt, þar sem fjmrh. væri þm. fyrir Austurland. Ég held, að hv. þm. hefði átt að athuga það, áður en hann lagði út í þennan málflutning, að þetta er lágkúrulegasta tegund kosningaáróðurs, sem hv. þm. flytur hér við þetta tækifæri. Ég vorkenndi satt að segja hv. þm. þennan málflutning, hvernig hann notaði ræðutíma sinn, og ég get enga skýringu fundið á því aðra en þá, — og virði honum það til vorkunnar, — að hann er nýskriðinn inn á Alþingi með 9 atkv. meiri hluta, kviðinn fyrir því að koma aftur fram fyrir kjósendur og þess vegna miður sín. Það getur ekki verið önnur skýring á þessu fyrirbrigði. Ég held, að hv. þm. vinni lítið á því t.d. að reyna að læða því inn hjá Austfirðingum, að það hefði verið auðvelt eða hægt yfirleitt að gera allt í senn, byggja Sogsvirkjunina, Laxárvirkjunina, áburðarverksmiðjuna og á sama tíma koma upp stórvirkjun fyrir Austurland. Ég held þess vegna, að áróður hv. þm. hafi sáralitla þýðingu aðra, en þá að verða honum sjálfum til leiðinda.

Hv. landsk. þm., Gylfi Þ. Gíslason, minntist aðeins á fjárl. Hann hóf ræðu sína með því að segja, að Hannibal Valdimarsson, þm. Ísaf., hefði gert fjárlfrv. fullkomin skil. Þá brostu þingmenn í salnum, þegar hann sagði þetta, og ég veit, að hv. þm. hefur skrifað þetta í ræðuna heima í þeirri trú, að hv. þm. Ísaf. mundi gera fjárl. nokkur skil. En þm. Ísaf. brást alveg í þessu efni og þessum flokksbróður sínum hrapallega, og hv. flokksbróðir hans hefur ekki gætt þess að strika þetta framan af ræðunni, áður en hann steig í stólinn. Þess vegna varð þetta mönnum að gamansefni, því að enginn maður tók það alvarlega, að hv. þm. Ísaf. hefði gert fjárl. fullkomin skil. Af þessu mættu menn læra, — ef menn tala tveir í sama flokkstíma, — þá einföldu aðferð, að sá, sem talar á eftir, fái að sjá ræðu þess, sem talar á undan, ef hún er rituð, og ráðlegg ég þessum hv. þm. það framvegis.

Annars deildi hv. landsk. þm., Gylfi Þ. Gíslason, á stjórnina með gífurlegum stóryrðum, en notaði minna af rökum. Ég get ekki rakið nema örfátt af því. Það einkenndi ræðu þessa hv. þm., sem einkennir ræður þm. nú orðið við þetta tækifæri, að þeir ræða alls ekki frekar um fjárl. eða fjárhagsmálin. Það er talað eins og hér væru eldhúsdagsumræður, og hér er notaður tíminn í fjárlagaumr. til að deila á ráðherra, sem alls ekkert málfrelsi hafa hér, varðandi mál, sem eru fjárhagsmálunum gersamlega óviðkomandi, og þeir geta því ekki svarað. Þetta er vitanlega vítavert.

Hann ræddi nokkuð um fjárhagsmálin, þessi hv. þm., og hann sagði m.a., að það hefði verið farið allt of langt í því að gefa frjálsa verzlunina og það hefði verið farið svo langt í því, að það hefði orðið stórkostlegur halli, og þá hefðu Bandaríkin hlaupið undir bagga og skorið stjórnina, að því er manni skildist, niður úr ólinni. Hér snýr hv. þm. bara öllu við. Við gátum fengið aðstoð frá Greiðslubandalagi Evrópu til þess að gefa verzlunina frjálsa, en ekki til annars. Var þá ekki sjálfsagður hlutur að nota sér þessa aðstoð, sem hægt var að fá með óafturkræfum framlögum, til þess að gera verzlunina að verulegu leyti frjálsa, alveg eins og aðrar þjóðir hafa gert, sem hafa átt kost á slíkri aðstoð? Áttum við kannske að neita stórkostlegu framlagi frá Greiðslubandalagi Evrópu, bara til þess að geta haldið höftunum? Það hefði þurft mikla ást á höftunum til þess að fara þannig að.

Þá segir þessi hv. þm., að stjórnin hafi ætlað að hafa jafnvægisbúskap, en það hafi litið farið fyrir því jafnvægi, og bendir í því sambandi á viðskiptahallann við útlönd. Hv. þm., sem er prófessor í hagfræði, veit, að hann er hér að blanda óskyldum hlutum saman. Stjórnin vildi koma á jafnvægisbúskap. Það þýddi ekki, að það þyrftu endilega að vera eða ættu að vera eða gætu verið hallalaus vöruskipti við útlönd. Þvert á móti hefur stjórnin stefnt að því frá byrjun, að það yrði stórkostlegur halli á vöruskiptunum við útlönd. Það hefur stjórnin gert þannig, að hún hefur frá byrjun ætlað sér að koma upp stórum fyrirtækjum fyrir lánsfé, og hún hefur ætlað sér að taka á móti framlagi frá Greiðslubandalagi Evrópu til þess að flytja inn verzlunarbirgðir. Þess vegna kom það af sjálfu sér, svo að segja, að þau hlaut að verða stórkostlegur viðskiptahalli fyrstu árin, sem þessi stefna kom til framkvæmda. Jafnvægisbúskapur stjórnarinnar átti að byggjast á því að halda fullkomnu jafnvægi á fjárlögum og miða peningaumferðina innanlands við það, sem framleiðslan gæfi ástæðu til, og stjórnin hefur leitazt við eftir fremsta megni að halda sér við þá stefnu og með allgóðum árangri.

Þá notaði þessi hv. þm. talsvert af tíma sínum til þess að ræða um verzlunina, verðlagninguna sérstaklega og verðlagseftirlit, og reiknaði, eins og hann er vanur í því sambandi, margvísleg dæmi um það, hversu gífurlega verzlunarálagningin hefði aukizt í tíð núverandi ríkisstj. og hversu óskapleg viðskiptakjör það væru, sem almenningur ætti nú við að búa, — að því er manni skilst, samanborið við það, sem áður hefði verið. Það var það, sem hv. þm. miðaði við. Ég vil nú segja hv. þm., að hann getur haldið áfram að reikna og reikna alveg endalaust. Hvert einasta mannsbarn í þessu landi veit bara, að það er miklu meira framboð á vörum, heldur en var á þeim tímum, sem hann miðar við. Og hvert einasta mannsbarn veit, að það er hægt að fá miklu betri viðskiptakjör í verzlunum nú heldur en hægt var að fá þá. Það er alveg sama, hversu lengi hann reiknar verðlag, sem var hvergi til nema á pappírnum, álagningarreglur, sem hvergi voru til nema á pappírnum, og fleiri slíka hluti. Útkoman verður ætíð sú sama hjá honum, en fólkið veit þetta. Við vitum öll, að þetta er svona. Við þurfum ekki annað en að líta í blöðin og fylgjast með auglýsingunum og því, sem boðið er, til þess að sjá, að ástandið hefur gerbreytzt í þessum efnum. Það er alveg óþarfi fyrir menn að gera okrurunum það til geðs, ef þeir reyna að hafa í frammi klæki sína nú, að skipta við þá, en áður voru menn neyddir til þess að gera það. Sá er munurinn. Nú geta menn komizt hjá því, ef þeir vilja, og fengið eðlilegt verð og eðlileg kjör.

Hv. þm. var að blanda hér inn í þessar umr. hervernd landsins og samgangi hermannanna og Íslendinga. Ég vil segja þessum hv. þm. það í sambandi við þetta mál, — og hann deildi mjög á stjórnina í því sambandi, — að okkur er öllum hollt að hafa það í huga, hvernig sem við lítum á þetta mál að öðru leyti, — að herinn er kominn hingað, fyrir okkar ósk. Við óskuðum eftir því, að þessi her, sem hér er, tæki að sér vernd landsins. Þess vegna getum við ekki einir skipað alveg fyrir um það, hvað skuli gera og hvað skuli ekki gera. Ég vil segja þessum hv. þm. það og öllum öðrum, þó að ég vilji ekki gera litið úr því að reyna að vinna í rétta átt í þessu máli, sem hann nefndi sérstaklega, að við verðum að gera okkur grein fyrir því, að það eru dálítil óþægindi t.d., sem Norðmenn hafa af því, svo að við tökum dæmi, að hafa núna — að ég held — 18 mánaða herskyldu og láta 20–25% af öllum ríkistekjunum til hernaðarútgjalda. Það eru líka „smávægileg“ óþægindi að því fyrir Dani að hafa sams konar herskyldu, hafa alla sína ungu menn í hernum í 18 mánuði og 20% af sínum ríkisútgjöldum til hernaðar. Þetta eru „smáóþægindi“. Okkar óþægindi eru að vísu talsverð, en þau eru bara allt annars eðlis, og við þurfum ekki að ímynda okkur, að við getum komizt hjá því að verða fyrir óþægindum af því ástandi, sem nú er í heiminum. Hitt er svo annað mál, að það er sjálfsagt að vinna að því af ötulleik, að það þurfi að vera sem minnstur samgangur á milli hersins og borgaranna, en hv. þm. hefði alveg getað sparað sér þau svigurmæli, sem hann viðhafði í sambandi við þetta mál í garð ríkisstjórnarinnar.

Hv. þm. Siglf. talaði hér fyrir hönd Sósfl. í hálfa klst. og kom víða við. Hann sagði, að þetta væri hæsta fjárlfrv. og það væri sama eyðslustefnan áfram. Ég gat nú ekki á mér setið að kíma að hv. þm., því að við vitum það nú allt of vel, að á hverju einasta þingi flytja þm. kommúnistafl. tillögur um milljónatuga útgjöld til viðbótar því, sem er á fjárl., og til viðbótar því, sem aðrir samþykkja. Þessi ummæli eru því brosleg hjá hv. þm. Og svo þegar hann var nú búinn að ræða þessa miklu eyðslustefnu og allt þess konar, þá sagði hv. þm., að hann ætlaði ekki nú að ræða einstaka liði fjárlfrv. Það var nú líklega betra fyrir hv. þm. að ræða ekki um einstaka liði fjárlfrv. Maður getur skilið það og virt honum það til vorkunnar, enda forðaðist hann úr því að minnast á fjárlfrv. og fór að ræða um allt annað. Ég held sem sé, að það færi heldur illa fyrir þessum hv. þm., ef hann ætti að benda á, hvernig kommúnistar vilja lækka fjárl., en hins vegar auðvelt að sýna fram á, að þeir vilja hækka þau um tugi milljóna.

Hv. þm. sagði, að fjmrh. hefði glaðzt yfir greiðsluafganginum, en þjóðin ekki. Það er nú svo. — En hvað var gert við greiðsluafganginn? Ég sýndi fram á það í dag. Hann var notaður til þess að greiða fyrir framkvæmdum í sveitum og til þess að bæta úr allra sárasta lánsfjárskortinum í sambandi við íbúðir í kaupstöðum og kauptúnum. Ætli það hafi nú ekki einmitt farið þannig, að það hafi fleiri en fjmrh. að lokum glaðzt yfir greiðsluafganginum í fyrra, hvað sem hv. þm. vill nú um það segja?

Þá sagði þessi hv. þm., að gengislækkunin hefði verið hið mesta óráð. Hann sagði, að Benjamín Eiríksson hagfræðingur hefði haldið því fram, að öll vandamál væri hægt að leysa með gengislækkuninni, og svo sagði hv. þm.: „Er ekki margur vandinn enn? Og á því sjáum við, hvað það var mikil fjarstæða að halda, að gengislækkunin væri nokkurt úrræði.“

Í fyrsta lagi er nú þess að geta, að Benjamín Eiríksson hagfræðingur hefur vitanlega aldrei haldið því fram, að gengislækkunin væri einhver allsherjar kínalífselexír. Allt það, sem hv. þm. sagði um það, er nú bara, vægast sagt, slúður. Hitt er annað mál, að Benjamín Eiríksson benti á það, að eins og komið væri og eins og raunar fleiri vissu, en hann, þá hlaut að verða að gripa til gengislækkunar, en einnig til margra annarra úrræða jafnhliða, enda líka gert. Þá segir hv. þm.: „Ja, gengislækkunin, hvernig er nú þetta, þurfti ekki líka að gripa til bátagjaldeyrisins?“ — og það sama sagði hv. landsk. þm., Gylfi Þ. Gíslason, — „og er það ekki sönnun þess, að gengislækkunin var ekkert úrræði?“ Jú, það þurfti að grípa til bátagjaldeyrisins, en hvers vegna? Það var vegna þess, að verðlag erlendís á afurðum bátaflotans hækkaði minna, eða réttara sagt fór lækkandi, á sama tíma sem aðfluttar nauðsynjar vegna bátaútvegsins fóru hækkandi. Þess vegna þurfti að bæta bátagjaldeyrinum við gengislækkunina. Annars hefði gengislækkunin orðið einhlít fyrir bátaútveginn. Svo segir hv. þm. Siglf., að vélbátaútvegurinn standi verr, en nokkru sinni áður. Þetta er vitanlega algerlega rangt. Hver einasti maður t.d., sem kemur nálægt, framleiðslu á fiski í sambandi við bátaútgerð, veit, að það er miklu hagstæðara að framleiða fisk og vinna fisk nú, heldur en var fyrir gengislækkunina. Þetta veit hvert einasta mannsbarn, sem nálægt þessu kemur. Þetta eru álíka fullyrðingar hjá hv. þm. eins og ef því væri haldið fram og eins og hv. landsk. þm., Gylfi Þ. Gíslason, hélt fram í raun og veru, að það hefðu verið miklu hagstæðari verzlunarkjör fyrir almenning áður, en nú. Það vita allir, sem koma nálægt fiskframleiðslu, að þannig er þessu háttað. Hitt er svo annað mál, að vegna þess að síldveiðarnar hafa gersamlega brugðizt, þá hefur efnahagur þeirra, sem fyrst og fremst byggja á síldveiðum, hrunið alveg í rúst. Það er gengislækkuninni alveg óviðkomandi og engan dóm um hana hægt að fella í sambandi við þá atburði alla saman. Annars vil ég segja það nú, — því að ég gleymdi að taka það fram áðan, — þegar hv. þm. var að brigzla Benjamín Eiríkssyni hagfræðingi á margvislegan hátt, að mín skoðun er sú, að Benjamín Eiríksson hafi unnið landi sínu mikið gagn og að ráð hans hafi komið að miklu haldi.

Þá deildi hv. þm. Siglf. af miklu kappi á innflutning iðnaðarvara. Hann gekk svo langt, — því að hann er nú ekkert að skafa utan af því, þegar í það fer, — að hann sagði, að það hefði orðið því nær alger stöðvun í íslenzkum iðnaði, — ég skrifaði þetta orðrétt eftir hv. þm., — og þetta hefði orðið fyrir það, að hellt hefði verið hér inn iðnaðarvörum. En hann var ekki fyrr búinn að sleppa orðinu um þetta, en hann fór að krefjast þess, að keyptar væru inn iðnaðarvörur í stórum stíl til þess að geta haldið uppi viðskiptum við Austur-Evrópu, og deildi hér lengi og með sterkustu orðum tungunnar á hæstv. viðskmrh. fyrir það, að hann skyldi ekki hafa látið flytja inn nógu mikið af iðnaðarvörum, til þess að hægt væri að selja frjálslega útflutningsvörur til þessara landa. Þannig var samræmið hjá þessum hv. þm.

Svo að lokum skáldaði hv. þm. langan róman um stórfelldar vörubirgðir, sem ómögulegt væri að selja, en gallar á þessum róman voru tvenns konar. Annars vegar var það, að hann var ekki skemmtilegur hjá hv. þm., honum tókst ekki að gera hann skemmtilegan. Hinn gallinn var, að hann hefur ekkert gildi í þessum umræðum, af því að hann styðst ekki við veruleika. Sannleikurinn er sá, að það mun takast að selja allar útflutningsvörur Íslendinga, hversu langa rómana sem hv. þm. Siglf. skáldar um það, að vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar komist þar allt í hnút.

Hv. þm. sagði að lokum, að það hlyti að skapast algert kreppuástand, nema breytt væri um stefnu, og stefnt hafi verið að kreppu með alls konar samdrætti. Þetta er allt út í bláinn hjá hv. þm. Allir möguleikar hafa verið notaðir út í yztu æsar til þess að láta hjól atvinnuveganna snúast sem hraðast og svo verður gert áfram.