27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

1. mál, fjárlög 1953

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Fjárlagafrv. fyrir árið 1953, sem nú er hér til 2. umr., var útbýtt á Alþ. þann 2. okt. s.l. og var vísað til fjvn. þann 9. s.m. Lagði ríkisstj. höfuðáherzlu á, að eftirfarandi atriða yrði gætt undir meðferð málsins í nefndinni: Að fjárlagaafgreiðslunni yrði lokið sem fyrst og eigi síða,r en fyrir miðjan desember. Að fjárlögum yrði skilað með hagstæðum greiðslujöfnuði. Að tekjuáætlun yrði ekki hækkuð frá því, sem hún er á frv., nema öruggt mætti telja, að hún brygðist ekki. Að gera ekki ráð fyrir neinum nýjum tekjustofnum. Að þeir tekjustofnar, sem á frv. eru, héldust óbreyttir, enda yrði þá að afla tekna á annan hátt, ef eitthvað af þeim skyldi verða afnumið í þinginu.

Meiri hl. n. hafði fullan skilning á þeirri nauðsyn, sem lá á bak við þessar óskir hæstv. ríkisstj., og hagaði því störfum í n. eftir því. Var aldrei neinn ágreiningur um það í n., að afgreiða bæri fjárlögin svo fljótt sem verða mætti og eigi síðar en ósk var borin fram um, og hafa allir nm. stuðlað að því, að svo mætti verða, og engan tíma eða fyrirhöfn sparað, til þess að því takmarki yrði náð. Hvenær sem n. hefur verið kölluð til starfa, hvort heldur um hefur verið að ræða helga daga eða rúmhelga, að degi til eða að kvöldlagi, hefur aldrei verið nein fyrirstaða á því að gegna slíku kalli, enda hefði ekki verið unnt að ljúka starfinu, svo sem gert hefur verið, ef slíkur samstarfsvilji hefði ekki verið fyrir hendi. Ber mér sem formanni n. að þakka meðnm. mínum þá miklu vinnu, sem þeir hafa jafnan lagt á sig við nefndarstörfin, oft fyrir utan allan venjulegan vinnutíma, og fyrir þann samstarfsvilja, sem þeir hafa sýnt við afgreiðslu frv. til þessarar umr. á grundvelli þeirrar stefnu, sem mörkuð var í upphafi og hér hefur verið lýst.

Það var heldur enginn ágreiningur í n. um það, að afgr. bæri fjárlögin með hagstæðum greiðslujöfnuði. Þjóðin mun ekki og á ekki að sætta sig við það, að vikið yrði frá þeirri stefnu að afgr. greiðsluhallalaus fjárlög og safnað þannig skuldum, sem kæmu fram sem aukin byrði á skattþegnana á komandi árum. Það getur að vísu alltaf komið fyrir, að ríkissjóður líkt og aðrir aðilar verði að taka lán til lengri eða skemmri tíma, ef koma á fram ákveðnum verkefnum eða ef óviðráðanleg atvík koma fyrir, sem úr þarf að bæta. En beinlínis að gera ráð fyrir því við afgreiðslu fjárl., að lán þurfi eða verði að taka til þess að mæta fyrirsjáanlegum, venjulegum greiðslum, er engan veginn verjandi. Hitt hefur verið deilt um í n. og verður jafnan deilt um, á hvern hátt þessu marki verður bezt náð, hvort því skuli náð með hækkaðri tekjuáætlun, sem vafasamt er að rétt reyndist, eða með hækkandi álögum, sem vitað er að þjóðin er andvig, eða með niðurskurði á útgjöldum ríkissjóðs, sem allir krefjast, en enginn vill þó að bitni á sér, heldur á einhverjum öðrum þegnum þjóðfélagsins.

Eins og ég gat um í upphafi, hefur komið fram um það ósk frá hæstv. ríkisstj., að tekjuáætlun yrði ekki hækkuð svo, að sýnilegt yrði, að hún reyndist röng við óbreyttar aðstæður. Í tillögum sínum um hækkun tekjuliðanna, er ég mun ræða nokkuð síðar, fylgir meiri hl. n. þessari stefnu. Till. þær, sem fram komu í n. frá 1. minni hl. n., hv. 5. landsk., Ásmundi Sigurðssyni, um hækkun á tekjuáætluninni, voru hins vegar svo fjarstæðukenndar, að ógerlegt var að ljá þeim lið. Sýndi hann með þeim fullt ábyrgðarleysi í sambandi við afgreiðslu fjárlagafrv. Meiri hl. vildi að sjálfsögðu ekki taka þátt í slíku ábyrgðarleysi. Samfara þessu bar svo 1. minni hl. fram till. til hækkunar á útgjöldum, sem skipti milljónum og jafnvel tugum milljóna. Hann bar einnig fram till. um að fella niður framlög í sambandi við utanríkisþjónustuna, einkum í sambandi við allt það, sem snertir samvinnu við hinar vestrænu þjóðir og öryggisráðstafanir gegn ofbeldi að austan, rétt eins og hér væri fulltrúi erlends herveldis, er reka skyldi miskunnarlaust erindi þess á Alþ., en ekki fulltrúi austfirzkra, friðelskandi bænda, sem ekkert illt verk vilja vinna þjóð sinni, en hafa af einhverjum ástæðum glapizt á því að senda hann á þing.

Það þarf ekki að leita lengi í ræðum og ritum, utan þings og innan, um skatta- og tollamál þjóðarinnar til þess að sannfærast um það, að nú er nóg að gert í álögum á þjóðina og tími kominn til þess að snúa við. Menn krefjast þess, að söluskatturinn sé afnuminn, að tollar séu lækkaðir, að bátagjaldeyrisfríðindin séu þurrkuð út og tekjuskattur og útsvör séu færð í miklu mildara form. En samtímis þessu er af sömu ástæðum krafizt meiri og meiri afskipta ríkisvaldsins og bæjaryfirvaldanna af svo að segja öllum málum þjóðfélagsins. Þær kröfur verða æ háværari, að opinberum aðilum beri beinlínis skylda til að sjá öllum þegnum landsins fyrir hærri tekjum, en þekktar eru almennt meðal flestra annarra þjóða og það án þess að þegnarnir þurfi að hafa af því nokkrar áhyggjur eða bera saman nokkurn hluta af þeirri áhættu, sem því er samfara, að gerðar séu slíkar tilraunir. Og Alþ. sjálft á ekki lítinn þátt í því, að svona er komið málum. Þegar atvinnuhættirnir breyttust hér á landi í byrjun aldarinnar og farið var að hverfa frá smárekstri í stórrekstur á ýmsum sviðum, þegar útgerðinni var breytt í stórútgerð frá árabátaútgerð, heimilisiðnaði breytt í verksmiðjuiðnað, verzlunin færð í innlendar hendur og vélamáttur kom í staðinn fyrir handaflið, var af vinstri flokkum þjóðarinnar hafinn sívaxandi áróður utan þings og innan gegn öllum þeim einstaklingum, sem brutu hér ísinn og bættu kjör þjóðarinnar með því að taka upp nýjar aðferðir í atvinnurekstri. Ef framfarirnar gáfu arð eða aðeins von um arð til þeirra, sem öllu vildu fórna, til þess að árangurinn yrði sem beztur, þá var séð ofsjónum yfir því og þess krafizt, að ríkissjóður, sveitarsjóðir og fólkið fengi æ stærri hluta af arðinum. Löggjafinn beinlínis beitti sér fyrir þessari sókn á hendur þeim, sem höfðu forustu um framkvæmdir allar, sumpart með því að lögbjóða skattakerfi, þar sem engri vörn varð við komið, oft og einatt með beinni eignartöku, sem var í engu samræmi við möguleika manna að mæta, sumpart með lögvernd á aðferðum til þess að heimta kröfur af atvinnurekendum, sem ekki var hægt að uppfylla, og sumpart með því að gefa ríkissjóði einkarétt á atvinnugreinum, er taldar voru líklegar til þess að gefa arð, og sumpart með því að veita önnur og meiri fríðindi til sveitarfélaga og ríkisfyrirtækja, ef þau stofnuðu til atvinnurekstrar, en til einstaklinganna.

Er atvinnutæki þau, sem flutt voru til landsins að tilhlutun ríkisstj. að lokinni síðustu styrjöld, voru tekin í notkun, kom strax í ljós, að þau gáfu fyrst í stað meiri arð, en hin gömlu, sem fyrir voru. Þá þegar var hafin sókn um að skipta stærri hluta af þeim arði til annarra, en þeirra, sem þurftu að tryggja reksturinn til hagsbóta fyrir þjóðina í framtíðinni. Hér var gengið svo langt, að aðeins þar, sem afkoman var bezt, var hægt að mæta kröfunum um stundarsakir, en eldri atvinnutæki varð að selja úr landi eða stöðva rekstur þeirra, þar sem þau voru ekki samkeppnisfær, þótt hins vegar gætu þau gefið jafngóðar atvinnutekjur og ýmislegt annað, sem starfað var að í landinu. Nú er svo komið, að hin nýju atvinnutæki búa ekki heldur við örugg rekstrarskilyrði og leita því í hópum til ríkisins um fjárhagslega aðstoð í stórum stíl. Fleiri og fleiri sveitarfélög krefjast þess að fá atvinnutæki, sem ríkissjóður kostar að mestu eða öllu leyti og stendur auk þess í ábyrgð fyrir rekstrarhalla á, á sama tíma sem stofnað er til verkfalla til þess að knýja fram launakjör, sem atvinnufyrirtækin geta ekki greitt og viðurkennt er að þau geta ekki greitt.

Beinlínis vegna þessarar þróunar í atvinnu málum þjóðarinnar draga fleiri og fleiri einstaklingar þjóðarinnar sig út úr áhættuatvinnurekstri og ýta undir það að koma atvinnufyrirtækjum á ríkissjóðinn, ef mögulegt er. Er bersýnilegt, að við erum hér að stefna að beinum ríkisrekstri allra áhættufyrirtækja í landinu. Má fara nærri um það, hvort það kemur til með að létta skattabyrðina á þegnunum. Alþingi hefur aldrei þótt rétt að láta ganga hlutlausa dóma um þessi deilumál milli manna á sama hátt og um aðrar deilur. En þegar svo er komið, að ríkissjóður er orðinn einn um það að reka atvinnutækin, kann svo að fara, að vinnuþiggjandinn verði ekki spurður um kjör sín. A.m.k. hefur það jafnan reynzt svo, þar sem ríkisrekstrarfyrirkomulag hefur verið tekið upp að fullu, og er það illa farið, ef slíkt ætti eftir að koma fyrir þessa þjóð.

Það er síður en svo, að það séu einu kröfurnar, sem gerðar eru til ríkissjóðsins, að hann láti í té atvinnutæki öðrum að kostnaðarlausu og taki á sig áhættuna af rekstrinum, heldur hrannast upp í fjvn. kröfur í alls konar myndum. Það er eins og þjóðin hafi ekki lengur í sér kjark eða manndóm til þess að byrja á nokkru verki, nema fyrst að hafa tryggt sér bein framlög frá ríkissjóði eða aðstoð ríkisins í einhverri mynd, og gildir þetta jafnt um heildir sem um einstaklinga. Það er rétt eins og þjóðin líti á ríkisfé sem eitthvað, sem henni sé alveg óviðkomandi, og skilji ekki, að ríkiseign er hluti af þeirra eignum og tekjum og ríkissjóður á þess einan kost að sækja tekjur sínar til fólksins sjálfs í einhverri mynd. Það virðist vera öllum þorra manna sem lokuð bók, að allar kröfur til útgjalda úr ríkissjóði, sem ekki gefa honum aftur beinan arð, eru kröfur um hluta af eignum og tekjum hvers einstaklings, einnig þeirra, sem kröfuna gera á ríkissjóðinn. Og það er eins og menn hafi ekki hinn minnsta skilning á því, að með hverri slíkri nýrri kröfu, ef mætt er, eru þeir að leggja nýja byrði á aðra menn, oft og tíðum menn, er ekki hafa jafnbreitt bak til þess að bera hana og þeir sjálfir.

Það er löngu vitað, að mörg af þeim embættum, sem sett hafa verið á stofn á síðustu áratugum, hafa verið lögtekin vegna mannanna, sem í þau hafa farið, en ekki vegna aðkallandi þarfa fyrir þjóðina. Þar með er ekki sagt, að þau hafi ekki komið að einhverjum notum eða að verk þeirra manna, sem þar starfa, verði ekki einhvern tíma að einhverju gagni fyrir þessa þjóð. Það er líka vitað, hversu fast menn sækja það að komast á 18. gr. fjárlaganna að loknum störfum, og það oft þótt fullir starfskraftar séu fyrir hendi, og ekki aðeins að fá þar hin lögboðnu laun, heldur ávallt einhverja viðbót og helzt af öllu full laun. Og það er líka vitað, hversu menn sækja eftir að fá ýmsar aukagreiðslur fyrir lítil störf og blygðast sín ekkert fyrir, þótt vinnan sé í engu hlutfalli við gjaldið. Allt þetta og margt fleira þessu skylt veldur því, að rekstrargjöld fjárlaganna nálgast nú að verða 400 millj. kr. Allt þetta og margt annað því skylt veldur því, að hugsandi menn líta svo á, að hér elgi að brjóta blað í sögu þjóðarinnar, nú sé nógu langt gengið og nú verði að taka upp aðra þjóðhollari fjármálastefnu og atvinnumálastefnu í landinu, þar sem meiri ábyrgð sé látin hvíla á hverjum einstaklingi, meiri kröfur gerðar til annarra, en til ríkissjóðs, meiri manndómur sýndur í sambandi við aðsteðjandi vandamál á hverjum tíma.

Það er að sjálfsögðu skylt og rétt, að ríkissjóður styrki á margvíslegan hátt það, sem einstaklingum er ofvaxið og vitað er að gagn er að fyrir þjóðarheildina. En hitt ber að forðast, að veikja með styrktarstarfsemi ábyrgð og framtak einstaklinganna með því að mæta kröfum, sem beinlínis eru gerðar í hagsmunaskyni fyrir einstaka aðila.

Þær brtt., sem meiri hluti n. ber fram við þessa umr., marka ekki nema að mjög litlu leyti þá stefnu, sem ég hér hef lýst að verður að taka upp, enda mundu fjárlagatill. einar saman, þótt samþykktar væru, fá þar litlu um þokað, þar sem langmestur hluti útgjaldanna er lögboðinn, og þarf því mjög viðtæka breytingu á margvíslegum l., til þess að unnt væri að koma við nokkrum verulegum sparnaði í ríkisrekstrinum, og þá fyrst og fremst að minnka afskipti ríkisins af öllum þeim málum, sem óeðlilegt er að ríkið hafi afskipti af og reynslan hefur sýnt að einstaklingar geta gert miklu betur. Nefndin hefur hins vegar lagt í það mikla vinnu að kynna sér þetta ástand og bent á í ýtarlegu nál., hversu nauðsynlegt það sé, að komið verði betri skipun á þessi mál öll. Nefndinni er vel ljóst, að hér er ekki um að ræða neitt, er núverandi ríkisstj. hefur skapað. Hér er um að ræða þróun málanna um margra ára skeið fyrir óholl og óþjóðleg áhrif frá sjálfu Alþ. Það verður engan veginn létt verk að taka hér upp nýja siði, þar sem svo margir menn munu vilja standa vörð um fengin réttindi og fengið fé. En líf og framtíð þessarar þjóðar liggur við, að ekki sé gengið lengra á þessari braut en gert hefur verið og snúið verði við aftur til sama lands, áður en verra hlýzt af.

Mér er vel ljóst, að það kapphlaup, sem átt hefur sér stað í dýrtíðarmálunum í meira en áratug, með þeim árangri, að gjaldmiðillinn er sí og æ rýrður, á sinn mikla þátt í því ástandi, sem hér hefur skapazt í þessum málum. En þeim fjölgar nú óðum, sem viðurkenna þörfina fyrir samkomulag um að stöðva þann „hrunadans“, áður en komið er í algert óefni, þótt enn séu þeir allt of margir, sem hag hafa af því, að þetta haldist allt óbreytt áfram. Og í því liggur aðalmeinið, að ekki hafa verið gerðar þær ráðstafanir, að fólkið sjálft hefði jafnmikinn hag af því, að dýrtíðin minnkaði, eins og það hefur af því að hún aukist, eins og jafnan verður meðan full dýrtíðaruppbót fylgir hækkandi verðlagi.

Nefndin gerir ekki heldur neinar till. í sambandi við dýrtíðarmálin, en á það skal bent, að aldrei hefur verið brýnni nauðsyn, en nú, að tekin sé upp full samvinna við allar stéttir til lausnar þessu vandamáli, sem aldrei verður leyst nema með fullu samkomulagi eða sterkara valdboði en þjóð, sem byggir á fullu lýðræði, getur beitt.

Skal ég þá gera nokkra grein fyrir störfum n. og þeim brtt., sem meiri hlutinn ber fram á sérstöku þskj. Ég get að verulegu leyti stytt mjög mál mitt með því að vísa til nál. á þskj. 283, þar sem ýtarleg grein er gerð fyrir þessum málum.

Samkvæmt fjárlagafrv. eru heildartekjur ríkissjóðs áætlaðar fyrir árið 1953 tæplega 388 millj. kr. Í lok síðasta mánaðar voru ríkistekjurnar orðnar 316 millj., en það eru 2 millj. kr. lægri tekjur, en á sama tíma í fyrra. Í októbermánuði einum urðu tekjurnar 44 millj. kr. Með því að síðustu mánuðir ársins gefa að jafnaði mestar tekjur, má ætla, að heildartekjurnar verði ekki undir 411 millj. á þessu ári, en það er um 35 millj. kr. meira, en áætlað var á fjárlögum yfirstandandi árs. Ef gert yrði ráð fyrir því, að tekjurnar yrðu eitthvað svipaðar á næsta ári, ætti að mega hækka tekjuáætlunina um 23 millj. kr., en hér kemur fleira til greina.

Í fyrsta lagi eru engar tryggingar fyrir því, að tekjustofnarnir bregðist ekki, en auk þess er vissa fyrir því, að gjöldin fara jafnan fram úr áætlun, hvernig sem á er haldið, og verður því að ætla eitthvað fyrir því fram yfir það, sem gert er á 19. gr.

Meiri hluta n. þykir því rétt að leggja til, að tekjur verði hækkaðar um 10 millj. frá því, sem er á frv., og þeirri hækkun verði skipt sem hér segir:

10. liður 2. gr., aukatekjur ríkissjóðs, hækki um 200 þús. kr.

— 11. liður 2. gr., stimpilgjöld, hækki um 800 þús.

— 17. liður 2. gr., söluskattur, hækki um 6 millj.

— Tekjur af tóbakseinkasölunni samkv. 3. gr. hækki um 2 millj. Óvissar tekjur samkvæmt 5. gr. hækki um 1 millj. kr.

Aftur á móti er lagt til, að 14. liður 2. gr., erfðafjárskatturinn, falli niður. Þessum tekjum var ráðstafað með sérstökum l. á síðasta þingi og verður því ekki ráðstafað nú með fjárlagaákvæði. Verður því heildarhækkunin á tekjubálkinum 9.7 millj. kr., ef till. þessar verða allar samþykktar.

Hvað viðvíkur þeim ríkisstofnunum öðrum, sem færðar eru á 3. gr., læt ég nægja að vísa til þess, sem gerð er grein fyrir í nál., en vil aðeins bæta við, að þess er fastlega vænzt, að gerð verði gangskör að því að fá bætt úr því, sem talið er að aflaga fari í rekstri stofnananna.

7. brtt. meiri hl. n. á þskj. 282, til hækkunar vegna fiskimálaráðunautsstarfsins í London, stafar af því, að ráðunauturinn hefur áður verið kostaður af Félagi íslenzkra botnvörpuskipaeigenda, en nú þykir ekki ástæða til þess, að sá aðili beri þann kostnað, og ekki heldur talið heppilegt að leggja það starf niður nú, þar sem stjórnin þarf hvað helzt að halda á slíkum manni í sambandi við þá dellu, sem stendur um landhelgismál vor í Bretlandi.

Eins og kunnugt er, hefur verið sett á stofn sendiráð í Þýzkalandi, en aðalræðismannsskrifstofan felld niður. 8. brtt. meiri hl. er vegna þessarar breytingar, sem þannig hefur verið gerð á utanríkisþjónustu landsins. Má skoða þetta meira sem leiðréttingu, enda fylgja því engin útgjöld.

Með 9. brtt., sem gerð er við 11. gr., er ætlazt til þess, að tekjur og gjöld verksmiðjueftirlitsins standist á. Að öðru leyti vísast til þess, sem um þetta er sagt í nál.

10. og 11. brtt. eru aðeins tilfærslur, sem engin áhrif hafa á niðurstöðu fjárlaganna.

12. brtt. er 500 þús. kr. hækkun til læknisbústaða,sjúkraskýla og sjúkrahúsbygginga,annarra en ríkisspítala og fjórðungssjúkrahúsa. Þótt n. vilji ekki taka upp þá nýbreytni að skipta þessu fé, eins og skýrt er tekið fram í nál., vil ég ekki láta hjá líða að taka hér fram, að til þess er ætlazt, að ráðuneytið eða heilbrigðisstjórnin sinni, eftir því sem hún telur eðlilegt og mögulegt, þeim erindum, sem borizt hafa n. í sambandi við framlag til sjúkrahúss Hafnarfjarðar og sjúkrahúsbyggingarinnar á Blönduósi, þegar fé það er greitt, sem hér um ræðir. Þá þykir mér rétt að láta það koma hér fram, vegna þess að um það er ekki getið í nál., að n. er ekki samþykk því, að daggjöld ríkisspítalanna verði hækkuð frá því, sem gert er ráð fyrir í frv.

Eins og þskj. 282 ber með sér, er 13. brtt. í 185 liðum. Það hefur jafnan verið um það deilt, hvort rétt væri að skipta vegafé á þennan hátt, sem lagt er til í till., eða hvort ætti að leggja það á vald ráðherra og vegamálastjórnarinnar, á hvern hátt fénu yrði varið. Það hefur þó jafnan orðið niðurstaðan, að þessi háttur hefur verið hafður á. Með þeirri þróun, sem orðið hefur í atvinnu- og viðskiptalífi þjóðarinnar, væri það beinlínis rothögg á hinar dreifðu byggðir, ef ekki fengjust árlega allverulegar upphæðir til þess að gera vegi þar á milli staða og héraða færa, a.m.k. þeim farartækjum, sem mest eru nú notuð í sveitunum, auk þess sem það er lífsskilyrði fyrir íbúana þar, að koma megi þar á milli almennustu jarðræktarvélum. Og sé þetta viðurkennt, þá ber jafnframt að viðurkenna, að engin sveit getur beðið eftir því, að önnur sé að fullu veguð, meðan hin fengi ekki neitt. En við þetta fellur þá alveg brott sú staðhæfing, að rétt sé að ljúka samfelldum vegaköflum á stórum svæðum, en láta annað bíða þar til síðar. Ég held, að það yrði ekkert eins áhrifamikið til þess að flytja fólkið samstundis burt úr fámenninu, þar sem það berst hinni góðu baráttu við erfið kjör í von um betri tíma, sem ekki væru allt of langt undan, elns og það að fresta vegaumbótunum. Væri hins vegar hugsað að skipta þessum framkvæmdum nokkurn veginn á sama hátt og hér er gert, þá er engum betur trúandi til þess, en fulltrúum fólksins í sveitunum, enda hef ég það fyrir satt, að þegar sýnilegt er, að vinna þarf meira í einum stað, en öðrum í héraði, hafa engir erfiðleikar orðið á því að fá fé flutt milli staða innan héraða frá ári til árs. Við þetta bætist svo, að viðhald verður að framkvæma í öllum sýslum landsins á vegum þeim, sem fyrir eru, og fer þá oftast saman vegagerð og vegaviðhald. Vegna þeirrar þarfar, er ég hér hef lýst, leggur meiri hluti n. til, að framlag til nýrra vega verði hækkað eins og till. segir til um. Því er ekki að leyna, að þessi upphæð þyrfti að vera allmiklu hærri, en það er svo um allar till. til verklegra framkvæmda. En þar eins og annars staðar verður að taka tillit til fjárhagsafkomu ríkissjóðs.

Um 14. brtt. er nægilegt að vísa til þess, sem um hana er sagt í nál. Aðeins skal því bætt við, að búizt er við, að viðhald veganna fari allmikið fram úr þessari upphæð á yfirstandandi ári. Ég vil hins vegar ítreka það, að þess er vænzt, að vegamálastjórnin geri allt, sem unnt er, til þess að taka hér upp nýbreytni í vegaviðhaldi, sem hvort tveggja í senn skapaði betri endingu vega og gerði ríkissjóði það ódýrara, er til lengdar léti.

Um 15. brtt. má segja það sama og um framlag til veganna, að þörfin fyrir nýjar brýr er svo aðkallandi, að raunverulega hefði þurft hér miklu meira fé, en gerð er till. um, til þess aðeins að bæta úr brýnustu þörf. Vil ég í því sambandi minnast á, að brúin yfir Hörgá í Eyjafirði er nú ekki talin vera fær orðin bifreiðum, nema eiga á hættu, að af hljótist slys. Er gert ráð fyrir, að endurnýjun hennar kosti um 800 þús. kr. N. sá sér ekki fært að taka upp fjárframlag til hennar, en væntir þess, að á næsta ári verði hún byggð af fé úr brúasjóði, og hefur það verið rætt við vegamálastjóra. Þá skal einnig bent á, að framlag það, sem lagt er til, er engan veginn nægilegt til byggingar þeirra brúa, sem taldar eru upp í till., en sumpart er þess vænzt, að fé komi úr héraði, og sumpart, að samkomulag náist um það, að nota megi það fé, sem geymt er, til þess að ljúka öðrum, enda liði sú brú, sem féð er lánað frá, á engan hátt við það síðar meir.

16. brtt. er gerð vegna þess, að fallið hefur niður af frv. framlag, sem staðið hefur um langan tíma á fjárlögunum, en verkinu er ekki lokið, og þykir rétt, að framlagið sé tekið upp í frv. á ný.

Um 17. brtt. má segja það sama og um framlag til vega og brúa, að of litlu fé er varið til þessara framkvæmda, ef bæta ætti úr aðkallandi þörf, og vísast til þess, sem um þetta er sagt í nál. Vegna þess að það kann að þykja einkennilegt, að meiri hluti n. leggur til, að greitt sé jafnhátt framlag til sumra þeirra hafna, sem mikið eiga ógreitt frá ríkissjóði af mótframlagi, og til hinna, sem miklu minna eiga ógreitt af framlagi, og það jafnvel þótt báðar hafnirnar ætli sér að vinna fyrir jafnmikið fé á næsta ári í nýjum framkvæmdum, vildi ég mega segja þetta: Ef farið væri eftir þeirri reglu að greiða upp árlega öll ógreidd framlög ríkissjóðs til hafnarmálanna, mundi framlagið gera litið betur, en endast til þess og aðrar hafnir fengju þá ekkert framlag. Slíkt mundi skapa þeim fjársterkustu þá aðstöðu að hirða ár eftir ár allt framlagið. Skerðing sú, sem gerð er hér á, er beinlínis til þess að fyrirbyggja, að einstakar hafnir geti á þennan hátt hrifsað til sín allt framlagið árlega. Að öðru leyti þykir ekki ástæða til að skýra frekar þá skiptingu, sem gerð hefur verið. Flestum þm. var hún kunn, áður en endanlega var gengið frá till.

18. brtt. er um að taka upp framlag til tveggja ferjuhafna, Hornafjarðar og Brjánslækjar, en feila niður framlag til Árngerðareyrar, þar sem upplýst er, að þar er um viðhald að ræða og á því að greiðast af viðhaldsfé vega eftir eðli málsins og með tilvísun til ákvæðis vegalaganna, en þar er beinlínis sagt, að byggja skuli ferjuhafnir fyrir bilferjur og greiðist kostnaður af vegafé og einnig kostnaður við ferjurnar sjálfar. Þegar fé var veitt á sínum tíma til ferjuhafnar á Arngerðareyri, var það gert vegna þess, að þar endaði bilvegurinn yfir Þorskafjarðarheiði. Var þá hugsað að halda bílasambandinu áfram við Ísafjörð með bát eða ferju á milli þessara staða. Vegurinn er síðar framlengdur út með Djúpinu að vestanverðu, og ár eru þar brúaðar til þess beinlínis að tengja vegakerfið við vestursýsluna. Er það ekki í anda vegalaganna að byggja ferjubryggju við hvern vegarenda, eftir því sem vegurinn teygist áfram. En einmitt vegna þess, að enn og ávallt er þörf fyrir ferjubryggju á Arngerðareyri, svo að bifreiðarstjórar eigi þess jafnan kost að þurfa ekki að aka allan veginn með Djúpi til þess að komast í samband við vegakerfi landsins, er alveg sjálfsagt, að þessari ferjuhöfn sé haldið við af vegafé, eftir því sem nauðsyn er á hverjum tíma. Hins vegar getur meiri hluti n. ekki fallizt á, að aðrar hafnir, sem farið er fram á að veita fé til sem ferjuhafna, eigi á því rétt. Að veita fé til þeirra hafna eins og annarra hafna, sem taldar eru undir lendingarbótaflokki, er allt annað atriði, og er sjálfsagt, að það sé gert á sama hátt og til annarra sams konar hafna.

Ferjuhöfn á Brjánslæk lýtur hér sömu reglum og Arngerðareyri. Hún er tengiliður ferju eða báts, sem hefur beinar ferðir milli Brjánslækjar og Stykkishólms, og slíkum ferðum verður haldið áfram alveg eins þótt vegur verði lagður inn fyrir allan Breiðafjörð. Hitt væri fásinna, að ætla sér að koma upp ferjuhöfnum á kostnað ríkissjóðs við alla viðkomustaði flóabáta á Breiðafirði, en að því er stefnt, að slíkar kröfur komi fram, ef viðurkennt er nú, að ferjuhafnir skuli almennt koma þar upp, sem flóabátar hafa viðkomu og vegur liggur að. Eru engin takmörk fyrir því, hvar slíkar kröfur mundu enda. Hornafjörður hefur hér alveg sérstöðu. Þar er engin leið í allri framtið að koma farartækjum á milli tveggja vega nema með ferju, og verður ekki deilt um það atriði. Ég tel einnig, að leiðin milli Rafnseyrar og Bíldudals verði að takast upp bráðlega sem ferjuleið og ferjuhöfn að byggjast á Rafnseyri ásamt ferju yfir Arnarfjörð. Bæði er það, að enginn vegur mun um langan aldur tengja saman þessa tvo staði, auk þess sem enginn mundi fara leiðina á bifreið, ef hann ætti þess kost að komast á ferju, sem hlýtur að verða eini tengiliður bifreiðanna milli Vestur-Barðastrandarsýslu og Vestur-Ísafjarðarsýslu. — Mér þótti rétt að láta þetta koma hér skýrt fram vegna þess ágreinings, sem orðið hefur í n. um þessi atriði.

Í sambandi við till. nr. 15 og 17 skal ég geta þess, að nokkrar prentvillur hafa slæðzt þar inn. Hafa sumar þeirra verið leiðréttar á öðru þskj., en aðrar munu verða leiðréttar síðar, og hefur þetta engin áhrif á niðurstöðutölu frv.

19. brtt. er aðeins leiðrétting á fyrirsögn.

20. brtt. er nokkur hækkun til áhaldakaupa og tilrauna vegna garðyrkjuskólans á Reykjum. Eru öll líkindi til þess, að skapa megi í framtíðinni verulegan útflutning ávaxta, sem framleiddir eru hér við jarðhita, og er fjárveitingin tekin upp í því skyni að hjálpa til, að svo megi verða.

Um brtt. 21–24 vísast til þess, sem gert er grein fyrir í nál.

Um brtt. 25–27 skal tekið fram, að n. leit svo á, að meðan þeirri reglu er fylgt að styrkja sérstaklega einstaka menn til listanáms, þá sé ógerlegt að neita öðrum um sömu aðstoð, ef þeir einnig dveljast erlendis við sams konar nám. N. vill á engan hátt gerast dómari um það, hver hæfastur er fyrir styrk vegna listgáfu, og hefur því þótt rétt að leggja til, að allir þeir aðilar fengju styrk, sem upp eru teknir í till.

Um 28. brtt. skal þetta tekið fram: Á frv. er upphæð til þess að halda alls konar mót á Íslandi. Þykir þetta nauðsynleg landkynning og nauðsynlegt til þess að halda við menningartengslum við aðrar þjóðir. Raddir komu fram í n. um að fella öll slík framlög niður. Það fékk ekki nægilegan stuðning, og þó er það álit margra, að hér sé svo mikið að gert, að árangurinn sé orðinn vafasamur. En úr því að þessari stefnu er haldið, er sjálfsagt að gera hér engan mannamun. Kann þó að lokum að verða sótt svo á, að ekki sé lengur stætt á slíkri gestrisni.

Um brtt. 29–31 vísast til þess, sem er sagt í nefndaráliti.

Um brtt. 32 skal þetta tekið fram: N. leitaði álits Búnaðarfélagsins um nauðsyn á framlagi ti] landþurrkunar, þar sem vitað væri, að helmingur kostnaðar væri greiddur sem jarðræktarstyrkur og lán úr jarðræktarsjóði fengist að einhverju leyti til slíkra framkvæmda auk styrksins. Upplýsti Búnaðarfélagið, að landþurrkun sú, sem verið er að gera í Landeyjum, sé þannig, að hér sé um að ræða sameiginlegan skurð, sem að kostnaði til sé ofvaxið viðkomendum að greiða, þar sem þeir verða að gera á eftir aðra skurði í gegnum lönd sín til þurrkunar, og því sé mjög mælt með því, að fé sé veitt til þessa sérstaka verks. — Um landþurrkun á Stokkseyri og Eyrarbakka kvaðst félagið ekki geta sagt neitt. Er þess vænzt, að hæstv. landbrh. láti athuga þessi mál og gefa heildarskýrslu um það verk, sem ríkið hefur þegar kostað, og hve mikið talið er að eftir sé til þess að ljúka verkinu.

Um 33. brtt. skal tekið fram, að n. vildi með henni sýna viðurkenningu fyrir það mikla og óeigingjarna starf, sem einstaklingur hefur sýnt við að koma upp og starfrækja elliheimili á sinn kostnað.

Á þskj. 308 ber meiri hluti n. fram nokkrar brtt. Get ég að mestu vísað til þess, sem um þær er sagt í nál.

1. brtt. er til hækkunar á tekjum fyrir eftirlit með skipulagi bæja og sjávarþorpa. Er gert ráð fyrir, að tekjurnar verði nægilegar til þess að mæta kostnaði, og er upplýst, að svo hafi verið á s.l. ári.

Um till. nr. 2 er það að segja, að rétt þótti að hækka framlag til fjallvega um 150 þús. kr. Tengja þeir orðið víða saman byggðir að sumarlagi til mikilla samgöngubóta fyrir landið.

Í fjárlagafrv. hafði ekki verið tekið framlag til ræktunarvega, eins og venja hefur þó verið til um mörg ár. Þótti ekki rétt að láta þetta falla niður, og hefur verið tekin upp nokkru hærri upphæð, en síðasta ár, sbr. brtt. nr. 3.

Um brtt. nr. 4 skal tekið fram, að óhjákvæmilegt þótti að halda við róðrarmerkjum við Faxaflóa. Bátar víðs vegar að af landinu sækja þarna sjó á vetrum. Samkv. reglugerð er þeim ekki heimilt að leggja frá landi nema á tilskildum tíma og allir í sama mund. Þykir þetta bæði nauðsynlegt og hagkvæmt. Safnast þeir því allir við róðrarmerkin til þess að vera þar viðbúnir, þegar leyft er að leggja frá landi. Samkv. reglum, sem gilda um vitamálin, er ekki talið, að hægt sé að taka þetta af framlagi til vitamálanna, og er því þessi till. fram borin.

5. brtt. er leiðrétting við 4. lið 17. brtt. á þskj. 282, og er sú till. því hér með tekin aftur. Hefur þetta engin áhrif á niðurstöðurnar.

Um 6. brtt. skal þetta tekið fram: Hér er raunverulega ekki um annað að ræða en leiðréttingu. Í frv. hafði misritazt 100 þús. kr. fyrir 1 millj., en allt önnur og hærri upphæð tekin upp í samlagninguna. Við leiðréttinguna verður heildarupphæðin 40 þús. kr. lægri en skráð er í frv.

Upplýst er, að þær 250 þús. kr., sem eru á frv. fyrir tæknilega aðstoð við flugmálin, séu greiðsla í eitt skipti fyrir öll, og þótti rétt, að það kæmi fram á fjárlögunum, og er því 8. brtt. fram borin.

Um brtt. nr. 9–16 vísast til þess, sem sagt er í nál.

Um brtt. nr. 17 skal þetta tekið fram: Eins og alþjóð er kunnugt, hefur S. Í. B. S. komið upp vistheimili fyrir berklasjúklinga í Reykjalundi. Aðalbyggingin er um 1.000 m2 og 10 þús. m3. Er byggingin útbúin fyrir 55 vistmenn, auk þess sem heimilismenn allir hafa þar borðstofu, eldhús, dagstofu, setustofu og lækningastofur o.fl. Í þessari byggingu verður nú helmingur starfsmanna að hafa vinnustofur, sem annars gætu verið fyrir vistmenn og eru til þess gerðar. Er það beinlínis vegna þess, að enn hefur ekki verið hægt að koma upp vinnuskálum. Auk þess hefur verið komið upp 10 sérstökum húsum fyrir 40 vistmenn og 5 húsum fyrir starfsfólk. Allur kostnaður við þessar byggingar hefur þegar orðið um 10 millj. kr., og hefur ríkissjóður lagt fram 2 millj., en samkv. lögum um sjúkrahús hefði hlutur ríkisins átt að vera helmingi hærri. Verið er nú að koma upp vinnuskálum, sem eru 567 m2, og er ætlunin að koma upp 4 slíkum skálum. Er þetta mjög aðkallandi í sambandi við rekstur, vinnuskilyrði og aðbúnað allan. En til þess þarf mikið fé. Ég þarf ekki að ræða hér mikið um þau mannúðarstörf, sem unnin eru af þessum félagsskap, eða þann þátt, sem hann hefur átt í því að útrýma berklunum á Íslandi, svo að við erum nú komnir í tölu þeirra, sem lægsta hafa dánartölu berklasjúklinga. Það er alþjóð svo kunnugt. Hitt vildi ég fara hér um nokkrum orðum í sambandi við þessa till., að reksturinn á þessari stofnun er svo einstæður, að vel mætti hann verða tekinn sem fyrirmynd fyrir rekstur ríkisins. Menn hafa almennt litið svo á, að það fé, sem ríkissjóður leggur af mörkum til stofnunarinnar, samfara því fé, sem fæst inn til hennar fyrir happdrætti, merkjasölu eða á annan hátt, fari til þess að mæta rekstrarhalla í stofnuninni. Er ekki lengra síðan en rétt áðan, að merkur læknir ræddi við mig um þetta og vildi ekki trúa öðru, en að svo væri. En þetta er mesti misskilningur. Og það er beinlínis vegna þess, að þar er ekki um neinn rekstrarhalla að ræða og hefur aldrei verið. Það er ekki að furða, að menn láti segja sér þetta oftar, en einu sinni, svo ótrúlegt sem það virðist. Allt það fé, sem inn hefur komið á þann hátt, sem ég hef minnzt á hér áðan, hefur verið notað til að byggja upp þær byggingar, sem ég lýsti hér, og kostað hafa 10 millj. kr. Hver sá vistmaður, sem dvelur á Reykjalundi og getur látið í té 60 vinnustundir á mánuði, hefur með því greitt að fullu fyrir húsnæði, fæði, læknisaðstoð og aðhlynningu alla. Er þetta jafnt hvort sem um er að ræða karlmenn eða konur. Ef vinnustundin er metin að meðaltali á 12 kr., yrði daggjaldið 24 kr. á dag. Er þetta ekki nokkurt umhugsunarefni fyrir þá, sem stjórna öðrum heilsustofnunum í landinu og þurfa a.m.k. 100 kr. á dag fyrir vistmenn, til þess að reksturinn beri sig? Hver stund, sem vistmaður vinnur fram yfir, er honum greidd að fullu. Þegar farið er að hugsa ofan í kjölinn þetta fyrirkomulag, sem hér hefur verið byggt upp, verður ekki hjá því komizt að brjóta til mergjar þá spurningu, hvernig það megi vera, að sjúkir menn, sem aðeins eru færir að inna af hendi 60 stunda vinnu á mánuði, skuli með því geta tryggt sér vist á jafnframúrskarandi stað og Reykjalundur er, þar sem umgengni öll og aðbúnaður er betri, en allur almenningur í landinu á nokkurn kost á að geta veitt sér, en fullfrískir menn telja sig þurfa að leita til Alþ. um styrk og aðstoð til þess að geta dregið fram lífið. Ég mæli ekki þessi orð til þess að réttlæta tili. meiri hl. n. fyrir 50 þús. kr. hækkun á framlagi til bygginga á Reykjalundi. Þess gerist engin þörf. En ég mæli þau vegna þess, að ég teldi það hollt fyrir þá menn, sem standa í fremstu röð um að gera margar og miklar kröfur til ríkisins til þess að geta tryggt afkomu heilla stétta, sem heilar ganga til skógar, að kynna sér, á hvern hátt hinir sjúku menn hafa getað leyst sín vandamál, og reyna síðan að læra eitthvað af þeim. Eitt nýmæli, sem sambandið hefur tekið nú upp, er að innleiða skyldusparnað og fá vistmenn til þess að leggja til hliðar 20% af kaupi sínu og leyfa því að vera í rekstri stofnunarinnar, m.a. vegna rekstrarfjárskorts, sem þrengir mjög að þar eins og annars staðar. Hvað mikinn vanda mundi það ekki leysa í þjóðfélaginu nú, ef allir heilbrigðir menn vildu fylgja sama dæmi? Manni verður nærri því á að spyrja: Er þjóð vorri þörf á því eftir margra ára peningaflóð og velgengni á öllum sviðum að verða fyrir einhverjum þrengingum, heilsufarslega eða af einhverjum öðrum ástæðum, til þess að vitkast? Verður það eina úrræðið til þess að komast yfir þá erfiðleika, sem hinir heilbrigðu menn í þjóðfélaginu eru ávallt sjálfir að keppast við að framleiða og viðhalda?

18. brtt. á þessu þskj. er um það að feila niður úr frv. bætur til þeirra, sem fangelsaðir voru af erlendum aðilum í fyrri heimsstyrjöld. Meiri hl. n. vill ekki leggja til, að þessar greiðslur séu inntar af hendi. Hann telur þetta ríkissjóði óviðkomandi, enda hljóti það að hafa í för með sér, að ýmsar aðrar kröfur í sambandi við þessi mál fylgi á eftir, enda hafa þegar borizt til n. erindi um tvo menn til viðbótar, og víst er, að það eru ekki lokakröfurnar. Hafi Alþ. á þennan hátt eða einhvern annan viðurkennt skyldu sína um bætur fyrir fangelsun þessara manna, kemst það ekki hjá því að viðurkenna einnig skyldu sína um bætur fyrir meiðingar, morð og annað, sem framið hefur verið af sömu aðilum. Og sé skylda ríkissjóðs einhver í sambandi við þessi mál, þá er hún fyrst og fremst sú að aðstoða viðkomandi aðila til þess að sækja rétt sinn gegn þeim, sem hryðjuverkin unnu á sínum tíma. En það hefur Alþ. ekki viljað fallast á enn sem komið er.

Nauðsynlegt þótti að hækka framlag til vatnsveitna um 100 þús. kr. Liggja þegar fyrir svo margar beiðnir, að ógerlegt er talið að komast af með minni upphæð. Er 19. brtt. borin fram af þeim ástæðum.

Þá þykir óhjákvæmilegt að taka upp 50 þús. kr. til alþjóðabarnahjálparsjóðsins, og hefur n. fallizt á það.

Ég hef þá lýst hér nokkuð öllum þeim brtt., sem meiri hl. n. ber fram. Leggur hann til, að þær verði allar samþ. og aðrar fram komnar till. verði felldar. Verði fallizt á það, kemur frv. til að líta út eftir 2. umr. sem hér segir: Tekjur samkv. frv..387.984.750 -+- tekjuhækkun 9.700.000. Tekjur alls 397.634.750 kr. Gjöld samkv. frv. 351.955.159 kr. + gjaldahækkun 8.126.812 kr. Gjöld alls 360.081.971 kr. Og rekstrarhagnaður 37.602.779 krónur.

Sjóðsyfirlitið kæmi þá til þess að líta þannig út: Innborganir 402.644.750 kr., en útborganir 400.513.641 kr. Hagstæður greiðslujöfnuður yrði þá 2.131.109 kr.

Um allar brtt. hefur meiri hl. haft samráð sumpart við viðkomandi þm. og sumpart við hæstv. ríkisstj. Þó skal ég taka það fram, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki getað fallizt á brtt. nr. 19 á þskj. 308. Ég vil enn fremur taka fram, að nokkur erindi, sem n. hafa borizt, hafa ekki endanlega verið afgreidd, og þótti rétt að láta afgreiðslu þeirra bíða til 3. umr. Er þar með talin öll 20. gr. og 22. gr. fjárlaganna. En þetta hefur ekki áhrif á rekstrargjöldin á þessu stigi.

Vil ég svo leyfa mér að leggja til, að fjárlagafrv. verði vísað til 3. umr. að lokinni þessari umræðu.