27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

1. mál, fjárlög 1953

Frsm. 1. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Eftir ræðu hv. form. fjvn. og frsm. meiri hl. mun sennilega fáa þm. undra það, þó að ég hafi klofið n. og skili séráliti, því að þannig var sú lýsing, sem hann gaf á mínum starfsháttum í n. Eftir það kom allmikill reiðilestur um ástandið í þjóðfélaginu og kröfuhörku — mér skilst nú allrar þjóðarinnar — á hendur Alþ. Mætti nú ef til vill um það margt segja, en ég ætla að láta það bíða fyrst um sinn. En viðvíkjandi því, sem hann sagði sérstaklega um mína framkomu, að ég hefði komið fram í n. þannig, að það hefði litið út fyrir, að ég hefði frekar verið fulltrúi erlends herveldis, heldur en austfirzkra bænda, og enn fremur það, að ég hefði flutt þannig ábyrgðarlausar till. um hækkun á tekjuliðum og sömuleiðis hækkun á útgjaldaliðum, að slíkt taki engu tali, þá vildi ég segja það, að það gæti verið athugandi mál, hvort þarna hefur ekki sannazt á sjálfum form. fjvn. sá íslenzki málsháttur, að „sannleikanum verði hver sárreiðastur“. Það virðist nefnilega vera svo hér í Alþ., að meiri hl. hv. alþm. sé orðinn svo viðkvæmur, þegar minnzt er á viss mál, sem eru ein mestu vandamál þjóðfélagsins núna, og þar á meðal þau, sem um var að ræða þarna í þessu tilfelli, að þeir vilja ekki um þau ræða. Og ástæðan virðist frekast vera sú, að þeir séu farnir að finna, að þeir standi í þeim málum heldur höllum fæti. Annars ætla ég að koma frekar að þessu síðar.

Ég hef gert grein fyrir því í mínu nál., að ég hef klofið n. vegna þess, að ég sé ósammála stefnu frv., þeirri stefnu. í fjárhags- og atvinnumálum, sem sýnilega á að halda áfram samkv. þessum væntanlegu fjárlögum og er hin sama og áður hefur verið. En í sambandi við það vil ég þó aðeins víkja frekar að þeirri lýsingu form. fjvn., að allur þjóðarbúskapurinn virðist vera að lenda í vandræðum vegna kröfuhörku fjölda aðila í þjóðfélaginu, og benda á það, að þessi ályktun kemur ekki alveg heim við ályktun hæstv. fjmrh. við 1. umr. þessa fjárlfrv., þegar sú umr. fór fram í byrjun október. Annað aðalblað hæstv. ríkisstj., þ.e. blað hæstv. fjmrh., Tíminn, birti þá ræðu undir fyrirsögninni „Greiðsluhallalaus ríkisbúskapur án skattahækkana í 3 ár“. Þetta var nú býsna góð lýsing á þeirri viðreisnarstarfsemi, sem sífellt klingir við að hafi verið unnin af Alþ. og ríkisstj. þessi s.l. 3 ár eða raunar meira en 3 ár. Ég er hins vegar á því, að það sé síður en svo, að þarna sé rétt farið með, að hér hafi verið greiðsluhallalaus ríkisbúskapur án skattahækkana í 3 ár eða lengur, heldur vildi ég einmitt taka það fram, að ástæðan til þess, að ég klýf n., er fyrst og fremst sú, að ég tel, að sú stefna, sem stjórnað hefur verið eftir í fjárhags- og atvinnumálum, sé fjarri því að vera eins og hér er lýst. Þessi fullyrðing um það, að ríkisbúskapur án skattahækkana hafi átt sér stað hér í 3 ár, er byggð fyrst og fremst á því, að það er gerð tilraun til þess að taka tölur fjárlaganna út úr heildarafkomu þjóðarinnar einar út af fyrir sig, en ekki tekið tillit til þess, í hvers konar tengslum fjárlagaafgreiðslan er við atvinnulífið. Og ég vil leyfa mér að halda því fram, að það hafi einmitt gerzt á þessum tíma vissir þættir í afgreiðslu fjárlaga, sem hafi beinlínis hjálpað mjög til þess að gera atvinnulífinu erfiðara fyrir og geri jafnframt mikið til þess að gera erfiðari fjárlagaafgreiðsluna á næstu árum. Hvað segja tölurnar, sem liggja fyrir opinberar um það, að það hafi verið hér greiðsluhallalaus ríkisbúskapur í 3 ár? Í mínu nál. hef ég leyft mér að birta hér samanburð á nokkrum helztu tekjuliðum fjárlaganna árið 1950 og árið 1952. Og þessi samanburður lítur þannig út, að tekju- og eignarskatturinn hefur hækkað um 12 millj., úr 40 millj. upp í 52, vörumagnstollur hefur hækkað um 11/2 millj., verðtollur hefur hækkað úr 78 millj. upp í 105 millj., aukatekjur hafa hækkað úr 1.8 millj. upp í 3.5, miðað við áætlanir, stimpilgjald úr 4.5 millj. í 9 millj. og söluskattur úr 47.5 millj. upp í 83 millj. Þetta eru nú helztu liðirnir, sem um er að ræða, en það mætti vitanlega nefna þá fleiri. En þetta sýnir það, að hér hefur orðið gífurleg hækkun á þeim álögum, sem ríkið tekur af almenningi og atvinnulífinu, álögum, sem aftur hafa gert — má segja — óhjákvæmilegar þær kröfur á ríkissjóðinn, sem form. var að fordæma. En það er ekki nema hálfsögð sagan með þessu. Það veit hvert einasta mannsbarn í landinu, sem komið er til vits og ára, að það hafa verið framkvæmdar raunverulega stórkostlegar falsanir í þessum málum bak við alla fjárlagaafgreiðslu, og það er það, þegar hinir ákveðnu tekjustofnar, sem lagðir eru á með sérstökum lögum til þess að mæta ákveðnum greiðslum, sem ríkið þykist þurfa að inna af hendi, eru síðan beinlínis teknir inn í ríkissjóðinn beint og látnir fara til annarra greiðslna, en síðan lagðar með reglugerð nýjar álögur á verðlagið í landinu, eins og gert var með bátagjaldeyrisfyrirkomulaginu og hinu nýja verzlunarfyrirkomulagi, sem stjórnarflokkarnir eru mjög stoltir af. Þarna er annar þáttur, raunverulega miklu stærri, sem hefur hjálpað til þess að auka erfiðleika atvinnulífsins, auka álögurnar á almenningi og þar með hjálpa til þess að auka kröfur atvinnulífsins til ríkisins og kröfur fólksins til atvinnuveganna. Það er þessi hringferð, sem hefur átt sér stað sífellt þessi ár og sú hringferð á upptök sín hér á Alþ.

Ég hef áður hér í þessari hv. þd. sýnt fram á það með tölulegum útreikningum, hversu miklu þeir tollar og skattar, sem beinlínis leggjast á vöruverðið, nema á hvert einasta mannsbarn í landinu, miðað við að því verði skipt jafnt, sem hins vegar er vitanlega ekki. Og niðurstaðan er sú, að á hverja 5 manna fjölskyldu skiptir þetta núna 8–10 þús. kr. Ég ætla ekki að fara neitt frekar út í þær tölur núna, ég hef svo oft komið inn á það, að ég tel þess ekki þörf í þetta sinn.

Þá er rétt að minna líka á það í sambandi við þetta, hver hefur orðið hækkun fjárlaganna einna þessi þrjú ár, sem liðin eru síðan þessi prýðilega viðreisn átti að hafa byrjað.

Árið 1950 voru rekstrartekjur fjárlaga áætlaðar 298 millj. kr. En á þessu fjárlagafrv., sem hér er til umr., ásamt till. meiri hluta fjvn., nemur þessi upphæð 397 millj. kr. og hefur hækkað á þessum 3 árum um 99 millj. kr. Rekstrarútgjöldin voru árið 1950, 262 millj., en eru núna samkv. tili. meiri hl. fjvn. 360 millj. Þar hefur hækkað um 98 millj. kr. Rekstrarafgangur er svo að segja sá sami, hann var áætlaður á fjárlögum 1950 36 millj., en núna er hann áætlaður 37 millj. Og þessar tölur sýna einfaldlega, hvert þetta stefnir. Það stefnir í þá átt, þar eð rekstrarafgangurinn er sú upphæð, sem nánast er notuð til eignaaukninga, að þessi upphæð fer sífellt minnkandi, miðað við þá hækkun, sem á fjárlögunum verður.

Ef maður lítur yfir samanburð á sjóðsyfirliti bæði þessi ár, þá verður útkoman svo að segja nákvæmlega sú sama. Ég sé ekki ástæðu til að fara að lesa þær tölur upp, því að þær eru svo svipaðar hinum, nema þær verða þeim mun hærri, sem rekstrarafganginum nemur.

En það er annað, sem líka hefur gerzt við fjárlagaafgreiðslu þessara ára og ég hef bent á í fjvn. og gerði sérstaklega að umtalsefni í fyrra við afgreiðslu fjárlagafrv. þá. Það er það, að áætlanir þær, sem ríkisstj. og meiri hluti fjvn. hafa gert á hverju ári þessi ár, hafa verið rangar — og þær hafa verið mjög mikið rangar, misjafnlega mikið, en yfirleitt mjög mikið. Hvers vegna er það vísvitandi gert að gera áætlanir svo rangar sem raun ber vitni um? Ég segi hiklaust, að það hafi verið visvitandi gert, þegar fjárlög fyrir 1950 og 1951 voru afgreidd. Það kom nefnilega í ljós, þegar fjvn. tók til starfa í fyrra, að þá var allt útlit orðið fyrir, að umframtekjur ríkissjóðs það ár, umfram áætlanir, mundu verða nokkuð á annað hundrað millj. kr. Meira að segja sagði sjálfur stjórnarmeirihluti fjvn. þá í sínu nál., að tekjur umfram áætlanir mundu líklega verða um 150 millj. kr. Ég taldi þá, að þetta væri of hátt áætlað, og sagði í mínu nál., að þær mundu líklega verða um 120–130 millj., og sýnir það bezt, hvort það er mikill sannleikur í þeirri ásökun, að ég hafi yfirleitt sýnt af mér meira ábyrgðarleysi, en meiri hlutinn. Reynslan varð sú, að umframtekjur ríkissjóðs á því ári urðu 115.5 millj. kr., og það sýnir greinilega, hversu fjarstæðukennd sú áætlun var, sem gerð var við afgreiðslu þeirra fjárlaga. Það sýnir enn fremur, að fjöldi þm. hefur farið meira og minna blekktur frá fjárlagaafgreiðslunni þá, og það sýnir enn fremur, að ríkisstj. hafði þarna stórkostlegar fjárfúlgur fram yfir það, sem gert var ráð fyrir, sem gerði það að verkum, að aðhald hennar til þess að spara útgjöld hlaut að verða miklu minna, en áður. Það kom líka í ljós, að útgjöld umfram heimildir urðu milli 50 og 60 millj. kr. og greiðsluafgangurinn varð tæpar 60 millj. Nú veit ég það vel, hvaða vörn stuðningsmenn stjórnarflokkanna og ríkisstjórnin færa fyrir þessu. Þeir færa þau rök, að vegna þess að það hafi verið nóg að gera með þessa peninga, þá hafi verið þörf á að taka þá af þjóðinni. En þetta sýnir það, að á þessu ári voru 115 millj. kr. teknar af atvinnuvegunum í landinu og af almenningi og greiddar inn í ríkissjóðinn fram yfir það, sem gert var ráð fyrir um áramótin að þyrfti að vera, og það sýnir enn fremur, að það er satt, sem ég sagði áðan, að á Alþ. á upptök sín sú hringrás, sem hefur skapað þá kröfuhörku bæði frá atvinnuvegunum og fólkinu, sem form. fjvn. var mest að tala um í sínum reiðilestri áðan.

Það má segja, að það liggi ljóst fyrir núna, að hagstæð útkoma ríkissjóðs á þessu ári verður ekki svipað því eins mikil og hún var á síðasta ári, en hún verður samt ábyggilega nokkur, þ.e.a.s., það verða áreiðanlega verulegar umframtekjur fram yfir áætlanir. Ég skal ekki fara í deilur hér um það, hversu miklar þær umframtekjur kunna að verða. Sjálfur meiri hluti fjvn., stjórnarstuðningsmennirnir, gerir áætlanir um, að það muni verða nú um 35 millj. Ég tel, að það séu nokkrar líkur til, að það verði eitthvað meira, og skal færa viss rök að því, án þess að ég ætli mér að gera það að sérstöku deilumáli, því að þetta mun koma alveg í ljós núna á næstunni. En ég ætla að benda á það, að samkv. yfirliti, sem fjvn. fékk um tekjur og gjöld ríkissjóðs á þessu ári fram að 1. nóv., þ.e.a.s. 10 mánuði ársins, hefur mikill meiri hluti tekjuliðanna á fjárlagafrv. farið fram úr áætlun, sumir verulega og aðrir minna. 4 tekjuliðir hafa þó ekki náð þeirri áætlun, sem þeir hefðu átt að hafa samkv. þeim tíma, sem liðinn er, en það eru yfirleitt þeir tekjuliðir, sem telja má víst að eigi ókomið inn, meira en hlutfallslega mætti segja, miðað við þann tíma, sem eftir er af árinu. Þess vegna tel ég, að það séu nokkuð miklar líkur til, að ætla megi, að umframtekjurnar verði meiri en 35 millj., að þær verði 40–50 millj., án þess að ég ætli að fara að deila sérstaklega um það, eins og ég sagði, þar sem það mun liggja ljóst fyrir, áður en langt um líður.

En í samræmi við þetta geri ég að vísu ráð fyrir því, að gjöld muni fara eitthvað fram úr áætlun líka, þó muni einhver tekjuafgangur verða, en hversu mikill skal ég ekki fullyrða. Hins vegar er það mjög áberandi í þessu, að það eru til hér tekjuliðir, einkum eru það að vísu þeir smærri, sem sýnilega ætla að verða geysiháir í samanburði við þá upphæð, sem áætluð var. Eitt í því sambandi vil ég minnast á, vegna þess að hv. frsm. meiri hl. bar mér það á brýn, að ég hefði verið með svo óhóflega ábyrgðarlausar till. í n. um hækkun á vissum tekjuliðum. Og það er bezt, að ég segi þá strax, hverjar þær till. voru. Annars mun þeim verða útbýtt bráðlega.

Í fyrsta lagi var það stríðsgróðaskatturinn. Hann er áætlaður á fjárlögum þessa árs 1 millj. og 500 þús. kr. En allar líkur eru til þess, að hlutur ríkissjóðs muni verða 4 millj. og 400 þús. Það er útlit fyrir, að hann muni þrefaldast. Þetta eina dæmi sýnir líka svolitið, hvert þróunin er að stefna í þjóðfélaginu. Á þeim tímum, sem atvinnulífinu gengur illa, og á þeim tímum, sem almenningur neyðist til þess að gera kröfur um hækkaðar tekjur vegna vaxandi dýrtíðar, þá hækkar stríðsgróðaskatturinn hlutfallslega miklu meira, en nokkrir aðrir skattar. Þess vegna hef ég lagt til, að þessi tekjuáætlun yrði hækkuð um 1.5 millj. kr. Það er ein af þessum ábyrgðarlausu till. Ég lagði einnig til þar, að vörumagnstollurinn yrði hækkaður í áætlun um 1 millj. kr., og allar líkur eru til þess, að hann muni á þessu ári verða 23.5 millj. í staðinn fyrir 22.5. En það eru allar líkur til þess, að hann verði 24–25 millj. á næsta ári. Þetta er önnur hin ábyrgðarlausa till. Svo mun ég leggja það til enn fremur, að óvissar tekjur skuli hækka um 3 millj. kr. í staðinn fyrir 1 millj., sem meiri hluti fjvn. leggur til. Ég byggi það á þeirri áætlun, sem lá fyrir fjvn. um útlít fyrir þessa tekjuliði á þessu ári.

Í þessu sambandi ætla ég að benda á eitt stórt atriði. Það er til stofnun í landinu, sem heitir fjárhagsráð. Þessi stofnun var einu sinni tekin inn á fjárlög. Þá var það fastur liður á 11. gr., eftirlit með viðskipta- og verðlagsmálum, og áætlað, að það mundi kosta 2 millj. kr. Svo skeði það á einu þingi, að nokkrir Framsfl.-menn fluttu frv. um breyt. á fjárhagsráðslögum og sýndu þá fram á í grg., að þessi stofnun væri óhóflega dýr og tæki óhóflega mikið í leyfisgjöld. Þá skeði það á næsta þingi á eftir, að hæstv. ríkisstj. lagði fyrir sinn meiri hluta í fjvn. að taka fjárhagsráð ekki inn í fjárlögin og halda því utan við sem einni af þeim ríkisstofnunum, sem helzt á ekki að sýna, hvernig standa. Nú hef ég fengið upplýsingar um það, að á s.l. ári voru tekjur fjárhagsráðs 6 millj. kr., en útgjöld þess voru 2 millj. og 600 þús. Þegar ástandið er þannig, eins og formaður lýsti, að atvinnulífið er að gera óhóflegar kröfur til ríkisins og almenningur aftur til atvinnulífsins, þá er samt sem áður hægt að hafa 3 millj. og 400 þús. kr. gróða á fjárhagsráði fyrir það að úthluta leyfum til landsmanna. Þetta er aðeins eitt af þeim mörgu dæmum, sem sýna það, að það er til gróði í þjóðfélaginu. Það er einmitt það, sem er að gerast, að það er að vaxa gróði í vissum höndum, þegar ástandið er eins og það er núna. Afgangurinn af tekjum fjárhagsráðs fer beint í ríkissjóð og kemur þar fram í þeim liðum, sem þar er um að ræða.

Samt hefur meiri hl. fjvn. lagt til, að tekjuáætlunin yrði hækkuð á vissum liðum, sem hv. frsm. meiri hl. tók líka fram. Samtals eru þetta 10 millj. kr., og hæsti liðurinn þar er hækkun á söluskattinum um 6 millj. kr., sem er vissulega rökrétt út frá því fyrirkomulagi, sem er, og út frá þeirri fyrirhuguðu áætlun, sem virðist áreiðanlega vera hjá stjórninni og meiri hluta þings, að halda þeim skatti áfram. Það mun nefnilega sannast á þessu ári, að söluskatturinn, sem áætlaður er 77 millj. kr., mun fara verulega fram úr áætlun. En þetta er sá skattur, sem mun vera óvinsælastur allra tekjuliða ríkisins vegna þess, hversu þungt hann liggur einmitt á atvinnulífinu og hefur beinlínis hjálpað til þess að auka kröfur atvinnulífsins.

10 millj. kr. er það, sem hv. meiri hl. fjvn. leggur til að tekjuáætlunin hækki, og byggir það á þeirri áætlun, að á þessu ári muni tekjur ríkisins fara fram yfir áætlanir um 35 millj. kr. Ég leyfði mér í fjvn. að bera fram till. um 41/2 millj. í viðbót við þetta. Og ég leyfði mér að halda því fram, að það séu miklar líkur til þess, að tekjuáætlunin fari á þessu ári, sem þetta er áætlað eftir, miðað við svipaðar aðstæður, fram úr áætlun meiri hl. fjvn. sem nemur þessum 4.5 millj.

Í sambandi við þetta ætla ég nú að minna á eina setningu, sem ég skrifaði upp eftir hv. frsm. meiri hl., þar sem hann var að tala um erfiðleika, sem hinir heilbrigðu menn í þjóðfélaginu væru sífellt að framleiða. Í sambandi við það sagði hann, að það væri nauðsynlegt að brjóta nú blað í þeirri sögu, sem við erum að deila um hér. Ég er honum að vissu leyti mjög sammála um það. Það eru erfiðleikar í þjóðfélaginu, sem heilbrigðir menn eru að framleiða, en við erum kannske ekki alveg sammála um, hverjir það eru, sem framleiða þá mest, hverjir eru hinir heilbrigðu menn, sem eiga sök á þeim. Og í sambandi við þetta ætla ég að minna nú á þá deilu, sem við áttum í fyrra við afgreiðslu fjárlaga þá, fyrst hörkudeilu í fjvn. og síðan hér í þessum þingsal. Það var í sambandi við till. um afnám eða að minnsta kosti lækkun þessa söluskatts, þessa skattstofns, sem er, eins og ég sagði, óvinsælastur af öllum almenningi í landinu, vegna þess að fólkið finnur, hve hann leggst þungt á atvinnulífið. Ég sagði áðan, að það lágu fyrir þær upplýsingar strax þegar fjvn. kom saman í fyrra, að tekjur ríkisins mundu fara á annað hundrað millj. kr. fram úr áætlun. Þá var þess vegna vissulega tækifæri til þess að brjóta þetta blað, sem form. var að ræða um. Þá var tækifæri til þess að afnema einmitt eitthvað af þeim álögum, sem hafa valdið þeim kröfum, sem hann talar mest um, — og var aldrei betra tækifæri en þá. En þegar ég kom með till. í fjvn. um það einmitt að brjóta þetta blað, með till. um það, að n. byrjaði störf sín á því að hugsa upp möguleika til þess að fella niður þennan skatt, ná samvinnu við ríkisstj., ná samvinnu við ríkisstofnanirnar um það að lækka framlög til þeirra, miðað við það, að jafnframt mundi dýrtiðin lækka við það að afnema skatt, sem virkilega veldur verulegum hluta verðlagsins í landinu, 11–12% var upplýst af einum af stuðningsmönnum stjórnarinnar þá, — en þegar ég kom með till. um að brjóta nú einmitt þetta blað vegna þessara sérstöku ástæðna, sem voru fyrir hendi, þá reis allur meiri hl. n. og ríkisstj. og meiri hl. þingsins upp á móti þessu og vildi ekki heyra það nefnt.

Einmitt þessi skattur hefur átt hina furðulegustu sögu hér á Alþ. og líklega furðulegri en flestir aðrir skattstofnar, sem Alþ. hefur samþykkt. Upphaflega var hann beinlínis samþ. til þess að standa undir ákveðnum greiðslum. Síðan er lækkað gengið til þess að losa ríkið við þær ákveðnu greiðslur, en jafnframt þurfti að hækka skattinn. Síðan eru enn þá gerðar nýjar ráðstafanir með bátagjaldeyrinum til þess að styðja þann atvinnuveg, sem upphaflega átti að njóta söluskattsins, og jafnframt því þurfti enn þá að hækka söluskattinn. Hvernig er nú hægt að fá betri sannanir fyrir því, að einmitt hér á Alþ. á þessi hringrás upptök sin, sem form. var að lýsa?

Ég ætla ekki að fara að endurtaka núna neitt af því, sem ég sagði í deilunni um þessa till. mína um afnám söluskattsins á siðasta þingi. Ég get gert það, ef ástæða gefst til síðar í umr. En ég bendi á það, að hér var virkilega möguleiki til þess að byrja á þessari braut. Það var ekki reynt, og þess vegna er ástandið núna verra en það var í fyrra. Annað mætti benda á líka. Það hefði verið mikil ástæða fyrir Alþ. að byrja á þessari braut og byrja á sínum eigin vettvangi í fyrra á því að reyna að lækka dýrtíðina í landinu, dýrtíðina, sem veldur þessum kröfum, sem mest er kvartað um núna. Þá var einmitt vöruverð frekar að lækka erlendis og þess vegna enn þá hægara fyrir Alþ. að brjóta blaðið, heldur en annars hefði verið.

Þá ætla ég að koma að öðrum þætti í afgreiðslu fjárlaganna, sem er raunar líka enn þá meiri þáttur í allri efnahags- og fjármálastarfsemi þjóðarinnar, og í sambandi við það skal ég aðeins koma inn á þá fullyrðingu formanns, að ég hefði í n. starfað þannig, að það liti fremur út, að ég hefði verið fulltrúi erlends herveldis, heldur en austfirzkra bænda, og það er það, hversu allt fjármálalíf okkar og athafnalíf og atvinnulíf er orðið háð erlendum þjóðum, orðið háð erlendum herveldum, og eitt þeirra, hið voldugasta, situr núna með her hér í landinu. Í sambandi við það ætla ég enn að minna á fullyrðingu Tímans, sem birt var sem fyrirsögn með ræðu fjmrh. í haust, að ríkisbúskapur hefði nú verið rekinn greiðsluhallalaus í 3 ár án hækkandi tolla og skatta. Ég er búinn að sýna fram á það, hvort það hafi virkilega ekki þessi 3 ár hækkað tollar og skattar eða sambærilegar álögur á þjóðina og atvinnuvegina. Ég veit ekki, hver treystir sér til að neita því. En það er hitt, sem líka er hægt að sanna, að ríkisbúskapurinn hefur einmitt ekki verið rekinn greiðsluhallalaus þessi 3 ár, og það sannast bezt með því, þegar við lítum á það, að þessi 3 ár höfum við lifað að nokkru leyti á gjöfum frá öðrum þjóðum, gjöfum, sem hafa gert ríkisstj. og meiri hluta þm. að fulltrúum erlends herveldis.

Ég veit, að allir hv. alþm. muna það, að á miðju sumri 1949 var undirritaður hinn svo kallaði Marshallsamningur, og okkur var lofað miklu í sambandi við þann samning. Okkur var lofað því, að við skyldum fá lán. Okkur var lofað því, að við skyldum fá gjafir. Okkur var lofað því, að við skyldum verða búnir að fá aðstoð til þess að reisa við okkar efnahagslíf þannig, að árið 1952 skyldi það verða í meiri blóma, en nokkru sinni fyrr, þ.e.a.s., þetta voru loforð hinna innlendu postula Marshallstefnunnar. Það kom fram hjá hinum erlendu postulum hennar, að það væri kannske annað meira á bak við. Þar kom m.a. fram þá, að það gæti nú skeð, að Ísland yrði að fórna einhverju af þeim fríðindum, félagslegum og efnahagslegum, sem það þá var búið að ávinna sér. Það er hægt að vitna í ummæli m.a. forstjóra og framkvæmdastjóra Marshalláætlunarinnar og finna þessi ummæli þar. Hver hefur svo reynslan orðið? Hún hefur orðið sú, að við höfum fengið gjafir, við höfum fengið hátt í 400 milljónir í gjöfum og lánum, mest af því gjafir, og á s.l. ári, því árinu, sem við áttum að vera búnir að koma okkar efnahagslífi á verulega góðan kjöl samkvæmt loforðum hinna innlendu postula Marshallkerfisins, fengum við 135 millj. kr. í beinum gjöfum. Það er fjarstæða að halda því fram, að það sé rekinn greiðsluhallalaus ríkisbúskapur hjá ekki fjölmennari þjóð, en þetta, þegar hún þarf að fá í beinum gjöfum 135 millj. kr. Hver eru svo hin fríðindin, sem við höfum fengið fyrir þessa aðstoð, fríðindi, sem við höfum fengið í sambandi við Marshalláætlunina? Ég veit ekki betur, en núna sé svo komið, að ein helzta aðstoðarþjóð okkar, Bretar, er búin að kasta okkur út af sínum mörkuðum, og núna stöndum við í beinu viðskiptastríði við hana. Hvað er þetta annað en það, sem sósíalistarnir sögðu fyrir að væri aðaltilgangur þessarar Marshallhjálpar allrar saman, að við mundum að henni lokinni standa verr að vígi en áður, eins og reynslan sýnir nú? Þetta eru efndirnar á því, sem okkur var lofað í sambandi við Marshallhjálpina. En svo höfum við fengið annað í staðinn. Við höfum einmitt fengið hið erlenda herlið, sem situr hér í landinu. Það var Marshallhjálpin, þessi efnahagssamvinna, sem hjálpaði til þess að gera þá fulltrúa, sem samþykktu þann hernáms- eða varnarsamning eins og þeir kalla, að fulltrúum erlends herveldis. Það er þess vegna ekkert undarlegt, þó að hæstv. form. fjvn. sé viðkvæmur, þegar lagt er til að fella niður af fjárlagafrv. upphæðir eins og t.d. 364 þús. kr. upphæð til skrifstofu Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, skrifstofu, sem situr í París við hliðina á sendiráðinu þar. Ég skal koma aðeins ofur lítið inn á það betur, einmitt í sambandi við þetta, og þar kem ég einmitt að þeim tillögum, sem ég flutti til lækkunar á frv.

Árið 1950 gengum við í hið svo kallaða Atlantshafsbandalag. Þá var því heitið, að við skyldum aldrei þurfa að hafa her hér á landi á friðartímum, og það var ekkert um það getið, að það mundi kosta okkur nokkur fjárútlát. Ég skal að vísu játa, að þau fjárútlát, sem það hefur kostað okkur beint í fjárframlögum á fjárlögum, eru ekki stór, miðað við heildarupphæð fjárlaganna. En þó skal ég benda á þessar upphæðir. Á 11. gr. er 364 þús. kr. upphæð til skrifstofu Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, skammstafað NATO, í París. Við erum náttúrlega orðnir miklir menn á þessu sviði, og það er ekki furða, þó að við þurfum að leggja eitthvað til hermála. Við gengum í Atlantshafsbandalagið á þessu ári, sem ég nefndi. Við gengum í fyrra í hernaðarbandalag við Tyrkland og Grikkland, ekki mátti það minna kosta, — hefði nú þótt fyrirsögn hér fyrr á árum hjá okkur líklega flestum, þegar við vorum að læra Íslandssögu um Tyrkjaránið í barnaskólunum íslenzku. Ætli það hefði verið talið trúlegt þá, að Íslendingar ættu eftir að ganga í hernaðarbandalag við Tyrki? En það hefur margt ólíklegt skeð á þessum síðustu árum. Við erum gengnir inn í Evrópuráðið, sem er einn angi af þessu öllu saman, þó að eigi ekki að heita beint hernaðarbandalag. Og samkvæmt yfirlýsingu ríkisstj., sem hún gaf fáum dögum eftir að styrjöld brauzt út austur í Kóreu, þá erum við raunverulega í stríði við Norður-Kóreumenn. Ja, hver hefði nú spáð því fyrir 10 árum síðan, svo að maður fari ekki lengra aftur í tímann, að þetta ætti eftir að henda hina vopnlausu og friðsömu íslenzku þjóð, sem ekki hefur borið vopn í margar, margar aldir? En það er þá víst ekki furða, þó að við þurfum eitthvað smávegis að leggja fram í fjárlögum til þess að fá að vera með í öllum þessum ágætu samtökum. Þessar upphæðir, eins og ég sagði, sem ég lagði til að fella niður, eru upphæðin til skrifstofu NATO. Þar er um að ræða fulltrúa. Ég efast um, að hv. alþm. margir viti, hvað þessir sendimenn þar eiga að gera. Hlutverk þeirra á sem sé að vera það að líta eftir því, hvernig aðrar bandalagsþjóðir standa við sínar skuldbindingar á hernaðarsviðinu gagnvart bandalaginu sjálfu. Sjálfir höfum við nú ekki neinar slíkar skuldbindingar aðrar, en þá hersetu Bandaríkjanna hér. Og ég fæ nú ekki skilið, hvað það á að þýða, að Íslendingar séu með aukasendiráð niðri í París, sem kostar nærri 400 þúsund, til þess að líta eftir þessu. Hann hlýtur að vera orðinn góður hernaðarsérfræðingur, sá maður, sem stjórnar þeirri skrifstofu. En Íslendingum er nú líka mjög mikið að fara fram á hernaðarsviðinu. Ég lagði einnig til, að tillag til Atlantshafsbandalagsins, 263 þús., yrði fellt niður, og ég lagði til, að tillag til Evrópuráðsins yrði fellt niður, 60 þús. Þetta þykja ekki stórar upphæðir. Ég lagði einnig til að lækka kostnaðinn við þátttöku í alþjóðaráðstefnum, en hæstu liðirnir þar eru einmitt á vegum þessarar starfsemi. Og sú lækkun, sem ég lagði til samtals í því efni, nam um það bil einni milljón króna. Ég tel, að sú milljón væri betur komin annars staðar, en í þessari starfsemi, og ég skal standa við þau orð hvar sem er og frammi fyrir hvaða íslenzkum hlustendum sem er. En það er dálítið skiljanlegt, þegar maður finnur alla þá viðkvæmni, sem ríkir hér á Alþingi gagnvart því, að minnzt sé á þessi mál, þó að hv. form. fjvn. yrði líka viðkvæmur fyrir því að fá þessar till. bornar upp í n. og fella þær.

Það er rétt í sambandi við þetta, þó að það sé nú ekki nema þáttur af þessu máll, að ég gefi upplýsingar um það, hvernig skiptist í stórum dráttum sá liður á 10. gr. fjárlaga, sem heitir: Kostnaður vegna þátttöku í alþjóðaráðstefnum, — og er það í tveim liðum, bæði á vegum utanrrn. og annarra ráðuneyta. Á vegum utanrrn. er hér um að ræða 449 þús. kr. Það skiptist þannig, — það er rétt til gamans fyrir hv. þm. að heyra það. Það er hér byrjað með smáupphæð vegna kostnaðar við viðkomu D. Eisenhowers, 3000 kr. rúmlega. Það hefur nú ekki verið nema rétt fyrir vindlum handa honum og flösku af einhverju. Svo er það kostnaður vegna þinghalds Evrópuráðsins í Strassbourg, 74.900 kr. Vegna Efnahagssamvinnustofnunarinnar 50 þús. Utanríkisráðherrafundur á Norðurlöndum 12.500. Atlantslafsbandalagið 130 þús. Þing FAO 19 þús. og Allsherjarþing sameinuðu þjóðanna 88 þús. Annað eru smáupphæðir, sem litlu máli skipta. En þegar um er að ræða þessa einu milljón, sem ég lagði til, að felld yrði niður í sambandi við allt þetta hernaðarvesen, og form. fjvn. stimplar mig í staðinn fulltrúa erlends herveldis, þá ætla ég að benda á það, að það er rifizt í fjvn. hörkudeilum um 5 þús., um 10 þús. kr. fjárveitingar til vissra menningarmála, og þá litur út fyrir, að bæði formanni og öðrum meirihlutamönnum í fjvn. þyki sem fjárhagur ríkisins muni allur af göflum ganga, ef slíkar upphæðir, ein og ein, fari inn í fjárlögin. Það er nefnilega ekki sama, til hvers féð á að fara, gagnvart því að eyða upphæðum í a.m.k. vafasama hluti.

Þá ætla ég enn að benda á það, að það er vafalaust hægt að lækka ýmsa gjaldaliði á fjárlögunum, en gagnvart mörgum þeirra þarf vitanlega að gera annað fyrst. Það er þess vegna ekki sök meiri hl. fjvn. eða fjvn., þó að það liggi ekki fyrir till. um slíkt. Það eru vissir hlutir, sem virkilega er hægt að laga í stórum dráttum í ríkiskerfinu, en það þarf helzt að takast upp af ríkisstj. og vinna að því skipulega. Ég skal nefna t.d. eitt dæmi, sem ég gerði að dálitlu umtalsefni hér við fjárlagaumræðuna í fyrra, — ég ætla að minna á það aftur núna. Það er t.d. það, hversu miklu fé er eytt í húsaleigu fyrir ríkisstofnanir og ríkisstarfsemi. Það er kunnugt, að ríkið á eina allstóra byggingu fyrir sínar skrifstofur, sem er Arnarhvoll. Það á einnig aðra byggingu, að ég ætla, Túngötu 18, þar sem líka eru ríkisskrifstofur. En þessar byggingar hrökkva ekki nærri því fyrir starfsemi ríkis og ríkisstofnana. Afleiðingin er sú, að ríkisstofnanirnar búa í leiguhúsnæði hingað og þangað úti um bæ, og við fengum í fjvn. skýrslu um, hvað þetta leiguhúsnæði kostar, og það er hreint ekki smáræði. Hún er of löng til þess, að ég geti farið að lesa hana alla hér upp. En ég bendi á það, að þar eru mjög háir liðir, eins og t.d. að Skattstofan í Reykjavík greiðir 105 þús. kr. í húsaleigu, áfengisverzlun ríkisins greiðir 163 þús. kr. í húsaleigu og Tóbakseinkasalan greiðir 179 þús. kr. í húsaleigu. Þetta eru gífurlegar upphæðir, þegar þær eru dregnar saman, enda er heildarupphæðin í þessari skýrslu rúmlega 11/2 millj. kr. Ég benti á það við fjárlagaumræðuna í fyrra, hvað lítið vit væri í því fyrir ríkið að eyða fé á þennan hátt. Og ég ætla núna að benda á annað, sem er staðreynd í sambandi við þetta, og það er það, að í sumum þessum tilfellum, náttúrlega ekki í öllum, en í sumum a.m.k. og það stórum tilfellum hefur ríkið einmitt, eða einhverjir sjóðir, sem ríkið á eða ríkisstofnanir, lánað eigendum þessara húsa fé til þess að byggja og tekur síðan húsin á leigu og borgar í raun og veru þannig húseigendum byggingarkostnaðinn, sem það ætti að réttu lagi að borga sjálfu sér. Hér er um að ræða eina tegund þeirra krafna, sem gerðar eru af háttsettum mönnum hjá þjóðinni, háttsettum mönnum, sem hafa aðstöðu til þess að beita sér hjá æðstu valdamönnum þjóðarinnar, og þessum kröfum hefur verið fylgt í því miður of stórum stíl. En það er ekki mikið verið að benda á þetta, ekki af stjórnarmeirihlutanum a.m.k., í hinum almennu umræðum um afgreiðslu fjárh. eða atvinnumála og fjárhagsmála yfirleitt.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu lengri. Því miður mun ekki vera búið að útbýta mínum brtt., og það er vegna þess, að því er mér var sagt áðan, að þær hefðu tafizt í prentsmiðjunni, vegna þess að rafmagnið hefði verið tekið af prentsmiðjunni. Þær eru ekki margar, og ég hef gert þegar grein fyrir sumum þeirra. Ég mun þá biðja um orðið seinna á fundinum til þess að gera grein fyrir hinum. Ég kann ekki við að fara að tala fyrir þeim hérna, meðan ekki er búið að útbýta þeim. En ég vil aðeins taka það fram aftur, sem ég sagði í byrjun, að ég tel, að sú stefna, sem hefur ríkt undanfarin ár og á upptök sín hjá Alþingi og ríkisstj. í þessum málum öllum, bæði innanríkismálum og utanríkismálum, eigi sök á því ástandi, sem núna er í landinu í atvinnumálum og fjárhagsmálum þjóðarinnar. Og þetta fjárlagafrv. sýnir það, eins og afgreiðsla þess á að vera samkvæmt vilja ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans, að ætlunin er að halda áfram á nákvæmlega sömu braut og áður.