27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

1. mál, fjárlög 1953

Frsm. 2. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það fór enn á þann veg eins og oft áður, að fjvn. tvíklofnaði um afgreiðslu fjárlfrv. við 2. umr. þess. Það er því skilað nál. um það í þrennu lagi.

Fjárlfrv., eins og það var lagt fyrir hv. Alþ. s.l. haust, mátti heita nálega uppprentun á fjárl. yfirstandandi árs, og í meðferð fjvn. á frv. hefur engin breyting, sem teljandi sé, verið gerð á því. Samtals leggur meiri hl. fjvn. til, að tekjuáætlunin hækki um tæpar 10 millj. og gjöldin um rúmar 8 millj., og er þetta allt niðurstaða af margvíslegu og fremur ómerkilegu smákáki í frv. hingað og þangað. Ég held, að engum blandist hugur um það, hversu ómerkilegar og óverulegar þessar breytingar eru, ef litið er á brtt. meiri hl. á þskj. 282, þegar frá eru teknar till. til skiptingar á vegafé og brúafé og hafnafé, enda er það svo, að flestum meiri háttar erindum og till. hefur verið vikið frá í bili og geymt að afgreiða þau þar til við 3. umr. málsins. Þessi 2. umr. um fjárl. er því að mínu áliti að mestu leyti málamyndaafgreiðsla til þess að fullnægja formi fremur en að hv. stjórnarfi. hafi sýnt, að þeir teldu þörf nokkurrar endurskoðunar eða breytingar á fjárlagafrv.

Það kemur fyrir alloft á fundum í fjvn., að það heyrist allhávær sparnaðargnýr í fulltrúum stjórnarfl. í fjvn., en þegar eftir því er gengið af stjórnarandstöðunni, hvort fulltrúar stj. vilji þá ekki fylgja þessu sparnaðarhjali sínu eftir með því að greiða atkv. með sparnaðartill., þá fer oftast svo, að það situr við orðin tóm. Núna hafði það t.d. hneykslað hv. meiri hl. n. allmjög, að fjöldi starfsmanna hjá ríkinu hefur risnufé, þó að mönnum sé alls ekki kunnugt um, að ýmsir þessara embættismanna hafi nokkur útgjöld öðrum embættismönnum fremur af risnu. Þegar ég svo bar fram till. um að fella allt risnufé niður nema hjá forseta Íslands, forsrh. og utanrrh. og nokkrum öðrum æðstu embættismönnum þjóðfélagsins, þá stóð ekki á því, að allar hendur sparnaðarmanna stj. í fjvn. væru á lofti til þess að fella till. um niðurfellingu risnufjárins. Þá virtist það vera orðið að prinsipatriði, að þetta yrði ekki fellt niður. Þessi smávægilega sparnaðartill. mín um hneykslunarhelluna, risnuféð, var þess vegna felld með 7:2 atkv., — stjórnarliðið með því, að risnufé héldi sér, stjórnarandstaðan á því, að þetta mætti missa sig, — og þannig hefur miklu oftar farið, að hneykslun meiri hl. hefur hjaðnað elns og bóla, þegar átti að taka hneykslunarhelluna sjálfa burt.

Ég sagði áðan, að þetta fjárlfrv. væri að mestu leyti endurprentun á fjárl. yfirstandandi árs, og höfuðeinkenni fjárl. á yfirstandandi ári og fjárl. á undanförnum árum hefur verið það, að rekstrarkerfi ríkisins hefur heimtað frá ári til árs stórhækkandi fjárupphæðir, en hins vegar hefur stungið í stúf, þegar hefur komið að 13. gr. í fjárl. um verklegar framkvæmdir, að þá hefur sparnaðarandinn náð sér á strik. Og alveg eins er það nú — og í raun og veru þó öllu augljósar nú, en nokkru sinni áður. Á seinasta fjárlfrv., fyrir árið 1952, þegar það var lagt fram, voru áætlaðar nokkurn veginn sömu fjárupphæðir til verklegra framkvæmda eins og árið þar áður, og var þó öllum ljóst, að þetta þýddi greinilega lækkaðar framkvæmdir til verklegra framkvæmda hjá ríkinu. Það þýddi minni nýbyggingar vega, lakara vegaviðhald, færri brýr byggðar og minni úrbætur á aðkallandi hafnargerðum o.s.frv. Núna þurfti ekki aðeins að hækka þessar fjárveitingar til verklegra framkvæmda vegna vaxandi dýrtíðar, til þess að þær næðu sama notagildi eða verkgildi og áður, heldur þurfti einnig að taka tillit til þess, að á seinasta þingi voru afgreidd ný vegalög og við það lengdist þjóðvegakerfi landsins um 970 km — nærri þúsund km. En hvað blasti svo við okkur, þegar við sáum fjárlfrv. lagt fram nú í þingbyrjun? Hafði ekki hæstv. fjmrh. lagt til hækkaðar fjárveitingar til vegamála, m.a. vegna þessarar stórkostlegu lengingar á vegakerfinu, auk þess sem þurfti að ætla hækkaðar fjárupphæðir vegna aukinnar dýrtíðar frá árinu áður? Nei, það var ekki mikið um hækkanir á fjárveitingum. Og nú var ekki einu sinni látið sitja við óbreyttar tölur frá árinu áður, heldur sáu menn nú verulegar lækkanir á ýmsum fjárveitingum til verklegra framkvæmda. Þannig höfðu á fjárl. yfirstandandi árs verið veittar 8 millj. og 985 þús. kr. til akvega, þ.e.a.s. á árinu 1952, en á fjárlfrv. fyrir 1953 var þessi fjárveiting ekki nema 8 millj. og 855 þús. kr. Þó hafði vegamálastjórinn, sem verður nú að teljast fremur varfærinn embættismaður, gert grein fyrir því, að fjárveitingar til nýrra vega þyrftu nauðsynlega að hækka um 3–4 millj. kr. Og eins var um viðhaldsféð. Vegamálastjórinn hafði upplýst, að árið 1951 hefði viðhald vega kostað 20 millj. kr., og hefði þó raunar þurft, ef vel hefði átt að vera séð fyrir vegaviðhaldinu, að verja til þess 22 millj. kr. Nú fór hann þess vegna fram á það, bæði með tilliti til hækkaðs verðlags og til lengra vegakerfis, að til viðhaldsfjár yrðu veittar 25 millj. kr., og auk þess bað hann nú um 2 millj. kr. til endurbóta á aðalleiðum vegakerfisins. Þetta voru óskir hv. vegamálastjóra, vafalaust bornar fram við fjmrh., áður en hann gekk frá sínu uppkasti að fjárlfrv. Og hvað ætlaði svo fjmrh. til vegaviðhalds á þessum fjárl. næsta árs? Það eru 18 millj. og 400 þús. kr., þriðjungi lægri fjárupphæð, en vegamálastjóri taldi bráðnauðsynlegt, að til þess yrði varið, og nokkrum millj. lægra, en þetta kostaði reikningslega árið 1951 við miklu minni dýrtið, en nú er. — Á fjárl. yfirstandandi árs voru veittar 3.475 þús. kr. til brúargerða, en nú eru það 3.100 þús. kr. Það varð að lækka það um 375 þús. kr. — Alveg er sama sagan um fjárveitingar til hafnargerða og lendingarbóta. Á fjárl. yfirstandandi árs voru veittar 5 millj. og 145 þús. kr. til þeirra mála, en á þessu fjárlfrv. fyrir næsta ár eru það 4 millj. og 475 þús. kr. Það er 770 þús. kr. lækkun frá árinu áður, og er alveg augljóst mál, að þarna hefði þurft að hækka fjárveitinguna að krónutölu verulega, ef nokkur von hefði átt að vera til þess, að takast mætti að framkvæma neitt því líkt sem árið áður í hafnargerðum.

Ég hygg, að flestir séu mér sammála um, að í þessu sé öfugt stefnt. Nú hefði þurft að auka verklegar framkvæmdir á vegum ríkisins í stað þess að draga úr þeim, eins og gert er í þessu fjárlfrv., því miður. Það eru vissulega augljós sannindi, að þegar einkaatvinnurekstrinum vegnar erfiðlega og atvinnulífið dregst saman og atvinnuleysi sækir þjóðfélagið heim, þá er tvöföld skylda á herðum ríkisins að auka þá einmitt verklegar framkvæmdir og gera þannig sitt til að minnka atvinnuleysið. Ég vil ekki trúa því, að hæstv. ríkisstj. hafi getað lokað augunum fyrir því, að nú er atvinnuástandið viða um land þannig, að þessarar stefnu hefði verið hin fyllsta þörf og meira að segja að henni hefði fylgt sköruleg framkvæmd af hendi ríkisstj. Það er rétt að taka sem dæmi iðnaðinn í landinu. Það vita það allir og viðurkenna, að hæstv. ríkisstj. hefur með stefnu sinni leikið þennan þriðja aðalatvinnuveg þjóðarinnar fremur grátt. Iðnaðurinn er nú í mörgum greinum lagður í rústir með þeim óhóflega innflutningi á unnum iðnaðarvörum, sem fluttar hafa verið inn í landið. Þetta hefur leitt til þess, að mikill fjöldi fólks, sem áður stundaði iðju og iðnað, gengur nú atvinnulítill eða atvinnulaus og berst við mjög þröng kjör. Menn skyldu nú ætla, að þess sæjust einhver spor á fjárlfrv. og í till. meiri hl. fjvn., að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir vildu að einhverju leyti bæta fyrir þessi brot sín gagnvart iðnaðinum, t.d. með riflegum fjárveitingum til iðnaðar og iðnaðarmála. Og hverjar eru nú þessar fjárveitingar til iðnaðarins í fjárlfrv., eins og það liggur núna fyrir? Jú, það er lagt til, að það verði veitt ein milljón króna sem byggingarstyrkur til iðnskólahúss. En að öðru leyti eru það svo 700 þús. kr. samtals, sem ætlaðar eru til iðnaðarmála, að meðtöldum ýmsum smástyrkjum til einstaklinga. Þetta virðist mér vera eins konar undirstrikun stjórnarherranna á því, að iðja og iðnaður séu þeim óviðkomandi, og það mætti næstum ætla, að þessi atvinnuvegur ætti engan rétt á sér og væri jafnvel talinn til þjóðhættulegrar starfsemi. — Einar 700 þús. kr. til þriðja stærsta atvinnuvegar þjóðarinnar, fyrir utan byggingarstyrk til iðnskólahúss!

Ég hefði vænzt þess, að þess hefðu sézt einhver spor í fjárlagafrv. eða í tillögum hv. meiri hl. fjvn., sem vitanlega gerir tillögur í anda ríkisstj., að ástandið í landinu er næsta alvarlegt, svo alvarlegt, að ríkisstj. getur ekki látið eins og það sé sér óviðkomandi, látið undir höfuð leggjast að gera þar einhverjar tillögur til aðstoðar og úrbóta. Það er nefnilega komið svo í landinu, að það er orðið ólíft fyrir verkalýðsstétt landsins með þeim launakjörum, sem hún hefur, í þeirri ægilegu dýrtíð, sem nú hefur heltekið þjóðfélagið. Verkamaður, sem jafnvel hefði vinnu upp á hvern einasta virkan dag í hverjum mánuði ársins, ætti samt í örðugleikum með að geta keypt fyrir sig sínar brýnustu lífsnauðsynjar. En nú er fjarri því, að verkamenn búi yfirleitt við þá sæmd að eiga að verki að ganga hvern virkan dag. Það er mikill hluti af íslenzkri verkalýðsstétt nú, sem fær ekki verk að vinna, hversu feginn sem hann vildi. Og þar hefur skorturinn heimsótt heimilin, og hann er orðinn daglegur gestur á þúsundum heimila í landinu. Það er afleiðing af þessu, að samtök verkalýðsins hafa hafið kjarabaráttu með samstilltu átaki og á víðtækari grundvelli, en nokkur dæmi eru til áður í sögu landsins. Menn skyldu ekki halda, að það sé neitt leikfélag, sem þarna hefur verið stofnað. Það eru samtök, sem eru stofnuð vegna sárrar neyðar, sem heimsækir nú margt af þessu fólki, sem þarna á því hendur sínar að verja vegna þess þjóðfélagsástands, sem hæstv. ríkisstj. hefur skapað viljandi eða óviljandi.

En þrátt fyrir það að þetta ástand hljóti að blasa við augum allra, hæstv. ríkisstj. ekki síður en annarra, þá er samt haldið áfram á sömu eyðslu- og ráðleysisbraut með allan ríkisbúskapinn. Og þó er það vissulega krafa alþjóðar, að ríkið og æðstu ráðamenn þess gefi það fordæmi, sem þegnunum sé hollt að fylgja og hlýða, ekki síður þegar að þrengir, heldur en á velti- og velgengnisárum.

Ég tel, að það verði naumast séð fyrir afleiðingar þess, ef Alþingi gerir engar ráðstafanir til að stöðva dýrtíðarflóðið og stemma stigu við taumlausu okri og fjárplógi, sem nú um sinn hefur fengið að geisa eins og logi yfir akur og hefur eytt tekjum vinnandi fólks, að því er virðist undir allra hæstri velþóknun ríkisstj.

Það er vissulega ekki hægt að búast við því, að auðurinn og örbirgðin búi miklu lengur, en orðið er friðsamlega hlið við hlið í íslenzku þjóðfélagi, ef ekkert verður að gert.

Með tilliti til þessa, sem ég nú hef verið að segja, — þó að fáir hafi á það hlýtt og bekkirnir séu hér þunnskipaðir eins og oftar, — þá er það sannfæring mín, að hæstv. ríkisstj. ætti að láta endurskoða alla afgreiðslu fjárlagafrv. með það fyrir augum, að nema burt úr því öll þau útgjöld, sem ekki verða að teljast lífsnauðsyn fyrir fátækt þjóðfélag. Jafnframt þessu eigi að framkvæma lækkun á tollum og sköttum, og löggjafarvaldið verði jafnframt þessu að gera löggjafarráðstafanir til lækkunar á vöxtum til aðstoðar við atvinnulífið, lækkunar á farmgjöldum, lækkunar á álagningu bæði heildsala og smásala og setja upp öruggt eftirlit með því, að hinum nýju lagaákvæðum verði fylgt.

Því yrði vitanlega til svarað, að það fyrsta, að lækka tolla og skatta, þyldi ríkisbúskapurinn ekki, en ég nefndi það líka, að það yrði að skera öll lítt þörf útgjöld burt úr fjárlagafrv., öll útgjöld önnur en þau, sem jafnvel fátæk þjóð kæmist ekki hjá að inna af hendi. Ef jafnframt væru gerðar ráðstafanir til lækkunar á verðlagi í landinu, þá kæmi að því innan stundar, að vísitalan lækkaði. Þar með drægi úr útgjöldum ríkisbúskaparins. Þar með drægi úr útgjöldum allra atvinnuvega í landinu. Þar með yrðu þeir sterkari og gætu haldið uppi meiri atvinnu. Þá drægi úr atvinnuleysinu. Þá létti þeim byrðum af þjóðfélaginu að þurfa að aðstoða atvinnulífið, eins og það verður nú að gera með allháum fjárupphæðum, þegar út í neyðina er komið. Þá væri stefnt til betra lífs á Íslandi.

En ef fjárlög verða nú afgreidd með þessum hætti og engar lagaráðstafanir gerðar til þess að bæta lífsafkomu þess fólks, sem nú þjáist af atvinnuleysi og tekjuskorti, þá er þetta sama fólk knúið til að beita afli samtaka sinna til þess að fá kjör sín bætt með einhverju móti, e.t.v. á þann hátt, sem þjóðfélaginn væri ekki til eins mikillar farsældar og ef hæstv. ríkisstj. væri vakandi á verðinum og sýndi vilja og einbeitni til þess að opna aðrar farsællegri leiðir.

Ég geri mér að vísu harla veikar vonir um það, að núverandi ríkisstj. hafi nægilega einbeittan vilja til þess að framkvæma svona niðurfærslu- og sparnaðarleið, sem vissulega hlyti að koma nokkuð við marga aðila í þjóðfélaginu, og ég veit það vel, að ríkisstj., sem ætti að færast slíkt í fang, yrði að trúa á einhvern annan guð, en sína eigin pyngju. En um þá trú er ég hræddur um að sé fullmikið innan hæstv. ríkisstj.

Hv. meiri hl. fjvn. hefur nú víkið frá þeirri venju, sem fylgt hefur verið nokkur undanfarin ár, og hefur nú gert brtt. við tekjuhlið fjárlagafrv. við 2. umr. Þetta eru þó frekar smávægilegar breytingar við tekjuhliðina, en á undanförnum árum hefur það verið svo, að tekjuhliðin hefur verið áætluð of lág, svo að milljónatugum hefur skipt. Og það hefur áreiðanlega ekki verið neitt óviljaverk, heldur verið hagað þannig með það fyrir augum, að hægt væri að segja, þegar til útgjaldanna kæmi: Við höfum ekki tekjustofna til þess að taka á okkur þessi eða hin — jafnvel fremur nauðsynleg útgjöld, og víkjum þeim því frá okkur. — En svo hefur reynslan sýnt, að tekjurnar hafa orðið miklu hærri, og þær till., sem ég hef gert til hækkunar á tekjuhliðinni, hafa frá ári til árs nú í mörg undanfarin ár staðizt og sýna, að það hefði verið óhætt að áætla tekjurnar mun hærri.

Í upphafi nál. hv. meiri hl. n. er það upplýst, að 1951 hafi tekjur ársins orðið 413.5 millj. kr., eða 115.5 millj. kr. hærri, en áætlað var í fjárlögum. Þarna er ekki hlífzt við að segja sannleikann, og hann er á þá leið, að tekjurnar hafi verið áætlaðar nokkuð á annað hundrað millj. kr. lægri, en þær voru, og svo miklu skeikar ekki skýrum fjármálamönnum um áætlun frá ári til árs. Þetta hefur því miður verið vitandi vits of lágt áætlað til þess að koma sér hjá að áætla á móti gjöld, og verður þetta því að teljast tilraun til þess að taka fjárveitingavaldið úr höndum Alþ. miklu meira, en góðu hófi gegnir og miklu meira, en nokkrir fjmrh. eða ríkisstj. á þingræðislegan rétt til.

Ég hef nokkuð kynnt mér þá skýrslu um tekjur og gjöld ríkissjóðs, sem fjvn. var send núna um síðustu mánaðamót, og ég þykist af því sjá, að það sé óhætt að hækka tekjuhlið þessa fjárlagafrv. nokkru meira, en meiri hl. fjvn. hefur þegar lagt til. Ég tel, að það sé einsætt, að þar sem tekju- og eignarskattur, að meðtöldum tekjuskattsauka, hefur nú verið á lagður 58 eða 59 millj. kr., þá sé óhætt að áætla hann 55–56 millj. kr., gerandi þá ráð fyrir, að 4–5 millj. kr. innheimtist ekki eða verði að teljast afföll vegna hugsanlegra lækkana hjá ríkisskattanefnd. En í mörg undanfarin ár hefur það ekki komið fyrir, að þessi lækkun væri meiri en 2–3 millj. kr. Nú er þetta áætlað í fjárlagafrv. 52 millj., og hv. meiri hluti held ég að telji óhætt að hækka það um 2 millj.

Það virðist líka af þessu yfirliti, sem fjvn. hefur verið sent frá ríkisbókhaldinu, að óhætt sé að hækka vörumagnstollinn um allt að 4 millj., innflutningsgjald af benzíni einnig nokkuð, og það er alveg augljóst mál, ef menn ætla ekki vitandi vits að áætla söluskattinn of lágan, að þá má hækka hann um 10–12 millj. kr., kannske öllu betur. Ég tel alveg öruggt, að það megi hækka tekjuhlið þessara fjárlaga, — ef menn ætla að vera eitthvað nálægt raunveruleikanum og verða sér minna til skammar, en á undanförnum árum með alrangar áætlanir, — um fast að 30 millj. kr., 28–30 millj. kr.

En þar sem ég, eins og ég sagði í upphafi máls míns, lít svo á, að þessi 2. umr. um fjárlögin núna sé raunverulega málamyndaafgreiðsla, þá tel ég miklu réttara, að við Alþýðuflokksmenn bíðum með allar okkar meginbrtt., bæði við tekju- og gjaldahlið fjárlagafrv., til 3. umr. Þá er betur séð, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að afgreiða frv. endanlega, og þá liggja líka fyrir upplýsingar um það, hvernig tekjur nóvembermánaðar hafa gefizt, og er þá skammt til áramóta og lítill vandi að áætla tekjuhlið frv. nokkurn veginn rétt, ef vilji er fyrir hendi.

Ég hef haft nokkurt gaman að því að sjá hið langa og ýtarlega nál. hv. meiri hl. fjvn. og verð að játa það, að það er í raun og veru fullt af gagnrýni á stjórnarstefnuna og afleiðingar hennar í þjóðfélaginu. Það er t.d. tekið fram í upphafi nál., að opinberum stofnunum og ríkisfyrirtækjum virðist vera veitt mjög lítið aðhald. Þar er skýrt frá því, að embættismenn, jafnvel sumir forstjórar og skrifstofustjórar, hafi að ýmsum leiðum fengið laun sín hækkuð umfram launalög. Sumir fái verulega greiðslu fyrir aukavinnu, sem geti leitt til allt að tvöföldun embættislauna. Og það er tekið fram alveg réttilega, að svona nokkuð valdi óánægju. Það raskar líka með öllu samræmi í launagreiðslum, og þegar þetta er orðið jafnalgengt og nú á sér stað, þá væri miklu réttara að afgreiða ný launalög, sem væru hækkuð frá þeim núgildandi, því að við það fengist samræmi milli launa, frekar en nú á sér stað, því að sumir sitja við sín lögboðnu laun, en aðrir eru með aukatekjur, sem gera það að verkum, að laun jafnvel, meira en tvöfaldast.

Meiri hl. n. lætur í ljós, að það væri æskilegt, að skýrslum væri safnað um þessar aukagreiðslur í ríkisbákninu, og ég tek undir það, og hefði verið æskilegt, að sú skýrsla hefði legið fyrir í upphafi þessa þings, svo að hægt hefði verið að lagfæra þetta núna í sambandi við afgreiðslu fjárlagafrv. En hv. meiri hl. n. telur, að þessi skýrsla þyrfti að liggja fyrir, áður en þessu þingi lýkur. Ef þeirri bæn væri nú fullnægt, þá væri það svo, að við gætum fengið að vita rétt undir þinglokin, hvernig þetta ófremdarástand lítur út og hversu alvarlegt þetta ástand sé, en engin aðstaða væri til að gera þar nokkra lagfæringu á.

Hv. meiri hl. fjvn. segir nú og hefur sagt mörg undanfarin ár, að það væri nauðsynlegt að veita stofnunum ríkisins í heild miklu meira aðhald, en gert sé, og það er hárrétt. En það þýðir lítið að segja þetta frá ári til árs og gera engar till. um aukið aðhald, og það hefur hv. meiri hl. fjvn. látið undir höfuð leggjast nú eins og öll undan farin ár, enda þótt jafnan hafi verið haft orð á þessu.

Það er getið hér í nál. meiri hl. um stofnanir, sem hafi greitt mörg hundruð þús. kr. fyrir aukavinnu til starfsmanna sinna. Og þegar þetta er dregið saman, eftir því sem nefndin hefur komizt næst samkvæmt nafnkenndum upplýsingum, sem lágu fyrir n., þá er talið, að það sé 7–8 millj. kr., sem greitt sé hjá ríki og ríkisstofnunum fyrir aukavinnu. Þegar heildarskýrsla lægi fyrir, þykir mér þó ekki ólíklegt, að þetta yrði meira. Ég gæti vel trúað að þetta nálgaðist milljónatuginn. — Þar, sem halli er á ríkisstofnunum, virðist ekki vera lögð höfuðáherzla á að skipa þeim stofnunum að útrýma rekstrarhallanum með auknum sparnaði. Þegar það blasir við, að pósturinn er rekinn með halla, þá er tekið á því sem fyrsta úrræði, að það þurfi að hækka burðargjöld, sérstaklega fyrir prentað mál, og þannig koma hallanum yfir á almenning. Ekki yrði það lækning á dýrtíðarvandamálinu, ef það ætti að vera aðalúrræðið enn, í viðbót við allt annað, að hækka gjöldin, sem almenningur á að greiða fyrir þá ríkisþjónustu, sem veitt er, t.d. þarna hjá póstinum. Þegar ég fletti svo við og kem á næstu síðu, þá er það sama hjá ríkisútvarpinu, þar er lagt til, að afnotagjöldin hækki úr 125 kr. á ári í 200 kr., og þar með á að lækna hallareksturinn hjá þeirri stofnun. Það er þessi sama stofnun, sem upplýst er og allir vita að býr í bæði dýru og jafnframt ónógu leiguhúsnæði, en á þó meira en hálfa fjórðu millj. kr. sjóð, sem mun heita framkvæmdasjóður, en mun nú vera í lánum hjá hinum og þessum, m.a. hjá stórauðugum kaupsýslumönnum hér í borginni, — lánum, sem eru með svo lágum vöxtum, að þeir eru lægri, en af því fé, sem sama stofnun verður að taka að láni. Það virðast vera heldur ömurlegir viðskiptahættir og ekki forsjál fjármálaráðsmennska að koma ríkisstofnun í þá aðstöðu, og vitanlega hefur þetta gerzt með ráðherrasamþykki.

Það er líka frá því skýrt, að n. hafi borizt erindi frá dómsmrn. og fleiri ráðuneytum, sem boði verulegar hækkanir, og við getum átt von á því, að þær eigi eftir að sýna sig betur áður en fjárlagafrv. verður afgr. við 3. umr. Og í nál. meiri hl. er vikið að því nálega í sambandi við hverja grein fjárl., að starfsmenn hins opinbera hafi haft aðstöðu til að öðlast kjarabætur og sumir allverulegar. Ég verð nú að segja, að þegar stjórnarflokkarnir vita um þetta, að embættismannalýður þjóðfélagsins, sem hefur allt annað og meira lífsöryggi, en verkalýðsstéttin, hefur fengið stórkostlegar kjarabætur undir handarjaðri ríkisvaldsins og með samþykki þess og fær blessun ríkisstj. yfir það á hverju einasta ári með afgreiðslu fjárl., þá getur ríkisstj. ekki litið á það með vanþóknun, að þær stéttir þjóðfélagsins, sem verða fyrir barði atvinnuleysisins, fái kjarabætur, svo að þær geti dregið fram lífið á sómasamlegan hátt. Og mér skilst, að samræmis og réttlætis vegna hljóti sú sama ríkisstj. raunverulega að veita lítilmagnanum lið í því efni, að hann fái einnig slíkar kjarabætur, sem miklu betur settar stéttir þjóðfélagsins hafa fengið með fullri vitund hinna ráðandi afla á hverjum tíma.

Ég vil svo að síðustu víkja að því, sem ég talaði hér um áðan, að ég geri mér til síðustu stundar vonir um það, að hæstv. ríkisstj. láti endurskoða alla afgreiðslu fjárlagafrv. með það fyrir augum að nema úr því öll lítt þörf útgjöld, þannig að ekkert standi í því nema hin óumflýjanlegustu útgjöld fátækrar þjóðar, og jafnframt geri hún viðtækar lagaráðstafanir til að lækka verðlag í landinu og veita atvinnulífinu á þann hátt þá aðstoð, sem það nú mjög þarfnast, og hinu vinnandi fólki í landinu aukna möguleika til þess að fá að starfa og möguleika til bættrar afkomu gegnum aukinn kaupmátt launanna, sem því verða greidd. Það er þetta, sem ég tel að sé hlutverk ríkisstj. og Alþ. í sambandi við afgreiðslu fjárl. og lagasetningu á síðari hluta þessa þings.

Ég tek að síðustu fram, að a.m.k. allar megintill. Alþfl. í sambandi við afgreiðslu fjárl. verða látnar biða 3. umr., þegar séð er betur, hvaða endanleg afgreiðsla er fyrirhuguð þessu frv., sem hér er til umræðu.