27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

1. mál, fjárlög 1953

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 344 ásamt hv. þm. Siglf. till. um, að upphæð sú, sem ætluð er til styrktar íslenzkum námsmönnum erlendis, — þ.e. á 14. gr. B. Il. a., — verði hækkuð úr 875 þús. kr. í 1.275 þús. Þessi upphæð, sem við leggjum til, er hin sama og verið hefur undanfarin 2 ár. En í þetta sinn hefur framlagið til þessara styrkja verið lækkað um 400 þús. kr., en um leið er gert ráð fyrir 400 þús. kr. framlagi til „styrktarsjóðs námsmanna“, eins og það er orðað í frv. Það ákvæði er að vísu næsta óljóst, en ganga má út frá því, að það, sem þarna segir um styrktarsjóð námsmanna, eigi við sjóð þann, sem í frv., sem er til athugunar í menntmn. Nd., er kallaður „lánasjóður fyrir íslenzka námsmenn erlendis“. Gerir það frv. ráð fyrir, að sjóður þessi starfi við hlið menntamálaráðs og í sambandi við það, en úr honum á, eins og nafnið bendir til, að lána fé til íslenzkra námsmanna erlendis. Málið horfir þá þannig við, að framlag til beinna styrkja handa námsmönnum er lækkað um 400 þús. kr., en sú upphæð færð yfir á sjóð, sem enn er aðeins til á þskj. og ekki er víst að yfirleitt verði stofnaður. Og ef svo færi nú, að hann yrði ekki stofnaður, þá hafa námsmennirnir þar með verið sviptir 400 þús. kr., sem þeir áður fengu sem beina styrki, en gætu nú ekki einu sinni fengið sem lán. — Þó að frv. yrði að lögum og lánasjóður þessi stofnaður, þá væri alls ekki heldur hægt að sætta sig við þessa lækkun á styrkjunum. Þeir mega auðvitað alls ekki minnka, eins og nú er komið námskostnaði. En veiting lána, sem gert er ráð fyrir að verði endurgreidd, ætti að vera þeim óviðkomandi og koma sem aukning við aðstoð þá, sem námsmönnum er veitt, en ekki sem skerðing á henni.

Ég þykist með þessu hafa sýnt fram á réttmæti þessarar brtt., en ég vil aðeins láta þess getið að lokum, að út af fyrr nefndu frv. ríkisstj. um lánasjóð fyrir íslenzka námsmenn erlendis hefur menntmn. Nd. borizt bréf frá menntamálaráði, þar sem það lýsir sig m.a. þeirrar skoðunar, að mjög óeðlilegt væri að lækka framlag til beinna námsstyrkja, þó að slíkur lánasjóður yrði stofnaður.