27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

1. mál, fjárlög 1953

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Því miður er ekki búið að útbýta þeim brtt., sem ég hef flutt við fjárl., svo að það er eiginlega ekki að öllu leyti gott að fara að mæla fyrir þeim strax. Hins vegar er það máske hægt, þótt ekki sé það eftir þingsköpum, sérstaklega ef maður færi þá eitthvað að hugleiða um leið frekar viðvíkjandi afgreiðslu fjárlaganna eins og þau nú eru lögð fyrir.

Mér finnst nú satt að segja hálfundarlegt að vera að afgreiða fjárlög á þinginu. Ég sé ekki betur, en núverandi hæstv. ríkisstj. áliti sig ósköp vel komast af án þess að fá fjárlög frá Alþ. Ég held, að þetta sé að verða bara gamall síður, sem ríkisstj. sé ekki búin alveg að átta sig á að hún ætti að losa sig við, að vera að afgreiða fjárlög héðan frá Alþingi — eins og yfirleitt það að vera að hafa þing hér sitjandi. Svo að segja hvert einasta mál, sem flutt hefur verið á þessu þingi, liggur í n., nema stjórnarfrv. Hér er leikinn sá skollaleikur, að þingmenn stjórnarflokkanna flytja fram hvert frv. á fætur öðru um stórkostleg útgjöld úr ríkissjóði, stórkostlegar ábyrgðir, stórkostleg lán. Öllum þessum frv. er vísað til nefnda. Siðan slást þeir sjálfir á móti því í n., að það sé afgreitt úr nefnd. Þegar svo fjárl. koma fram, þá er náttúrlega ekki eitt einasta atriði af öllu því, sem þessir hv. þm. stjórnarflokkanna eru að koma fram með, í fjárlögunum. M.ö.o., það er verið að leika sér að því að gera þingið og þingstörfin að argasta skrípaleik með þessu móti. Á þingfundunum í deildunum eru þm. stjórnarflokkanna látnir koma fram með frv. upp á 7 millj., 4 millj., 30 millj., 90 millj., bjóða hver öðrum betur. Svo kemur ríkisstj. og lætur sinn meiri hluta í fjvn. afgreiða fjárlög, og þar sést ekki tangur né tetur af öllu þessu, sem þm. stjórnarinnar eru látnir flytja þess á milli, og það allt saman svæft í n. Svo er tilkynnt: Þingið heim fyrir jól — Það er alveg auðséð, að hæstv. ríkisstj. er nú, af því að svo vill til, að þetta er síðasta þing fyrir kosningar, að leika sér að því að gera þingstörfin að skrípaleik. Hvað svo um sjálfa afgreiðslu fjárlaganna? Á sama tíma sem hér er verið að deila um, hvort maður eigi nú að veita ríkisstj. heimild til að greiða t.d. 2 þús. kr. eða 5 þús. kr. eða 10 þús. kr. eða 1 millj. kr., og verið er að deila um, hvort það eigi nú að áætla 2 millj. kr. hærra, 5 millj. kr. hærra söluskatt, vörumagnstoll, verðtoll eða eitthvað slíkt, hvað gerir þá hæstv. ríkisstj.? Jú, hæstv. ríkisstj. fer í vasa almennings, tekur 100 millj. kr. og riflega það úr vasa almennings og úthlutar til einstakra manna í landinu án heimildar í lögum, án ráðstöfunar í fjárlögum um, hvernig því skuli úthlutað. Ég á hér við bátaútvegsgjaldeyrinn. M.ö.o. það, sem Íslendingar og Danir voru einu sinni að slást við Estrup-stjórnina út af, að taka fé af almenningi án heimildar ríkisins, án heimildar þings, — það er þessi núverandi ríkisstj. alltaf að láta framkvæma. Þegar þetta er tekið fyrir hér til þess að ræða það, þá fást ráðh. ekki til þess að svara. Það virðist nú svo, þegar haft er svo mikið við okkur þm. að fara að leggja hérna fyrir okkur allt niður í 800 kr. útgjöld á fjárlögunum, að þá hefði mátt taka með smápósta, kannske 60 millj. kr. á einu ári eins og bátaútvegsgjaldeyrinn, og láta ekki þessa hluti vera alveg utan við öll fjárlög.

Það er ekki nóg með, að þetta sé gert, sem er náttúrlega það stórkostlegasta í því. Það er auðséð, að hæstv. ríkisstj. er smám saman að skapa sér hin og þessi fyrirtæki utan við fjárlögin, sem hún eigi að geta ráðstafað ágóðanum af, eftir því sem henni þóknast. Hv. frsm. 1. minni hl. benti hér á það, að það væri orðið nokkuð óviðkunnanlegt bæði viðvíkjandi fjárhagsráði og fleiru slíku. Gróðinn af fjárhagsráði er, eins og sýnt var fram á, 31/2 millj. kr., og hér var nýlega verið í Sþ. að ræða um gróðann af sölu setuliðseigna, sem vafalaust verður hægt að auka nokkuð mikið, ef farið verður að selja allt ruslið, sem núna er verið að safna saman á Keflavíkurflugvelli, og ef ríkisstj. á að fá það eins og smáprovision til þess að ráðstafa utan fjárlaganna. Þegar farið verður að setja þá tiltölulega nýju bíla, sem Ameríkanarnir eru að leika sér að, að keyra í klessu, þá fer þetta ekki að verða neitt smáræði. Hvað var það nú, sem var upplýst að salan á svo kölluðum setuliðseignum væri utan fjárlaganna? Voru það ekki einar 2–3 milljónir, sem var hægt að hafa upp úr því? Maður sér ekki betur, en að ríkisstj. sé að mynda sér smávegis svartamarkaðssjoppur eins og fjárhagsráð og annað slíkt utan við fjárlögin, til þess að ná sér í aura, sem hún getur disponerað eins og henni þóknast og þarf ekki að leggja fyrir þingið. Og þegar hæstv. fjmrh. siðan er af einum hv. þm. krafður sagna um þetta, þá segir hann: „Jú, það er nú kannske rétt að setja þetta á næstu fjárlög.“ Sjálfur fyrirskipaði hann fyrir skömmu — eða hans flokkur — að taka fjárhagsráð út af fjárlögum. Svo býst ég við, þegar við höfum sýnt fram á, hvernig eigi að taka tekjurnar fyrir útgjöldin, sem við leggjum til að framkvæmd séu, þá verði sagt: „Þið bendið ekki á nokkrar tekjur fyrir þessu“ — og hæstv. fjmrh. fari jafnvel að tala um ábyrgðarleysi í sambandi við þetta. Ég er nú hérna með smávægilegar till.

Ein till. er um, að það sé lögð fram ein millj. kr. til þess að koma í framkvæmd — þótt ekki sé nema að hverfandi litlu leyti — l. um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Þau l. voru sett út úr funktion, af því að það var sagt, að ekki væru til peningar. Þriðjungurinn af gróðanum af fjárhagsráði væri nægilegur til þessa. Og svo legg ég til samsvarandi þessu, að veitt sé heimild til lántöku eins og gengið er út frá, að gert sé, í 3. kafla l. um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, þeim kafla l., sem fjallar um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Og það virðist nú satt að segja ekki til mikils mælzt, að ofur litlu af þeim svartamarkaðsálögum ríkisstj., sem hún stingur undan og sýnir ekki í fjárlögunum, sé varið í því skyni, að ríkið hjálpi til þess að bæta ofur lítið úr húsnæðisleysinu og láti rífa ofur lítið af verstu bröggunum, meðan enn þá er við haldið þeim einokunarlögum að banna Íslendingum sjálfum að byggja yfir sig.

Hv. frsm. fjvn. talaði um það í sinni framsöguræðu, að það væru gerðar kröfur til ríkisins og allt væri heimtað af ríkinu. Ég vil minna stjórnarflokkana á það, að það, sem þjóðin heimtar af ríkinu, er að fá að vera í friði fyrir afskiptum ríkisstjórnarinnar, fá að vinna í friði fyrir ríkisstjórninni, fá að veiða sinn fisk og selja hann út úr landinu í friði fyrir ríkisstjórninni, fá að byggja sér hús og búa í þeim í friði fyrir ríkisstjórninni, — að hún komi ekki nærri þessum hlutum. Og það, sem hér hefur verið farið fram á, á Alþ., er, að einokuninni á þessum hlutum, einokuninni og banninu á byggingunum, einokuninni og banninu á fiskútflutningnum, sé aflétt, en það er það, sem ekki fæst. Af hverju ekki? Af því að það er lítil klíka, sem ræður þessu ríki, ræður útflutningnum, ræður byggingarstarfseminni, og vill ekki létta þessari einokun af, af því að hún vill hagnýta ríkisvaldið fyrir sig og banna almenningi í landinu allt frelsi. Það er ekki til neins að koma með neinar ásakanir á alþýðu þessa lands, á meðan henni eru bannaðar bjargirnar af þeim, sem völdin hafa í þjóðfélaginu.

Ég vil minna á, að ástandið, sem nú er í þjóðfélaginu, er ekki sök alþýðu manna. Að svo miklu leyti sem alþýðan hefur haft einhver áhrif á stjórnarfarið á undanförnum árum, þá hefur hún knúið það fram, að stórkostleg atvinnutæki væru keypt hingað inn í landið. En sú hönd, sem nú hindrar, að þessi tæki séu hagnýtt að fullu, er auðmannaklíkan hérna í Reykjavík, sem með lánsfjárbanninu og útflutningseinokuninni kemur í veg fyrir fulla hagnýtingu togaranna, hraðfrystihúsanna og okkar fiskiðjuvera. Öll þau tæki, sem á tímum nýsköpunarstjórnarinnar voru lögð upp í hendurnar á þjóðinni, er nú meira eða minna bannað að nota til fulls sakir þeirrar stjórnmálastefnu, sem núna ríkir í landinn, þeirrar stjórnmálastefnu, sem vill skapa atvinnuleysi og markvisst vinnur að því að skapa atvinnuleysi og viðheldur banninu á útflutningi íslenzkra afurða og á byggingu íbúða hér á Íslandi til þess að geta við haldið og haft mátulega mikið atvinnuleysi og stjórnar meira að segja, því ekki betur en svo, að atvinnuleysið verður hörmulega mikið, þannig að það sverfur að fólki um allt land.

Það er ekki aðeins hérna á Íslandi nú sem stendur, sem þessi háttur er hafður á. Ég tók eftir því, að af öðru Marshalllandi, Danmörku, hafði sá fulltrúi alþýðunnar, sem þaðan hefur verið sendur hingað nú til þess að mæta á alþýðusambandsþinginu, alveg sömu lýsinguna að gefa. Ritari danska verkalýðssambandsins, Karl P. Jensen, sem er gestur Alþýðusambands Íslands nú, fór í ræðu, sem hann flutti á yfirstandandi þingi Alþýðusambandsins, eftirfarandi orðum um þá stefnu, sem ríkir í Danmörku, með leyfi hæstv. forseta:

„Stefna sú, sem ríkisstjórnin og flokkar hennar hafa haldið uppi undanfarið, stöðvun lánveitinga og lítt takmarkaður innflutningur tilbúinna vara, sem við gætum framleitt sjálfir, hefur leitt til þess, að atvinnuleysi hefur aukizt og iðnaðarframleiðslan minnkað. Atvinnuleysið hefur vaxið samhliða framkvæmd þessarar stefnu, og nú eru 65–75 þúsundir atvinnulausar í Danmörku. Þessi ískyggilega þróun hefur hins vegar ekki valdið dönsku ríkisstjórninni áhyggjum. Hún álítur það vera takmark sitt, eins og það er takmark atvinnurekenda, að koma upp nokkurs konar varaliði atvinnulausra iðnaðarverkamanna og hafa þannig áhrif á vinnumarkaðina með það fyrir augum að geta ráðið að mestu árangrinum af launabaráttu verkamanna og geta stöðvað eðlilega hækkun launanna.“

Þetta voru orð þessa ritara danska verkalýðsfélagasambandsins um þá stefnu, sem rekin er í Danmörku, og ég býst við, að menn kannist við sömu myndina hérna heima, hvernig atvinnuleysið hefur verið skipulagt til þess að skapa ríkisstj. þar með betri aðstöðu til þess að halda laununum niðri, hvernig afkoma almennings hefur verið rýrð með ráðstöfunum ríkisstj. Á sama tíma er svo skapaður stórkostlegur gróði í landinu fyrir einstaka aðila, meiri gróði, en þeir hafa haft nokkurn tíma áður. Útvegurinn og atvinnurekendurnir eru látnir tapa. Málunum er stjórnað þannig, að togaraeigendur og vélbátaeigendur eru neyddir til að tapa. Á sama tíma græðir — við skulum taka bara eina stofnun, sem ríkið ræður yfir — Landsbankinn 28 millj. kr. á síðasta ári. Og ég veit, að hv. þm., sem hafa staðið í því á undanförnum árum að gefa eftir tapið á fimm síldarvertíðum, muna, hvað það var, 15–16 millj. kr. fyrir mislukkaðar síldarvertíðir, en á hverju af þeim árum græddi Landsbankinn 15–16 millj. kr., og nú síðasta árið, meðan atvinnureksturinn er að sligast undir pólitík ríkisstj., græðir Landsbankinn 28 millj. Hvað Eimskipafélagið græðir, — ég veit, að það er náttúrlega komið fram með frv. um skattfrelsi þess núna, — hvað olíuhringarnir græða, það skulum við ekki ræða um.

Það er enginn smáræðis gróði, sem skapaður er hérna í landinu, og þó sér ríkisstj. til þess, að mesti gróðinn, sem skapaður er á Íslandi, safnast fyrir erlendis, og til þess er einokuninni á íslenzkum afurðum haldið við. Ég vil aðeins taka þetta fram vegna þess, að í fyrsta lagi er skapaður með þeirri vinnu, sem nú er unnin á Íslandi, stórfelldur gróði, sem það vinnandi fólk sjálft fær ekki að njóta. Í öðru lagi eru þau atvinnutæki og það vinnuafl, sem til er á Íslandi, ekki hagnýtt nærri því til fulls fyrir hringlandi vitlausa pólitík eða vísvitandi tilgang ríkisstj. að skapa atvinnuleysi, sem hún þarf á að halda í baráttu sinni við verkalýðinn til að ræna af honum arði hans vinnu. Ég vil taka þetta fram vegna þess, að það þýðir ekki neitt að koma svo á eftir, þegar þau atvinnutæki, sem alþýðan hefur átt sinn þátt í að fá hingað inn í þetta land, eru hagnýtt svona, og fara að predika sparnað fyrir vinnandi stéttum landsins, — það er ekki til nokkurs skapaðs hlutar. Svo framarlega sem þær fengju að hafa áhrif á stjórn landsins, þótt ekki væri meira en á svipaðan hátt og gert var á tímum nýsköpunarstjórnarinnar og í svipuðum anda, anda þess að skapa atvinnu handa öllum, tryggja, að allt vinnuafl væri hagnýtt, allir kraftar þjóðarinnar hagnýttir, þá þyrftu menn ekki að kvarta yfir sívaxandi fátækt og vaxandi hörmungum í okkar landi. Við erum ríkari, en við vorum þá. Við njótum nú þeirrar giftu að eiga þau tæki, sem þá voru keypt inn, og gætum haft þau öllsömun í gangi, ef ekki væri fyrir ómögulega stjórn á málum þjóðarinnar, skipulagt yfir okkur atvinnuleysi og hörmungar. En það leiðir af sjálfu sér, að það er ekki til neins að ætla að gera brtt. við fjárlögin til þess að breyta þessu. Fjárlögin verða endurspeglun af því þjóðfélagsástandi, af því atvinnuástandi, sem er á hverjum tíma. Hæstv. fjmrh. er máske einhver bezti gjaldkerinn, sem Ísland hefur átt, en hann er líka sá versti stjórnandi á atvinnulífi þess, sem nokkurn tíma hefur komið nærri atvinnumöguleikum Íslendinga. Fyrir honum er allt gums, sem heitir að skapa möguleika fyrir þessa þjóð til að geta lifað, framleitt og látið sér líða vel. Fyrir honum eru togararnir, sem við núna byggjum okkar tilveru á, gums, sem honum þótti líklegast, að þjóðin sæti bara uppi með og gæti ekki notað. Þegar hæstv. fjmrh. kemur þess vegna hér í stólinn til þess að fara að hnýta í einstaka þm., þá situr það sannarlega ekki á honum. Það, að nú er reynt að halda þessu þingi við það að takmarka sig við þessi fjárlög, eins ömurleg og þau eru, er vegna þess, að það er búið þannig að atvinnulífi þjóðarinnar, að undirstöðunni, að grundvellinum, að það þyrfti fyrst og fremst að breyta þeim grundvelli, til þess að hægt væri að breyta þessum fjárlögum. Gangandi út frá þeim grundvelli, sem er, gangandi út frá þeirri atvinnupólitík, sem hæstv. fjmrh. ríkisstj. rekur, þá skil ég það ákaflega vel, að hv. form. fjvn. líti eiginlega á það sem sitt verkefni að reyna að halda öllu innan þeirra vébanda, sem þessi fjárlög núna eru. Það er ekki svo gott að ætla að deila á meiri hl. fjvn. í þessu sambandi. Þeim aðilum eru skapaðar aðstæðurnar annars staðar frá með þeirri heildarstefnu, sem rekin er í þjóðfélaginu, með þeirri hringavitlausu stefnu, sem þar er rekin. Og við höfum horft framan í slíka stefnu áður, þannig að við þekkjum þetta, og sama eymdarsönginn.

Það er misskilningur, að atvinnulífið dragist saman. Það er dregið saman. Það er visvitandi verið að draga úr því af þeim mönnum, sem ráða í þjóðfélaginu. Það, sem við getum þess vegna gert, er í hæsta lagi að koma fram með smávægilegar till. í sambandi við fjárlögin, sem okkur hlýtur ákaflega vel að vera ljóst að eru við þær aðstæður, sem fjárlögin eru samin, langt frá því að ná tilgangi sínum. Ég flyt hér ásamt fleiri hv. þm., till. um 10 millj. kr. til atvinnuframkvæmda. Ég flyt þessa till. vegna þess, að ég veit, að það er gífurlega mikil þörf á þessu. Ég veit enn fremur, að það eru nægir peningar til fyrir henni. Meira að segja bara, ef ekki væri sleppt út af fjárlögunum ákveðnum upphæðum núna, sem faldar eru, þá nægði það til þess. En ég veit hins vegar, að þessar 10 millj. duga ekki neitt. Ég vil þó minna á, að það liggur lítið frv. í fjhn. Nd., ef ég man rétt, frá allmörgum þm. Sjálfstfl., ósköp fallegt frv. Það er frv. um, — ég man ekki, hvað milljónirnar eru margar, ég held, að það séu nú bara 4 millj. fyrsta árið og svo bætt dálitlu við áfram, en alls er verið að ráðstafa í því frv. um 10–20 millj., ef ekki meiru, og svo náttúrlega svo og svo miklu úr mótvirðissjóðnum. Þannig eru þessar 10 millj., sem ég kem hérna með ásamt fleiri hv. þm. Sósfl., náttúrlega ósköp lítið, samanborið við það, sem þessir þm. Sjálfstfl. eru að leggja til. En mér sýnist líka það frv. þm.

Sjálfstfl. eiga að fá að sofa ósköp rólegum svefni í þeirri n., sem það er komið til. Og ég hef ekki séð örla neitt á því, að það væru teknar upp samsvarandi till. hjá fulltrúum ríkisstj., þegar nú er verið að afgreiða fjárlögin. Ef til vill mætti þess vegna ætla, að nokkur grundvöllur væri fyrir að fá samþ. þessa litlu till. um 10 millj. til atvinnuframkvæmda, en það vil ég svo taka fram, til þess að firra misskilningi, að það væri ekki þörf á að taka þetta inn á fjárlög, ef sjálf stefnan í atvinnumálum þjóðarinnar væri heilbrigð.

Ég vil svo að síðustu minnast á eitt mál, sem ég flyt ekki, en er í þeim till., sem hv. frsm. 1. minni hl. fjvn. flytur, og ég hef áður komið nokkuð nærri að flytja hér á þingi. Það eru till. viðvíkjandi raforkumálunum. Ég ætla ekki að fara að mæla fyrir þeirri till hans, en ég ætla aðeins að minna á eitt. Ég ætla að minna á það, að það hefur rignt niður hér á Alþ. frv. viðvíkjandi raforkumálum, og það rignir niður kröfunum yfir raforkuráð um rafmagnsveitur, um raforkuver, um allar mögulegar aðgerðir í þessum efnum úti um allar sveitir landsins og ekki hvað sízt frá báðum stjórnarflokkunum og þm. þeirra. Og allar þessar tili. þeirra liggja í nefnd. Og öllum þessum till. þeirra er auðsjáanlega ekki ætlað að fara neitt lengra, sem sé bara að vera til að sýnast. Svo á að koma heim til kjósendanna rétt fyrir kosningarnar og segja: Ja, ég flutti nú svona og svona ágætt frv. í þinginu um framlög til raforkumála. — En ég vil bara minna hv. þm. á, að afgreiðslan á því, hvernig um raforkumálin fer, er ákveðin við meðferð fjárlaga, þannig að afstaða þeirra kemur þar í ljós, hvort þeir eru á móti því að fá rafmagn út í sveitirnar eða ekki.

Þá vildi ég að síðustu mæla fyrir brtt., sem ég flyt við 12. gr. fjárlaganna, um heilbrigðisstofnanir í Reykjavík, að í staðinn fyrir 1 millj. komi 2 millj. kr. Ég veit, að öllum hv. þm. eru kunn vandræði viðvíkjandi okkar heilbrigðisstofnunum, spítölum og öðrum, og hver nauðsyn er á að bæta þar úr. Þetta er ekki há upphæð, sízt af öllu miðað við það, sem haldið er utan fjárlaga, eins og ég gat um áðan. Það mætti ákaflega hæglega, ef t.d. gróðinn af fjárhagsráði væri tekinn inn, skipta honum þannig, að eln millj. færi til heilbrigðisstofnana í Reykjavík, önnur millj. færi til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði og t.d. þriðja millj. til raforkumálanna. En það getur verið, að ríkisstj. vilji heldur halda þessu utan við, það gæti verið þægilegra fyrir hana, en ég kann nú samt ekki við þá afgreiðslu fjárlaganna.

Ég vil leyfa mér að vona, að hv. þm. athugi nú þessar litlu brtt. og láti þann áhuga, sem þeir hafa haft fyrir flutningi frv. hér á Alþ., sem nú því miður liggja í n., koma fram í atkvgr. þeirra við afgreiðslu fjárlaganna nú við þessa 2. umr.