27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

1. mál, fjárlög 1953

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseli. Ég flyt hér ásamt þrem öðrum hv. þm. brtt. á þskj. 320, en hún er um það, að heimild verði gefin til þess, að Svavari Guðnasyni listmálara verði greiddur byggingarstyrkur að upphæð 30 þús. kr.

Svavar Guðnason er allvel þekktur listamaður, einn af þekktustu málurum okkar Íslendinga. Hann hefur tekið þátt í mörgum sýningum erlendis og haft sjálfstæðar sýningar hér heima. Hann vinnur eingöngu að list sinni, og gefur það heldur rýran sjóð, eins og menn vita, þannig að honum væri mikill styrkur að því, ef Alþingi yrði við því að veita honum þá upphæð, sem farið er fram á hér, til byggingar. Ég segi ekki, að það sé fastur siður, en það hefur verið nokkur venja um það, að slíkur byggingarstyrkur hafi verið veittur oftast nær einum listamanni á hverju þingi. Ég var að aðgæta í fjárlagafrv. og einnig í brtt. hv. fjvn. Ég sé ekki, að þar séu till. um neinn slíkan styrk eins og þennan, sem hér er borinn fram, þannig að ég tel, að af þeirri ástæðu og til þess að bregðast ekki venju sinni, þá ætti Alþingi áð samþ. nú að veita Svavari Guðnasyni þennan styrk. — Ég mun svo ekki fjölyrða frekar um þessa till. okkar.

Bernharð Stefánsson: Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann mikið hér og það af ástæðum, sem augljósar eru. Ég hélt, að það væri nú 2. umræða fjárlaganna, sem hér stæði yfir. En á meðan hv. 2. þm. Reykv. flutti sína ræðu, sem var reiðilestur að mestu leyti á stjórn og þing, þá fór ég að efast um, að þetta væri 2. umr. Mér fannst það miklu líkara því, að hann væri í eldhúsinu, og sjálfsagt á þingheimur eftir að heyra þessa ræðu aftur, þegar að eldhúsumræðunum kemur.

Ég ætla nú ekki að fara að svara þeirri ræðu, enda er hann hér ekki viðstaddur. En hann talaði m.a. um það, að það væri óþarft að vera að samþykkja fjárlög hér á Alþ., það ætti að láta ríkisstj. um það að ákveða fjárveitingarnar, og jafnvel talaði hann um það, að það væri óþarft með öllu að halda þing, því að ríkisstj. réði öllu og þá einhver klíka í kringum hana, sem hún hefði til ráðuneytis.

Þetta, sem hann er að tala um, mun nú aðallega vera það, að því er fjárlögin snertir, að það er vitanlegt, að stjórnarflokkarnir hafa hugsað til að hafa samtök um afgreiðslu fjárlaga, þannig að þau gætu orðið tekjuhallalaus og forsvaranlega afgreidd. Og þetta er ekki beinlínis neitt nýtt í sögu Alþ., að samtök séu um afgreiðslu fjárlaga. Ég á satt að segja bágt með að hugsa mér, hvernig afgreiðsla þeirra yrði, ef engin slík samtök væru fyrir hendi meðal þingmanna. Meira að segja þegar þessi hv. þm. studdi hér stjórn í tvö ár, þá höfðu þáverandi stjórnarfiokkar samtök um afgreiðslu fjárlaganna. Ég man svo langt, að þá þýddi ekki mikið fyrir stjórnarandstæðinga að bera fram brtt., og var þessi hv. þm. og hans flokksmenn engir eftirbátar annarra stjórnarstuðningsmanna þá í því að halda sig eingöngu við það, sem samkomulag hafði verið um í stjórnarflokkunum.

Ég á enga brtt. við fjárlfrv. vegna míns kjördæmis. Það er ekki sökum þess, að ríkisstj. banni það, að hennar stuðningsmenn flytji till. Og allir þm. hafa aðgang að hv. fjvn. um það að bera þar fram óskir viðvíkjandi sínum héruðum. Það er ekki heldur fyrir það, að ég sé að öllu leyti ánægður með það, sem hv. fjvn. af sinni réttvísi úthlutar mínu kjördæmi. Mér þykir t.d. vera veitt of lítið til vega í Eyjafjarðarsýslu og þó einkum vegna þess, að við þm. Eyf. vorum neyddir til þess að fallast á, að 100 þús. kr. af því fé, sem veitt er, færu til þess að byggja upp að nýju gamlan akveg, sem að réttu lagi ætti að gera fyrir það fé, sem veitt er til viðhalds vega. En þessi akvegur er eins konar lífæð meginhéraðsins í okkar kjördæmi og er að verða með öllu ófær oft og tíðum, t.d. mestan hluta vetrar. Ekki hefur fengizt nægilegt fé til hans af viðhaldsfé vega, og þá er ekkert annað að gera en að fara þessa leið, en vitanlega gengur það þá út yfir aðrar nýbyggingar vega í héraðinu, sem eru mjög litlar þar af leiðandi.

Ég get út af fyrir sig líka verið hv. fjvn. þakklátur fyrir till. hennar um framlag til Ólafsfjarðarhafnar. En það vil ég þó segja henni, sem henni er sjálfsagt þegar ljóst, að þrátt fyrir þessa fjárveitingu muni verða hin mestu vandræði á ferðum með höfnina. Ég sé ekki, þrátt fyrir þessa fjárveitingu, hvernig t.d. um 100 þús. kr., sem höfnin skuldar nú verkamönnum fyrir vinnu, verða greiddar. Þetta er sjálfsagt til athugunar og úrlausnar á öðrum vettvangi en beinlínis við fjárlagaafgreiðsluna, þó að ég nefni þetta hér.

Þá hefði mér einnig þótt öruggara, ef hv. fjvn. hefði tekið upp sem beina till. fjárveitingu til brúar á Hörgá. Þessi brú var byggð 1901 og er því meira en 50 ára. Hún var byggð á sama hátt og með sömu gerð eins og Ölfusárbrúin gamla, og hún er að fara alveg nákvæmlega eins og Ölfusárbrúin fór. Það veit enginn, hvenær að því kemur, að hún hrynur undan bílhlassi. Ég hef fengið eins konar boð um það, að möguleikar mundu verða á því að byggja þessa brú fyrir fé brúasjóðs, og vildi gjarnan fá staðfestingu á því frá hv. fjvn., ef yfirlýsing hefur legið fyrir hjá henni um það.

En ástæðan til þess, að ég ber ekki fram brtt. fyrir mitt kjördæmi við þessa umr. fjárlaganna, er sú, að ég tel, að þingmenn yfirleitt verði að beygja sig fyrir því, að fjármunir eru ekki til, til þess að láta í allt það, sem menn kynnu að óska, og að fjárlagafrv., eins og það er nú, þolir ekki hækkanir að neinu ráði fram yfir það, sem hv. fjvn. hefur lagt til. Ég efast ekkert um það, að hv. fjvn. hefur gert sitt bezta til að úthluta því fé, sem hægt er að veita í verklegar framkvæmdir úti um landið, í hin einstöku héruð, eins réttlátlega og hún taldi bezt vera. Og þegar á að úthluta meðal margra, þá er það ævinlega svo, að hverjum fyrir sig finnst, að hann fái of litið. En betra ráð verður nú ekki tekið, held ég, svona yfirleitt, heldur en að sætta sig í þessu efni við það, sem hv. fjvn. hefur lagt til.

En þrátt fyrir þetta hefur það nú farið svo, að ýmsir hv. þingmenn og það stuðningsmenn ríkisstj. hafa flutt hækkunartillögur til sinna kjördæma. Ef það færi nú svo, að eitthvað verulegt yrði samþ. af þeim hækkunartillögum, þá er þetta vitanlega farið úr böndunum. Með því, að slíkt verði samþ., en aðrir dragi sig alveg í hlé, skapast misrétti, og ég vil þess vegna lýsa yfir því, að ég bind mig alls ekki við það að bera ekki fram brtt. til hækkunar við 3. umr. fjárlaga, ef ég sé það, að sú stefna verður ofan á hér að samþ. hækkunartill. til einstakra héraða.

Þó að ég beri ekki fram hækkunartill. til míns héraðs, þá er ég þó riðinn við eina brtt. En hún er ekki kjördæmamál og snertir meira að segja alls ekki menn í mínu kjördæmi, svo að mér sé kunnugt um. Hún hækkar ekki heldur reikningsniðurstöðu fjárlaganna. Þessi brtt. er XII. liður á þskj. 314, við 22. gr. fjárl., um að heimila ríkisstj. að verja allt að 140 þús. kr. til þess að bæta tjón vegna slysfara á Bolungavíkurvegi, sem varð 1951. Ég er nú ekki 1. flm. þessarar till., og ég veit, að hv. 1. fim., þm. N-Ísf., muni gera rækilega grein fyrir þessari till. En ég vil aðeins minna á það, hvers konar atvik þetta var, sem till. vísar til, að sumarið 1951 vildi það til á Bolungavíkurvegi, að stór steinn eða bjarg hrundi úr fjallinu, lenti á bíl, sem þar var á ferð, með þeim afleiðingum, að sumir farþegarnir biðu bana, en sumir slösuðust mjög mikið. Ég þekki t.d. persónulega einn farþegann, sem að vísu beið ekki bana, en varð að liggja marga mánuði og er mjög eftir sig eftir þetta enn í dag. Hefði það nú verið bili, sem rakst á þessa bifreið, og þó að það hefði haft sömu afleiðingar, þá hefði þetta verið bætt. Aðstandendur þeirra dánu hefðu fengið dánarbætur, og þeir, sem urðu fyrir slysum, hefðu fengið bætur af bílatryggingunni. En af því að það vill svona til, að hægt er að segja, að þetta sé af náttúrunnar völdum, þá eru engar bætur. Allir sjá það nú að sjálfsögðu, að farþegunum, sem þarna urðu fyrir slysum, eða aðstandendum þeirra, sem urðu fyrir líftjóni, er þetta allt alveg eins tilfinnanlegt, þó að það væri af náttúrunnar völdum, eins og þó að það hefði verið af völdum bifreiðar. Og mér getur ekki fundizt annað, en að það mæli öll sanngirni með því, að ríkið hlaupi þarna undir bagga, þegar ekki er í annað hús að venda. En það virðist ekki vera. Ég vildi því mjög mælast til þess, að hv. Alþ. vildi samþ. þessa brtt. Það er svo hæstv. ríkisstjórnar að meta það, að hve miklu leyti hún vill nota þessa heimild og sér ástæðu til þess, því að þetta er ekki annað en till. um heimild.