27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

1. mál, fjárlög 1953

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Í fjárl. þessa árs eru 100 þús. kr. veittar til menntaskóla á Laugarvatni. Í l. um menntaskóla segir svo: „Stofna skal menntaskóla í sveit, þegar fé er veitt til þess á fjárl.“ Nú hef ég af ýmsum ástæðum ekki séð mér fært að fara eftir þessu og ætla því að gera nokkra grein fyrir málinu og minni afstöðu til þess, eins og það stendur nú.

Ég skal þá fyrst geta þess, að með bréfi, dags. 11. jan. á þessu ári, skrifaði rn. skólanefnd héraðsskólans á Laugarvatni í sambandi við þetta mál og spurðist fyrir um það, hvort héraðsskólinn gæti látið menntaskóla í té nauðsynlegt húsnæði, ef hann yrði stofnaður þar. Í bréfinu segir m.a., „að rn. muni aðeins samþ. stofnun skóla, sem starfar algerlega sjálfstætt og með svipuðum hætti og þeir menntaskólar, sem nú eru starfandi. Enn fremur að nemendur allir geti haft heimavist í skólanum. Rn. vill beina þeirri fyrirspurn til skólan. héraðsskólans, hvort hún geti látið af hendi við væntanlegan menntaskóla húsnæði, er fullnægt gæti þörfum hans fyrst um sinn til kennslu og heimavistar.“

Þessu svarar svo skólan., og skal ég leyfa mér að lesa hér stutta kafla úr bréfi n., sem gefa góða mynd af svarinu. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Skólanefndin er ekki reiðubúin að ráðstafa eignum héraðsskólans til annars skóla nú þegar.

Til þess þarf margs konar athuganir og samninga, eins og rn. hlýtur að vera ljóst. Nýja skólahúsið er enn í smíðum, og gamla skólahúsið er eins og það var gert eftir brunann 1947. Á þessu stigi málsins vill skólan. því bjóða rn. til leigu nægan húsakost fyrir menntaskólann, þ.e. kennslustofur, íbúðarherbergi fyrir nemendur og aðgang að mötuneyti. Enn fremur er starfandi við skólann kennaralið, sem hefur sýnt, að ekki stendur að baki kennurum menntaskólanna hvað kennslu snertir. Hins vegar sér n. ekki önnur ráð nú, en að samvinna verði fyrst um sinn milli beggja skólanna um húsakost.“ — Enn fremur segir: „Vilji ráðun. setja sérstakan skólastjóra yfir menntaskólann nú þegar, bendir n. á, að engin íbúð er til fyrir hann, fyrr en byggt verður.“

Ég skal í þessu sambandi geta þess, að núverandi skólastjóri héraðsskólans gæti ekki orðið skólameistari í væntanlegum menntaskóla, vegna þess að hann uppfyllir ekki þau skilyrði, sem l. setja fyrir skólastjóra menntaskóla. Hér segir því skólan., að íbúð handa skólameistara sé ekki til á staðnum og því verði að byggja hana. Enn fremur segir skólan.:

„Skólan. er það ljúft að ræða við rn. um skiptingu húsakostsins á Laugarvatni milli héraðsskólans og menntaskólans, og er n. einhuga á sama máli og rn. um, að hvor skólinn fyrir sig verði sjálfstæð stofnun, óháð hvor annarri, en n. telur ókleift að koma á slíkri skipan nú þegar, þ.e. að stofnanirnar séu óháðar hvor annarri, og bendir því á það auðvelda fyrirkomulag, að samvinna verði um stund milli skólanna, eins og verið hefur á fimmta ár og reynzt ágætlega, þ.e., að menntaskólinn sé eins konar deild í héraðsskólanum.“

Þetta eru kaflar úr bréfi skólan. sem svar við bréfi rn.

Eftir að hafa fengið bréf þetta skrifaði rn. fræðslumálastjóra og fól honum að gera till. um skiptingu húsakosts og kennaraliðs á Laugarvatni milli héraðsskólans og fyrirhugaðs menntaskóla, miðað við, að menntaskólinn verði þegar í öndverðu sérstök stofnun. Þetta er með bréfi 10. marz. Þessu svarar svo fræðslumálastjórinn 25. s.m. og gefur þar skýrslu um samtal, sem hann átti við skólastjóra héraðsskólans á Laugarvatni, Bjarna Bjarnason, um þetta mál, og niðurstöðurnar af því samtali eru í stórum dráttum þessar:

„Héraðsskólinn þarf sjálfur, eftir því sem skólastjórinn segir:

a) Nýja skólahúsið óskert eins og gert hefur verið ráð fyrir því á teikningu húsameistara, nema hvað aðrir skólar fái sameiginleg afnot af mötuneyti og samkomusal.

b) Heimavistarhús þau og kennaraíbúðir, sem þegar eru á staðnum, að frátöldu húsi því, er húsmæðraskóli Suðurlands hefur nú til umráða. Héraðsskólinn getur ekki selt eða látið af hendi til frambúðar neitt af húsnæði því, er hann á nú. Framtið menntaskóla á Laugarvatni verður þess vegna að byggja á því, að byggt verði sérstakt eða sérstök hús handa honum.“

Svo er talin upp húsnæðisþörf menntaskólans, og skal ég ekki lesa það upp.

Af þessu kemur fram álit skólastjórans, Bjarna Bjarnasonar, og þetta álit er staðfest af honum 20. marz í samtali við fræðslumálastjórann. Eftir að hafa fengið þessa umsögn skrifaði rn. aftur 2. apríl til fræðslumálastjóra og óskaði svars hans um þetta:

„1) Er möguleiki að setja upp sjálfstæðan menntaskóla á Laugarvatni á þessu ári með þeim húsakasti og aðbúnaði, sem þar er nú?

2) Ef svo er ekki, hvað mætti áætla núverandi kostnað við að koma upp nauðsynlegum húsakosti?

3) Hversu mikil mundi verða árlegur rekstrarkostnaður skólans fyrstu árin lauslega áætlað?“

Þessu svarar svo fræðslumálastjóri 9. apríl, eða 7 dögum síðar, og segir:

„1) Ég tel ekki fært að hafa bæði héraðsskóla og menntaskóla til frambúðar í sömu húsakynnum.

2) Skrifstofa húsameistara ríkisins hefur áætlað lauslega, að menntaskóli á Laugarvatni kosti 6–7 millj. kr. Er miðað við byggingarkostnað eins og hann er um þessar mundir og þann húsakost, sem um getur í samtali okkar Bjarna skólastjóra (sem var sundurliðað á þessu plaggi — ég las ekki upp sundurliðunina) og ég greindi menntmrh. frá 25. f. m.

3) Árlegur rekstrarkostnaður menntaskóla á Laugarvatni mun vart geta orðið minni en hátt á fjórða hundrað þús. kr., miðað við núverandi verðlag og þá áætlun um kennarafjölda, er ég sendi rn. 14. júní.“

Þetta er þá endanlegt svar við þeim tilraunum, sem rn. gerði til þess að fá úr því skorið, hvort hægt væri á þessu ári að setja á stofn menntaskóla á Laugarvatni, og niðurstöðurnar eru í fáum orðum þessar:

1) Fyrir menntaskóla sem sjálfstæða stofnun er nú ekkert húsnæði á Laugarvatni, er héraðsskólinn gæti látið af hendi og fullnægt til frambúðar þörfum hans fyrir kennslustofur og heimavist.

2) Ekkert húsnæði er fyrir skólameistara eða kennara. Núverandi skólastjóri héraðsskólans getur ekki tekið að sér skólameistarastarfið, sökum þess að hann uppfyllir ekki skilyrði laga til þess.

3) Ef stofna ætti menntaskóla á Laugarvatni, er talið óhjákvæmilegt að byggja skólahús og heimavist, íbúð fyrir skólameistara og 3–4 kennaraíbúðir. Samkv. núverandi verðlagi er byggingarkostnaður áætlaður 6–7 millj. kr., eins og ég gat um, og rekstur skólans mundi fyrst í stað nema um 400 þús. kr. á ári samkv. áætlun fræðslumálaskrifstofunnar.

4) Rn. telur frágangssök að stofna menntaskóla á Laugarvatni með 100 þús. kr. fjárveitingu eins og er í fjárl. þessa árs.

Þegar undirbúningur fjárl. stóð yfir, gerði rn. till. um fjárveitingu til stofnunar menntaskóla á Laugarvatni. Upp í frv. hefur verið tekin í 14. gr., 6. lið, till. um rekstrarkostnað skólans og á 20. gr. til byggingar skólastjóraíbúðar við menntaskólann 250 þús. kr. En rn. hafði gert till. um og talið að þyrfti 61/2 millj. kr. til þess að stofna menntaskóla og hafa til frambúðar á

Laugarvatni. Sökum þess að till. rn. höfðu ekki verið teknar á frv. til fjárl. eins og rn. gekk frá þeim, taldi rn. nauðsynlegt að gera fjvn. grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Þess vegna skrifaði rn. fjvn. bréf 27. okt. og skýrði málið, og ég ætla að leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta - að lesa þetta bréf, vegna þess að það skýrir fyllilega afstöðu rn.:

„Í sambandi við frv. til fjárl. fyrir 1953 vill rn. vekja athygli á, að fjárhæð sú, sem ætluð er til menntaskóla á Laugarvatni, er ekki í samræmi við till. héðan að því er stofnkostnað varðar. Þetta rn. lét athuga, hver verða mundi kostnaður við menntaskólahald á Laugarvatni, og reyndist hann sem hér segir:

1) Stofnkostnaður: Bygging skólahúss og heimavistar 4.5 millj. kr. Íbúðir skólastjóra og kennara 2 millj. kr. Samfals 6.5 millj. kr.

2) Rekstrarkostnaður árið 1953 kr. 339.844.00. Samtals kr. 6.839.844.00.

Till. um þessi framlög voru sendar fjmrn., ekki af því að þetta rn. sé hlynnt því, að efnt sé að svo stöddu til menntaskóla á Laugarvatni, heldur til þess að Alþ. geri sér ljóst, í hvern kostnað er stefnt, ef það vill sinna þessu máli, og að ekki þurfi um að sakast síðar, að menn verði duldir þess, hver fjárhagsbyrði er með þessu skólahaldi lögð á landsmenn.

Að stofnun menntaskóla á Laugarvatni hefur verið unnið af miklu kappi, en minni forsjá og án alls tillits til gildandi l. og gegn fyrirmælum rn., sem hefur að sjálfsögðu hvorki getað né viljað fallast á, að slíku máli væri hrundið af stað, án skýlausra fyrirmæla Alþ. Í landinu eru nú 3 skólar, sem brautskrá menn með rétti til innritunar í háskóla, þ.e. menntaskólarnir í Reykjavík og á Akureyri og Verzlunarskóli Íslands. Menntaskólinn á Akureyri gæti með þeim húsakosti, sem hann hefur og í smíðum er, tekið við um 170 nemendum í heimavist, en í heimavist eru nú 137, þar af 22 í miðskóladeild.

Rn. er út af fyrir sig alls ekki andvígt því, að menntaskóli verði stofnaður í sveit. Það telur slíka skólastofnun að mörgu leyti æskilega. En tvö frumskilyrði verða að vera fyrir því, að hafizt sé handa. Hið fyrra, að þörf sé fyrir skólann og að ekki sé lagt í mikil útgjöld að þarflausu. Í öðru lagi, að skólinn, er stofnaður verður, fullnægi þeim kröfum, sem gera verður til slíkrar menntastofnunar, að hann sé að öllu leyti hliðstæður öðrum menntaskólum ríkisins og starfi sem sjálfstæð stofnun.

Um fyrra skilyrðið er það að segja, að sá menntaskóli, sem hefur heimavist, er ekki nærri fullsetinn, og getur bann, er miðskóladeildin verður lögð niður, bætt við 60—70 manns í heimavist. Ef menntaskóli verður nú stofnaður á Laugarvatni, má búast við, að enn dragi. úr aðsókn að Akureyrarskóla, svo að húsnæði hans og kennslukraftar notist ekki að fullu. Kostnaður við heimavist á Akureyri er svipaður og að Laugarvatni. (Ég skal upplýsa, að 1950–51 var fæðiskostnaður á Akureyri um 548 krónur á mánuði á nemanda, en á Laugarvatni 465 krónur.)

Að því er snertir hitt skilyrðið, munu flestir sammála um, að ekki megi draga úr þeim kröfum, sem gerðar eru til þeirra skóla, sem búa menn undir háskólanám, og ekki komi til mála að stofnsetja menntaskóla í sveit, nema sá skóli sé sérstök stofnun, sjálfri sér nóg og hlutverki sínu vaxin.

Ástæðan til þess, að rn. neitaði að stofnsetja formlega menntaskóla á Laugarvatni samkv. fjárveitingu á 14. gr. B, Vl. í fjárl. þessa árs, var sú, að fjárveitingin, 100 þús. kr., er ekki nema litið brot af því fé, sem þarf til þessarar skólastofnunar. Ýmsum þykja útgjöld vegna skólamála ærið há nú þegar, þótt menn skirrist við í lengstu lög að skera niður framlög til þeirra, en misráðið er að efna til nýrra skóla umfram þarfir, þótt fullnægt verði, ef til vili með því metnaði og þrengstu sjónarmiðum eins manns eða fáeinna.

Rn. vill vísa af höndum sér allri ábyrgð af þeirri gjaldabyrði, sem stofnun menntaskóla á Laugarvatni hefði í för með sér nú, en taldi rétt, ef Alþ. vildi samt sem áður stíga þetta skref, að horfzt væri í augu við hinn raunverulega kostnað, sem skiptir milljónum, í stað þess að málinu yrði lætt gegnum þingið með lágum og óraunhæfum fjárveitingum, er leiða til þungra gjalda síðar.“

Þetta er bréfið, sem rn. skrifaði fjvn. til þess að skýra sína afstöðu til málsins. — Annars skal ég segja það, að mér væri mikil ánægja að stofnsetja menntaskóla í sveit, ef öll skilyrði eru fyrir hendi til að framkvæma það á þann hátt, að skólinn fullnægi þeim kröfum, sem gera verður til slíkrar menntastofnunar. Fyrirmælin í l. um menntaskóla í sveit eru því aðeins framkvæmanleg, að unnt sé með fjárveitingu Alþ. að búa skólanum þau skilyrði, sem nauðsynleg eru hvað snertir húsakost til kennslu, heimavistar og íbúðar fyrir kennara. Ég tel það enn fremur frumskilyrði fyrir stofnun menntaskólans, að skólinn sé sérstök menntastofnun, byggð upp sem aðrir menntaskólar landsins, en ekki sem útibú eða deild úr héraðsskóla.