27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

1. mál, fjárlög 1953

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Á þskj. 323 hef ég leyft mér að flytja tvær brtt. Fyrri brtt., rómv. I, er við 3. gr. A. 2., snertandi fjárframlag til notendasíma í sveitum. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir framlagi í þessu skyni, að upphæð 1.740.000 kr., en ég legg til í brtt. minni, að upphæðin hækki um eina millj. kr., eða í 2.740.000 kr.

Það verður að teljast mjög brýn nauðsyn, að Alþingi og hæstv. ríkisstj. Leggi mikla áherzlu á að flýta lagningu afnotasíma í sveitum landsins. Hv. alþm. er kunnugt, hve mikilsvert það er fyrir bændur landsins, sérstaklega þá, sem búa á jörðum, sem eru afskekktar, að fá afnotasíma. Þess er ekki sízt þörf nú, þegar margar jarðir hafa fátt heimilisfólk, og afnotasimi veitir slíkum heimilum mjög mikið öryggl. Þá er vitað, að nokkurs misræmis hefur gætt í sambandi við framkvæmdir á afnotasimunum í hinum ýmsu sýslufélögum. Ég hef kynnt mér, hvað þessum málum er langt á veg komið í hinum ýmsu sýslufélögum, og sé, að æði mikils misræmis gætir í þessum efnum. Það er sem sé búið að leggja afnotasíma í einstöku sýslum á allt að 90% af býlum og í mörgum sýslum á 70–80% býla. Þó eru nokkrar sýslur, sem eru langt á eftir. T.d. munu aðeins tæplega 50% af býlum í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu og í Eyjafjarðarsýslu hafa fengið afnotasíma. Hef ég í huga, að ef brtt. mín um hækkun á fjárframlagi til afnotasíma verður samþ., sem ég vona að verði, þá verði sérstaklega gætt hagsmuna þeirra sýslufélaga, sem skemmst eru á veg komin með afnotasíma. Treysti ég hæstv. ráðh., sem þessi mál heyra undir, og sömuleiðis hv. póst- og símamálastjóra að gæta allrar sanngirni í þessum efnum. Þá má benda á það, að í fjárlagafrv. fyrir árið 1953 er gert ráð fyrir sömu upphæð til afnotasíma í sveitum og veitt var á yfirstandandi ári. Öll sanngirni mælir með því, að þessi upphæð verði hækkuð verulega, og treysti ég á fylgi hv. þm. til þess að það megi takast.

Þá er önnur brtt. mín, rómv. III á þskj. 323, við 14. gr. A. II, nýr liður, til endurbyggingar Búðakirkju á Snæfellsnesi 30 þús. kr. Ég hafði beint óskum mínum til hv. fjvn. um fjárframlag á fjárlögum 1953 í þessu skyni. Enn sem komið er hefur hv. fjvn. ekki séð sér fært að verða við áskorun minni. Ég skrifaði hv. fjvn. bréf og sagði í því m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Búðakirkja á Snæfellsnesi var eign ríkissjóðs, en á árinu 1948 var hún afhent söfnuðinum ásamt fjárhæð, 22.500 kr. Var kirkjan þá með öllu ónothæf til messugerðar. Réðst hinn fámenni söfnuður, sem telur aðeins 46 gjaldendur, í að endurbyggja kirkjuna. Því verki var lokið að mestu á s.l. ári, og var kirkjan vígð af biskupi landsins sumarið 1951. Endurbyggingin á kirkjunni ásamt því, sem enn er óhjákvæmilegt að gera henni til góða, er áætlað að muni kosta 80–90 þús. kr. Í sjálfu sér hefði verið eðlilegt, þar sem ríkið óskaði að koma kirkjunni yfir á söfnuðinn, að nægileg fjárhæð hefði fylgt henni, svo að hægt væri að nota kirkjuna til messugerðar. Er það varla sæmandi ríkissjóði að hafa þennan hátt á í samskiptum sínum við fámennan söfnuð og efnalítinn. Eru það því vinsamleg tilmæli mín til hv. fjvn., að hún mæli með fjárveitingu til kirkjubyggingar á Búðum, 30 þús. kr., á fjárlögum ársins 1953.“

Eins og ég tók fram áðan, hefur hv. fjvn. ekki enn séð sér fært að verða við þessum tilmælum, en með því að ég tel ekki enn vonlaust, að það náist samningar um það, vil ég leyfa mér að taka aftur til 3. umr. báðar þessar brtt. mínar, í þeirri von, að þær fái þá góða afgreiðslu þingsins.