27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

1. mál, fjárlög 1953

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það er aðeins stutt athugasemd, sem ég þarf að gera hér, áður en umr. lýkur.

Mér hefur láðst að taka það fram, að á þskj. 282, í 15. till. frá meiri hl. fjvn., tölulið 3, stendur „Stóra-Langá“ í staðinn fyrir „Stóra- Langadalsá“. Og í 17. till., tölul. 22, stendur

Hafnir í Höfnum“ í staðinn fyrir „Hafnir“. Ég vil vænta þess, að hæstv. forseti geti fallizt á, að þetta sé lagað í prentun, svo að ekki þurfi að bera fram brtt. við frv. af þeim ástæðum.

Úr því að ég stóð hér upp, skal ég aðeins minnast örfáum orðum á þau atriði, sem hv. þm. Snæf. ræddi hér um áðan. Mér er fullkomlega ljóst, að það er mjög mikil þörf á að hækka framlag til sveitasíma, alveg eins og mér er líka ljóst, að það er mjög mikil þörf á að hækka til ýmissa annarra verklegra framkvæmda. En það hefur á undanförnum árum verið tekinn upp sá háttur, að ýmis sveitarfélög hafa lánað fé til að koma þessu í framkvæmd. Og það hefur nú komið fram, að vextir og afborganir af þessum lánum eru teknir af því fé, sem varið er til framkvæmdanna á ári hverju. Það hefur þá einnig íþyngt áframhaldandi framkvæmdum, þannig að fé til raunverulegra framkvæmda hefur orðið minna, en vænta mátti. Á þessu stigi málsins hefur fjvn. ekki séð sér fært að leggja til að hækka þennan lið, og þá jafnvel líka með tilliti til þess, að það, sem simanum væri langmestur hagur af að framkvæma, væri að fjölga símum í kaupstöðum landsins, vegna þess að það mundi gefa honum miklu betri fjárhagslega afkomu. En það hefur ekki þótt tiltækilegt að leggja í meiri fjárfestingu á hverju ári heldur en það, sem síminn hefur gefið í arð, og það, sem á hverjum tíma hefur þótt gerlegt að bæta við þær upphæðir. Skiptingu á fénu til, hinna ýmsu héraða hefur fjvn. ekki haft nein afskipti af, og þarf ég því ekki að svara til fyrir það.

Út af hinn atriðinu, erindi í sambandi við styrk til Búðakirkju á Snæfellsnesi, vil ég upplýsa það, að engin af þeim erindum, sem komu til n. í sambandi við styrk til kirkna, hafa verið samþ. af n. sjálfri. Því hefur öllu saman verið hafnað, og er það m.a. af því, að þetta mál er svo umfangsmikið, að það er engin leið að leysa það á þann hátt, sem óskað er eftir hér á hverju ári, með smáum upphæðum fyrir hverja kirkju. Ég get upplýst það, að ég hef átt samtal um þetta við biskup Íslands, og mér skilst, að hann sé að undirbúa heildarlöggjöf í sambandi við þessi mál. Það er sýnilegt, að þessum málum verður ekki komið í viðunandi horf, nema því aðeins að takast mætti að finna ákveðinn tekjustofn, sem treysta má, líkt og til félagsheimilanna, ef á að byggja upp allar kirkjur landsins, og þess er sannarlega mikil þörf. Þjóðin hefur hins vegar fyrst kosið að koma upp félagsheimilum og danshúsum umhverfis allt land, þar sem fólk gæti skemmt sér, — látið kirkjurnar bíða. Er þess að vænta, að þegar biskup hefur gengið frá sínum till., verði þær lagðar fyrir Alþingi. Ég býst þó ekki við, að það verði á þessu þingi.