08.12.1952
Sameinað þing: 22. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

1. mál, fjárlög 1953

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur, fjær og nær. Hv. stjórnarandstæðingar hafa nú í ræðum sínum látið hv. Alþ. og hv. hlustendum í té þá lýsingu, sem þeim þykir hlýða að gefa við þetta tækifæri á núverandi stjórnarháttum og ástandi yfirleitt í landinn. Af málflutningi þeirra verður það helzt ráðið, að ríkisstjórn sú, er hér hefur verið við völd síðustu árin, hafi átt það eitt áhugamál að spilla afkomu þjóðarinnar og rýra lífskjör almennings í landinu, þetta hafi henni tekizt, eins og bezt megi sjá á því, að nú standi yfir allsherjarverkfall og atvinnuvegirnir þar með stöðvaðir að fullu. Ljótt er, ef satt væri, og mætti raunar undarlegt heita, ef meiri hluti kjósenda í lýðræðislandi veldi sér stjórn, sem svo hastarlega færi að ráði sínu gagnvart umbjóðendum sínum. Munu og flestir þeir, er á þessar umr. hlýða, gera sér grein fyrir því, að eitthvað muni vera meir, en lítið bogið við þennan málflutning. Ég ætla ekki að nota þann tíma, sem ég hef hér til umráða, til æsiupphrópana og rakalausra fullyrðinga, eins og að minnsta kosti sumir málssvarar hv. stjórnarandstæðinga hafa viðhaft í ræðum sínum, heldur ætla ég að láta staðreyndirnar tala. Ég mun ekki hafa fleiri orð um þetta í einstökum atriðum, en í þess stað frá mínu sjónarmiði rifja upp nokkuð af því helzta, er gerzt hefur í efnahagsmálum þjóðarinnar á þessum tíma.

Ég held, að það sé hollt að byrja á því að rifja það upp nú, hvernig ástandið var á ýmsum sviðum, þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum fyrir tæplega 3 árum, og hvað það var þá, sem einkum sætti gagnrýni almennings og var aðalviðfangsefni þeirra, er fengust við opinber mál.

Ég vil þá fyrst nefna, að undanfarin ár, þ.e.a.s. 1947 til ársloka 1949, hafði stjórn hv. 8. landsk., Stefáns Jóh. Stefánssonar, farið með völd. Þessi stjórn reyndi í upphafi að taka allfast á sumum málum og reyndi að veita viðnám gegn verðbólgu og vaxandi dýrtíð. Þannig var það stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar, sem ákvað að binda vísitöluna varðandi kaup og launagreiðslur á þann hátt, að miðað var við 300, þannig að kaupgjald var eigi greitt á þau vísitölustig, er umfram voru þá tölu. Þetta er glöggur vottur þess, að þegar Alþfl. fer með ríkisstjórn, þá tekur hann til úrræða, er hann svo hamast gegn, þegar hann er í stjórnarandstöðu.

Stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar gafst algerlega upp á árinu 1949, svo að algert hrun meginatvinnuvega þjóðarinnar og gjaldþrot ríkissjóðs var fyrirsjáanlegt, ef ekki væri leitað nýrra róttækra úrræða. Þá um áramót, 19491950, var m.a. svo ástatt, að mikið af útflutningsvörum landsins var óseljanlegt, nema með því móti, að greiddar væru með framleiðslunni útflutningsuppbætur úr ríkissjóði og ríkið tæki ábyrgð á útflutningsverðinu. Þetta ástand hófst í árslok 1946, og er víst ekki ofmælt, þótt sagt sé, að það hafi verið farið að vekja almenna óánægju meðal þjóðarinnar, enda fékk ríkissjóður ekki lengur undir því risið. Flestir voru sammála um, að ekki yrði haldið áfram á sömu braut, og þá lá ekki annað fyrir, en stöðvun útflutningsframleiðslunnar, sem þýðir sama og algera stöðvun sjávarútvegsins, ef ekki yrði gripið til nýrra úrræða. Í verzlunarmálum var ástandið þannig, að flestar nauðsynjavörur voru skammtaðar, en skömmtunin hafði að verulegu leyti mistekizt og var mjög óvinsæl. Kvartanir um vöruskort á frjálsum markaði fóru sívaxandi, en svartur markaður blómgaðist jafnt og þétt með þessum afleiðingum: Mjög margar vörur voru seldar við miklu hærra verði, en leyfilegt átti að vera, þótt strangt verðlagseftirlit væri. Vefnaðarvörur voru lítt fáanlegar í búðum, en heimilin urðu að kaupa tilbúnar flikur uppsprengdu verði, sem bæði fyrr og síðar hafa aðallega verið saumaðar heima til að spara heimilum útgjöld. Þetta muna sjálfsagt flestir, þegar á það er minnzt. Menn muna það sennilega líka, að á þeim tíma var allur vöruinnflutningur háður innflutningsleyfum og þá oft að því fundið með sterkum orðum, að öll viðskipti væru reyrð í viðjar, þar sem enginn mætti sig hræra. Hér er aðeins skýrt frá staðreyndum um þetta efni. Á þessum tíma voru og allar byggingar háðar fjárfestingarleyfum, en á því hefur nú í seinni tíð nokkur breyting orðið, sem kunnugt er, þar sem hinar minni íbúðir hafa verið gefnar frjálsar til mikils hagræðis og léttis. Um fjárhag ríkissjóðs, þegar stj. tók við, skal ég þó ekki hafa mörg orð, en í stuttu máli sagt var hann þannig, að mikill árlegur greiðsluhalli hafði orðið næstu árin á undan, safnazt fyrir stórar upphæðir í óumsömdum, lausum skuldum, og Alþ. hafði í raun og veru gefizt upp við að koma saman fjárl., því að um miðjan marz 1950 var ekkert farið að vinna að fjárl. þess árs, þótt nærri fjórðungur fjárlagaársins væri þá liðinn.

Margt fleira mætti rifja upp um ástandið á þessum tíma og óánægju almennings með það ástand, sem glögglega kom fram á margan hátt. Þótt fólk þá væri óánægt með afkomu sína, þá var þó ástandið það, að þjóðin lifði langt yfir efni fram, svo að auðsjáanlega leiddi til allsherjargjaldþrots, ef svo færi fram, enda stóð þá fyrir dyrum alger stöðvun útflutningsframleiðslunnar og í kjölfar hennar almennt atvinnuleysi, — miklu stórkostlegra, en nokkru sinni fyrr, hefði þekkzt með þjóð vorri. Sumir menn segja, og má að vísu færa að því nokkur rök, að slík allsherjarstöðvun hlyti að hafa komið því til vegar, er stundir liðu, að kaupgjald og verðlag innanlands tæki breytingum til lækkunar til samræmis við hið lága útflutningsverð í íslenzkum krónum. En sú breyting hefði áreiðanlega tekið langan tíma, kostað þjóðfélagið mikla fjármuni, valdið stórfelldara atvinnuleysi, en þekkzt hefur áður með þjóð vorri og þess vegna komið langþyngst niður á vinnandi fólki í landinu. Þjóðin hafði á prjónunum mikil áform um rafvirkjanir og fleiri stórframkvæmdir, sem enginn grundvöllur var fyrir að hefjast handa um, með þeirri fjármálapólitík, sem hafði verið ríkjandi að undanförnu.

Hvað hefur svo stj. og þingmeirihl. sá, er að henni stendur, gert til breytinga á því ástandi, sem nú hefur verið lýst? Hverjar eru þessar ráðstafanir, sem nú eru taldar henni til dómsáfellis af hv. stjórnarandstæðingum? Ég mun minnast hér á nokkrar þeirra.

Verðgildi hins erlenda gjaldeyris hefur verið breytt til samræmis við hið innlenda verðlag, sem skapazt hafði. Þetta var fyrst gert með því að breyta hinni almennu gengisskráningu, en síðan með því að taka upp hinn svo nefnda bátagjaldeyri. Bátagjaldeyrisfyrirkomulagið er í því fólgið, að útvegsmönnum var í rauninni heimilað að ráða sjálfir gengi á tilteknum hluta gjaldeyris þess, er aflað var á þeirra vegum, en sú gengisbreyting, er þannig kom fram, eingöngu látin koma niður á verði tiltekinna vara, er ekki teljast til brýnustu lífsnauðsynja. Auðvitað var hægt að hafa almennu gengisbreytinguna meiri og sleppa bátagjaldeyrisfyrirkomulaginu, en viðbótarhækkunin, sem fékkst með bátagjaldeyrinum, hefði þá komið niður á brýnustu nauðsynjum, þ. á m. rekstrarvörum útgerðarinnar sjálfrar, og þá um leið étið sig upp að nokkru leyti, eins og ávallt verður að einhverju leyti um almennar gengislækkanir. En hjá þessu hvoru tveggja vildu menn komast, og þess vegna var bátagjaldeyrisfyrirkomulagið valið, þótt ýmislegt megi að því finna að sjálfsögðu. Hin opinbera gengisbreyting 1950 var í rauninni ekkert annað, en leiðrétting til samræmis við framleiðslukostnaðinn, eins og hann var orðinn. Misræmið milli framleiðslukostnaðar og erlends gjaldeyris var orðið svo mikið, að segja mátti, að allir vildu kaupa allt frá öðrum löndum, ef unnt var að fá gjaldeyri til þess, en enginn gat selt neitt út úr landinu á samkeppnisfæru verði, og getur slíkt vitanlega ekki gengið til frambúðar, jafnvel þótt beitt sé ströngum gjaldeyrishöftum. Þetta er hin almenna ástæða til þess, að gengisbreyting hlýtur alltaf að koma fyrr eða síðar, ef kostnaðurinn innanlands verður í íslenzkum krónum mun meiri, en framleiðslukostnaðurinn er í viðskiptalöndunum.

Samhliða gengisbreytingunni hefur innflutningur verið gefinn frjáls að miklu leyti og skömmtun að mestu afnumin. Þetta var mögulegt vegna gengisbreytingarinnar og þess hluta hinnar erlendu efnahagsaðstoðar, sem veittur var til að koma á frjálsum viðskiptum, er stofnað var hið svo kallaða Greiðslubandalag Norðurálfu.

Af öðrum ráðstöfunum í tíð núverandi ríkisstj. má t.d. nefna hina miklu breytingu, sem orðið hefur á fjárhag ríkissjóðs, sem m.a. hafði það í för með sér, að á árinu 1951 lagði ríkið meira fé fram til atvinnuveganna, en dæmi eru til áður, þar sem greiðsluafgangi ríkissjóðs þetta ár var öllum varið til þess að efla atvinnulífið og fyrirbyggja atvinnuleysi. Greiðsluafgangur ríkissjóðs það ár varð svo mikill, að hægt var á þann hátt að forða frá miklum erfiðleikum viða um land. Þá hefur allmikið verið gert að því umfram það, sem áður var, að útvega lánsfé til byggingar íbúðarhúsa í þágu almennings, bæði í sveit og við sjó, og á þann hátt að greiða fyrir þessum framkvæmdum. Enn fremur befur verið útvegað allmikið fé til starfsemi Ræktunarsjóðs, eins og kunnugt er. Hafin var og er nú vel á veg komin bygging hinna miklu raforkuvera við Sog og Laxá,svo og bygging áburðarverksmiðju. Hér er aðeins stiklað á stóru, en mest er um það vert, að meginframleiðslu landsmanna hefur yfirleitt verið haldið gangandi með þeim ráðstöfunum, sem lýst hefur verið, og framleiðsluvörur, sem ella hefðu verið óseljanlegar, hafa orðið þess megnugar að afla þjóðinni gjaldeyris, eins og verður að vera á hverjum tíma, ef þjóðarbúskapurinn á að geta haldið áfram.

Ég vil leyfa mér að hafa þá skoðun og þykist hafa sterk rök fyrir því, að ef þjóðin hefði síðan á árinu 1950 átt við að búa, þótt ekki væri nema meðalárferði að því er viðkemur tíðarfari, aflabrögðum og viðskiptum út á við, þá hefðu þær ráðstafanir, sem nefndar hafa verið, og ýmsar aðrar, sem gerðar hafa verið undanfarin ár, fyllilega borið þann árangur, sem til var ætlazt, og það á þann hátt, að glögglega hefði sýnt sig í batnandi afkomu almennings, en því miður hefur þjóðin ekki átt slíku árferði að fagna, og það verða menn að muna, er meta skal, við hverju megi búast. Síldveiðarnar hafa nú enn brugðizt í 3 sumur samfleytt til viðbótar þeim 5, er áður voru, og aldrei þó elns hastarlega og s.l. sumar. Aflaleysi á bátamiðum viða hér við land hefur verið svo stórkostlegt, að valdið hefur því, að við hefur legið, að ýmis bæjarfélög gæfust upp. Hefur ríkið orðið að hlaupa undir bagga og láta miklar upphæðir til þess að afstýra mestu vandræðunum. Óþurrkar, vetrarharðindi og áframhaldandi fjárpestir hafa herjað á landbúnaðinn um mikinn hluta landsins ár eftir ár á þessum tíma og ríkissjóður orðið að greiða miklar upphæðir þess vegna. Slík áföll hljóta að hafa sín áhrif, beint eða óbeint, á hina almennu afkomu í landinu. Þetta vita flestir eða allir, þótt það sé, ekki alltaf íhugað sem skyldi. En hér kemur fleira til, sem almenningur veit ekki eins glögg skil á, enda sjaldnar um það talað.

Fyrir þjóðarbúskapinn skiptir það ákaflega miklu máli og getur jafnvel valdið mestu um lífskjör fólksins í landinu, hvaða hlutfall er á milli verðs á innfluttum og útfluttum vörum á hverjum tíma, en það er hins vegar ekki nema að mjög litlu leyti á valdi þjóðarinnar sjálfrar. Þetta hlutfall er það, sem átt er við, þegar talað er um verzlunarárferði. Því hærra sem verðið er á útfluttum vörum, en því lægra sem það er á innfluttum vörum, því betri verður afkoma þjóðarinnar sem heildar af þessum ástæðum. Þetta hlutfall er hægt að reikna út, enda hefur það verið gert af hagfræðingum samkv. opinberum skýrslum, er fyrir liggja. Skal ég nú skýra frá nokkrum niðurstöðum í þessu efni.

Útreikningar um þetta efni sýna, að verzlunarárferði fór mjög batnandi á fyrstu stríðsárunum og var mjög hagstætt á árunum 1940–42. Stafaði það af því, að verð útflutningsvaranna hækkaði þá miklu meira, en verð innflutningsvaranna. Árin 1943–44 var hlutfallið hins vegar nokkru óhagstæðara, og stafaði það af áframhaldandi hækkun innfluttu varanna, en á árunum 1945, 1946 og 1947 var verzlunarárferðið aftur gott, enda hækkuðu útfluttu vörurnar þá stórlega í verði, einkum vegna matvælaskortsins eftir styrjöldina. Síðan hefur það stöðugt farið versnandi frá ári til árs. Sé verzlunarárferðið 1951 borið saman við verzlunarárferðið 1946, kemur í ljós, að hlutfallið hefur versnað um 30%, miðað við árið 1946. Þetta þýðir það, að ef á árinu 1951 hefði verið sama verzlunarárferði og 1946, hefði það svarað til þess, að við hefðum fengið rúmlega 300 millj. kr. meira fyrir útflutningsframleiðsluna það ár, en við raunverulega fengum. Gjaldeyristekjur þjóðarinnar hefðu þannig orðið 300 millj. meiri, og þessar 300 millj. kr. hefðu komið fram sem auknar þjóðartekjur, sem hægt hefði verið að skipta milli atvinnuveganna og þess fólks, sem við þá vinnur, og bæta þannig kjör þess. Ef verzlunarárferðið hefði verið jafngott s.l. ár og 1946, hefði sýnilega getað verið um gróða að ræða hjá atvinnuvegunum og þar með raunverulega verið grundvöllur til kjarabóta fyrir almenning í landinu. En þetta gefur líka að verulegu leyti hugmynd um ástæðuna til þess, að kjör manna nú eru ekki betri, en þau raunverulega eru, og er ástæða til að festa sér það vei í minni.

Það er aldrei hægt að skipta meiru en aflast, og hið sama gildir um þjóðartekjurnar. Sé verzlunarárferðið og aðrar ástæður innanlands þannig, að atvinnuvegirnir græði fé, þá er myndaður grundvöllur fyrir kauphækkanir og aðrar kjarabætur verkafólki til handa. Það er föst venja foringja verkamanna, sem vilja láta telja sig ábyrga, að sanna það fyrir fram, áður en verkfall er hafið, að atvinnurekendur geti greitt hærra kaup. Þessa aðferð viðhafa verkalýðsforingjar í nágrannalöndum vorum, enda er engin leið önnur fær. Vitanlega á að greiða eins hátt kaup og atvinnuvegirnir mest geta þolað, en sé farið yfir þau takmörk, verkar það á þann veg, að atvinnurekstur dregst saman, en atvinnuleysi eykst. Verkalýðsforingjar vorir hafa því miður algerlega vanrækt að taka sér til fyrirmyndar fordæmi félaga sinna frá öðrum löndum hvað þetta snertir. Mun það bitna þungt á þeim verkamönnum, sem hafa kosið þá til þessara ábyrgðarmiklu trúnaðarstarfa.

Þegar gengisbreytingin var gerð, hlaut það að sjálfsögðu að hafa í för með sér allmikla verðhækkun fyrst um sinn í íslenzkum krónum. Var gert ráð fyrir uppbótum til launþega vegna þeirra verðhækkana. Skömmu eftir að gengisfellingin varð og m.a. vegna Kóreustyrjaldarinnar, sem skall á sumarið 1950, urðu verðhækkanir á erlendum vörum miklu meiri, en sem gengisbreytingunni nam, og gerði það allt örðugra um framkvæmd þessara mála. Nú hefur hér orðið breyting á. Verðhækkun sú, er Kóreustyrjöldin hratt af stað um heim allan, virðist vera stöðvuð, og sumar erlendar vörur hafa jafnvel lækkað nokkuð í verði aftur á heimsmarkaðinum í seinni tíð, eins og kunnugt er. Þess hafa líka sézt merki á innanlandsverðlaginu hér á þessu ári, að það væri í þann veginn að stöðvast, ef ekkert óvænt kæmi til. Bið ég menn að veita þessu sérstaka athygli. Fyrstu 10 mánuði ársins í fyrra, 1951, hækkaði verðlagið um 18%. Fyrstu 10 mánuði þessa árs hækkaði það hins vegar ekki nema um 61/2%, og er þá búíð að taka tillit til þeirrar verðhækkunar, sem varð á landbúnaðarvörum á s.l. hausti, en þessi verðhækkun landbúnaðarvaranna er ákveðin eftir á í samræmi við þær verðiags- og kaupgjaldshækkanir, sem orðið hafa næsta ár á undan, og er þetta reiknað út samkv. vísitölu landbúnaðarvara. Það, sem ég hef nú sagt, sýnir, að verðhækkunaraldan er nú að mestu stöðvuð og að þjóðin hefur það því í hendi sinni, hvort henni verður hleypt af stað aftur, því að ekki er búizt við verulegum hækkunum erlendis frá í næstu framtíð.

Ríkisstj. hefur haft gildar ástæður til að ætla, að stj. Alþýðusambands Íslands vildi fyrir sitt leyti gæta varúðar í þessum málum. Þegar verkalýðsfélögin sögðu upp samningum vorið 1951, náðist samkomulag áður, en til verulegs verkfalls kæmi milli verkalýðssamtakanna og atvinnurekenda og þá með aðstoð ríkisstj. Voru þá gerðar nokkrar breytingar á kjörum, sem báðir aðilar gátu vel sætt sig við. Jafnframt var það tryggt, að samningum yrði ekki sagt upp næstu 6 mánuði. Síðan hefur vinnufriður haldizt. Á s.l. vori áttu sér enn stað viðtöl um þessi mál milli ríkisstj., Alþýðusambandsins og atvinnurekenda. Varð það þá enn niðurstaðan, að engar vinnustöðvanir yrðu gerðar næstu 6 mánuðina. Samkomulag náðist um nokkur atriði, þ. á m. það, að sett yrði á laggirnar atvinnumálanefnd ríkisins til að vinna gegn atvinnuleysi á stöðum, sem hafa orðið hart úti vegna aflaleysis o.fl., og var þetta gert eftir sérstakri ósk Alþýðusambandsins, en í n. eiga sæti fulltrúar Alþýðusambandsins, Vinnuveitendasambandsins og ríkisstj. N. þessi hefur gert allmargar till. til úrbóta á atvinnuástandinu á ýmsum stöðum, og hefur að mestu leyti verið eftir þeim farið.

Ríkisstj. hefur samkv. því, sem nú hefur verið rakið, haft fulla ástæðu til að ætla, að það væri einlægur ásetningur Alþýðusambandsins að stuðla að því, að vinnufriður mætti haldast, og gera ekki kauphækkunarkröfur, sem atvinnuvegunum eru um megn og leiddu því af sér meiri eða minni framleiðslustöðvun og röskuðu algerlega því jafnvægi, sem stefnt hefur verið að í kaupgjalds- og verðlagsmálum að undanförnu. Tel ég og rétt og skylt að viðurkenna þessa afstöðu Alþýðusambandsins á undanförnum árum. Virtist líka sérstök ástæða til að ætla, að framhald yrði á slíku, þar sem útlit var fyrir, að jöfnuður væri í þann veginn að nást innanlands milli kaupgjalds og verðlags, eins og ég hef áður nefnt, og því minni ástæða, en jafnvel stundum áður til að hefjast sérstaklega handa í þessum efnum. Í ágústmánuði s.l. skrifaði stj. Alþýðusambandsins sambandsfélögunum bréf, og segir þar m.a. á þessa leið:

„Eins og ykkur hefur þegar verið tilkynnt, verður Alþýðusambandsþing haldið um miðjan nóvember n.k., og væri ekki óeðlilegt, að verulegum tíma þingsins yrði varið til þess að ræða þau málin, sem áður er getið (þ.e.a.s. kaup- og kjaramálin ásamt fleiru), og tæki það þá ákvarðanir um, hvað gera skuli. Á það skal bent, að þótt samningum væri sagt upp á næstunni, þannig að þeir yrðu úr gildi 1. des. n.k., er ekki þar með sagt, að nauðsynlegt væri að fara í aðgerðir eða deilu þá þegar, ef sambandsþingi sýndist annað vænlegra.“

Enn virðist sama stefnan í kaup- og kjaramálum vera ráðandi hjá stj. Alþýðusambands Íslands, þegar þetta bréf er ritað. Hún vill hafa samningana lausa, þegar Alþýðusambandsþingið kemur saman, til þess að þingið sjálft fái að fjalla um þá, og lætur sambandsfélögin vera í þeirri trú, að ekki komi til þess að ákveða verkföll fyrr, en þingið hafi tekið afstöðu til þess. Vitað er og að mörg verkalýðsfélög sögðu upp samningum eingöngu á þessum grundvelli, en gerðu alls ekki ráð fyrir því, að til verkfalls kæmi.

En nú virðast skyndilega hafa verið teknar upp nýjar vinnuaðferðir í þessum málum. Það leynir sér ekki, að Alþýðusambandsstj. og aðrir forráðamenn þess verkfalls, sem nú stendur yfir, hafa ákveðið að knýja verkfall fram án þess að reyna til þrautar samningaleiðir á sama hátt og gert var 1951 og aftur s.l. vor. Þar sem undirtektir hjá verkalýðsfélögum um uppsögn samninga voru mjög daufar og það svo, að einungis fá þeirra höfðu látið til sín heyra, þegar komið var fram í október, var farin sú leið að sigla undir fölsku flaggi, láta í veðri vaka við verkalýðsfélögin, að einungis ætti að hafa samninga lausa, þegar Alþýðusambandsþingið kæmi saman 23. nóv., en að sjálfsögðu tæki þingið sjálft þá málið í sínar hendur, en hins vegar haga öllum undirbúningi þannig að draga á langinn, að nokkrar verulegar viðræður gætu átt sér stað fyrir 1. des., þegar verkfall gat fyrst hafizt. Síðustu dagana áður en Alþýðusambandsþingið kemur saman, eggja svo verkfallsforingjarnir sem flest félög til þess að hefja verkfall frá 1. des., til þess að algerlega sé búið að binda hendur Alþýðusambandsþingsins, áður en það tekur til starfa. Meiri lítilsvirðingu er ekki hægt að sýna frjálsum félagsskap, en hér hefur verið gert.

Það er fyrst um miðjan nóvember, að samningan. verkalýðsfélaganna leggur kröfur sínar fyrir atvinnurekendur, en séu þær teknar undir eitt, munu þær nema um 30% kjarabótum, þar af 15% bein grunnkaupshækkun. Sáttasemjari er fyrst til kvaddur eftir 20. nóv., um það bil viku áður, en verkfall skyldi skella á. Það er fyrst 27. nóv., þremur dögum áður en verkfall skyldi hefjast, að n. frá delluaðilum koma til ríkisstj. Óskaði samningan. verkalýðsfélaganna eftir því, að ríkisstj. skærist í leikinn, þar sem atvinnurekendur teldu sig ekki geta greitt hærra kaupgjald. Voru þá í því samhandi nefnd nokkur atriði, sem óskað var sérstaklega eftir að athuguð væru og að einhverju leyti gætu haft kjarabætur í för með sér. Ríkisstj. tók strax vel í, að slík rannsókn færi fram, bauðst til að stuðla að því, að n. frá deiluaðilum og ríkisstj. tæki allt þetta til athugunar og rannsóknar, en að sjálfsögðu gegn því, að verkfallinu yrði frestað meðan slík rannsókn stæði yfir. Var það og í fullu samræmi við þau vinnubrögð, sem viðhöfð voru bæði vorið 1951 og aftur vorið 1952, en þessu var skilyrðislaust hafnað af hálfu samningan. verkalýðsfélaganna.

Þessi vinnubrögð öll bera þess ljóst vitni, að n. af ásettu ráði stefndi beint til verkfalls og vildi ekkert annað. Glæfralegri og ábyrgðarlausari verkamálapólitík hefur aldrei verið leikin, og hver er ástæðan? Hún getur aðeins verið ein. Stjórnarandstæðingar núverandi ríkisstj. og þingmeirihluta sáu, að ástand yfirleitt í atvinnu- og fjárhagsmálum fór batnandi. Atvinnuleysi er minna, en fyrir ári. Horfur um aflabrögð og atvinnulíf eru betri sums staðar, þar sem erfiðast var áður, þótt víða séu mikil vandræði enn. Vitað var, að hægt yrði að afgreiða fjárl. á sómasamlegan hátt, án þess að þyrfti að hækka nokkra skatta. Líkur voru til, að hægt yrði að ljúka hinum miklu mannvirkjum, rafvirkjununum og áburðarverksmiðju, á næsta ári. Margt fleira hliðstætt þessu mætti nefna. Þennan árangur af starfi ríkisstj. og þingmeirihl. varð að eyðileggja, hvað sem það kostaði. Kosningar voru fram undan innan fárra mánaða. Stjórnarandstæðingar óttuðust hina sterku aðstöðu stjórnarfl. í þeim. Þess vegna var ekki hlustað á þá till. ríkisstj., sem hún ekki einu sinni, heldur tvisvar bar fram, að fresta verkfalli meðan rannsókn, sem samningan. verkalýðsfélaganna sjálf óskaði eftir að yrði framkvæmd, færi fram.

Hefði verið farið að till. ríkisstj., verkfalli frestað í bili, n. skipuð frá deiluaðilum báðum og ríkisstj. til þess sameiginlega að taka til meðferðar ráðstafanir, er að einhverju leyti gætu greitt úr deilunni, hefði ríkisstj. að sjálfsögðu farið eins að og áður undir sömu kringumstæðum, leitað að leiðum til samkomulags til þess að hindra það, að til verkfalls þyrfti að draga, og veitt alla aðstoð að því.

Ég hef að sjálfsögðu ekkert við því að segja, þó að þeir pólitísku stríðsmenn, sem valizt hafa til einhvers konar forustu hjá verkalýðssamtökunum, tefli sitt pólitíska tafl með nokkru tilliti til þeirra kosninga, sem standa fyrir dyrum á næsta ári. Og ríkisstj. ætlast ekki til neinnar tillitssemi í sinn garð af þeirra hálfu. En þá kröfu verður vissulega að gera til þessara manna, að þeir haldi slíkum aðgerðum innan skynsamlegra takmarka og gangi ekki lengra, en lög leyfa. Verkfall og afleiðingar þess eru ekkert gamanmál. Verkfall bitnar þunglega á öllum þeim, er þátt í því taka og missa vinnu sína af þeim ástæðum. Þess ber því að krefjast af verkfallsforingjum, að slíku vopni sé ekki beitt fyrr, en fullprófað sé, að ekki séu önnur úrræði fyrir hendi. Þetta hafa þeir foringjar, er þessu verkfalli stjórna, vanrækt, eins og glögglega er rakið hér að framan. Þeir hafa fyrirhyggjulaust flanað út í þetta verkfall, áður en reynt var til þrautar að ná samningum. Slíkum foringjum geta verkamenn ekki treyst, því að með slíkum vinnubrögðum leiða þeir umbjóðendur sína, verkamennina, og þjóðfélagið allt til vaxandi fátæktar og örbirgðar.

Árið 1950 var af hálfu Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja skipuð sérstök nefnd hagfræðinga og annarra sérfróðra manna, er athuga skyldu og semja skýrslu um viðhorf launþega til kauphækkana yfirleitt. Þessi n., fulltrúar launþeganna sjálfra, samdi þessa skýrslu, og segir þar m.a. á þessa leið:

„Í stuttu máli má segja, að eins og viðhorfið er nú í íslenzku þjóðfélagi, séu almennar kauphækkanir ekki vænleg leið til kjarabóta fyrir launþega. Það, sem mestu ræður um slíkar kjarabætur, eru tæknilegar, stjórnmálalegar og félagslegar aðstæður, sem launþegasamtökin aðeins geta haft óbein áhrif á. miklar almennar kauphækkanir hafa einnig í för með sér alvarlegar truflanir á starfsemi efnahagslífsins og síaukna verðmætisrýrnun sparifjár, afleiðingar, sem launþegasamtökin geta ekki látið hjá líða að taka tillit til, er þau marka stefnu sína.“

Menn athugi, að það eru fulltrúar launþeganna sjálfra, sérfróðir og athugulir menn, sem fyrst og fremst höfðu launþegasjónarmið í huga, sem þessi ummæli létu frá sér fara. Þeir launþegar, sem kunna að líta á það með tortryggni, sem ríkisstj. segir, ættu þó að minnsta kosti að taka fullt mark á orðum sinna eigin fulltrúa. Þessi ummæli eru tekin úr skýrslu um afstöðu launþega til kauphækkana árið 1950. Hafi þessi ummæli verið rétt þá, að almennar kauphækkanir séu ekki vænleg leið til kjarabóta, þá er víst, að hið sama gildir nú, nema það væri þá í enn ríkari mæli.