08.12.1952
Sameinað þing: 22. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

1. mál, fjárlög 1953

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. „Þetta geta þeir“, sagði Alþýðublaðið, það flutti fregnir um verðlækkanir í Noregi. Hannibal Valdimarsson var einnig hrifinn af þessum verðlækkunum hér áðan. En hvað mundu þeir segja hér um þá aðferð að taka einstakar vísitöluvörur út úr og lækka á þeim verðlagið með niðurborgun eða með tollalækkunum? Fram að þessu hafa þvílíkar aðferðir verið kallaðar hér fölsun vísitölunnar, af því að þá lækka þær vörur einar, sem eru í vísitölunni, og kaupið þar með, en ekki hinar vörurnar, sem eru utan við vísitöluna, og einmitt þessi aðferð var ein af þeim, sem Alþýðusambandið lagði áherzlu á eftir gengislækkunina að ekki væri notuð á Íslandi.

Hv. þm. Ísaf. kom hér með leynivopnið við sparnaðinum. Ég mun ræða það nánar annað kvöld. En aðaltill. voru tvær. „Það má strika út 16 millj. kr. fjárveitingu til sauðfjárveikivarnanna, greiða bæturnar með skuldabréfum.“ Fjárlausir og tekjulausir bændur eiga sem sé að lána ríkissjóði fé til þess að greiða sjálfum sér fjártjónsbæturnar. „Það má strika út 8 millj. kr., sem greiddar eru í aukavinnu og tímavinnu,“ sagði Hannibal. Það skipti þm. auðvitað engu, þótt það yrði að kaupa fasta starfsmenn til þess að vinna þá vinnu, sem nú er unnin í aukavinnu, og ekkert varðar hann heldur um það, þótt forstöðumenn starfsgreinanna haldi því fram og leggi við sóma sinn, að þeir láti vinna aukavinnu af því, að það sé dýrara að hafa fleiri fasta starfsmenn.

Málflutningur stjórnarandstæðinga hér ber þess ekki vott, að þeir beri mikla virðingu fyrir sér eða hafi mikið álit á hlustendum. Við skulum athuga ofur lítið áróður þeirra um fjármálin. Þegar búið er að tína gífuryrðin úr, þá er eftir kjarninn, en hann er sá, að því er þessi mál varðar, að vera á móti öllum sköttum og tollum til ríkissjóðs, þykjast vera með sparnaði, sem þeir þó af góðum og gildum ástæðum vilja ekki trúa neinum fyrir, og ef þeir gera það, þá reynast till. eins og þær, sem Hannibal Valdimarsson flutti hér áðan, fylgja svo samtímis hverri útgjaldatill. og hverju frv. til útgjalda, sem fram kemur, og gera loks sjálfir stórfelldar kröfur á hendur ríkissjóði með frumvarpaflutningi og fundasamþykktum. Ein uppáhaldskenning þessara manna núna um skeið, eða nánar tiltekið síðan þeir fóru úr ríkisstj., hefur verið sú, að hækkaðir tollar eigi meginþátt í dýrtíðinni og að mögulegt væri að gera stórfelld átök til lækkunar henni með lækkun tolla og söluskatts. Það er mál út af fyrir sig, að núverandi ríkisstj. og þingmeirihluti hafa ekki hækkað tolla, og geri ég því skil síðar, en hitt skiptir meginmáli í sambandi við þessar fullyrðingar, hvort hægt er eða ekki að lækka svo að um munar verðlag í landinu með því, að ríkissjóður afsali sér að verulegu leyti tolltekjunum.

Hver eru þá áhrif tollanna á dýrtíðina? Söluskatturinn og verðtollurinn hafa mesta þýðingu í þessu sambandi. Þeir gefa ríkissjóði nærri 200 millj. kr. á ári, eða sem næst helming ríkisteknanna. Hagstofustjóri hefur áætlað eftir minni beiðni, hversu miklu söluskatturinn og verðtollurinn muni nema í verðlaginu yfirleitt. Hefur hann komizt að þeirri niðurstöðu, að samtals nemi þessir skattar, sem færa ríkissjóði helming teknanna, um 101/2 vísitölustigi. Setjum nú svo, að þeir væru lækkaðir um 10%. Þá mundi það samkv. þessu lækka vísitöluna um rúmlega 1 stig og verðlag þeirra vara, sem eru utan við vísitöluna, sennilega að sama skapi. Kaupgjald mundi þá hins vegar að sjálfsögðu lækka einnig um þetta rúmlega 1 stig, og því mundi þessi ráðstöfun ekki verða að neinu leyti kjarabót fyrir verkamenn eða aðra launþega, en ríkissjóður mundi missa 18 millj. af tekjum sínum. Það mundi aftur á móti hafa þær afleiðingar, sem ég kem að síðar og allra sízt væru hagstæðar fyrir verkamenn. Þetta vita forkólfar stjórnarandstæðinga, og það þarf því mikla forherðingu til að berja höfðinu við steininn ár eftir ár í þessu sambandi, og það er þokkalegur trúnaður við málstað þeirra manna, sem hafa falið þeim forstöðu mála sinna, að halda því fram og hafa haldið því fram gegn betri vitund, að hægt væri að gera stórátök til lækkunar verðlagi og til kjarabóta fyrir launþega með því að lækka eitthvað tollana. Ég veit ekki, hvaða orð eiga bezt við um þá forkólfa stjórnarandstöðunnar, sem telja verkamönnum trú um, að það væri sérstakur hagur fyrir þá, að lækkaðir væru tollar við þessar aðstæður og dregið þannig stórkostlega úr þeim möguleikum, sem ríkissjóður hefur til að halda uppi framkvæmdum og gera ráðstafanir til atvinnuaukningar.

En þá kemur spurningin: Er ríkissjóður ekki ágætlega aflögufær? Getur hann ekki haldið uppi öllum nauðsynlegum greiðslum, ríflegum fjárframlögum til verklegra framkvæmda og atvinnuaukningar? Er ekki óhætt þess vegna að lækka ríkistekjurnar? Gott væri að fá tollalækkanir, þótt þær hefðu ekki mjög mikil áhrif á dýrtíðina, mundi margur segja. Um þetta vil ég fara fáeinum orðum.

Áður en núverandi ríkisstj. tók við, var ríkissjóður rekinn með gífurlegum greiðsluhalla, síðustu tvö árin um 40 millj. kr. að meðaltali á ári. Strax á fyrsta ári tókst að rétta þennan halla alveg við, og stóðust tekjur og gjöld á árið 1950. Árið 1951 var verulegur greiðsluafgangur vegna þess, að þá var flutt óvanalega mikið inn í sambandi við breytta verzlunarstefnu, enda jukust vörubirgðir í landinu á því árí. Þessi greiðsluafgangur var allur notaður til framlaga í þágu atvinnuveganna, til framkvæmda og til þess að greiða hluta af andvirði 10 togara, sem ríkið keypti og dreift var um landið. Horfur um afkomu ríkissjóðs á þessu ári, áður en verkfallið, sem nú stendur yfir, skall á, voru þær, að jöfnuður náist, en ekki meira, og því ekkert fé verða til ráðstöfunar af ríkissjóðstekjum þessa árs til atvinnumála, sem þó hefði verið nauðsynlegt að styðja með fjárframlögum. Horfurnar um afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1953 eru þær, eftir 2. umr. þeirra, að það er hægt að afgreiða fjárlögin greiðsluhallalaust og hægt að ætla eitthvert fé til atvinnuaukningar án þess að leggja á nýja skatta og tolla, ef ekki verða gerðar ráðstafanir til stórkostlegra, almennra kauphækkana. Næðu hins vegar fram að ganga kröfur þær, sem nú liggja fyrir um kauphækkanir, þá yrði afleiðingin annað af tvennu eða hvort tveggja, að skera yrði niður stórkostlega eða fella með öllu niður verklegar framkvæmdir eða hækka tollana um marga milljónatugi.

En hvað hefur þá áunnizt fyrir almenning við þessa stefnubreytingu í fjármálum, sem ég var að lýsa áðan, og við það, að rekinn hefur verið greiðsluhallalaus ríkisbúskapur?

Það er fyrst, að ríkissjóður hefur getað haldið uppi miklum verklegum framkvæmdum. Ríkissjóður hefur getað innt af höndum stóraukin framlög til framkvæmda í kaupstöðum, kauptúnum og sveitum. Nægir í því sambandi að minna á lán til smáíbúða, verkamannabústaða, til ræktunar og húsabygginga og framlög til atvinnutækjakaupa þar, sem verst hefur á staðið. Þá hefur ríkissjóður verið þess megnugur að leggja fram verulega fjármuni þar, sem sérstök óhöpp hafa steðjað að, svo sem harðindi eða aflaleysi, til styrktar og atvinnuaukningar, og nema þau framlög, sem ríkissjóður hefur innt af hendi og er í þann veginn að greiða til þessara mála á þessum síðustu tveim árum, um 20 millj. kr. Hefur þetta fé víða komið að ómetanlegu gagni.

Tekizt hefur að leysa út og fá til landsins togarana 10, sem búið var að festa kaup á, þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum, en tvímælalaust hefði orðið að selja erlendis vegna vanskila og hefðu aldrei til landsins komið, ef ríkissjóður hefði ekki haft aukin fjárráð frá því, sem var, þegar hallabúskapurinn var látinn viðgangast.

Hallalaus ríkisbúskapur hefur fremur, en nokkuð annað opnað okkur aðgang að Alþjóðabankanum, og hafa frá þeirri stofnun runnið inn í landið 70 millj. kr. í lánsfé á þessu tímabili til virkjananna, áburðarverksmiðjunnar og landbúnaðarins. Ég fullyrði, að það er með öllu óhugsandi, að þessi lán hefðu fengizt, ef hér hefði rekið á reiðanum um fjárhagsafkomu ríkisins og það ófremdarástand haldizt í þeim málum og í framleiðslumálum, sem hér ríkti áður, en núverandi stjórn tók við.

Vegna þess, að ríkisbúskapurinn var hallalaus og stefnt með því og fleiri ráðstöfunum að auknu jafnvægi í þjóðarbúskapnum, lagði Greiðslubandalag Evrópu einnig fram 73 millj. ísl. króna til þess að stuðla að því, að verzlunin gæti orðið frjálsari, en áður. Þetta framlag hefði aldrei getað komið til mála, ef ríkisbúskapurinn hefði ekki verið færður í lag, og hefði hallarekstur ríkisins verið látinn halda áfram, hefðu menn síðustu árin búið áfram við vöruskortinn, svartamarkaðinn, keðjuokrið og misréttið í verzluninni, sem menn urðu að þola áður til tjóns og vanvirðu.

Það mætti leiða nokkrum getum að því, hvernig hér væri ástatt, ef ekki hefði verið tekið í taumana og hallareksturinn stöðvaður. En á þessum fáu dæmum sést, að hin breytta fjármálastefna hefur blátt áfram komið í veg fyrir hrun og afstýrt stórfelldu atvinnuleysi, sem hefði hlotið að verða hlutskipti manna, ef áfram hefði verið látið reka á reiðanum. Það væri ekki hægt að hugsa sér verri fjörráð við alþýðu stéttir landsins, en þau að svipta ríkissjóð tekjum, þannig að taka yrði upp aftur óreiðu- og hallabúskap ríkisins, með þeim afleiðingum, sem það hlyti að hafa fyrir möguleika ríkissjóðs til að halda uppi framkvæmdum í landinu, og þá jafnframt vegna þess, að slíkt búskaparlag mundi gersamlega girða fyrir, að hægt væri að fá erlent lánsfjármagn til þeirra framkvæmda hér á landi, sem við þurfum að fá erlent fé til eða láta ógerðar ella.

Stjórnarandstæðingar eru sífellt að klifa á einhverju, sem þeir kalla skatta- og tollahækkanir núverandi ríkisstj. Þegar þeir á hinn bóginn eiga að gera grein fyrir fullyrðingum sínum um þetta, vefst þeim tunga um tönn, reyna þó að halda því fram helzt, að núverandi ríkisstj. hafi aukið skattabyrðarnar sem söluskattinum nemur, þar sem söluskatturinn hafi áður verið notaður í útflutningsuppbætur, en gangi nú til ríkissjóðs.

Það er rétt, að fyrir gengislækkunina átti söluskatturinn að ganga til útflutningsuppbóta og til dýrtíðarráðstafana innanlands, en söluskatturinn gekk bara ekki til þessara ráðstafana, nema að litlu leyti. Hann hvarf í þann gífurlega greiðsluhalla, sem var á rekstri ríkissjóðs fyrir gengisbreytinguna. Við sjáum einna gleggst, hvernig þetta mál raunverulega lá fyrir, á því, að áður en gengisbreytingin var gerð, hafði verið lagt fram frv. til fjárlaga fyrir árið 1950, þar sem gert var ráð fyrir söluskattinum tekjumegin, en engum útflutningsuppbótum gjaldamegin, og með því móti náðist jöfnuður á frv. og engu öðru móti. M.ö.o., fjárlagafrv. fyrir 1950 var viðurkenning á því, að fyrir gengislækkunina var svo komið, að söluskatturinn stóð ekki undir útflutningsuppbótum, heldur varð að renna í ríkissjóð. Þetta er heldur ekkert undarlegt, þegar þess er gætt, hversu gífurlegur greiðsluhalli var þessi árin. Lausaskuldasöfnunin, nam meiru en útflutningsuppbótunum.

Það er óhagganleg staðreynd, að núverandi ríkisstj. hefur náð þeim árangri um fjárhagsafkomu ríkisins, sem fyrir liggur, og getað innt af hendi þau framlög í þágu almennings, sem hún hefur gert, án þess að skattalöggjöf eða tollalöggjöf hafi verið breytt til hækkunar. Nokkrar tilfærslur hafa verið gerðar í skatta- og tollalöggjöfinni, en heildaráhrif þessara breytinga eru tvímælalaust til lækkunar, en ekki hækkunar. Slíku hefur þjóðin hins vegar ekki átt að venjast undanfarið, og það má teljast meira en lítil óskammfeilni af stjórnarandstæðingum, sem aldrei hafa tekið þátt í stjórn, án þess að það hafi þurft að hækka skattana og tollana, að gera skatta- og tollamálin að sérstöku ádeiluefni á þá stjórn, sem án nýrra skatta- og tollahækkana hefur skilað greiðsluhallalausum ríkisbúskap í þrjú ár og lagt fram meira fé til verklegra framkvæmda og stuðnings atvinnumála, en dæmi eru til áður. Ofan á þetta bætist svo, að einmitt vegna fjármálastefnu stjórnarinnar hefur mjög mikið erlent fjármagn komið til landsins og opinberar framkvæmdir, sem stjórnin hefur útvegað fé til, orðið svo miklar, að ekkert sambærilegt hefur áður þekkzt. Á hverju ári hafa stjórnarandstæðingar reynt að eyðileggja þessa stefnu í framkvæmd. Þeir hafa beitt sér gegn samþykkt söluskattsins t.d. og með óheiðarlegu lýðskrumi reynt að koma því inn hjá mönnum, að ríkissjóður þyrfti ekki á honum að halda. Hefðu orð þeirra og till. verið að einhverju höfð, þá væri það nú orðið að stórtjóni fyrir afkomu alþýðustéttanna og þjóðarinnar í heild. Það ætti að geta verið hverjum ljóst, sem hugleiðir, hver áhrif fjármálastefna stjórnarinnar hefur haft fyrir atvinnu og framkvæmdir í landinu.

Þá kem ég að ríkisútgjöldunum, þeirri spurningu, hvort hægt sé að lækka ríkisútgjöldin, og vík um leið að afstöðu stjórnarandstæðinga til þeirra mála.

Þótt ég hafi sýnt fram á, að lækkun ríkisútgjaldanna og þar af leiðandi lækkun á tollum mundi ekki hafa nein veruleg áhrif á dýrtíðina, þá væri lækkun ónauðsynlegra ríkisútgjalda þýðingarmikil fyrir því, og þá ekki sízt vegna þess, að ef hægt væri að lækka þau, þá væri auðveldara um vík að lagfæra agnúa á skattalöggjöfinni, og þá losaðist fé, sem unnt væri að láta ganga til sumra þeirra nauðsynjamála, sem nú verða ýmist að bíða betri tíma eða ganga hægara að marki, en skyldi.

Reyna má að bregða upp á örfáum mínútum mynd af ríkisútgjöldunum, miða þá við fjárlagafrv. eftir 2. umr.

Til vaxtagreiðslna eru áætlaðar 3 millj. og 700 þús. kr. Ekki verður hlaupizt frá þeim. — Alþingiskostnaður er metinn á 3 millj. og 700 þús. kr. Engan hef ég heyrt halda því fram, sem til þekkir, að hægt væri að komast af með styttra þinghald, en verið hefur síðan þessi stjórn tók við. Engar till. eru heldur í hávaða um það að leggja Alþ. niður, þótt hitt sé á hinn bóginn ljóst, að ætlunin sé að setja þinginu stólinn fyrir dyrnar, og þeir standi fyrir því, sem ekki hafa fengið umboð þjóðarinnar í kosningum til þess að ráða málum á Alþ.

Til dómgæzlu og lögreglustjórnar eru veittar 25 millj. kr., landhelgisgæzlan og lögreglukostnaðurinn er um 16 millj. kr. af því. Ekki er hin minnsta hreyfing uppi um að draga úr þessum kostnaði. Þvert á móti eru háværar kröfur um það úr öllum áttum, að ríkið taki á sig meira af lögreglukostnaði, og úr öllum áttum kröfur um meiri landhelgisgæzlu. Auðvitað eru stjórnarandstæðingar háværastir í þessum kröfum eins og öllum kröfum, sem horfa til aukinna útgjalda ríkisins.

Til læknaskipunar og heilbrigðismála eru veittar 28 millj. kr. Þetta er aðallega hallinn á sjúkrahúsum ríkisins, framlag til sjúklinga, sem þjást af langvinnum sjúkdómum, læknalaun og framlög til byggingar sjúkrahúsa. Úr öllum áttum eru óskir og kröfur um meiri framlög til heilbrigðismála, og stórar stofnanir eru í byggingu, sem munu hafa í för með sér aukin framlög til þessara mála í framkvæmdinni. Sterkar óskir eru um aukin framlög til sjúkrahúsabygginga. Stjórnarandstæðingar eru auðvitað fremstir í flokki um kröfurnar. Það er svo auðvelt að krefjast framlaga til vinsælla mála, ausa svo svívirðingum á þingmeirihlutann fyrir að taka ekki allar slíkar óskir til greina, þykjast svo þar á ofan berjast fyrir sparnaði og lækkun ríkisútgjalda og afnámi tolla.

Til samgöngumála hafa verið veittar 60 millj. kr. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta. Þetta fé fer til vegagerða, hafnargerða, brúa og strandferðakostnaðar og flugmála. Það er á allra vitorði, að menn koma tæplega svo saman, tveir eða fleiri, að ekki sé á það minnzt, að hækka þurfi þessi framlög, og um yfirboð stjórnarandstæðinga í þessu er óþarft að ræða. Þau eru svo alþekkt.

Til kirkjumála eru veittar 6 millj. kr., og er nú alveg nýlega fenginn öruggur vitnisburður um það, að Alþ. ætlar sér ekki að lækka framlög til þeirra mála. Það sást á síðasta þingi, þegar fjallað var um fækkun prestakalla.

Til kennslumála fara 56 millj. Mörgum þykir kennslulöggjöfin dýr í framkvæmd, en ekki geri ég ráð fyrir, að stjórnarandstæðingum finnist það, því að þeir höfðu forustu um setningu hennar og ætluðu að rifna af monti út af því. Þeir hafa enn fremur uppi sífelld yfirboð til skólamála. Um möguleika á því að spara á skólakostnaðinum er það að segja helzt í fljótu bragði, að það mun sýna sig í því sambandi, að auðveldara er að stofna til kostnaðar af þessu tagi, en að losna við hann aftur. Eitt er vist, að þótt samtök fengjust um skynsamlegar sparnaðarráðstafanir í því efni og ráðstafanir til þess að takmarka óeðlilega útþenslu í þessum málum, þá tekur það sinn tíma, að slíkar ráðstafanir hafi áhrif til lækkunar útgjalda, og mundi ekki hafa nein áhrif á þau fjárlög, sem nú verða afgreidd, eða tekjuþörf ríkissjóðs á næsta ári.

Til bókmennta og listastarfsemi og til rannsókna í opinbera þágu eru veittar 11 millj. Þetta er kostnaður við söfnin, skáldalaunin, veðurþjónustan og rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Enginn hefur viljað halda því fram, að feitan gölt væri að flá til lækkunar á þessari grein fjárlaganna, og allra sízt stjórnarandstæðingar.

Til atvinnuveganna eru veittar 53 millj. kr. á 16. gr. Linnir ekki kröfum úr öllum áttum um aukin framlög til atvinnuveganna og stjórnarandstæðingar auðvitað fremstir í flokki með yfirboð sín og sýndarkröfur. Á þessari grein eru framlög til raforkumála t.d., og þekkja menn flestir þörfina fyrir aukin framlög til þeirra mála.

Til félagsmála eru veittar 45 millj., og er langsamlega mestur hluti þeirrar fjárhæðar vegna tryggingalaganna. Liggja hér fyrir Alþ. till. frá stjórnarandstæðingum um stórkostlega aukin framlög til trygginganna.

Til eftirlauna og styrktarfjár og til óvissra útgjalda er samtals veitt 41 millj. kr. Þar af eru 28 millj. vegna niðurgreiðslu á vörum innanlands, og mundi dýrtíðin óhjákvæmilega hækka mikið, ef niðurgreiðslum þeim væri hætt eða þær lækkaðar. Um 12 millj. kr. eru eftirlaun og styrktarfé, aðallega framlög til lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna samkv. l. og nokkrar fjárveitingar til uppbóta á eftirlaun, sem menn hver um annan þveran hafa keppzt við að samþ., stjórnarandstæðingar ekki síður en aðrir.

Loks eru á fjárlögum afborganir lána og greiðslur vegna ríkisábyrgðar, 22.5 millj., en frá þeim skuldbindingum verður víst tæpast hlaupið, og framlög á 20. gr. til eignaaukningar, þ.e.a.s. framlög til verklegra framkvæmda, sem taldar eru varanleg eign, þegar lokið er, 18 millj. kr., og enginn vill lækka þau, heldur keppast allir við að fá þau hækkuð sem mest, stjórnarandstæðingar auðvitað óþreytandi í svívirðingum sínum um ríkisstj. fyrir það að stórauka ekki þessi framlög.

Þá hef ég talið 375 millj. af útgjöldum fjárlagafrv., en gjöldin eru alls 400 millj. Ég hef því talið 931/2% af öllum ríkisútgjöldunum. og allir þessir liðir, sem ég hef talið, eru þannig vaxnir, að þeir eru annaðhvort alveg fastir eða þess eðlis, að stjórnarandstæðingar hafa uppi háværar kröfur um hækkun á þeim. Og ýmsir þessir liðir og það sumir hinir stærstu eru þannig, að nær öll þjóðin óskar eftir hækkun á þeim, ef peningar væru til að leggja meira fé fram.

Eftir eru þá ótaldar 25 millj. kr. Það er kostnaður við ríkisstarfræksluna í þrengstu merkingu, utanríkisþjónustan, skatta- og tollainnheimta, sameiginlegur embættiskostnaður yfirleitt. Þessi kostnaður nemur 61/2% af útgjöldunum. Öllum væri að sjálfsögðu ósárt um, þó að þessi upphæð væri lægri, ef hægt væri að inna alla nauðsynlega þjónustu ríkisins af hendi samt sem áður. Allt kapp verður að leggja á slíkt, enda sífellt unnið mikið starf af ýmsum til þess að takmarka þennan kostnað. Ég skal engar fullyrðingar frammi hafa um möguleika í þessu sambandi. En til þess að fá mynd af málinu skulum við gera okkur í hugarlund, að einhver hinna miklu sparnaðarkappa kæmi til sögunnar og hann kæmi á 15% — eða til þess að vera ekki of smátækir skulum við segja 20% lækkun á þessum beina starfrækslukostnaði. Slíkt átak mundi þýða 5 millj. kr. sparnað eða 1.2% lækkun á ríkisútgjöldunum. Lítið mundi það nú hrökkva upp í allar till. stjórnarandstæðinga um hækkun ríkisútgjaldanna á öðrum sviðum, til skólamála, tryggingamála, heilbrigðismála, samgöngumála o.s.frv., og lítið mundi verða afgangs til lækkunar sköttum og tollum. Hér við bætist svo, að stjórnarandstæðingar eru sífellt að koma sér í mjúkinn hjá opinberum starfsmönnum með því að ýta undir kröfur af þeirra hendi um almennar grunnlaunahækkanir þeim til handa.

Annars eru stjórnarandstæðingar þrautreyndir sparnaðarmenn. Við þekkjum sparnað Áka Jakobssonar í flugmálum og síldarmálum t.d., Brynjólfs Bjarnasonar í kennslumálum og forkólfa Alþfl. í starfsgreinum þeim og stofnunum, sem þeim hefur verið falið að stýra. Kommúnistar og Alþfl.- menn eru blátt áfram frægir fyrir hirðuleysi um kostnað við opinberan rekstur.

Eitt dæmi, sem sýnir glöggt, hve takmarkalaus hræsni stjórnarandstæðinganna er, þegar þeir eru að tala um sparnað í opinberum rekstri, er afstaða þeirra til vinnutíma opinberra starfsmanna. Þegar núverandi ríkisstj. beitti sér fyrir því að lengja vinnutíma opinberra starfsmanna úr 351/2 klst. á viku í 381/2 klst. á viku, eða um klst. á dag, þá reyndu útsendarar stjórnarandstæðinga með öllu móti að fá opinbera starfsmenn til þess að gera ólöglegt verkfall og reyna þar með að koma í veg fyrir lengingu vinnutímans. Það var ekki þeim að þakka, heldur hinu, að opinberir starfsmenn fóru sínu fram og höfðu þeirra æsingar að engu, að til slíks kom ekki.

Ég ætla, að með þessum upplýsingum hafi verið rækilega flett ofan af blekkingum stjórnarandstæðinga um ríkisútgjöldin, tollana og samband þeirra við verðlagsmálin. Þessar upplýsingar og afstaða stjórnarandstæðinga til fjármálanna sýnir það alveg svart á hvítu, svo að ekki verður um deilt, að engin stjórn né nokkur þingmeirihluti er svo mikið sem hugsanlegur eins og nú standa sakir, sem haft gæti lægri fjárlög og lægri ríkisútgjöld en þessi stjórn og sá meiri hluti, sem nú ræður afgreiðslu mála á Alþ. Ef stjórnarandstæðingar leyfa sér að vefengja þetta, þá þýðir það, að þeir stimpla till. sínar til aukinna ríkisútgjalda botnlaust skrum.

Enn fremur er það alveg augljóst mál af þessum upplýsingum, að engir möguleikar eru fyrir hendi til þess, hvorki fyrir þá stjórn, sem nú situr, né aðrar, að færa niður ríkisútgjöldin þannig, að það hafi áhrif á dýrtíðina, nema með því að skera stórkostlega niður framlög til atvinnuveganna, til verklegra framkvæmda, til trygginga, heilbrigðismála og allrar annarrar slíkrar þjónustu. Þetta er blátt áfram staðreynd. Þótt öll minna vinsæl útgjöld væru skorin að kviku, þá dregur það ekki sem máli skiptir í þessu sambandi. Afleiðing af slíkri niðurskurðarpólitík yrði hins vegar hreinlega stórfellt atvinnuleysi og kjararýrnun allra þeirra, sem erfiðasta hafa aðstöðuna vegna óstöðugrar atvinnu, heilsuleysis, ómegðar eða vegna annarra erfiðleika. Er þetta það, sem á að þvinga fram með baráttunni fyrir því að svipta ríkissjóð tekjum hans? Eða er það hallareksturinn, sem að er keppt, sem á örstuttum tíma mundi leiða til sömu niðurstöðu?

Sagan um fjárhagsmálin og afskipti stjórnarandstæðinga af þeim er óvenjulega ljót saga. Maður getur skilið kommúnistana. Þeir vilja þjóðskipulagið feigt, vilja koma hér á einræði að rússneskri fyrirmynd, þar sem ekki þarf á skilningi almennings að halda, þar sem verkföll eru bönnuð, kaupið skammtað af stjórninni og þar sem barátta gegn söluskatti Stalins mundi jafngilda landráðum. Kommúnistar vinna sem sé hér og í öðrum lýðræðisþjóðfélögum eftir reglunni: Þeim mun vitlausara, þeim mun betra. — En hvað eru Alþfl.- menn að fara með því að snúa svo gersamlega við öllum staðreyndum og taka upp þessar starfsaðferðir, sem hljóta að koma þeim sjálfum í koll, ef nokkur legði minnsta trúnað á það, sem þeir halda fram nú um efnahagsmálin? Það er erfiðara að sjá.

Allur málflutningur stjórnarandstæðinga í fjárhagsmálunum er þannig, að þeir ættu að biðja fyrirgefningar á honum, ekki fyrst og fremst ríkisstj., þótt sumum kynni að finnast það eðlileg kurteisi, heldur fyrst og fremst það fólk, sem hefur haft þá að trúnaðarmönnum og þeir hafa gefið rangar upplýsingar.

Nú hefur verið stofnað til mikillar deilu við atvinnurekendur um launakjör, deilu, sem á sér þó pólitískar rætur fyrst og fremst. Inn í þá deilu hefur þeim málum mjög verið blandað, sem ég hef rætt hér í kvöld. Menn eru nú að sannfærast fullkomlega um það af því, sem upplýst hefur verið, að hnútur sá, sem er nú riðinn, verður því miður ekki með því leystur, að dýrtið verði lækkuð á kostnað ríkissjóðs, nema þá með svo geigvænlegum afleiðingum fyrir þá, sem sízt mega við áföllum, að enginn heiðarlegur maður getur gerzt talsmaður þess, að svo verði gert. Verði á hinn bóginn knúnar fram kauphækkanir, sem atvinnureksturinn getur ekki með nokkru móti borið, þá þýðir það ekki nema eitt af tvennu: almennt atvinnuleysi eða gengisfall, eða aðrar slíkar ráðstafanir, til þess að framleiðslan geti gengið. Enginn getur hagnazt neitt af því.

Hér er því vandi úr að ráða. Hafa verður í huga, að það, sem mestu máli skiptir, er að tryggja og efla atvinnuna og jafnframt að þeir, sem mesta þörf hafa fyrir að bæta sinn hag, eru fjölskyldumenn í lægstu tekjuflokkunum. Því verður að leita gaumgæfilega eftir leiðum til þess að bæta hag þessara manna frá því, sem nú er, án þess að til ráðstafana þurfi að koma, sem leiða af sér samdrátt atvinnu og enn þá aukna dýrtíð. Ef stjórnarandstæðingar í Alþýðusambandinu hefðu látið hagsmunasjónarmið ein ráða gerðum sínum nú, þá hefðu þeir leitað samvinnu við ríkisstj. um ráðstafanir í þessa stefnu, í stað þess að knýja fram á bak við Alþýðusambandsþing í raun og veru verkföll um kröfur, sem ekki gætu orðið að gagni verkamönnum, þótt þær fengjust samþ., en á hinn bóginn skapað öngþveiti í framleiðslunni, sem kæmi fram í kjararýrnun, en ekki kjarabótum.