08.12.1952
Sameinað þing: 22. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

1. mál, fjárlög 1953

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Íslendingar hafa lengst af búið í strjálbýli og þurft að sækja viðurværi sitt í jarðargróður eða sjávarafla. Meðan svo háttaði, þurftu menn mjög að treysta á sinn eigin mátt og megin, og gat þó aldrei dulizt, að veðurfar og aflabrögð réðu eigi síður miklu um afkomu þeirra en dugnaður og atorka, jafnframt því sem afkoman var ætíð mjög háð verzlunarháttunum.

Íslendingar voru lengi lítt félagslyndir, og var það eitt helzta verkefni forustumanna á 19. öld og fyrri hluta hinnar 20. að vekja þá til vitundar um mátt og gagnsemi samtakanna. Allt hefur þetta gerbreytzt á fáum árum. Sem betur fer helzt að vísu enn víðast hvar byggð um sveitir landsins, en svo margir búa nú í þéttbýlinu, að höfuðborg okkar er sennilega hlutfallslega hin stærsta í heimi. Með almennum samtökum hafa menn sigrazt á ýmsum örðugleikum okkar harðbýla lands og bætt aðstöðu sína til framleiðslu og viðskipta, enda hefur félagslyndi þroskazt svo, að ýmsir virðast nú ætla, að öllu verði náð, ef menn bindast um það samtökum eða gera um það fundarsamþykktir.

Þéttbýlið og meiri verkaskipting með þjóðinni en áður, leiða meira að segja til þess, að sumir gleyma því, að líf hvers einstaklings og þjóðarheildarinnar er enn mjög háð veðurfari og aflabrögðum. Í stað þess að gera sér þessi einföldu sannindi ljós, er reynt að telja mönnum trú um, að ekki þurfi annað en að samþykkja nógu háar kröfur á hendur einhverjum öðrum eða nógu mögnuð afskipti ríkisvaldsins og ráðsmennsku þess, til þess að allt sé í lagi. Skýzt þá sumum einnig yfir, að afkoma okkar er mjög háð viðskiptum við aðrar þjóðir og verðlagi á heimsmarkaði, sem við ráðum litlu eða engu um.

Stjórnarandstæðingar, svo sem hv. þm. Ásmundur Sigurðsson áðan, kenna t.d. ríkisstj. og stefnu hennar um, að afkoma almennings sé ekki svo góð sem skyldi, og fullyrða, að lífskjörunum hafi hrakað á seinni árum, annaðhvort vegna illvilja eða mistaka ríkisstj. Það er saga fyrir sig, hvort það sé satt, að lífskjörunum hafi hrakað sínari ár. Það er a.m.k. fullvíst, að frásagnir stjórnarandstæðinga um það eru mjög villandi, og öruggt er, að ekki er það vegna skorts á verkföllum eða af því að kaupið hafi ekki hækkað í krónutölu, ef lífskjörunum hefur hrakað.

Hitt væri að vísu ekki nema eðlilegt, að þjóðin ætti nú við verri kjör að búa, en á fyrstu árunum eftir stríðið. Þá voru afurðir okkar enn í háu verði, miðað við verð á þeim vörum, sem við þurftum að kaupa inn, og aflabrögð og árferði var gott, miðað við það, sem sínar hefur verið. Nokkur aflabrestur varð raunar þá þegar á síldveiðum, en þess er að gæta, að til viðbótar eðlilegum tekjum af atvinnuvegunum vorum við þá enn að eyða því fé, sem við höfðum aflað á stríðsárunum. Því fé var að verulegu leyti varið til framkvæmda, sem ætla mátti að mundu reynast nytsamar, og þó að þá færi eitthvað í súginn eins og gengur, þá hafði fjöldi manna vinnu af þessum framkvæmdum öllum og naut því mikils góðs af þeim, meðan þær stóðu yfir, en á því byggist það ástand í atvinnumálum á þessum árum, sem Einari Olgeirssyni varð svo fjölrætt um áðan.

Hitt gleymdi Einar að minna á, að mikill hluti þessara framkvæmda var gerður til þess að geta hagnýtt síldaraflann hér við land. Menn vonuðust þá til og byggðu á fyrri ára reynslu um það, að þessi síldveiðiundirbúningur yrði mjög arðbær, þegar tímar liðu. Við skulum vona, að svo muni reynast, áður en yfir líkur, en enn sem komið er hefur hann einungis orðið að byrði. Í þessum miklu síldveiðiframkvæmdum höfum við bundið stórkostlegt fé, og ekki nóg með það, við síldveiðarnar hafa á ári hverju unnið þúsundir manna. Öll vitum við, að því vinnuafli og þeim fjármunum hefur að verulegu leyti verið kastað á glæ nú um margra ára skeið. Að kunnugustu manna yfirsýn má ætla, að þótt ekki hefði fengizt á sumarsíldveiðunum árin 1945–52 nema meðalafli, miðað við næstu ár á undan, þá hefðu gjaldeyristekjur þjóðarinnar á þessum árum reynzt 1.500 millj. kr. meiri, en raun varð á, og hefðu þar af komið í hlut útvegsmanna og skipverja nær 900 millj. meira en var. Þetta hlýtur að segja til sín í afkomu alls almennings, ekki aðeins þeirra, sem þennan atvinnuveg hafa stundað, heldur og allrar þjóðarinnar. Ofan á þetta hefur bætzt eyðing fiskimiðanna og þar af leiðandi aflatregða á öðrum veiðum en síldveiðum, harðindi í sumum byggðarlögum ár eftir ár og óhagstæðari verzlunarkjör, en voru á fyrstu árunum eftir stríð, eins og þegar hefur verið rækilega sýnt fram á í þessum umræðum og ég þarf því ekki að rekja frekar.

Ástæðan til þeirrar verðbreytingar er sú, að á fyrstu árunum eftir stríð var í nágrannalöndum okkar skortur á matvöru, sem nú er úr sögunni. Kommúnistar segja raunar, að það sé rangri stefnu í afurðasölumálunum að kenna, að við eigum nú við erfitt verzlunarárferði að búa, og færðu fulltrúar þeirra áðan þá kenningu sína í æði skáldlegan búning. Sá söguburður kommúnista hefur verið marghrakinn. Þegar því t.d. er haldið fram, að ríkisstj. vilji ekki hafa viðskipti við Austur-Evrópu, er sannleikanum alveg snúið við. Íslenzka stjórnin hefur gert allt, sem í hennar valdi hefur staðið, til þess að greiða fyrir viðskiptunum og hefur samkvæmt óyggjandi alþjóðlegum skýrslum, tekizt það miklu betur, en flestum eða öllum öðrum stjórnum vestan járntjaldsins. Fyrirgreiðsla stjórnarinnar hefur komið fram með mörgu móti. Alveg nýlega hefur t.d. ríkisstj. lagt fram um 50 millj. kr. ríkisábyrgð til þess að greiða fyrir þessum viðskiptum. Stjórnin hefur meira að segja oft og tíðum neytt innflytjendur til að kaupa vörur hærra verði frá þessum löndum, en þeir gátu fengið þær fyrir annars staðar, til þess með því móti að létta undir með sölu íslenzkra afurða. Af þessu hefur leitt hærra verðlag, en ella innanlands, en ef það er eina ráðið til þess að halda uppi atvinnunni, tjáir ekki að horfa í það, og allra sízt situr það á þeim, sem ætíð kvarta undan, að viðskiptin við þessi lönd séu allt of lítil, að býsnast yfir því háa verðlagi, sem af þeim viðskiptum leiðir, en það gerðu kommúnistar áðan.

Til staðfestingar því, að núverandi ríkisstj. hafi greitt fyrir viðskiptum við þessi lönd, skal ég aðeins geta þess, að á árinu 1946, þegar kommúnistar voru í ríkisstjórn, seldum við til Póllands fyrir aðeins 750 þús. kr., en á árinu 1951 fyrir nærri 38 millj. kr. Til Tékkóslóvakíu seldum við 1946 fyrir 81/2 millj., en á árinu 1951 fyrir rúmar 17 millj. kr. Til Ungverjalands seldum við 1951 fyrir rúmar 2 millj., en ekkert 1946.

Um tilraunir Íslands til viðskipta við sjálf Sovétríkin rússnesku skal ég aðeins vitna til tilkynningar utanrrn. um þessi efni, er gefin var hinn 31. okt. s.l. Þar er sannað, að íslenzka stjórnin hefur æ ofan í æ leitað eftir því við rússnesk stjórnarvöld, að verzlunarviðskipti milli landanna gætu tekizt. Það hefur ætið strandað á rússnesku stjórninni. Síðast skrifuðum við rússneska sendiráðinu um þessi efni hinn 7. okt. s.l., og hefur reynzt enn sem fyrr, að tregt er um svar, og er það ókomið enn.

Þessi framkoma Rússa í viðskiptum við Íslendinga kemur nú orðið engum á óvart. Hv. þm. Áki Jakobsson lýsti á sínum tíma yfir því hér á Alþ., að ekki væri hægt að búast við því, að Rússar vildu verzla við Íslendinga, meðan svo vondur maður sem Bjarni Benediktsson væri utanríkisráðherra. Þarna kom fram, að skilyrði viðskiptanna væri, að Rússar réðu utanríkisstefnu Íslendinga. Síðan hafa kommúnistar reynt að hlaupa frá þessari hreinskilnu yfirlýsingu Áka Jakobssonar, en við réttarhöldin í Prag nú síðustu vikurnar hafa komið fram í þessu mikilsverð gögu.

Í tékkneska blaðinu Lidova Demokratiee frá 26. nóv. s.l. er t.d. sagt frá því, hvernig fyrrverandi aðstoðarverzlunarmálaráðherra Tékka, Rudolf Margolius, hafi játað á sig skemmdarverk í utanríkisverzlun landsins. Segir þar, að Margolius hafi látið hagsmuni Tékkóslóvakíu sitja á hakanum fyrir hagsmunum auðvaldsríkja, sem hann gerði viðskiptasamninga við, og telur hann Ísland sérstaklega á meðal þessara ríkja og segist hafa verið því mótfallinn, að fiskur og fiskafurðir yrðu fluttar inn frá Póllandi, þótt slíkur innflutningur þaðan hefði auðveldlega fullnægt Tékkóslóvakíu. Að fenginni þessari játningu lýsti ákærandinn því, að með því að gera slíka samninga hefði sakborningurinn framið skemmdarverk gegn grundvallarreglum þeim, sem viðskiptasamninga hinna kommúnistísku ríkja ætti að byggja á.

Margolius var síðan dæmdur til dauða og hengdur miðvikudaginn 3. des. s.l. En daginn áður var yfirmaður hans, sjálfur verzlunarmálaráðherrann, sviptur embætti, og má nærri geta um orsakirnar til þess. Eftir þessa harmsögu ætti að vera óþarfi að deila um, af hverju erfiðleikarnir um viðskipti við þjóðirnar austan járntjalds spretta.

Annar söguburður kommúnista um afurðasöluna er eftir þessu. Hv. varaþm. Magnús Kjartansson sagði frá því á Alþ. 29. okt. s.l., að íslenzkur saltfiskur, sem íslenzkir framleiðendur fengju greiddar fyrir hér á landi kr. 2.90 fyrir kg, kostaði í smásölu á Ítalíu kr. 9.66 kg. Þm. sagði því hækkunina vera hvorki meira né minna en 233% og bætti við: Þótt hluti af þessu væri eðlilegur kostnaður, væri augljóst, að milliliðaokrið væri óhemjulegt og auðvelt ætti að vera að tryggja Íslendingum mun hærra verð með heiðarlegum verzlunarháttum. — Þannig segir Þjóðviljinn frá þessari uppljóstrun ritstjóra síns, og skal ég ekki dæma um sannleiksgildi hennar, en sé hún rétt, er það vissulega einsdæmi, að svo sé um nokkuð það, er kemur frá þeim hv. varaþm. og ritstjóra.

En það eru aðrar frásagnir, sem ég hef úr öruggum skýrslum og ekki verða vefengdar, frásagnir, sem eru lærdómsríkar á margan veg, m.a. um það, hvort við mundum eiga von á lægri álagningu, en nú á nauðsynjum, ef kommúnistar fengju að ráða einir hér á landi.

Rússar keyptu saltsíld frá Íslandi á árinu 1946, þegar hv. þm. Áki Jakobsson var yfirmaður sjávarútvegsmála. Verðið á hverju kg síldarinnar, sem framleiðendur fengu hér, var kr. 1.71. Samkvæmt skýrslu sendiráðs Íslands í Moskva, dags. 2. des. 1946, til utanrrn. var íslenzka síldin seld í verzlunum í Moskva út á skömmtunarseðla fyrir ísl. kr. 39.16. Það verð er 2.190% hærra en verðið, sem íslenzku framleiðendurnir fengu fyrir vöru sína.

Með þessu er þó ekki sagan öll sögð. Þeir, sem ekki eru í náðinni hjá stjórnarherrunum í Moskva, verða að kaupa nauðsynjar sínar án skömmtunarseðla. Á þessum tíma var því saltsíld einnig seld í verzlunum austur þar óskömmtuð, en kostaði þá hvert kg frá kr. 85.92 upp í kr. 220.92. Íslenzka síldin var ein dýrasta síldartegundin, sem þar var seld, og ef við miðum við það, þá var álagningin til þeirra, sem ekki fengu skömmtunarseðla, á þessa íslenzku vörutegund 12.850% frá því, sem íslenzku framleiðendurnir fengu fyrir vöruna.

Kommúnistaþingmanninum þótti mikið um álagninguna á ísl. saltfiskinn suður á Ítalíu, og kommúnistar hér guma mikið yfir álagningu íslenzkra heildsala. En hvað er hún hjá því, sem þarna reyndist um íslenzku síldina austur í sæluríki kommúnista? Þeir, sem telja þá stjórnarhætti, er til slíkra óskapa leiða, hina eftirsóknarverðustu, ættu sannarlega hvorki að býsnast yfir lélegri afurðasölu íslenzkra útflytjenda né ásaka íslenzka innflytjendur fyrir álagningu þeirra, eða hver getur nefnt dæmi úr íslenzkri verzlunarsögu, sem við þetta jafnist?

Áróður kommúnista er við það miðaður að villa um fyrir veilum sálum, en ekki hitt, að segja mönnum, hvað er satt og rétt. Enginn skyldi halda, að það hefni sín ekki að hafa slíkan málflutning í frammi. Einhverjir láta raunar ruglast um sinn — og því miður of margir, eins og dæmin sanna. En heilbrigð skynsemi og dómgreind almennings verður þó yfirsterkari að lokum. Við hinu verður ekki gert, að þessar sífelldu staðlausu ásakanir trufla hugarfar þeirra sjálfra, sem um það gera sig seka. Dæmi þess varð alþjóð heyrinkunnugt á s.l. hausti. Einn forustumanna kommúnista, aðalfjármálasérfræðingur flokksins, sem þó alveg nýlega hafði verið í framboði við alþingiskosningar fyrir flokk sinn, var að næturlagi á ferðalagi milli Akureyrar og Reykjavíkur með svefnvagninum svo kallaða. Er menn héldu hann hafa sofnað værum blundi, hrökk hann skyndilega upp og kvað sér vera horfið stórfé síðan hann kom í vagninn. Við rannsókn sannaðist, að hann hafði sjálfur á sér peningana, sem hann fullyrti, að sér væru horfnir.

Þetta atvik er engin tilviljun. Það er táknrænt fyrir hugarfar og baráttuaðferðir kommúnista. Hinar sífelldu staðlausu ásakanir kommúnista enda með því að æra þá sjálfa. Hér í lýðræðislandi getum við tekið þessu léttilega, en öðruvísi horfir við, þar sem þessir menn einir hafa völdin. Þar er miskunnarlaust fylgt þeirri höfuðkenningu hinna kommúnistísku fræða, að réttvísin eigi að vera verkfæri í höndum valdhafanna. Þar nægir ákæra valdhafans til þess, að hinum ákærða sé miskunnarlaust refsað.

Slíkur hugsunarháttur er okkur Íslendingum fjarlægur, en við skulum þó gæta þess, að hann eitri ekki smám saman hugarfar einhvers hluta þjóðarinnar. Það má aldrei þola neinum það að láta önnur lög ganga yfir vini sína og skoðanabræður, en aðra landsmenn. Öllum getur að vísu skjátlazt, því að enginn er alfullkominn, en munurinn er sá, hvort menn vilja keppa að því, að lögin gangi jafnt yfir alla, eða beita réttvísinni á þann veg, sem hin kommúnistísku fræði segja til um og við heyrum nú daglega ömurleg dæmi um utan úr heimi. Hinn kommúnistíski hugsunarháttur hlýtur að leiða til ofbeldis og kúgunar, og þegar uppi er í landinu heill flokkur, sem meðal annars með þessu móti vill grafa undan lögum og rétti, þá hlýtur að spretta af því ýmiss konar ófagnaður; eða getur nokkrum dulizt, að þarna er m.a. að leita skýringanna á vaxandi ofbeldishneigð nokkurs hluta íslenzks æskulýðs og ýmissa annarra óheillafyrirbæra í íslenzku þjóðlífi?

Efnahagsmálin eru að vísu mikilsverð, en við skulum þó varast að hugsa um þau ein. Maðurinn lifir ekki á einu saman brauði, og það er einnig hægt að villa svo fyrir mönnum, að þeir gleymi hinum gömlu sannindum, að þeir verða að vinna fyrir brauðinu í sveita síns andlitis. Sá hugsunarháttur, sem ég drap á áðan, að það eitt nægi til þess að sjá öllu borgið að koma saman og gera samþykktir, er merki þess, að menn hafa misst sjónar af þeim staðreyndum, sem byggja verður á, ef vei á að fara. Afskipti ríkisins og samtakamáttur ýmiss konar félagsheilda gera gagn, meðan menn halda sér að því, sem mögulegt er og framkvæmanlegt, en lengur ekki.

Það er t.d. enginn efi á því, að þátttaka Íslands í ýmiss konar alþjóðlegum samtökum á undanförnum árum, t.d. samstarfinu, sem kennt er við Marshall, hefur haft mjög heillavænleg áhrif, gagnstætt því sem kommúnistar létu í kvöld. Bein óafturkræf framlög til okkar, auk lána og fyrirgreiðslu um afurðasölu í þessu sambandi, hafa numið 364 millj. kr. Þetta er að vísu ekki nema lítill hluti þess tjóns, sem við höfum beðið af aflabresti, harðindum og óhagstæðu verði á íslenzkum vörum undanfarin ár. En auðsætt er, að þessir örðugleikar mundu hafa orðið mun þungbærari fyrir almenning en orðið hefur, ef þessa samstarfs hefði ekki notið við, enda höfum við í skjóli þess ráðizt í stærstu verklegar framkvæmdir, sem hér hafa verið gerðar. Þetta þora kommúnistar ekki annað en að játa í öðru orðinu, eins og þegar Einar Olgeirsson í fyrrá þakkaði þeim, kommúnistum, hversu mikil Marshallframlögin hefðu verið. En hin kommúnistíska skopparakringla snýst ört, og blasti önnur hlið hennar við okkur í kvöld, en í fyrra. Hraðinn á snúningnum fer eftir því, hversu hvasst hann blæs að austan hverju sinni.

Samstarf, sem miðar að því að bæta hag þeirra, er saman vinna, hvers um sig og allra í heild, miðar til góðs, meðan menn láta það ekki verða til þess að rugla sig í þeim óhagganlegu sannindum, að til lengdar getur enginn lifað umfram efni. Þetta á jafnt við um samstarf þjóðfélagsþegnanna sem um samstarf milli ríkja.

Það er eðlilegt, að ríkið haldi uppi ýmiss konar starfrækslu, ráðist í margs konar framkvæmdir og hlaupi undir bagga með þeim, sem fyrir sérstökum óhöppum verða. Allt getur þetta komið að góðu gagni, en menn verða að muna, að það er ekkert allsherjar læknisráð að vísa á ríkið og þess úrræði. Ríkisstj. og Alþ. hafa ekki yfir öðru fé að ráða en því, sem tekið er af borgurunum sjálfum. Kröfur um nýjar ráðstafanir af hálfu ríkisvaldsins, ráðstafanir, sem hljóta að hafa ný útgjöld í för með sér, eru þess vegna í raun og veru kröfur um nýja skatta. En hvar á að taka þá? Spyr sá, sem ekki veit. Og þeir verða áreiðanlega fleiri en ég, sem telja, að skattarnir séu nú þegar orðnir yfrið háir í þessu landi.

Nú þegar er búið, m.a. með háum sköttum á svo kallaðar hátekjur, að jafna lífskjörin svo hér á landi, að ekki er hægt að benda á neitt annað þjóðfélag, þar sem lífskjör manna eru svo jöfn sem hér. Samanburður Gylfa Þ. Gíslasonar á hlutfalli kaups verkamanna 1939 og 1950 var mjög villandi, þegar af þeirri ástæðu, að hann gleymdi því hryggilega atvinnuleysi, sem var hér á árunum fyrir 1939 og á árinu 1939 sjálfu. Hann bar aðeins saman tímakaupið, en ekki hversu marga tíma hver maður vann og þess vegna hvert raunverulegt kaup hans var. Og það vita allir, að þó að nokkuð hafi borið á atvinnuleysi, því miður, sérstaklega á s.l. ári, þá er það alveg hverfandi, miðað við það, sem var á árunum fyrir stríð. Hlutfallslega eru verkamenn því, þegar á heildartekjur þeirra er litið, miklu betur stæðir, en Gylfi Þ. Gíslason vildi vera láta. Jöfnuðurinn er góður og nauðsynlegur og okkar mesta stolt, Íslendinga, að við höfum meiri jöfnuð en nokkur önnur þjóð. En við skulum þó minnast orða Stalíns, mannsins, sem Brynjólfur Bjarnason í för sinni á þing hins „dýrðlega kommúnistaflokks“ á dögunum nefndi „hinn mikla“, þeirra orða, er sá „mikli maður“ mælti í ræðu 1934, er hann sagði á þessa leið:

„Það verður í eitt skipti fyrir öll að yfirvinna vöntunina á persónulegri ábyrgð við vinnuna og útrýma jafnaðarfarganinu úr launakerfinu.“

Þetta sagði sá „mikli maður“. Við Íslendingar viljum þó áreiðanlega ekki ganga jafnlangt í ójöfnuðinum og gert er í Rússlandi, þar sem fjöldi embættismanna og gæðinga stjórnarinnar hefur t.d. 27-föld laun á við verkamenn. Við látum okkur nægja, að æðstu embættismennirnir hafi tvöföld verkamannalaun. En verður er verkamaðurinn launanna, og erfiði og áhætta, sem samfara er dug og framtaki, krefst sinnar umbunar, enda getur ekkert þjóðfélag staðizt til lengdar, þar sem ekki er gert mögulegt að safna því fjármagni, sem er nauðsynleg undirstaða heilbrigðs atvinnurekstrar, er einn getur tryggt almenningi örugga og stöðuga atvinnu. Er eftirtektarvert, að sú söfnun fjármagns, sem t.d. Einar Olgeirsson taldi upp áðan og fann að, er að langmestu leyti í höndum aðila svo sem Eimskips, bankanna og annarra slíkra, sem starfa beinlínis að uppbyggingu atvinnulífsins. Hvaða sjómaður vildi vera án nýju Fossanna, prýði Íslands? En það eru möguleikarnir til þess, að slík nýsköpun geti átt sér stað, sem Einar Olgeirsson og hans félagar vilja nú koma í veg fyrir.

Stjórnarandstæðingar tala um verzlunargróða. En hvernig stendur á því, að kaupfélögin, sem þeir sjálfir standa fyrir, bæði Kron og kaupfélagið á Ísafirði, sem Hannibal Valdimarsson er einn aðalmaðurinn í, skuli ekki halda álagningunni niðri, ef hún er óhæfileg? Þeir hafa það í hendi sér að keppa út alla heildsalana og kaupmennina. Það, að þeim tekst það ekki, er þyngsti dómurinn yfir allri þeirra orðmælgi hér í þinginu nú og endranær.

Skattabyrðin reynist almenningi einmitt svo þung vegna þess, að nú þegar er búið að skattleggja þá, sem hærri tekjurnar hafa, svo mikið, að með hærri skattstigum er ekki hægt að auka tekjur ríkissjóðs svo að neinu nemi. Þess vegna verður að innheimta skattana af öllum fjöldanum, svo að ríkis- og sveitarstjórnir geti staðið undir öllum þeim margháttuðu verkefnum, sem á þær hefur verið hlaðið. Kröfurnar um ýmiss konar ráðstafanir af hálfu þessara aðila eru því nú orðið ekkert annað en kröfur um, að aukið fé sé tekið af öllum almenningi og ráðstafað með einhverja sérhagsmuni fyrir augum. Þetta eru einföld sannindi, sem vissulega er kominn tími til að menn átti sig á og skilji til hlítar.

Jafnhliða sífelldum kröfum um stórauknar framkvæmdir af hálfu ríkisins er nú krafizt skattalækkana. Ég skal vera fyrsti maður til að styðja þær, aðeins ef sýnt er fram á, hvað af ríkisútgjöldunum er hægt að skera niður, en þar láist þessum sömu mönnum að bera fram raunhæfar till. Það kom glögglega fram hjá Hannibal Valdimarssyni áðan, eða hver trúir því t.d., að hann muni, þegar þar að kemur, beita sér fyrir afnámi greiðslu á eftirvinnu opinberra starfsmanna? Hann, maðurinn, sem lagði á það alveg sérstaka áherzlu í ræðu sinni, að þeir ættu nú þegar við of bág kjör að búa. Nei, hjá kröfuforsprökkunum stangast sannarlega hvert á annars horn.

Sannleikurinn er sá, að allt of margir vilja hlunnindin, en ekki útgjöldin, sem þeim fylgja. Auðvitað er með löggjöf hægt að veita síaukin hlunnindi til alls og allra, alveg eins og hægt er með samningum að kveða á um hvaða kaup sem vera skal. En ef þetta styðst ekki við veruleikann, ef raunveruleg geta er ekki á bak við, kemur þetta að engu haldi, heldur hefnir sín, áður en varir, með enn auknum örðugleikum.

Eins og högum okkar nú er háttað, verður augunum ekki lokað fyrir því, að við sem þjáð lifum umfram efni. Einni þjóðfélagsstétt þýðir ekki framar að gera kröfur á hendur öðrum, hvorki öðrum stéttum né þjóðarheildinni. Slík kröfugerð getur aðeins leitt til vandræða, til verðbólgu, til eyðingar fjárverðmætanna, gengislækkunar og enn aukinna örðugleika hvers einstaklings og þjóðfélagsheildarinnar.

Þetta eru erfiðar staðreyndir, en engu að síður sannar. Eina örugga ráðið til að bæta hag þjóðarinnar til frambúðar er aukin sköpun verðmæta, sem ekki verður náð nema með stöðugri vinnu, meiri afköstum, aukinni og fjölbreyttari framleiðslu. — Góða nótt.