09.12.1952
Sameinað þing: 23. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

1. mál, fjárlög 1953

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ræðumenn Sameiningarflokks alþýðu — Sósfl. í gærkvöld, þeir hv. þm. Ásmundur Sigurðsson og Einar Olgeirsson, nefndu m.a. Eimskipafélagið og Olíufélagið í ræðum sínum. Út af því, sem þeir sögðu um Eimskipafélagið, vil ég benda á það, að þingmenn Sameiningarflokks alþýðu — Sósfl. hafa margsinnis á undanförnum árum greitt atkv. með því hér á Alþ. að framlengja l. um skattfrelsi Eimskipafélagsins. Um Olíufélagið er það kunnugt, að það er alíslenzkt félag og stofnun þess og starfsemi hefur orðið til þess að bæta mjög olíuverzlunina hér á landi, hvað sem einstakir menn segja um það fyrirtæki.

Hv. 3. landsk. þm., Gylfi Þ. Gíslason, flutti hér ræðu í gærkvöld. Hann fór m.a. með ýmsar tölur og útreikninga, sem hann fullyrti að sýndu, að hlutur verkamanna í þjóðartekjunum hefði verið tiltölulega miklu minni árið 1950 en 1939. Tölur sínar og reikninga kvaðst hv. 3. landsk. byggja á fræðiriti eftir prófessor Ólaf Björnsson, sem nefnist Þjóðarbúskapur Íslendinga. En um þær skýrslur, sem birtar eru í þessu riti, segir sjálfur höfundur ritsins, prófessor Ólafur, m.a. á þessa leið:

„Upplýsingar þær, sem fyrir hendi eru um þjóðartekjurnar, eru allónákvæmar og að töluverðu leyti byggðar á áætlunum, þannig að þær verður að nota með hinni mestu varúð.“

Þrátt fyrir þetta sé ég ekki ástæðu til að finna að því, þó að hv. 3. landsk. geri útreikninga á grundvelli þeirra upplýsinga, sem finnast í þessu riti. En hvernig gengur honum að reikna, hv. 3. landsk., Gylfa Þ. Gíslasyni?

Ég hef komizt að þeirri niðurstöðu, að í útreikningum hans séu tvær tölulegar skekkjur, sem gera niðurstöður hans rangar. Hv. 3. landsk. sagði í ræðu sinni, að í des. 1950 hefði kaupmáttur tímakaups Dagsbrúnarverkamanns verið aðeins 30% meiri, en hann var 1939. En samkv. tölunum í áðurnefndu riti prófessors Ólafs Björnssonar var kaupmáttur tímakaupsins 41% meiri 1950 en 1939, — 41 % meiri, en ekki aðeins 30% meiri, eins og hv. 3. landsk. heldur fram. — Önnur villa hv. 3. landsk. þm. er í útreikningi hans á þjóðartekjunum. Virðist sú skekkja stafa af því, að þegar hann breytir þjóðartekjunum 1950 til samræmis við tekjurnar frá 1939, þá notar hann aðra vísitölu, heldur en prófessor Ólafur Björnsson notar við útreikning sinn á kaupmætti launanna. En til þess að fá rétta útkomu úr þessum samanburðardæmum verður vitanlega að nota vísitölu sama mánaðar árið 1950 við útreikninga á hvoru tveggju, þjóðartekjunum og kaupmætti tímakaupsins.

Við samanburð á þjóðartekjunum 1939 og 1950 þarf að taka tillit til fólksfjölgunar á tímabilinu, sem mun hafa verið um 20%. Vinnandi fólki og vinnutímum fjölgaði áreiðanlega eins mikið á þeim tíma vegna meiri atvinnu og meiri atvinnutækja.

Hv. 3. landsk. segir, að áætla megi fjárfestinguna 10% af þjóðartekjunum árið 1939, en 18.3% 1950. Sé byggt á þessum tölum, verður útkoman úr dæminu sú, þegar búið er að leiðrétta skekkju hv. 3. landsk., sem ég gat um áðan, að þegar miðað er við þann hluta þjóðarteknanna, sem fer til neyzlu, þá hefur hann vaxið um 43% á tímabilinu, en ekki um 48%, eins og hv. 3. landsk. nefndi í sinni ræðu.

Niðurstaðan af þessum útreikningum er því sú, að sá hluti þjóðartekna, sem fór til neyzlu, hefur á tímabilinu 1939–50 aukizt um 43%, en kaupmáttur tímakaupsins hefur aukizt á sama tíma um 41%. Hér til viðbótar má benda á það, að samkv. bók Ólafs Björnssonar var kaupmáttur tímakaups í sept. 1951 47% meiri en 1939. Nú má benda á það, að hér er aðeins reiknuð út aukning á kaupmætti tímakaupsins, en enginn vafi er á því, að verkamenn hafa líka fengið tekjuauka á þessu tímabili með aukinni atvinnu. Ég tel því óhætt að fullyrða, að sé tekið tillit til þess, er ég nú nefni, og séu réttir útreikningar gerðir á grundvelli þessara upplýsinga, sem teknar eru úr riti prófessors Ólafs Björnssonar, þá sýni þeir, að hlutur verkamanna í neyzlu þjóðarinnar hefur alls ekki rýrnað á fyrrnefndu tímabili, heldur fremur hið gagnstæða. Útreikningar hv. 3. landsk., sem hann birti hér í gærkvöld, eru rangir, eins og ég hef þegar sýnt fram á, og allar þær bollaleggingar hans, sem hann byggði á þessum skökku tölum sínum, eru þess vegna staðlausir stafir.

Til enn frekari stuðnings þeirri skoðun minni, að á tímabilinu 1939–50 hafi hlutdeild verkamanna í þjóðartekjunum ekki rýrnað, heldur fremur hið gagnstæða, vil ég vekja athygli á því, að á þessum tíma hafa verið sett ný lög um almannatryggingar, miklu víðtækari en þau, sem áður voru í gildi. Þetta hefði hv. 3. landsk. þm. gjarnan mátt nefna, því að svo mikið hefur hans flokkur hælt sér af þeirri lagasetningu. Tilgangur tryggingalaganna mun hafa verið að flytja fé frá þeim, sem betur mega í þjóðfélaginu, til hinna, sem lakar eru settir. Og vafalaust hafa lögin líka verkað þannig. Ég tel því alveg víst, að tryggingal. hafi bætt aðstöðu verkamanna verulega. Telji hv. 3. landsk. þm. þetta ekki rétt, þá vænti ég þess, að hann færi rök fyrir því gagnstæða.

Ég sé ekki ástæðu til að segja fleira um reikninga hv. 3. landsk., en ég vil fara nokkrum orðum um verzlunarmálin í tilefni af ummælum stjórnarandstæðinga um þau efni.

Snemma í apríl 1951 gaf fjárhagsráð út, í samráði við ríkisstj., auglýsingu um, að heimilt skyldi að flytja til landsins margar nauðsynlegar vörutegundir án þess að fá innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir þeim. Á þessum frílista voru auk margs annars t.d. kornvörur, kaffi, sykur, ýmsar nauðsynlegustu vefnaðarvörur, svo sem léreft, flónel, tvistdúkar o.fl., smávörur til fatagerðar, nærfatnaður og sokkar úr öðru efni, en silki, gúmmískófatnaður, ýmiss konar búsáhöld og margs konar nauðsynleg áhöld og vörur til framleiðslustarfseminnar. Þessar vörur hefur öllum verið frjálst að flytja til landsins. Fólk hefur því átt þess kost að fá þessar vörur með réttu verði og það magn af þeim, sem það hefur þurft á að halda eða hafði ástæður til að kaupa. Því var allt öðruvísi háttað um margar af þessum vörum í tíð fyrrverandi ríkisstj. Þetta vita þeir vel, hv. þm. stjórnarandstöðuflokkanna, þótt þeim þyki annað betur henta, en að viðurkenna það í þingræðum sínum.

Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksmenn stjórna kaupfélaginu hér í Reykjavík. Á tímum fyrrverandi stjórnar, meðan allur innflutningur var háður innflutningsleyfum, var félagi þessu, eins og ýmsum öðrum kaupfélögum, svo smátt skammtað af ýmsum þeim vörum, sem nú er frjáls innflutningur á, að það gat hvergi nærri fullnægt eftirspurn félagsmanna sinna eftir þeim vörum. Kaupfélagið í Reykjavík tók þá til þess ráðs, eins og mörg fleiri kaupfélög, að taka upp sína eigin vöruskömmtun til þess að miðla þessu örlitla og alveg ófullnægjandi vörumagni, t.d. af vefnaðarvörum, milli félagsmanna. Ríkisstj. hélt að vísu uppi stóru og dýru skömmtunarskrifstofubákni á þeim árum, sem gaf út mikið af alla vega litum pappírum, sem kallaðir voru skömmtunarseðlar. En mikið af þeim var falskar ávísanir, því að menn höfðu enga tryggingu fyrir því, að þeir gætu fengið þær vörur, sem skömmtunarseðlarnir sögðu til um, og gátu oft alls ekki fengið þær nema taka það örþrifaráð að kaupa þessar vörur á svörtum markaði með okurverði, og það gerðu ýmsir fremur en að fá ekkert af vörunum. En nú er öldin önnur hjá kaupfélaginu í Reykjavík og viðar. Á þessu ári hefur það haft meira en nóg, t.d. af ýmsum nauðsynlegustu vefnaðarvörum, til þess að fullnægja eftirspurn félagsmanna sinna. Það hefur auglýst þessar vörur í Ríkisútvarpinu og boðizt til að senda þær hvert á land sem er. Félagið hefur þannig getað haldið uppi samkeppni við kaupmenn í verzlun með þessar vörur, vegna þess að höftin hafa að nokkru leyti verið leyst af verzluninni. Og kaupfélagið þarf nú ekki lengur að leggja í fyrirhöfn og kostnað við skömmtun á þessum vörum til félagsmanna sinna. Forráðamönnum Kron er það vel ljóst, að þessi breyting í viðskiptamálunum hefur orðið til mikilla hagsbóta fyrir kaupfélagsmenn og félagið sjálft, þó að flokksbræður þeirra á Alþ. telji auðvitað ekki heppilegt að viðurkenna þessar staðreyndir í eldhúsdagsumræðum. En þeir vita það vel, hvað sem þeir segja um þessi mál í þingræðum, að félagsmenn í Kron geta nú fengið þar flestar helztu nauðsynjavörur til heimila sinna, og álagningin á þær vörur er ekki meiri en sem nemur kostnaði við félagsreksturinn og lögákveðnum sjóðatillögum félagsins.

Þeir hv. þm. Alþfl., sem töluðu hér í útvarpið í gærkvöld, vita það líka vel, að vegna þess að síðustu tvö árin hefur verið frjáls innflutningur á helztu nauðsynjavörum almennings, er nú miklu auðveldara að ná í þær vörur heldur en var á þeim tíma, þegar þeirra flokkur hafði forsætisráðherra og viðskiptamálaráðherra í stjórn landsins. Þeir vita það líka, að ýmsar nauðsynlegar vörur, sem á þeim tíma voru lítt eða ekki fáanlegar nema hjá okrurum, er nú hægt að kaupa með eðlilegu verði hjá heiðarlegum verzlunarfyrirtækjum. Annar þessara ræðumanna Alþfl., hv. þm. Ísaf., Hannibal Valdimarsson, er stjórnarformaður í Kaupfélagi Ísfirðinga, sem mun vera langstærsta verzlunarfyrirtækið við Ísafjarðardjúp. Þessi hv. þm. veit vel, að vegna þeirrar rýmkunar, sem orðið hefur á innflutningshöftum síðustu árin, er kaupfélagið á Ísafirði nú miklu færara um að fullnægja vöruþörfum félagsmanna sinna, en áður var. Það getur nú útvegað félagsmönnum sínum og öðrum viðskiptamönnum flestar helztu nauðsynjavörurnar, sem þeir þurfa að kaupa, og hv. þm. Ísaf. veit einnig vel, að þetta fyrirtæki okrar ekki á viðskiptamönnum sínum. Hann veit, að enginn Ísfirðingur þarf að sæta okurkjörum við kaup á þeim vörum, sem frjáls innflutningur er á. Og hann veit einnig, að íbúar annarra héraða og kaupstaða hafa sömu möguleika til að fá þessar vörur án þess að greiða nokkurn skatt til okrara.

Talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna ræddu mjög einhliða um verzlunarmálin í umr. í gær. Þeir töluðu um okurálagningu á vörur, og einn þeirra var með einhverja útreikninga um slíkt. Nú er auðvitað síður en svo, að það sé aðfinnsluvert, þó að minnzt sé á okurstarfsemi, úr því að hún er til í þjóðfélaginu. Það getur einmitt verið gott og gagnlegt að vara fólk við okrurum og hvetja það til að sniðganga þá í viðskiptum. En það er einmitt þetta, sem ræðumenn stjórnarandstöðuflokkanna vanrækja að gera, þegar þeir tala um okrarana og þeirra starfsemi. En hvernig stendur á því? — Þeir tala mikið um, að okrararnir féfletti almenning. Út af því má spyrja: Ætlast þessir hv. þm. virkilega til þess, að fólk kaupi vörurnar þar, sem álagningin á þær er mest og þær eru dýrastar? Hvers vegna ættu menn að gera það, þegar viða er hægt að fá vörurnar með sanngjarnri álagningu? En hvers vegna hvetja ræðumenn Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins ekki fólk til þess að kaupa nauðsynjar sínar hjá þeim verzlunarfyrirtækjum, sem selja vörurnar með sanngjörnu verði? Og hvers vegna lætur hv. þm. Ísaf. þess að engu getið, að hér í Reykjavík og annars staðar á landinu hafa menn nú sömu möguleika eins og kjósendur hans á Ísafirði til þess að fá allar helztu nauðsynjavörur til heimila sinna án þess að koma nærri okrurum? Já, hvers vegna vara þessir menn ekki fólkið alvarlega við því að verzla við okrarana? Er þessum hv. þm. ekki ljóst, að þetta er ráðið, sem á að beita gegn okrurunum, að hætta viðskiptum við þá? Sé það gert, eru þeir brátt úr sögunni, og enginn ætti að harma það.

Hv. ræðumenn stjórnarandstöðuflokkanna tala um okur einstakra kaupsýslumanna eins og einhverja óviðráðanlega plágu, sem ómögulegt sé fyrir fólk að komast undan. Þetta er hliðstætt því, ef einn þessara ræðumanna, hv. 5. landsk., Ásmundur Sigurðsson, héldi hér hrókaræður um það, hvað Jökulsá í Lóni, þar sem hann á heima, væri mikið skaðræðisvatnsfall og ógurlegur farartálmi vegfarendum, en léti þess að engu getið, að nú geta menn farið yfir þetta stóra fljót á nýju brúnni, sem þar hefur verið byggð í tíð núverandi stjórnar.

Nú kunna menn að spyrja: Hefurðu gleymt bátagjaldeyrisálaginu? — Nei, ég man vel eftir því. Til þess ráðs var gripið til þess að koma í veg fyrir stöðvun bátaútvegsins, þegar það kom á daginn, að gengisbreytingin var ekki fullnægjandi fyrir þann atvinnuveg. Fyrst eftir að þetta fyrirkomulag var upp tekið, vorið 1951, mun einstökum kaupsýslumönnum hafa tekizt að græða verulega á þessu, vegna þess að nokkuð af fólki var of fljótt á sér að kaupa þann varning, sem þeir fluttu inn fyrir bátagjaldeyri. En þetta breyttist síðar. Og undanfarið mun hafa verið hægt fyrir hvern sem er að fá þennan gjaldeyri keyptan með því fastákveðna álagi, sem gengur til útvegsins. Hefur því getað skapazt samkeppni í verzlun einnig með bátagjaldeyrisvörurnar.

Þetta bátagjaldeyrisálag kemur ekki á helztu nauðsynjavörur landsmanna. Það kemur fyrst og fremst á litt þarfar og óþarfar vörur, þó að það komi að vísu einnig á nokkrar þarfar vörur. En yfirleitt eru það vörur, sem menn þurfa ekki að kaupa mikið af. Þeir, sem mest finna að bátagjaldeyrisfyrirkomulaginu, hafa alveg brugðizt þeirri skyldu að benda á það, með hverju móti öðru hefði verið réttara eða auðveldara að afstýra stöðvun bátaflotans. Auðvitað hefði mátt breyta genginu meir en gert var, svo að nægt hefði bátaútveginum. En áreiðanlega hefði það verið miklu óhagstæðara fyrir almenning, því að það hefði valdið verðhækkunum á öllum innfluttum vörum, alveg eins þeim mörgu nauðsynjavörum, sem ekkert bátagjaldeyrisálag leggst nú á.

Í umræðum um verzlunarmálin eins og önnur málefni er vitanlega réttast að benda á hvort tveggja, það, sem aðfinnsluvert er og þarf að laga, og einnig hitt, sem áunnizt hefur til umbóta. Mér er það ljóst, að enn vantar mikið á, að verzlunin sé svo góð og hagkvæm landsmönnum sem æskilegt er. Um útflutningsverzlunina er það að segja, að fyrirkomulag á sölu sjávarafurða gæti óefað verið betra en það er, og ættu útvegsmenn og sjómenn víssulega að beita samtökum sínum að því að koma þeim málum í heppilegra horf. Einokun er alltaf varhugaverð, eins í verzlun með útfluttar og innfluttar vörur. Og innflutningsverzlunin er ekki að öllu leyti frjáls. Enn er það svo, að innflutnings- og gjaldeyrisleyfi þarf fyrir mörgum vörum, og þeim leyfum mun vera úthlutað eins og áður eftir hinni mjög svo varhugaverðu „kvóta“-reglu. Seint á s.l. sumri, þegar séð varð, að síldveiðin brást enn einu sinni, taldi ríkisstj. sig til neydda að mæla svo fyrir, að nokkuð af þeim vörum, sem frjáls innflutningur hefur verið á undanfarið, megi nú um sinn aðeins flytja inn frá ákveðnum löndum. Vonandi verður hægt að afnema þessa tilskipun fljótlega, og verður það vafalaust gert svo fljótt sem hægt er.

En þrátt fyrir þá annmarka, sem ég hef hér nefnt, má öllum vera það ljóst, sem kynna sér þessi mál og gera samanburð á ástandi verzlunarinnar í tíð fyrrverandi stjórnar og nú, að mikil framför hefur orðið í þeim efnum. Á árunum 1947—49 voru ýmsar nauðsynlegar vörur lítt eða ekki fáanlegar nema á svörtum markaði fyrir okurverð, þrátt fyrir það þó yfirvöldin deildu út skömmtunarmiðum fyrir þeim vörum. Og þó að þá væri fjölmenn sveit opinberra starfsmanna, sem átti að hafa eftirlit með verðlagi, hafði almenningur þar enga vernd gegn svartamarkaðsbröskurunum. Þeir fóru sínu fram og færðu sig stöðugt lengra upp á skaftið, eftir því sem lengra leið á stjórnartímabil Stefáns Jóhanns-stjórnarinnar. Þá gátu samvinnufélögin ekki útvegað félagsmönnum sínum nema mjög takmarkaðan hluta þeirra nauðsynja, sem þeir þurftu að kaupa, vegna þess, hve innflutningur þeirra var skorinn við neglur. Nú er aftur á móti frjáls innflutningur á mörgum helztu nauðsynjavörunum, sem almenningur þarf að kaupa, — nóg framboð á þeim vörum í verzlunum, svo að samkeppni hefur myndazt um vörusöluna. Samvinnufélögin hafa getað fengið þessar vörur eftir þörfum og því getað séð fyrir vöruþörf félagsmanna sinna stórum betur en áður var og haldið uppi samkeppni við önnur verzlunarfyrirtæki. Menn eiga þess því kost að fá þessar vörur með eðlilegu verði, en eru ekki ofurseldir vöruskortinum og okrinu eins og áður var. Sú breyting til batnaðar, sem hér hefur á orðið, er öllum ljós, sem íhuga þessi mál, hvað sem um þau er sagt í eldhúsdagsræðum einstakra manna hér á þingi.

En það er vissulega ástæða til að hvetja fólk til aðgæzlu í verzlunarmálum og vandlegrar athugunar á vöruverðinu, því að það er mjög misjafnt. Nú á tímum eins og ævinlega hefur almenningur fulla þörf fyrir að ná sem hagstæðustum kaupum á nauðsynjavörum. Fólk ætti því að athuga gaumgæfilega verð á vörum, sem það þarf að kaupa, og gera samanburð á vöruverði hjá verzlunum, áður en það gerir viðskiptin. Með því móti geta menn komizt hjá því að kaupa vörur með óhóflegri álagningu. Sjálfs er höndin hollust í þessum efnum sem öðrum. Slíkt verðlagseftirlit almennings er vænlegast til stuðnings heilbrigðum verzlunarháttum og langtum áhrifameira og öruggara heldur en verðlagseftirlit opinberra starfsmanna, sem sumir telja að eigi að vera forsjón allra í þessum efnum.