09.12.1952
Sameinað þing: 23. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

1. mál, fjárlög 1953

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. þm. Ísaf., sem talaði hér síðastur, var bersýnilega orðinn töluvert smeykur við þau gífuryrði, sem hann viðhafði á útifundi hér í Reykjavík fyrir skömmu. Þess vegna reyndi hann nú að draga í land. Það hendir þennan hv. þm. oft að hafa ekki taum á tungu sinni. Ég vil aðeins láta þá von í ljós, að sá verkalýður, sem nú hefur sýnt þessum þm. allmikinn trúnað, eigi ekki eftir að biða við það mikið tjón, en því miður litur mjög út fyrir, að svo kunni að fara.

Hv. 2. landsk. þm., Lúðvík Jósefsson, dró hér áðan upp dökka mynd af ástandinu hjá sjávarútveginum þar væri allt á kafi í taprekstri. En hvernig hefur hv. þm. og flokkur hans, kommúnistafl., snúizt við þessum erfiðleikum sjávarútvegsins? Þannig, að hafa forustu um stórfelldar kauphækkanir, sem óhjákvæmilega hlytu að stöðva meginhluta allrar útgerðar í landinu. Þannig vilja þá kommúnistar hjálpa útgerðinni. — Hv. 2. landsk. þm. sagði einnig, að ríkisstj. hefði fyrst og fremst með afurðasölu útvegsins að gera. Þetta er fullkomið ranghermi. Það eru samtök útgerðarinnar sjálfrar, sem hana annast, en kommúnistar vilja ólmir sundra þessum samtökum til þess að geta sjálfir hafið brask með afurðasöluna.

Kommúnistar hafa einnig í þessum umr. ráðizt mjög á það, sem þeir kalla ofsagróða Eimskipafélags Íslands. Hv. 7. landsk. þm., Finnbogi R. Valdimarsson, sem talaði hér áðan, taldi það þjóðarvoða, ef þetta félag, sem unnið hefur glæsilegt brautryðjendastarf í siglingamálum okkar, fengi að safna sér nokkrum sjóðum. En hvernig ætti Eimskipafélagið að endurnýja flota sinn, ef það ekki mætti safna í sjóði? Hvernig ætti það að eignast ný skip í stað þeirra, sem úr sér ganga? Hvernig ættu einstaklingar, jafnvel ríkisvaldið, að geta ráðizt í nauðsynlegar framkvæmdir, ef aldrei mætti safna fé til þeirra? Þessi ádeila kommúnista á Eimskipafélag Íslands er því eins og vænta mátti gersamlega út í bláinn.

Þjóðinni hefur nú gefizt tækifæri til að kynnast, hverjum úrræðum hv. stjórnarandstæðingar búa yfir til lausnar þeim vandamálum, sem við blasa og úrlausnar biða. Í ræðum þeirra hefur lítið farið fyrir jákvæðum till. um raunhæfar aðgerðir. En það er rétt að lita lauslega á höfuðbjargráð þess þm. Alþfl., sem fyrstur talaði hér í gærkvöld, hv. þm. Ísaf., Hannibals Valdimarssonar. Hann skýrði frá því, að flokkur sinn hefði fyrir skömmu flutt frv. um framleiðsluráð sjávarútvegsins, sem leysa ætti öll vandkvæði bátaútvegsins. En hvers konar frv. er þetta? Samkv. 1. gr. þess á að stofna nýtt ráð, skipað 5 aðalmönnum og 5 til vara. Í lok 1. gr. segir svo á þessa leið:

„Framleiðsluráð ræður sér starfsfólk, eftir því sem þörf krefur. Ráðherra ákveður laun ráðsmanna, og teljast þau til kostnaðar við störf ráðsins.“

Er þetta úrræði ekki dásamlega líkt Alþfl.? Nýtt ráð, sem ræður sér starfsfólk, eftir því sem þörf krefur. Þá er allur vandi sjávarútvegsins leystur. Haldið þið nú ekki, sjómenn og útvegsmenn um land allt, að hagsmunum ykkar væri borgið, ef þessi ráðshugsjón Alþfl. kæmist í framkvæmd? Er ekki líklegt, að slíku skrifstofuráði hér í Reykjavík mundi t.d. farnast betur forusta um hagsmunamál bátaútvegsins, en samtökum útgerðarmanna sjálfra? Ég læt ykkur um að svara þessum spurningum. En það merkilegasta við þetta frv. er þó það, að þar er gert ráð fyrir, að sjálft bátagjaldeyrisskipulagið sé lögfest. Í 9. gr. þess er framleiðsluráði heimilað að leggja ákveðið hundraðsgjald á innkaupsverð tiltekinna vörutegunda.

„Það, sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann,“ má segja um veslings Alþfl. Hann flytur frv., sem hann segir að eigi að afnema bátagjaldeyrinn, en í þessu frv. sjálfu kemst hann ekki hjá að hverfa til sömu úrræða og þegar hefur verið neytt af núverandi ríkisstj. Í þessu sambandi skiptir það ekki meginmáli, að í frv. er sagt, að ekki megi leggja álag á þetta hundraðsgjald. Þetta er þá eina úrræði Alþfl. auk þeirra krafna, sem forvígismenn hans hafa borið fram um 30% kauphækkanir hjá framleiðslutækjum, sem þeir játa að séu þegar rekin með tapi og muni stöðvast, ef rekstrarkostnaður þeirra hækki. En það úrræði mun ég minnast litillega á síðar.

Hv. þm. Ísaf. gerðist hér einnig mikill sparnaðarmaður. Um það er ekki nema gott að segja. Batnandi manni er bezt að lifa, og vist er nauðsynlegt að spara. En hvernig ætlaði þessi ráðsnjalli þm. að spara? Jú, m.a. með því að strika út 18. gr. fjárl. Þar ætlaði hann að spara einar Fjárlög 1953 litlar 12 millj. kr. En til hvers er þeim útgjöldum varið, sem á þeirri grein eru? Renna þau ef til vill til einhvers óþarfa, sem auðvelt er að skera niður? Nei, á þessari fjárlagagrein standa nöfn tæplega 400 gamalmenna, ekkna og starfsmanna, sem flestir hafa látið af störfum fyrir aldurs sakir. Þar getur að lita nöfn aldraðra landpósta, fiskmatsmanna, sýslumanna, póstafgreiðslumanna, ljósmæðra, presta, lækna, kennara, vitavarða, listamanna o.s.frv. Meðal þeirra eru rúmlega 200 ekkjur. Flest þetta fólk lifir á þessu styrktarfé. Margt af því er fátækt fólk, sem kæmist á vonarvöl, ef það yrði svipt þessum stuðningi. Svo kemur hinn kokhrausti nýkjörni form. Alþfl. og segist vilja strika þessa grein út og spara 12 millj. kr.

Eftir þessu var allur málflutningur þessa hv. þm. Þannig segist hann vilja spara. Með slíkum sparnaði segist bann geta leyst hið pólitíska verkfall, sem hann og kommúnistar hafa leitt þúsundir manna út í í jólamánuðinum. Í þessu sambandi mætti svo upplýsa, að einmitt þessi hv. þm. Alþfl. vann það frægðarverk í bæjarstj. þess kaupstaðar, sem hann er þm. fyrir, að hækka á einu ári, árinu 1951, kostnaðinn við stj. bæjarmála hans um 44.5%, — segi og skrifa 44.5%! Það er svo sem auðséð, að þessum hv. þm. ferst að tala um sparnað á ríkisfé. — Enn má geta þess, að hv. þm. Ísaf. vann sér það til ágætis og fólki kjördæmis sins til kjarabóta að hækka útsvör þess á s.l. sumri um 38%. Mun það meiri hækkun en í nokkrum öðrum kaupstað í landinu á þessu ári. Sjá nú ekki allir, hvílíkur spámaður er upprisinn meðal vor, hvílíkur sérfræðingur í sparnaði og kjarabótum til handa alþýðu manna? — Ég læt þessi svör nægja við ræðu hv. þm. Ísaf. Málflutningur hans var nú eins og ævinlega innantómur og rakalaus belgingur.

Hv. 3. landsk. þm., Gylfi Þ. Gíslason, og hv. 7. landsk. þm., Finnbogi R. Valdimarsson, töldu núverandi ríkisstj. hafa slegið öll met í vexti dýrtíðar, þar sem vísitala framfærslukostnaðar hefði hækkað um 63% í stjórnartið hennar á tæpum 3 árum, en það eru rúmlega 20% á ári til jafnaðar. Vist eru þetta miklar verðhækkanir, en þess má þó geta, að næstu 11 ár á undan hafði vísitalan hækkað um samtals 360% samkv. útreikningi hagstofunnar með því að leiðrétta stærstu skekkjur hennar. Það gerir um 33% á ári að meðaltali, svo að auðsætt er, að ríkisstjórnum þeim, sem setið hafa á undan þessari, hefur einnig gengið erfiðlega að halda dýrtíðinni í skefjum. Töluverðan hluta þessa tímabils sat þó Alþfl. í stj., að ógleymdum kommúnistum og Framsfl., okkar ágæta samstarfsfl., enda þótt hæstv. landbrh., Hermann Jónasson, vildi hér áðan kenna nýsköpunarstj. Ólafs Thors um að hafa vakið dýrtíðardrauginn upp.

Í ræðum kommúnista hefur ekkert nýtt komið fram. Þeir hafa leikið hér sinn áratuga gamla Sovétsvanasöng. — Hv. 5. landsk. þm., Ásmundur Sigurðsson, gat þess þó í leiðinni, að bændur mundu græða á kauphækkunum, þess vegna hlytu þeir að vera samherjar hans í því verkfalli, sem nú stendur yfir. Það er rétt, að bændur fá afurðaverð sitt hækkað í nokkru hlutfalli við hækkuð vinnulaun, en þeir fá þá hækkun ekki fyrr en eftir á. Hitt er þó alvarlegra, að hækkað afurðaverð rýrir kaupgetu fólksins við sjávarsíðuna og þrengir markaði bóndans. Honum er ekki gagn að háu afurðaverði,ef vara hans selst ekki. Á sama hátt er verkamönnum ekki gagn að háu tímakaupi, ef þeir verða svo að ganga atvinnulausir. Niðurstaðan verður því með tímanum sú, að hvorugur græðir á kapphlaupinu milli kaupgjalds og verðlags. Hækkanirnar hverfa í hít verðbólgunnar. Dýrtíðarpúkinn fitnar á fjósbitanum, en afkoma þjóðarinnar í lífsbaráttu hennar versnar.

Síðan síðari heimsstyrjöldinni lauk, höfum við Íslendingar lagt megináherzlu á eflingu bjargræðisvega okkar. Má segja, að uppbygging atvinnulífsins sé raunhæfasta sporið, sem þessi þjóð hefur nokkru sinni stigið til umbóta á lífskjörum sínum. Afkoma fólksins á hverjum tíma byggist fyrst og fremst á þeim atvinnutækjum, sem þjóðin á og rekur. Þess vegna hefur Sjálfstfl. lagt á það höfuðkapp að treysta þennan grundvöll lífskjaranna. Með því hefur hann viljað berjast gegn því böli, sem atvinnuleysi er ævinlega, hvar sem þess verður vart. Hann hefur viljað skapa hverjum fullhraustum manni, sem vill vinna, tækifæri til þess að hafa atvinnu við sitt hæfi og njóta öryggis um afkomu sína.

„En hvernig stendur á þeim erfiðleikum, sem íslenzka þjóðin á nú við að etja?“ má vera, að einhver spyrji. Ástæður vandkvæðanna nú eru fyrst og fremst tvær. Hv. stjórnarandstæðingar segja að vísu, að hún sé aðeins ein, sú, að í landinu sitji ríkisstj., sem eigi þá ósk heitasta að kvelja og pína almenning. Enginn skyni borinn maður leggur eyrun við slíkum málflutningi. Sannleikurinn er sá, að meginástæða efnahagsog atvinnuerfiðleika okkar í dag er fábreytni íslenzks atvinnulífs. Þrátt fyrir hina miklu eflingu þess undanfarin ár standa bjargræðisvegir okkar enn þá allt of völtum fótum. Meðan afkoma þjóðarinnar stendur og fellur með brigðulum sjávarafla á rányrktum fiskimiðum, hefur þessi þjóð ekki skapað sér atvinnuöryggi. Ég veit, að mikill meiri hluti fólksins í kaupstöðum og sjávarþorpum víðs vegar um land skilur þetta. Það hefur sárbitra reynslu af átta síldarleysissumrum ásamt aflatregðu á þorskveiðum í einstökum landshlutum. Það veit, hvaða áhrif þau hafa haft á lífskjör þess. Þetta ástand hjá útgerðinni hefur svo verkað á lífskjör alls almennings í landinu. Þetta kom ekki hvað sízt í ljós í stjórnartíð fyrstu stj. Alþfl., eins og Alþfl: menn hafa kallað ríkisstj. Stefáns Jóh. Stefánssonar, hv. 8. landsk. þm. Innflutningshömlurnar, vöruskorturinn, svarti markaðurinn og braskið voru skilgetin afkvæmi aflabrestsins og gjaldeyrisskortsins.

Önnur meginástæða efnahagserfiðleika okkar er sú staðreynd, að mitt í áhuga okkar fyrir öflun betri framleiðslutækja hefur okkur ekki tekizt að tryggja jafnhliða rekstur þeirra. Tregða okkar til þess að viðurkenna þá grundvallarstaðreynd, að við getum ekki eytt meiru en við öflum, hefur spennt bogann of hátt og gert meiri kröfur á hendur framleiðslunni heldur en hún hefur getað risið undir. Við höfum m.ö.o. fallið fyrir þeirri sjálfsblekkingu að álita mögulegt að miða lífskjörin við eitthvað annað en arð atvinnutækja okkar. Þetta er háskaleg villa, sem þegar hefur skapað þjóðinni fjölþætt vandkvæði og erfiðleika. Við sjálfstæðismenn höfum jafnan lagt áherzlu á að vara þjóðina við henni. Er og óhætt að fullyrða, að stór hluti hennar hafi glöggan skilning á eðli hennar, en allt of margir vilja ekki skilja þennan háska. Þess vegna geta upplausnaröfl þjóðfélagsins, kommúnistar og taglhnýtingar þeirra, att þúsundum manna út í baráttu fyrir sínum eigin ófarnaði. Þess vegna stendur nú yfir hörð barátta fyrir kröfum, sem óhjákvæmilega hlytu að leiða atvinnuleysi og bágindi yfir þjóðina, ef þær næðu fram að ganga.

Ég viðurkenni hiklaust, að fjöldi manna hér á landi þarf um þessar mundir á hærri launum að halda til þess að geta bætt lífskjör sín. Ég veit, að margir af sjómönnum vélbátaflotans, verkamenn og fastlaunamenn í láglaunaflokkum berjast í bökkum með að láta laun sín hrökkva fyrir daglegum þörfum. Ekkert væri þess vegna æskilegra, en að hægt væri að bæta kjör þessa fólks með verulegum kauphækkunum. En hver trúir því, að launahækkanir, sem stöðva útgerð báta og skipa, rekstur frystihúsa og iðnfyrirtækja og hafa jafnframt í för með sér lögbundna hækkun á innlendum matvælum, svo sem mjólk, kjöti, smjöri og garðávöxtum, bæti raunverulega lífskjör þess fólks, sem erfiðast á um þessar mundir? Því getur enginn trúað nema sá, sem setur kíkinn fyrir blinda augað og neitar að viðurkenna augljósar staðreyndir.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa sagt í þessum umr., að þessar rökræður þeirra, sem styðja núverandi hæstv. ríkisstj., sýni aðeins fjandskap við verkalýðinn og skilningsleysi á þörfum almennings. Þegar Alþfl. hafði forustu í ríkisstj. fyrir fáum árum, lét þó einn af leiðtogum hans sér þau orð um munn fara, að kauphækkanir væru fásinna, ef ekki hreinn glæpur, eins og þá var ástatt í þjóðfélaginu. Þegar kommúnistar voru í ríkisstj. fyrir nokkru fleiri árum, híkuðu þeir ekki heldur við að lofa því að beita áhrifum sínum gegn kauphækkunum. En nú eru þessir flokkar ekki í ríkisstj. Þess vegna þykjast þeir enga ábyrgð bera gagnvart almenningi í landinu. Þess vegna leyfa þeir sér einnig að beita verkalýðshreyfingunni fyrir stríðsvagn sinn til hefndarverka gegn alþýðu manna.

En hvaða leiðir ber íslenzku þjóðinni þá að fara til þess að tryggja lífskjör sín og framtíðarafkomu? Fyrst og fremst þá að treysta grundvöll bjargræðisvega sinna og miða kröfur sínar til þeirra við raunverulega greiðslugetu þeirra á hverjum tíma. Við verðum að geta rekið atvinnutækin og haldið uppi varanlegri atvinnu í landinu.

Við sjálfstæðismenn höfum á þessu þingi flutt þáltill. um rannsókn á greiðslugetu atvinnuveganna með samvinnu vinnuveitenda, launþegasamtaka og ríkisvalds. Slík rannsókn verður fyrr, en síðar að fara fram, ekki í eitt skipti fyrir öll, heldur árlega. Þjóðin verður að öðlast aukna þekkingu á rekstri atvinnutækja sinna og þeim grundvallarlögmálum efnahagsstarfseminnar, sem lífskjör hennar byggjast á á hverjum tíma. Slík þekking er lykillinn að framtíðarvinnufriði í landinu, sáttum milli vinnu og fjármagns.

En jafnhliða því, sem þess er krafizt af almenningi, að hann miði lífskjör sín við afkomu atvinnuveganna, verður að vinna gegn hvers konar óhófi, bruðli og eyðslu, bæði hjá hinu opinbera og einstaklingum, sem við góð efni búa. Okkur Íslendingum hefur á örskömmum tíma tekizt að jafna lífskjörin í landi okkar meira en tíðkast hjá flestum öðrum þjóðum. Í þessu litla þjóðfélagi á auður og örbirgð aldrei að eiga sæti hlið við hlið. Til þess að treysta afkomu okkar og skapa atvinnuöryggi í landinu verðum við enn fremur að gera bjargræðisvegi okkar fjölbreyttari. Á þann hátt einan getum við hindrað lífskjaraskerðingar aflabrests og rányrkju. Það verður að tryggja, að hvert byggðarlag hafi næg atvinnutæki til þess að tryggja fólki sínu atvinnu. Að því takmarki miðar það frv., sem við sjálfstæðismenn höfum flutt á þessu þingi um atvinnubótasjóð. Aukinn iðnaður, vaxandi vinnsla sjávarafurða innanlands og þróttmikill og blómlegur landbúnaður eru frumskilyrði aukins öryggis í efnahagslífi þjóðarinnar. Núverandi ríkisstj. hefur stigið stórt skref áleiðis til eflingar þessum atvinnugreinum. En þrátt fyrir stórvirkjanir við Sog og Laxá, sem nú er langt komið, erum við enn þá örskammt komnir áleiðis með virkjun þeirrar orku, sem býr í fljótum og fossum. Heila landshluta skortír raforku frá vatnsaflsstöðvum gersamlega. Að sjálfsögðu getum við ekki ráðizt samtímis í byggingu allra þeirra raforkuvera, sem við þurfum að reisa, en við verðum að gæta þess að afskipta ekki einstaka landshluta of lengi þessum þýðingarmiklu framkvæmdum. Af því hlýtur óhjákvæmilega að leiða vaxandi jafnvægisleysi byggðarinnar, áframhaldandi fólksflótta frá þeim stöðum, sem útundan verða. Fossaflið og jarðhitinn eru þær náttúruauðlindir þessa lands, sem glæsilegust fyrirheit gefa um blómlega byggð þess, aukin lífsþægindi og atvinnuöryggi fólksins. Við þurfum ekki að hika við að nota erlent fjármagn til þess að hagnýta þær. Ef rétt er að farið, þarf það aldrei að verða okkur fjötur um fót.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa oft undanfarið, m.a. í sambandi við setningu fjárl. fyrir næsta ár, gagnrýnt ríkisstj. fyrir of ríflegan stuðning við landbúnaðinn. Sú gagnrýni er á mikilli skammsýni byggð. Vei rekinn landbúnaður og fjölmenn og dugandi bændastétt er hverju þjóðfélagi mikilsverð kjölfesta. Efling landbúnaðarins er þess vegna ekki eingöngu hagsmunamál bænda, heldur þjóðarinnar í heild.

Á grundvelli heilbrigðs, fjölþætts og þróttmikils atvinnulífs mun þjóðin svo verða fær um að bæta aðstöðu sína og lífsskilyrði á marga aðra vegu. Koma þar ekki hvað sízt til greina umbætur í húsnæðismálum. Þúsundir fjölskyldna búa enn þá í húsnæði, sem er ófullnægjandi og jafnframt heilsuspillandi, og ungt fólk getur ekki stofnað heimili vegna húsnæðisleysis. Úr þessu verður að bæta. Við sjálfstæðismenn höfum á undanförnum árum lagt mikið kapp á að bæta aðstöðu efnalítils fólks til þess að eignast þak yfir höfuðið. Fyrsta sporið, sem stigið var í þá átt, var þegar aukavinna efnalítilla einstaklinga við byggingu eigin íbúða var gerð skattfrjáls. Með þeirri ráðstöfun var eitt af mörgum óvinsælum og ranglátum skattalagaákvæðum afnumið. Forustu um hana höfðum við hv. 7. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, og hv. 5. þm. Reykv., Jóhann Hafstein. Í skjóli hennar hefur mikill fjöldi fólks ráðizt í byggingarframkvæmdir. Síðan komu l. um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, sem að vísu giltu of skamman tíma. Á síðasta þingi voru svo settar reglur um lánadeild smáíbúða og til hennar veitt nokkurt fé, sem úthlutað hefur verið til einstaklinga víðs vegar um land. A þessu þingi hefur hæstv. ríkisstj. flutt frv. um öflun 16 millj. kr. lánsfjár, til þess að unnt verði að halda þessari starfsemi áfram og styðja einstaklingsframtakið til nauðsynlegra byggingarframkvæmda. Fyrir Alþ. liggur nú einnig frv., flutt af hv. 5. þm. Reykv., Jóhanni Hafstein, og nokkrum öðrum þm. Sjálfstfl., um eflingu veðdeildar Landsbankans til eðlilegrar fasteignalánastarfsemi. Takmark okkar sjálfstæðismanna í húsnæðismálunum er útrýming alls heilsuspillandi húsnæðis í landinn til sjávar og sveita og sköpun góðra og heilsusamlegra húsakynna í þeirra stað. Við teljum, að líklegasta leiðin að þessu takmarki sé stuðningur við framtak einstaklingsins, en við teljum einnig rétt og sjálfsagt, að félagsframtakið njóti aðstoðar til byggingar verkamanna- og samvinnubústaða.

Ég hef hér — góðir hlustendur — gert nokkra grein fyrir því, á hvern hátt við sjálfstæðismenn höfum unnið að því og viljum vinna að því að bæta lífskjör almennings í landinu. Ég hef leitt rök að því, að heilbrigt atvinnulíf er sá grundvöllur, sem allar framfarir og umbætur byggjast á. Þann grundvöll höfum við haft forustu um að treysta. Í því felst hin raunhæfa barátta fyrir bættum lífskjörum fólksins. Hv. stjórnarandstæðingar segja, að við séum á móti framförum og umbótum og viljum lífskjör fólksins sem bágbornust. Til rökstuðnings þessari staðhæfingu hafa þeir ekkert nema íhaldsgrýlu sína, en hún er löngu dauð. Íslenzkt fólk trúir ekki lengur á grýlur. Það dæmir stjórnarfl. og leiðtoga þeirra af reynslunni, af störfum þeirra. Þess vegna er Sjálfstfl. í dag stærsti og þróttmesti stjórnmálafl. þjóðarinnar.

Ég vil ljúka máli mínu með því að benda á, að enda þótt við sjálfstæðismenn höfum mörg undanfarin ár tekið þátt í samsteypustjórnum, vegna þess að þær hafa verið nauðsynlegar, þá hlýtur þó höfuðmarkmið stjórnmálabaráttu okkar jafnan að vera hreinn meiri hluti flokks okkar með þingi og þjóð. Við vitum, að í kjölfar samstjórnarskipulagsins hefur siglt ýmiss konar los, stefnuleysi og pólitísk hrossakaup, sem engan veginn hafa haft heillavænleg áhrif á stjórnarfar þjóðar okkar. En samstjórnirnar hafa verið nauðsynlegar, þar sem enginn einn stjórnmálaflokkur hefur haft meiri hluta á Alþingi. Ef þjóðin vill skapa sér heilbrigt stjórnarfar, er sú leið greiðfærust til þess að skapa Sjálfstfl. meirihlutafylgi. Þá fyrst getum við framkvæmt stefnumál okkar án þess að semja um afslátt á þeim við aðra, og þá fær þjóðin jafnframt tækifæri til þess að dæma okkur fyrir framkvæmd þeirra. Þeim dómi kviðum við ekki. — Góða nótt.