26.01.1953
Sameinað þing: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

1. mál, fjárlög 1953

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það eru nú liðnir allt að því tveir mánuðir síðan 2. umr. fjárlaganna fyrir 1953 var lokið og nokkuð á annan mánuð frá þeim tíma, sem fyrirhugað var að ljúka afgreiðslu fjárlaganna. Hæstv. fjmrh. hafði fullnægt þeim fyrirmælum þingskapa að leggja frv. fram á fyrstu dögum þingsins, og fjvn. setti sér það takmark að hafa tekið til meðferðar öll erindi, sem til hennar bárust í sambandi við fjárlögin, og skila till. til þingsins fyrir 2. umr. svo tímanlega, að engin hætta væri á því, að afgreiðslu fjárlaga yrði ekki lokið fyrir jól eða áður en þingfri yrði gefið.

Það hefur jafnan verið skoðun nefndarinnar, að þannig bæri að haga störfum hennar og þingsins, að fjárlög séu ávallt afgr. fyrir byrjun þess fjárhagsárs, sem þau eru samin fyrir, allt annað sé óverjandi og lami verulega virðingu þingsins og álit. Að þessu marki hefur líka verið stefnt undanfarin ár, og að því var einnig stefnt í byrjun þings þess, sem nú stendur yfir. Það er engum vafa undirorpið, að þjóðin ætlast til þess, að frá þessari stefnu sé ekki víkið, og metur það, ef hægt er hér sem á öðrum sviðum að halda uppi heiðri Alþingis.

En nú hefur illu heilli tekizt svo til, að komið hefur verið í veg fyrir það, að hægt yrði að ljúka afgreiðslu fjárlaganna á réttum tíma. Með því var enn á ný verið að sniðganga skýlaus ákvæði stjórnarskrárinnar og um leið dregið niður álit og heiður Alþingis. Fljótt á litið þykir það ef til vill ekki skipta miklu máli, hvort fjárlög eru afgr. fyrir eða eftir að fjárhagsárið byrjar, því að Alþingi hafði þá uppfyllt ákvæði stjórnarskrárinnar þann veg að fyrirskipa með sérstökum lögum, að fjárgreiðslur úr ríkissjóði, sem bundnar eru sérstökum lögum, svo sem laun o.fl., skuli greiddar eftir ákvæðum fjárlaga frá fyrra ári um ákveðinn tíma, eða þar til fjárlög hafi verið sett, og réttlæta mætti þetta, ef eðlilegar og óviðráðanlegar ástæður hefðu valdið því, að fjárlögin voru ekki að þessu sinni afgr. svo sem fyrirhugað var og rétt var að gera. En svo var ekki. Hinar raunverulegu orsakir þessa máls stóðu miklu dýpra, og það er rétt, að menn geri sér þau sannindi ljós þegar í upphafi. Og einmitt vegna þess þykir mér rétt að ræða þetta nokkru nánar, áður en ég sný mér að hinum einstöku till., sem n. ber fram til breyt. á fjárlagafrv.

Þeim, sem sæti áttu hér á Alþingi 30. marz 1949, munu seint falla úr minni þeir atburðir, sem þá gerðust hér. Það höfðu staðið hér harðar deilur um öryggismál landsins. Einn stjórnmálaflokkur þingsins hafði valið sér það auma hlutskipti að vinna að þeim áhugamálum einvaldsherrans austan járntjaldsins að leggja sem flest ríki veraldarinnar undir hans veldi og áþján, einnig híð fámenna og fátæka lýðveldi Ísland, svo að þar mætti ekki um aldur ríkja lýðræði, frelsi í hugsun og athöfnum, réttaröryggi eða almenn mannréttindi á mælíkvarða lýðræðiselskandi þjóða. Var haft í hótunum utan þings og innan, að Alþingi skyldi ekki fá frið til þess að koma fram með löglegum hætti vörnum gegn slíkum fyrirætlunum, og hverjum þm. heitið ofsókn og jafnvel meiðingum, sem ætlaði sér þá dul að afgreiða mál þetta í þinginn samkv. sannfæringu sinni eða samkv. því, sem hann vissi að bezt væri fyrir núverandi og komandi kynslóðir.

Þegar sýnilegt var, að orðin ein um hótanir höfðu engin áhrif á gang málsins, og vitað var, að áróður mundi engu breyta um endanlega afgreiðslu þess, var hópað saman nokkrum óábyrgum æsingaseggjum til þess að koma fram hótununum og hindra Alþingi í störfum, svo að málalokum yrði ekki komið við á þann hátt, sem fyrirhugað var. Sú ró og sú óbifanlega festa, sem ríkti hér í þessum sal á þeirri stundu, er atkvgr. um öryggismálin fór fram, mun seint gleymast þeim mönnum, sem hér voru til staðar. Meðan grjótkast og glerbrot frá óðum lýð, sem umkringt hafði alþingishúsið, þutu um höfuð hæstv. forseta og inn um allan sal, sat hann öruggur og lét sér hvergi bregða, hélt áfram skyldustörfum sínum, svo sem ekkert hefði á bjátað, en þingmenn létu það ekkert á sig fá, þótt úti fyrir æddi skríll með ópum og óhljóðum og hótun um árásir og meiðsli, ef ekki yrði farið að þeirra óskum um afgreiðslu þingmála, heldur stjórnuðust af allt öðrum og hollari öflum og greiddu atkvæði eftir því, sem þeir, hver og einn, töldu vera heppilegast fyrir þjóðina. Athöfninni var lokið. Alþingi hafði unnið sigur. Það beygði sig ekki fyrir uppreisn æsingaseggja, ekki fyrir hótunum, ópum eða köllum, ekki fyrir háði eða spotti, heldur hélt sína beinu braut í alvarlegu máli. Aldrei sem þá hafði Alþingi sýnt, að það var spegill þjóðarinnar. Þannig mundi þjóðin sjálf hafa tekið á málinu, þannig mundi hún sjálf taka á hverju vandamáli, sem að höndum bæri, með festu og manndómi og víkja hvergi af vegi sannleikans.

Tíminn leið, og hinir óhamingjusömu menn, sem höfðu látið leiða sig út í foraðið að gera aðsúg að löggjafarþingi þjóðarinnar, fengu sinn dóm. Með honum var alþjóð kunngert, að engum þegn yrði þolað það að virða ekki stofnunina sem vera bar og gefa henni starfsfrið. Um þann þáttinn að hefja almennan áróður fyrir því, að mönnum þeim, sem hér brutu af sér, verði hlíft við réttlátri hegningu, skal ekki rætt hér. Þar var að verki íslenzkt hjartalag hjá þeim mönnum, sem ekkert aumt mega sjá, en engin tilhneiging til þess að gera dóminn tortryggilegan eða til að réttlæta brotið.

En þegar þessir sömu aðilar, sem ýmist beint eða óbeint stóðu á bak við árásina á Alþingi 30. marz, eru sér þess meðvitandi, að ekki verður þolað að brjóta niður þingræðið á þennan hátt, snúa þeir kvæði sínu í kross, hefja aðra sókn að sama marki, sem fólkinu að lítt hugsuðu máli þykir ekkert athugavert við og mætir því engri mótspyrnu, en þingræðið hlýtur að lúta í lægra haldi fyrir, ef ekki er spyrnt við fótum þegar í stað. Og hvar stendur þá vort unga lýðveldi með allar sínar framtíðarvonir og óskir og möguleika, er svo er komið málum, að ákveðnir félagshópar geta kúgað Alþingi og fyrirskipað því að gera ákveðna hluti, illa eða góða, allt eftir því sem þeim líkar? Þegar svo er komið, er skammt að því marki, að þjóðin selji sig í ánauð, glati frelsi sínu og moldi allar sínar hugsjónir. Það er þetta, sem hefur skeð hér í siðasta verkfalli, sem hófst hinn 1. des. og lauk fyrir jólin, fyrsta verkfalli, sem háð er gegn Alþingi, í sögu þjóðarinnar. Og Alþ. bíður í þetta skipti lægri hlut. Í fyrsta áhlaupi sigra stéttafélögin, en Alþ. hefur fórnað allmiklu af virðingu sinni og valdi. Til þess voru refirnir fyrst og fremst skornir að koma því fram. Hitt var forustumönnunum aukaatriði, að bæta kjör einstakra manna, enda enn ekki sýnt, hve haldgott það kerfi verður, sem hér var tekið upp í sambandi við lausn vinnudeilunnar. Og sízt af öllu var þar tryggður réttur þeirra, sem erfiðast áttu með að fá kjör sin bætt, fram yfir hina, sem enga nauðsyn bar að veita kjarabætur. Ég get vel skilið þá menn, sem verða að velta hverjum eyri, sem þeir hafa handa á milli, áður en þeir gefa hann út til greiðslu á nauðsynlegustu þörfum, vegna þess að erfitt er að dæma um það, hvað eigi helzt að sitja á hakanum, og lágtekjurnar hrökkva ekki fyrir nauðsynlegustu gjöldum, - get vel skilið, að þeir séu til í allt, sem löglegt er, til þess að fá kjör sín bætt. En það voru ekki þessir menn, sem fundu upp á því snjallræði að gera verkfall á Alþingi. Nei, það voru hinir pólitísku leiðtogar, utan þings og innan, sem áttu af því heiðurinn, margir hverjir hinir sömu, sem með áróðri komu af stað óeirðunum og árásunum á Alþingi 30. marz, sem þá var ætlazt til að riði þingræðinu að fullu. Og þegar sigurinn var unninn, var fátækasta fólkið, sem vegna elli og örorku gat ekki lengur tekið þátt í kapphlaupinu um gæði lífsins, skilið eftir úti á hjarninu, því að það er haft fyrir satt, að raddirnar hjá félagssamtökum þeirra manna, sem bezt eru settir í lífinu og hæstar höfðu tekjurnar og beztu kjörin, hafi verið hvað háværastar í kröfunum, enda voru atvinnuveitendur þeirra eini aðilinn, sem ekki hafði enn fengið viðurkenningu fyrir að vera á gjaldþrotabarmi.

Áður en fjárlagafrv. var skilað til 2. umr., voru á mörgum fundum n. ræddir þeir möguleikar að mæta aðkallandi þörfum ýmissa aðila, sem til þingsins höfðu leitað. Meðal þessara erinda voru óskir um meira fé til þess að hraða umbótum í heilbrigðismálum þjóðarinnar, meira fé til þess að byggja sjúkrahús, hjúkrunarkvennaskóla og fávitahæli, meira fé til að koma upp nýtízku tækjum í sambandi við ný vísindi í baráttunni gegn meinum mannanna, svo að bjarga mætti enn fleiri mannslífum, lina enn meira þjáningar mannanna, lengja enn meira aldurinn, skapa þjóðinni enn traustari stofna, milda enn meira sorgirnar, sem sjúkdómar færa einstaklingum og þjóðinni.

Það var ekki öllum fjvn.- mönnum sársaukalaust að láta þá fulltrúa þjóðarinnar, sem hafa gert sér það að lífsstarfi að vinna þessum málum allt það gagn, sem þeir mættu, synjandi frá sér fara, vitandi, að með því var ekki einasta verið að fresta framkvæmdum mjög aðkallandi mála, heldur einnig það, sem var miklu alvarlegra, að með því var verið að lama, en ekki örva löngun þessara manna til þess að láta sem mest og bezt af sér leiða í þessum málum.

Þá var og beðið um fé til margvislegrar vísindastarfsemi. Yngri og eldri vísindamenn með brennandi áhuga fyrir því að mega skapa þjóðinni margvíslega möguleika, bæði í andlegum og veraldlegum efnum, í krafti nýrra vísinda gátu bókstaflega ekki skilið, að ríkissjóði væri um megn að láta í té tiltölulega smáar upphæðir til þess að tryggja mikil auðæfi í framtiðinni með aðstoð vísindanna, er aldrei yrðu höndluð á annan hátt. Og umbótamennirnir, sem dreymir stóra drauma um endurbætur á öllum sviðum atvinnulífsins og sjá hvarvetna nýja möguleika til þess að auka þjóðarauðinn, útrýma atvinnuleysi og bæta lífskjörin, ef ríkissjóður vildi aðeins láta sér nægja minni skerf af ágóðahluta þeirra og leyfa þeim að byggja upp öruggan atvinnurekstur, skilja ekki heldur, að ríkissjóður skuli ekki geta séð af einhverju fé til þessara hluta. Og fólkið, sem býr í sveitum landsins og sér fossana falla með öllum sínum þunga til sjávar ár eftir ár og veit, að vatnið gefur þeim ljósið og ylinn og aflið, sem það hefur beðið svo lengi eftir, og gerbreytir hverju heimili, sem öðlazt hefur þessi gæði, skilur ekki, að fjárveitingavaldið skuli daufheyrast við hrópi þess.

Þannig er það á öllum sviðum þjóðlífsins. Fjvn. hefur orðið að vísa þessum og fjöldamörgum öðrum óskum þegnanna á bug vegna þess, að meiri hluti hennar leit svo á að vel yfirveguðu máli, að það væri ekki rétt að leggja á þjóðina nýja skatta, heldur bæri að vinna að því að snúa við og létta á skattabyrðinni, eftir því sem unnt væri, og að það væri ekki hyggilegt að áætla tekjurnar hærri en n. hefur gert, er hún skilaði frv. til 2. umr., ef treysta ætti því, að tekjurnar yrðu nægilegar til þess að mæta útgjöldum á árinu, svo að eigi þyrfti að safna skuldum, en það telur meiri hl. n. nauðsynlegt að jafnan sé haft í huga við afgreiðslu fjárlaga.

Á meðan fjvn. sat á rökstólum við að ræða öll þessi mál, vega og meta, hversu gerlegt væri að teygja tekjuáætlunina, svo að nokkru næmi, hverju skyldi hafna og hvað velja úr þeim erindum, sem til hennar bárust um margvísleg framlög, skeður það, að stéttafélögin lýsa yfir allsherjarverkfalli um land allt, ekki á atvinnurekendur, eins og áður hefur verið lýst, heldur á Alþingi og ríkisstjórn, og síðan er nokkrum óábyrgum mönnum falið umboð til þess að fara með allar framkvæmdir og alla samninga. Og hér er ekki farið að lögum. Hnefarétturinn og valdið er látið ráða. Ferðir frjálsra manna eru tepptar. Grjót og annar farartálmi settur á vegi. Fólk og farangur rannsakað, eins og um væri að ræða glæpi, sem framdir hefðu verið. Framleiðslu bænda er spillt eða henni hellt niður í jörðina. Og höfuðborg landsins er lýst í ófriðarástandi og umgirt. Og kröfurnar eru fast að 20 millj. kr. hærri útgjöld úr ríkissjóði samfara margvíslegum breytingum á gildandi lögum. Hótað er að svelta borgina, fyrst börn og sjúklinga og síðan allan almenning, og milljónum verðmæta skal komið fyrir kattarnef, ef ekki er gengið að kröfunum.

Ég get vel sett mig inn í þá aðstöðu, sem hæstv. ríkisstj. var sett í, og ég skal ekki ræða það nánar hér, en gert hefur verið, hvort rétt hafi verið af henni að láta undan síga, svo sem gert var, en á hitt vil ég benda, að ef þjóðin sjálf og Alþ. spyrna ekki fótum við slíkum aðferðum framvegis, eiga þegnarnir ekkert öryggi til framar. Ef stéttasamband, fjölmennt eða fámennt, getur aftur leikið þennan leik og samið sig síðan og menn sína með undirskrift samninga undan ótvíræðum ákvæðum hegningarlaganna, sem aðrir þegnar þjóðfélagsins verða að beygja sig undir, þá er það vist, að það tvennt fer saman, að fjárhagur ríkisins stendur ekki stundinni lengur á föstum fótum og að frelsi einstaklinganna er glatað.

Það má að sjálfsögðu endalaust deila um ráðstafanir, sem gerðar eru af Alþingi, og um lög, sem þaðan koma, en til þess er ritfrelsi og málfrelsi í landinu að gagnrýna það. En aðferðin til þess að koma fram umbótum á löggjöf landsins, hvort heldur um er að ræða fjárlög eða önnur lög, er ekki sú að stofna til víðtækra verkfalla og óeirða í sambandi við þau og á þann hátt glata milljónum verðmæta fyrir þjóðarheildinni, heldur hitt, að hrinda með frjálsum kosningum til Alþingis þeim mönnum, sem meiri hluti kjósenda telur að ekki hafi nægilegt viðsýni til að bera til að setja þjóðinni holl og viturleg lög á hverjum tíma. Allt annað stefnir að því að þurrka þingræðið út og bjóða einræðinu og þar með áþjáninni heim.

Það er af þessum ástæðum, sem ég hér hef lýst, að meiri hl. fjvn. ber ekki fram þær brtt. við fjárlagafrv., sem hæstv. ríkisstj. þykir nauðsynlegt að gerðar verði og standa í beinu sambandi við lausn vinnudeilunnar. Hins vegar hafa nm. að sjálfsögðu óbundnar hendur um það, hvernig þeir greiða atkv. um þær till. — Skal ég þá leyfa mér að lýsa hér nokkuð þeim till., sem fjvn. ber fram hér við þessa umr.

Á þskj. 567 er 1. brtt. um, að hækkað sé um 260 þús. framlag til notendasíma í sveitum, sem fært er svo síðar á 20. gr. fjárlaganna. Framlagið í fjárlögum, eins og það er nú, er ákveðið 1.740.000, en lagt er til, að þetta hækki upp í 2 millj. Það hefur margsinnis verið tekið fram hér á hv. Alþ., að það sé eitt af því, sem veiti hinum dreifðu byggðum landsins mest öryggi, að geta komið símanum inn á sem flesta bæi. Og það er nú vitað, eftir að sími hefur verið lagður á allmarga bæi í sveitum landsins, að það er ekki einungis öryggisatriði, heldur mjög mikill vinnusparnaður í sambandi við framleiðsluna. Fjvn. hefur því viljað með þessari hækkun, sem hér er lagt til að gerð verði, viðurkenna þessa þörf.

Við 10. gr. er 2. till., um að hækka framlag til hagstofunnar um 90 þús. kr. Hæstv. fjmrh. hefur lagt á það áherzlu, að hægt sé að flýta þeim framkvæmdum, sem hagstofan vinnur að, skýrslugerð í sambandi við ýmis atvinnumál og félagsmál í landinu, og það þótti nauðsynlegt að taka upp þessa fjárveitingu til þess að mæta þeim óskum.

3. brtt. á þskj. 567 er um að hækka aukavinnu við lögreglustjóraembættið í Reykjavík úr 38 upp í 71 þús. kr. og annan kostnað úr 145 upp í 186 þús. og 600 kr. Þessi hækkun nemur alls um 74.600 kr. En það hefur verið upplýst fyrir n. af hæstv. dómsmrh. og þeim aðilum, sem fara með þessi mál, að óhjákvæmilegt sé að hækka þennan lið, einkum í sambandi við umferðarlögregluna í bænum, til þess m.a. að draga úr þeirri slysahættu, sem hér ríkir ávallt í sambandi við umferðina. Og hefur n. fallizt á, að þetta væri tekið upp í hennar till.

Það er einnig á þskj. 600 brtt. við 11. gr., um nokkra hækkun í sambandi við fiskmatið, og stendur það í beinu sambandi við löggjöf, sem staðfest hefur verið hér á Alþingi nú, um að fjölga fiskmatsmönnunum um einn mann. Það þótti eðlilegast að taka það nú upp í fjárlagafrv., úr því að búið var að samþykkja lögin. — Sameiginleg hækkun á 11. gr. verður því 125.302 kr., en á 10. gr. 90 þús. kr.

4. brtt. á þskj. 56l er um að taka upp framlag til rekstrar blóðbanka, 100 þús. kr. Eins og mönnum er kunnugt, hefur verið varið allmiklu fé til þess að koma upp blóðbanka hér í bænum, en til þess að unnt sé að reka stofnunina þarf að sjálfsögðu fé. Þetta var rætt við viðkomandi ráðuneyti, og með tilvísun til þeirra gagna, sem fyrir lágu, þótti ekki gerlegt annað, en að taka þessa upphæð upp.

Þá er enn fremur á þskj. 600 brtt. við 12. gr., nýr liður, 60 þús. kr. til fávitahælisins í Skálatúni, byggingarstyrkur. Vegna þess að hér er um nýmæli að ræða, vildi ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um þetta atriði. — Eins og kunnugt er, er ríkið að láta byggja fávitahæli í Kópavogi og ver til þess allmiklu fé á hverju ári. Sökum þess, hversu seint gengur að koma þessum húsum upp vegna kostnaðar og hver óhemju eftirspurn er eftir rúmum á slíkum hælum og hversu erfitt er sérstaklega í sveitum landsins og á heimilunum yfirleitt að hafa hina eldri fávita, þá hefur, eftir því sem landlæknir hefur tjáð n., orðið að byrja á öfugum enda í þessu máli, þannig að byggja fyrst yfir hið fullorðna fólk til þess að geta tekið það inn á hæli, en vanrækja á sama tíma að byggja yfir börnin, sem ef til vill er nauðsynlegast, vegna þess að þá standa vonir til þess, að unnt sé að kenna þeim, ef þau eru tekin nægilega snemma, nægilega mikið til þess að geta gert einhver verk og verða ekki fullkomlega öryrkjar. Þetta taldi landlæknir, sem ég átti tal við og m.a. á fundi í heilbr.- og félmn. Ed., vera mestu erfiðleikana í sambandi við þetta mál nú. Hér eru hins vegar nokkrir áhugasamir menn, sem hafa keypt tilbúið hús, sem heitir að Skálatúni, hér skammt fyrir innan bæinn, og á að geta tekið um 35 fávita börn, og geta þar hafið kennslu samstundis, og það er gert ráð fyrir því, að þetta hæli geti tekið til starfa þegar á þessum vetri. Það var upplýst hjá n., að þessir aðilar leggja sjálfir fram 100 þús. kr. Þeir óskuðu eftir, að Alþ. gæti látið, ef mögulegt væri, í þetta skipti 100 þús. á móti, en það varð þó samkomulag við þessa aðila, að þeir mundu geta hafið reksturinn, ef tekinn yrði upp 60 þús. kr. styrkur, og á það hefur fjvn. fallizt. Það var upplýst af landlækni, að með þessu mundi batna mjög aðstaðan í sambandi við þessi mál, það mundi mjög létta á öðrum hælum, og hann taldi, að þessi bygging, sem hér um ræðir, væri vel til þess hæf að nota hana til þessarar starfsemi. N. leit svo á, að það væri ekki rétt að slá á þá útréttu hönd, sem hér hefur verið rétt fram af þessum mönnum, og væntir því, að þessi till. verði samþ. — Sameiginlegur kostnaður við hækkun á 12. gr. yrði þá 160 þús. kr., ef till. n. yrðu samþ.

5. till. n. á þskj. 567 er í sambandi við hækkun á vegafé, 6. till. í sambandi við hækkun til hafnarbóta og 7. till. einnig í sambandi við hækkun á framlagi til hafnarbóta, og eru þær allar tilheyrandi 13. gr. Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til þess að ræða um þetta. Þetta voru atriði, sem sumpart hafði ekki gefizt tími til að ganga frá fyrir 2. umr. og sumpart hafa komið síðan og nauðsynlegt þótti að sinna. Allar þessar hækkanir nema samtals 355 þús. kr., en aðalupphæðin, 230 þús., er í sambandi við tillag til hafnarbótasjóðs, sem verður að takast upp í fjárl. til þess að uppfylla ákvæði l. um hafnarbótasjóðinn, og er það sérliður, 8. till. á þskj. 567.

9. brtt. á þskj. 567 er engin hækkun, heldur er aðeins liðurinn allur tekinn upp á fjárl. með umorðun eins og hér stendur og þarf ekki skýringar við. Þetta er gert í samráði við hæstv. menntmrh.

10. brtt. er viðvíkjandi 14. gr., um nokkra hækkun til bókasafnsins Íþöku, en 11. til námskeiða utan Reykjavíkur og vegna yfirmanna á varðskipum ríkisins. Það þótti nauðsynlegt, að þetta yrði hvort tveggja tekið upp. Einkum var sótt mjög fast á frá skólastjóra stýrimannaskólans um að veita fé til námskeiðs þess, sem getið er um undir brtt. nr. 11. Auk þess er á þskj. 600, 3. brtt. þar, framlag til leiðbeiningar í starfsíþróttum á vegum Ungmennafélags Íslands samkv. fyrirmælum ráðh., 15 þús. kr. Og svo er hér enn nýr liður, 12, sem líka tilheyrir 14. gr., til bændaskólans á Hólum vegna leikfimishúss, 75 þús. kr., — og 300 þús. kr. hækkun, undir tölulið 13, til byggingar húsmæðraskóla, þar sem erindi lágu fyrir frá viðkomandi aðilum um, að óhjákvæmilegt væri að taka þessa hækkun inn á fjárlfrv. Er þetta aðallega vegna kvennaskólanna á Blönduósi og Hallormsstað, en fjvn. hefur ekki séð ástæðu til að skipta þessu fé, heldur er þessu skipt af hæstv. ráðh., eftir því sem hann telur þörf á á hverjum tíma, eins og verið hefur áður.

Þá eru hér einnig till. um hækkun: byggingarstyrkur til Ingibjargar Jóhannsdóttur á Löngumýri og til Árnýjar Filippusdóttur, 25 þús. til Ingibjargar og 15 þús. kr. til Árnýjar. Eru það gamalkunnir liðir hér á fjárl. og þótti rétt að láta þá ekki falla niður að þessu sinni.

Þá er einnig undir 14. lið, 14. brtt., 10 þús. kr. hækkun á framlagi til húsmæðrakennaraskólans, sem er í sambandi við áhaldakaup.

Allar þessar hækkanir í sambandi við 14. gr. koma til þess að nema 462 þús., en af því er stærsti liðurinn, 300 þús. kr., í sambandi við byggingu húsmæðraskólanna, sem ég þegar hef lýst. Leggur n. til, að þær verði allar samþykktar.

Þá eru hér nokkrar breyt. við 15. gr., undir tölul. 15–18. Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að ræða hverja þeirra út af fyrir sig. Þær eru flestar smáar, í sambandi við styrki til náms og í sambandi við listir og vísindi í landinu, og sé ég ekki ástæðu til þess að ræða þar nánar hverja till. út af fyrir sig. — Einnig eru hér till. á þskj. 600, 4. og 5. brtt., sem eru í sambandi við 15. gr., og nemur þetta allt saman 61 þús. kr., ef till. verða allar samþ. — Ég vil taka fram, að hér er ein ný till., til Elsu Sigfúss söngkonu, 8 þús. kr. Það lá fyrir erindi hjá fjvn. um það, hversu illa hún væri stæð fjárhagslega, einkum og sér í lagi vegna veikinda, sem að hefðu steðjað. Hún hefur aldrei notið neins styrks frá íslenzka ríkinu, og n. þótti sjálfsagt, að þessari beiðni væri mætt.

Þá er hér undir 20. liðnum 75 þús. kr. hækkun í sambandi við jarðræktartilraunir, þ.e. framlag til húsakaupa á Akureyri, sem þótti mjög hagkvæmt að gerð yrðu, og var því tekin upp fyrsta greiðsla til þessara mála, 75 þús. kr.

Enn fremur eru teknar hér upp till. um 35 þús. kr. til fyrirhleðslu við Laxá í Austur-Skaftafellssýslu, 50 þús. kr. til sjóvarnargarðs í Gerðum og 159 þús. kr. hækkun á framlagi til Fiskifélags Íslands, vegna þess að talið var, að niðurskurður sá, sem hafði verið gerður af rn., er frv. var samið, hefði verið gerður fyrir einhver mistök, og hefur því orðið að taka upp þessa hækkun, sem hér um ræðir. Svo eru til eflingar upplýsingastarfsemi í sambandi við iðnaðinn 150 þús., og síðan er tekin hér upp ný till. í sambandi við jarðboranir vegna kolarannsókna á Skarðsströnd, 150 þús. kr., en sett þar að skilyrði, að jafnmikið framlag komi annars staðar að og að borunarframkvæmdir verði gerðar undir eftirliti og í samráði við rannsóknaráð ríkisins. Til þessara framkvæmda hafði einnig verið lagt nokkurt fé á síðustu fjárl., og það þótti nauðsynlegt að loka ekki að fullu og öllu fyrir framlag til þessara framkvæmda, ef ske kynni, að hér væri um allveruleg auðæfi að ræða. — Allar hækkanir á 16. gr., ef till. verða samþ., verða því um 619 þús. kr.

Þá er lagt hér til, að hækkað sé um 1 millj. kr. framlag á 17. gr. til almannatrygginganna, og er það í sambandi við hækkun á daggjöldum til sjúkrahúsanna. Það er gert ráð fyrir, að daggjöld til sjúkrahúsanna hækki úr 60 kr. upp í 70 kr. á dag, en það hefur aftur í för með sér, að hækka verður framlagið til sjúkrasamlaganna í landinu, og er þessi upphæð sett inn til þess að mæta þeim kostnaði.

Þá eru settar hér inn á sömu grein 100 þús. kr. til dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Það munar sjálfsagt ekki miklu í svo stórri byggingu, hvort heimilið hefði fengið 100 þús. kr. eða ekki neitt á þessu ári, en þetta er þó sett inn sem viðurkenningarvottur fyrir því, að þessi stofnun hafi fulla samúð hjá Alþ., og er þess því vænzt, að þessi till. verði samþ. — Hækkunin á 17. gr. yrði því alls 1.1 millj. kr., ef tillögurnar verða báðar samþykktar.

Þá er lagt til á þskj. 600, að á 18. gr. séu gerðar nokkrar breyt. Sumpart falla þar niður nokkrir aðilar, sem eru dánir, en að öðru leyti eru einnig teknir upp nokkrir nýir aðilar, eins og þskj. ber með sér. Ég skal ekki fara hér út í hvern einstakan lið í sambandi við þessi mál, en aðeins leyfa mér að geta þess, að á hverju ári, sem þetta mál hefur verið til umr. í fjvn., hefur n. komizt að raun um, að raunverulega sé alveg óviðeigandi og óþolandi að hafa þessa grein eins og hún er. Í fyrsta lagi verður ekkert af greininni séð, hvaða tekjur hver aðili hefur, því að hér er ekki birt með, eins og þó einu sinni hafði verið gert, hvað hver aðili fái mikið úr lífeyrissjóði, og þess vegna gefa þær upphæðir, sem hér eru settar fram, gersamlega ranga hugmynd um þann lífeyri, sem þessir aðilar hafa raunverulega. Ég vildi mega beina því til hæstv. ráðh., að það er ákveðin ósk n., að í næsta fjárlfrv. verði þó a.m.k. þannig gengið frá þeim málum, að Alþ. og hver sá, sem hefur frv. til athugunar, geti séð, hvað mikinn lífeyri hver aðili hefur í heildartekjur, bæði frá Alþ. og frá lífeyrissjóðunum. Það yrði þó það minnsta, sem hægt væri að krefjast í sambandi við það mál. Ég verð að segja, að ef almenningi er þetta ljóst, þá mundi sumum þykja allmikið örlæti ríkja hér á Alþ. Hins vegar er þess vænzt, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að láta athuga þessi mál, þannig að þau verði ekki framvegis eins og þau eru. Það er út af fyrir sig alveg óþolandi, að fjvn. og alþm. yfirleitt eigi að vera settir í þá aðstöðu að meta hér hvern einstakan aðila, sem sækir um uppbót eða styrk, bæði verk hans eins og þau hafa verið unnin, fjárráð hans og aðstöðu alla, og það verður að fara hér eftir einhverjum föstum reglum, sem útiloka það alveg, að það sé hægt að hafa persónuleg áhrif á hvern aðila í þinginu. Fjvn. hefur rætt um að reyna að koma út þáltill. í sambandi við þetta mál áður, en þingi lýkur. Ég veit ekki, hvort til þess vinnst tími, vegna þess að ég veit ekki enn þá, hvenær þingi verður slitið, en jafnvel þótt ekki ynnist tími til þess, þá er mjög óskað eftir því, að hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. láti taka þetta mál til alvarlegrar athugunar.

Ef allar till. n. í sambandi við 18. gr. verða samþ., þá hækka útgjöldin á 18. gr. um 94.882 kr., en á móti kemur aftur lækkun frá þeim mönnum, sem út falla, 37.654, svo að raunveruleg hækkun verður 57.228 krónur. Ég skal svo geta þess, að hér hefur fallið niður eitt nafn, þ.e. nafn ekkju Finns heitins Jónssonar alþm., en það verður tekið til athugunar áður en umræðunni er lokið.

Þá eru hér í sambandi við 20. gr. till. á þskj. 567. — Það er 28. till., til byggingar kennaraskóla, 300 þús. kr. Það lá fyrir hjá fjvn. ýtarlegt erindi um þetta mál. Húsnæði kennaraskólans er slíkt í dag, að þar þarf kennsla að fara fram á fimm stöðum í bænum og svo og svo mikið af starfstíma kennaranna fer í að flytja sig á milli kennslustaðanna. Slíkt er að sjálfsögðu óþolandi og þarf að bæta úr, og hér er þá lagður fyrsti steinninn að þessari byggingu og þess vænzt, að hún geti haldið áfram og risið upp sem fyrst.

Þá er hér 29. till., um að hækka framlag til bygginga á prestssetrum úr 950 þús. upp í 1.350 þús. Það er kunnugt, að þörfin fyrir prestsbústaði um land allt er svo gífurleg, að Alþingi sér sér ekki fært að mæta þeim óskum á einu ári. M.a. er sótt mjög fast á að byggja a.m.k. þrjá eða jafnvel fjóra prestsbústaði hér í Rvík, einn fyrir dómkirkjuprestinn Óskar Þorláksson og svo aðra þrjá fyrir hina nýju presta, sem komu í hin nýju prestaköll á s.l. ári, en fjvn. hefur ekki séð sér fært að taka upp nægilegt fé til þess, að hægt væri að mæta þeim óskum. Ég vil í sambandi við það leyfa mér að benda á, að til fjvn. komu einnig erindi frá þessum sömu prestum um nokkurn húsaleigustyrk, þar til búið væri að byggja þá bústaði, sem þeir lögum samkvæmt ættu að fá. N. hefur ekki heldur séð sér fært að verða við þeim tilmælum. Samkv. lögum frá 1940 áttu prestarnir kröfu á að frá 1.200 kr. á ári í húsaleigustyrk. Þessi lög voru numin úr gildi þegar hin nýju lög um prestaskipun landsins voru samþ., og það mátti vera á vitund þeirra presta, sem sóttu um sóknirnar hér, að það voru ekki til lagafyrirmæli um það, að þeir skyldu fá þessar launauppbætur. Og n. vildi ekki styðja að því, að ofan á hin lögbundnu laun væri veittur húsaleigustyrkur, til þess m.a. á þann hátt að örva flutning presta frá dreifbýlinu til Rvíkur. Sumum hverjum þótti nóg að því gert þegar, þótt ekki kæmi hér einnig til að hækka laun prestanna á þennan hátt. Og það var af sömu ástæðum raunverulega, sem n. neitaði um meðmæli með erindi, sem kom til hennar, um að standa undir prestskosningum hér í Rvík, 15 þús. kr. Hún sá hér í opinberu blaði nýlega, og það meira að segja stjórnarblaði, að ríkissjóður hefði greitt þessa upphæð, en þá hefur hann greitt þá upphæð gegn mótmælum fjvn. Fyrir því hefur hann ekki fengið samþykki hér á Alþingi, og þykir rétt að láta þetta koma fram, vegna þess að ég sá þetta einhvers staðar tilkynnt opinberlega. En það var af sömu ástæðu, að fjvn. sá ekki ástæðu til þess að ýta undir þessi mál á þann hátt, sem ég þegar hef lýst.

Þá er hér 30. brtt., um að byggja lögreglustöð á Keflavíkurflugvelli. Það er 200 þús. hækkun þar. — Og 31. brtt. er um að hækka um 150 þús. kr. lán til dieselrafstöðva. Ég skal aðeins í sambandi við dieselrafstöðvamálið upplýsa, að raforkumálastjóra hafði verið sent erindi og óskað eftir að fá upplýst, hvað gengi um raforkuframkvæmdir fyrir Vesturland og fyrir

Austurland og aðra þá staði, sem enn verða að lýsa upp með dieselvélum. Hann sendi n. erindi þess efnis, að þetta væri nú allt í rannsókn. Þetta þyrfti alllangan tíma, þar til þeim rannsóknum væri lokið, og enn lengri tíma til þess að koma þessum framkvæmdum á. En hann lagði til, að meðan ekki væri hægt að sinna þessum málum, þannig að þau héruð, sem ekki hafa nú raforku frá vatnsföllum, heldur yrðu að kaupa dýra olíu og þar af leiðandi að búa við miklu dýrara rafmagn heldur en hin héruðin, sem fengið hafa raforkuna frá vatnsveitunum, þá yrði tekið upp 1.5 millj. kr. til þess að lána þessum veitum eða orkuverum, líkt eins og raforkuverunum er lánað úr raforkumálasjóði, á meðan þær rafveitur standa ekki undir sínum kostnaði. Eins og kunnugt er samkv. raforkulögunum, þá fá allar hinar nýju rafveitur aðstoð fyrstu árin, þar til þær geta borið sig sjálfar fjárhagslega, þegar búið er að koma aflinu út til neytenda. Þetta var rætt í nefndinni. N. gat ekki fallizt á að taka þetta upp á þessu stigi málsins, m.a. vegna þess, að henni var vel kunnugt um, að fjárlögin, að hennar áliti, þoldu ekki slík útgjöld. Það er fullkomin sanngirni, að þeir þegnar, sem búa við hið dýrara rafmagn, fái þessa aðstoð, sem hér um ræðir. Það yrði þá greitt til baka aftur, þegar þeirra málum væri komið í sama horf eins og hjá öðrum, sem rafmagnsins njóta. Og það var eingöngu vegna þess, að meiri hl. n. vildi ekki leggja til, að bætt yrði þessari upphæð inn á fjárlögin, vegna þess að hann lítur svo á, eins og, ég tók fram áðan, að það sé öll teygja úr tekjuáætluninni eins og n. hefur gengið frá henni, og úr því að ekki þótti rétt að leggja á nýja skatta, sem n. hefur ekki heldur viljað leggja til, þá vildi hún m.a. af þeim ástæðum ekki gera till. um, að þetta yrði tekið inn á fjárlögin.

32. liðurinn er um að hækka um 150 þús. kr. byggingarkostnað dvalarheimilis fyrir afvegaleidd börn. Ef þessi till. verður ekki samþykkt, er ekkert fé til þess að halda áfram þeim framkvæmdum, og þá yrði starfsemin að falla niður. En það er búizt við því, að það sé hægt að halda henni áfram að fullu og öllu, ef þessi till. verður samþykkt. — Allar brtt. í sambandi við 20. gr., ef samþ. verða, munu hafa í för með sér 1.200.000 kr. hækkun á fjárlagafrv.

Ég skal svo gefa hér nokkurt yfirlit yfir, hvernig frv. kemur til að líta út, ef allar till. fjvn. verða samþ., og engar aðrar till. en hennar. Hækkunin alls á 10.—19. gr. er 3.029.530 kr., og hækkunin á 3. gr. og 20. gr., sem hvort tveggja er til verklegra framkvæmda, er 1.460 þús., svo að alls er hækkunin samkv. till. n. 4.489.530 kr. — Rekstrarafgangur samkv. frv. var áður 37.587.779 kr., og útgjaldahækkunin á 10.—19. gr. er 3.029.530, svo að þá verður tekjuafgangurinn nú, ef þetta verður samþ., 34.558.249 kr. En svo hef ég séð, að útgjöld til flóabáta samkv. till. samvinnun. samgöngumála hafa hækkað um 604 þús. kr. Það hefur aldrei verið venja, að fjvn. athugaði þau mál neitt, heldur væri það önnur n. í þinginn, sem kunnugt er, sem hefur með það að gera, en sé það tekið inn í þessar niðurstöðutölur, þá verður rekstrarafgangurinn 33.954.249 kr. — Hagstæður greiðslujöfnuður samkv. frv. var 21.16.509 kr., og greiðslur til viðbótar eru 4.489.530, og þá verður óhagstæður greiðslujöfnuður, ef þetta yrði samþ., 2.373.421 kr.

Ef ekki lægju fyrir till. frá hæstv. ríkisstj., þá mundi fjvn. hafa rætt það við hana, hvernig mæta skyldi hinum óhagstæða greiðslujöfnuði, en með því að samkomulag var um það milli mín sem form. n. annars vegar og hæstv. fjmrh. hins vegar, að n. skyldi ekki bera fram þær brtt. við frv., sem beinlínis stafa af samningum í sambandi við lausn vinnudeilunnar, eins og ég þegar hef tekið fram, þá þótti n. ekki heldur ástæða til að ræða sérstaklega um, hvaða tekjur kæmu á móti þessum óhagstæða greiðslujöfnuði.

Ég skal að sjálfsögðu ekki hér, við þessa framsögu nú, ræða mjög í einstökum atriðum till. hæstv. fjmrh. á þskj. 606. Ég vil aðeins segja það, að það ríkir mikil bjartsýni hjá hæstv. ráðh. og meiri bjartsýni, en við í fjvn. höfðum þorað að láta í ljós, ef ríkisreikningurinn á þessu yfirstandandi ári verður eitthvað í samræmi við þær till. En vel kann að vera, að svo skipist atvinnumál þjóðarinnar, og vildi ég óska, að það væri. Hitt er alveg ljóst og skal viðurkennt hér, að engin vissa var fyrir því, að tekjuáætlun sú, sem fjvn. gerði við 2. umr., hefði staðizt, ef ekki hefði tekizt að leysa verkfallið.

Þá eru hér nokkrar till. í sambandi við 22. gr. Þá er það fyrst að endurlána Búnaðarbanka Íslands fjárhæð, sem svarar vöxtum og afborgunum árin 1951, 1952 og 1953 af lánum til Ræktunarsjóðs og Byggingarsjóðs Búnaðarbankans af gengishagnaði 1950 og tekjuafgangi ríkissjóðs 1951 og láni til Ræktunarsjóðs frá 30. apríl 1951 og láni til veðdeildar bankans 1951. Lánskjörin séu hin sömu og á framangreindum lánum. — Það hefur þótt nauðsynlegt að gefa hæstv. ríkisstj. þessa heimild, m.a. vegna þess, að bankinn samkv. lögum lánar þetta fé út með allt öðrum og lægri vöxtum, en hann verður að greiða. Mér þykir rétt að upplýsa, að eftir því sem bankinn hefur tilkynnt fjvn., þá munu afborganir af lánunum aðeins nema 100 þús. kr., en vextir af lánunum hins vegar 4.292.700 kr. En að sjálfsögðu hefur fjvn. ekki haft neitt tækifæri til þess að sannprófa, hvort þessar upphæðir eru réttar. Hún hefur tekið það sem góða og gilda vöru frá bankanum sjálfum. En ég vil leyfa mér að leggja áherzlu á, að hér er raunverulega ekki verið að lána öðrum, en ríkinu sjálfu. Bankinn er eign ríkisins. Þetta er nokkurs konar framlag til bankans, en ekki til þeirra manna, sem njóta þessara lána aftur frá bankanum. En ég hef orðið þess var, að það væri af einstökum aðilum litið þannig á.

Þá er hér önnur till., um að ábyrgjast fyrir Samband ísi. berklasjúklinga allt að 3 millj. kr. lán til byggingar vinnuskála að Reykjalundi gegn tryggingu, er ríkisstj. metur gilda. — Þessi heimild hefur verið veitt áður til þess að gera stofnuninni mögulegt að halda uppi sinni starfsemi, og mér þykir í þessu sambandi rétt að upplýsa hér, að ég hef fengið sannanir fyrir því, að siðan lögunum um happdrætti fyrir Reykjalund var breytt, þá hafi salan aukizt stórkostlega og tekjur af þeirri starfsemi einnig aukizt mjög mikið, og ætti það þá að vera enn meiri trygging fyrir því, að engin áhætta væri að ábyrgjast þá upphæð, sem hér er rætt um.

Enn fremur er hér till. um að ábyrgjast lán allt að 500 þús. kr., sem hreppsnefnd Hveragerðishrepps hyggst að taka til að leggja hitaveitu í þorpið, þó eigi yfir 85% af heildarkostnaði. — Þessi till. var tekin inn áður en lögin um hitaveitur voru samþ. hér á Alþ. Slík heimildarákvæði eru tekin inn í þann lagabálk, og breytir að sjálfsögðu ekki miklu, hvort hún verður samþ. eða ekki. Þykir þó ekki ástæða til þess að taka hana til baka, þar sem lögin hafa nú ekki verið staðfest enn þá, en hins vegar er hér einnig 5% hærra hámark, en er í frv. eins og það kom til Ed. síðast og ég held, að Ed. hafi þegar gengið frá.

Þá er einn liður hér að heimila að feila niður leyfisgjald samkv. b-lið 30. gr. laga nr. 100 1948 af fólksbifreiðum, sem fjárhagsráð lýsir yfir, að inn séu fluttar fyrir atvinnubílstjóra. — Þessi till. er flutt samkv. beiðni hæstv. ríkisstj. og er í sambandi við innflutning á þeim fólksbifreiðum, sem verið er að flytja inn fyrir fisk, sem seldur hefur verið til Ísraels, eins og kunnugt er.

Þá eru hér á þskj. 600 nokkrar brtt. í sambandi við 22. gr. Í fyrsta lagi um að verja allt að 2 millj. kr. til flugvallagerðar til viðbótar framlagi á 20. gr., ef tekjur flugvallanna fara fram úr áætlun sem þessu nemur, enda vaxi ekki rekstrarhalli flugmálanna samkv. 13. gr. D. — Þessi till. var einnig í fjárl. siðast. Ég veit nú ekki, hvernig útkoman hefur verið á þessu atriði. Hæstv. fjmrh. getur náttúrlega upplýst það. Hins vegar er mér kunnugt um, eftir því sem flugvallastjóri hefur tilkynnt okkur, að slíkar áætlanir, sem gerðar voru í sambandi við þessi mál á s.l. ári, munn hafa staðizt, og hefði allmiklu meira fé komið inn, ef ekki hefði það óhapp komið fyrir, að verkfallið stóð yfir í nærri mánuð í desembermánuði. Mér skilst nú, að það séu bundnar við það mjög miklar vonir, að á yfirstandandi ári komi allmiklu meira fé inn í sambandi við þessi mál, í sambandi við Keflavíkurflugvöllinn, en gert hefur verið ráð fyrir í till.

Þá er hér önnur till., að ábyrgjast fyrir Slippfélagið h/f í Reykjavík allt að 6 millj. kr. lán, til byggingar nýrrar dráttarbrautar gegn tryggingum, sem ríkisstj. metur gildar. — Mér þykir rétt að fara um þessa till. nokkrum orðum. Það lá fyrir fjvn. erindi um þetta mál, og hún ræddi það á allmörgum fundum. Það er upplýst, að fjárhagslega er engin hætta fyrir ríkisstj. að veita þessa ábyrgð. Hér er um mjög fjársterka aðila að ræða, sem geta gefið ágætar tryggingar. Hins vegar er það mín skoðun persónulega, að þetta verk, sem hér um ræðir, bæti sáralítið úr því, sem bæta á úr, og það sé svo mjög aðkallandi mál að bæta úr vöntun á þeim tækjum, sem þarf til að taka upp skip til viðgerðar og aðgerðar hér í Reykjavík eða hér á landinu, að það megi ekki bíða raunverulega stundinni lengur. Það er ekki einasta vegna þess, að það er kastað á glæ stórkostlegu fé svo að segja daglega fyrir það, að skip verða að biða eftir að fá tækifæri til þess að komast upp til hreinsunar og viðgerðar, heldur er annað, sem er miklu lakara, og það er það, að á meðan þessi háttur er hafður á, að taka skip upp hér í slippinn, eins og gert hefur verið nú undanfarna áratugi, þá er alveg útilokað að koma við þeim nýtízku tækjum í sambandi við viðgerðir, sem þarf til þess að koma verðlaginu niður, og það er höfuðatriðið. Á meðan ekki er unnið að því að koma hér upp þurrkví, sem gæti tekið allan flotann til viðgerðar, og í sambandi við hana að leyfa frjálsan aðgang öllum þeim mönnum; sem vilja að því vinna, standa engar vonir til þess, að hægt sé að koma niður því verðlagi, sem hér ríkir í sambandi við viðgerðir. En vegna þess að verðlagið er þannig, fara milljónir dagsverka út úr landinu í sambandi við þessi verk, sem við sjálfir getum unnið. Þetta er því eitt af allra stærstu málum þjóðarinnar nú, þ.e., hvernig hægt er að leysa þetta, að koma hér upp þurrkví, þar sem hægt sé að hafa frjálsan aðgang að og menn geta notað nýtízku tæki. Það má geta nærri, hvaða sóun það er á verðmætum að flytja efni og fólk á bílum innan frá Landssmiðju eða innan frá Keili vestur á dráttarbrautirnar eða vestan frá Stálsmiðjunni austur á dráttarbrautirnar til þess að vera þar að kúldrast við viðgerðir, sem kosta milljónir, og allt eftir gamla laginu, sem var fyrir 40–50 árum. Það er eins og þeir ráðandi menn, sem hafa með þessi mál að gera hér, geti engan veginn skilið, hversu aðkallandi þetta mál er. En það er alveg áreiðanlegt, að þetta er eitt af allra stærstu málum, bæði fyrir iðnaðarstéttina, fyrir útgerðarmennina, fyrir viðgerðarverkstæðin og fyrir allan almenning í landinu. Og það er þess vegna, að ég tel, að hver sú viðbót, sem gerð er í sambandi við hið gamla fyrirkomulag, tefji aðalframkvæmdirnar, að ég sjálfur persónulega er á móti því, að þetta sé gert. Ég skal endurtaka það, að ég tel, að ríkissjóður hafi enga áhættu af að veita ábyrgðina.

Þá er hér till. um að ábyrgjast lán allt að 200 þús. kr., sem Vikurfélagið kann að taka, gegn tryggingum, er ráðh. metur gildar, og að ábyrgjast lán að upphæð 150 þús. kr. fyrir Glersteypuna, sem hún kann að taka, gegn tryggingum, sem ráðh. metur gildar. — Þetta hefur meiri hl. n. samþ. Ég veit ekki, hvort það hefur raunverulega mjög mikla þýðingu, og vafasamt, hve langt á að fara inn á þá braut að ábyrgjast fyrir einstaka aðila eins og hér er gert, en ég skal ekki að öðru leyti ræða um það atriði. Það hefur þótt rétt af meiri hl. n. að taka þessar till. upp, og m.a. hefur hæstv. fjmrh. lagt mjög mikla áherzlu á fyrri liðinn, sem hefur þá kannske einnig valdið því, að síðari liðurinn var látinn fylgja með.

Svo er till. um að leggja fram það mikið nýtt hlutafé í Skallagrím h/f í Borgarnesi, að hlutafé ríkissjóðs verði jafnan 1/3 af heildarhlutafjárhæð félagsins, þó ekki yfir 200 þús. kr. — Eins og kunnugt er, þá hefur ekki enn þá verið keypt eða byggt nýtt skip í Borgarnes—Akranes–Reykjavíkurferðir. Hlutafélagið hefur verið að vinna að því að fá hlutaféð aukið um allt að 50%. Ríkissjóður á 1/3 í félaginu nú, og það þótti rétt, að ekki yrði raskað þeim hlutföllum, sem hann á þar, og að hann legði þar alveg eins mikið fé á móti eins og hinir aðrir hluthafar.

Þá er enn fremur í sambandi við þessa till. heimild til þess að ábyrgjast fyrir Skallagrím h/f í Borgarnesi allt að 3.6 millj. kr. innlent eða erlent lán, er félagið kann að taka til smíða á nýju skipi fyrir Reykjavíkur-Akranes-Borgarnesferðir gegn tryggingum, er ríkisstj. metur gildar, þó eigi yfir 60% af kostnaðarverði skipsins. Ég skal leyfa mér að upplýsa, að samkv. ósk fjárhagsráðs var gerð ýtarleg tilraun til þess að reyna að fá þetta skip byggt á Spáni. Það var enginn áhugi hjá spænskum skipabyggingastöðvum að byggja svo lítið skip. Þó fékkst í það tilboð, en það tilboð var að minnsta kosti 50% dýrara, en tilboð frá öðrum stöðum, svo sem í Hollandi eða Englandi, og afhendingartíminn engan veginn eins góður, hvað þá betri, auk þess sem það var útilokað, að hægt væri að greiða andvirði skipsins með andvirði íslenzks saltfisks, sem seldur yrði til Spánar. Það var því algerlega horfið frá að reyna frekari samningsgerð í því landi. Hins vegar hefur fjárhagsráð nú á ný óskað eftir, að reynt væri að semja við Finnland. Við það land höfum við mikil viðskipti, og er það nú á döfinni að reyna samninga þar í sambandi við byggingu skipsins, en ég held, að öllum aðilum, sem að þessu máli standa, komi saman um, að á meðan deilan stendur við Bretland um landhelgismálin, þá sé ekki æskilegt og engan veginn rétt að reyna að semja um nokkurt slíkt verk í því landi.

Þá er hér ein till. um heimild til að verja allt að 21/2 millj. kr. til að styrkja bátaútvegsmenn, er undanfarin ár hafa stundað dragnóta- og togveiðar, til kaupa á nýjum veiðarfærum til annarra veiðiaðferða, og setji ríkisstj. nánari reglur um úthlutun styrkjanna.— Það er alveg ljóst, að margir smáútgerðarmenn eða bátaútvegsmenn hafa orðið fyrir allmiklu tjóni við það, að landhelgin var færð út og dragnótaveiðin bönnuð svo og togveiðarnar fyrir utan hina gömlu línu eða nálægt hinni gömlu línu. Og þessir menn verða, ef þeir ekki ætla að hætta þessum atvinnuvegi, að taka upp aðrar veiðiaðferðir, og þótti því rétt að gefa ríkisstj. heimild til þess að verja þessu fé til þeirra bóta, sem hér um ræðir.

Þá er enn eitt að aðstoða Flugfélag Íslands h/f við kaup á einni millilandaflugvél og einni innanlandsflugvél með því að veita ríkisábyrgð fyrir allt að 60% af kaupverði flugvélanna, þó eigi yfir 14 millj. kr., gegn þeim tryggingum, sem ríkisstj. metur gildar. — Þetta þótti nauðsynlegt til þess að geta gert samninga um nýjar flugvélar, þar sem það mun taka allt að 2–3 árum að fá slíkar flugvélar smíðaðar, og það er ljóst, að þrátt fyrir smæð Íslendinga og þrátt fyrir það, þó að hér sé um alveg nýja atvinnugrein að ræða, þá hefur þeim mönnum, sem að þessum málum starfa, tekizt svo prýðilega, að það er líklegast eina landið í heimi, þar sem ríkissjóður hefur ekki þurft að leggja til stórkostlegar fjárfúlgur til þess að standa undir flugmálunum. Fjvn. vildi því sýna fulla samúð þessum málum, og er þetta einnig gert í samráði við hæstv. ríkisstj.

Þá er enn að ábyrgjast lán að upphæð 150 þús. kr., er Skúli Pálsson, Laxalóni í Mosfellssveit, kann að taka til ræktunar regnbogasilungs, gegn þeim tryggingum, er ríkisstj. metur gildar. Ég vísa til þess, sem ég hef sagt um aðrar till. hér í sambandi við ábyrgðir til einstaklinga, sem ég hef hér áður rætt um.

Ég skal leyfa mér að geta þess, áður en ég lýk máll mínu, að það er ein eða tvær till. enn þá hjá hv. fjvn., sem ekki hefur verið rætt um að fullu, og m.a. ein, sem ekki er hægt að bera fram nema ræða um það við hæstv. ráðh., og vildi ég gjarnan fá tækifæri til þess að gera það, áður en þessari umræðu er lokið, en að öðru leyti hefur n. svo að segja lokið störfum, með þeim árangri, sem ég þegar hef lýst.

Ég skal ekki fara hér út í að ræða hinar einstöku till., hvorki frá hæstv. ríkisstj. né frá einstökum þm., en mun geyma það þar til þeir hafa mælt fyrir sinum till., ef ástæða þykir þá til að svara nokkru, sem þeir geta um í sinum ræðum. En ég vil að síðustu endurtaka það, að n. óskar eftir, — eða ég fyrir hennar hönd, — að till. n. allrar verði samþ., en engar aðrar till., sem fram eru bornar, verði samþ., að undanskildum að sjálfsögðu till. hæstv. ríkisstj., sem hún hefur borið hér fram og meiri hl. Alþ. stendur sjálfsagt að, þó að ekki hafi tekizt samkomulag við n. um að bera þær fram.