26.01.1953
Sameinað þing: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

1. mál, fjárlög 1953

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég á hér eina brtt., nr. 5 á þskj. 601, og vil aðeins minnast fáum orðum á tildrög hennar. Hún er 15 þús. kr. að upphæð og ætluð til að gera bryggju á Skarðstöð. Skarðstöð er bezta höfnin í Dalasýslu. Allaðdjúpt er þar, og íslaus er hún á flestum vetrum. Þar var áður verzlun allmikil, og liggur þjóðvegurinn niður að henni. Hún er röska bæjarleið frá kolanámunum á Tindum, en aðeins kílómetra spöl frá Skarðsnámunni, þeirri er bezt hefur reynzt til kolavinnslu hérlendis, en þar var kolavinnsla á fyrri styrjaldarárunum. Nauðsyn er nú þarna lendingarbóta, og voru veittar fyrir nokkrum árum 13 þús. kr. til aðgerðar fornri trébryggju, sem þar er, en ekki var hafizt handa um framkvæmdir, og var því 10 þús. kr. af upphæðinni, sem var geymslufé, varið með samþykki fjárveitingavaldsins til bryggjugerðar við Hjallanes hjá Staðarfelli. Nú fyrir nokkru hafa Skarðstrendingar tjáð mér, að þeir á næsta sumri vilji efna til bryggjugerðar í Skarðstöð, og segja, að við svo búið megi ekki standa, ef hægt eigi að verða að lenda bát í Stöðinni.

Ég gerði ráð fyrir því, að fást mundi smávegis fjárveiting, þótt seint væri sótt, því að bæði var það, að Skarðstöð átti í raun og veru féð inni hjá ríkissjóði, er því var með samningi varið til annarra lendingarbóta, Skarðstrendingum að engu gagni, og í öðru lagi það, að ekki mundu 15 þús. kr. verða taldar of hár tveggja ára skattur til lendingarbóta fyrir kjördæmið, því að ekkert lendingar- eða hafnarbótafé var sýslunni veitt á síðustu fjárl. og ekkert er veitt nú. Mun það einsdæmi um sýslu, að svo sé að henni búið, að engu sé sinnt beiðni hennar um smástyrk, er hún líka sýndi þá hógværð í fyrra að beiðast einskis til lendingarbóta. Þess má og geta, að vitamálastjóri er meðmæltur till., eins og víst mátti telja um jafnglöggan og réttsýnan embættismann.

Þrátt fyrir allar þessar ástæður og aðstæður hefur hinni hv. fjvn. ekki þóknazt að taka styrkbeiðni þessa til greina og ber því við sem einustu ástæðu, að beiðnin hafi of seint komið fyrir hana, en siðan hefur hún þó afgreitt ófáar fjárveitingar. Óskir um þetta bárust mér alveg nýlega, og ég varaðist ekki þessa skyndilokun n.

Við hv. fjvn. hef ég það að segja, að þótt henni sé að nokkru allvel farið, þá hefur hún allt of oft haft í huga spakmæli Bjarna Thorarensens skálds: „Maður, líttu þér nær.“ Þótt nú ýmsir fjvn.- menn vilji sýna ágæti sitt og framtak einstaklingsins eða, eins og nokkrir orða það, samábyrgðarinnar við fjáröflun fyrir kjördæmi sín, þá vona ég í lengstu lög, að n. bregði ekki fæti fyrir þetta þarfa- og réttlætismál, þótt Dalasýsla eigi ekki sérstaka málsvara í hinni virðulegu n.

Fari svo, að sumir fjvn.-menn reynist skeleggari til skemmda við till. en skilsemi fyrir ríkissjóð og snúist öndverðir gegn henni, heiti ég á aðra þm. að styðja till.