26.01.1953
Sameinað þing: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

1. mál, fjárlög 1953

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér tvær brtt. við þessa umr. fjárl. Önnur er á þskj. 601,4 og er um það að hækka framlag til Skagastrandarhafnar úr 70 þús. í 150 þús. Ég sótti til hv. fjvn. um 300 þús. kr. til þessa mannvirkis, og það er ekki miðað við að bæta þar neinu við frá því, sem verið hefur, heldur til þess að gera þau mannvirki, sem þegar hefur verið byrjað á, þannig úr garði, að þau liggi ekki að neinu leyti meir undir skemmdum eins og nú er. Að nokkru leyti er fremsti hlutinn af hafnargarðinum óklár vegna fjárskorts, og að nokkru leyti er þetta vegna þess, að önnur aðalbryggjan, sem við hafnargarðinn er, liggur undir skemmdum, og þarf þess vegna töluvert meira fé til heldur en ætla má að hægt verði að fá, ef framlagið er ekki hærra en 70 þús. kr., enda er það mjög mikið lækkað frá því, sem áður hefur verið, að nokkru leyti vegna þess, eftir því sem mér hefur skilizt, að þessi hafnargerð hefur lent í fjárhagsvandræðum og ríkið þess vegna orðið að borga afborganir af skuldum hennar, sem stafar af þeim alkunnu ástæðum, að fyrir Norður- og Vesturlandi hefur verið mjög mikill aflabrestur undanfarin ár og tekjur slíkra mannvirkja þar þess vegna verið mjög miklu minni, en gert var ráð fyrir. Ég vil þess vegna mega vona, að hv. þm. taki þessari till. með velvilja.

Þá höfum við allir forsetar Alþ. flutt hér brtt. á þskj. 619, sem er nýr liður á 22. gr. og fjallar um það að heimila ríkisstj. að láta flytja brott svo fljótt sem verða má hús þau, sem nú standa á lóðinni Kirkjustræti 12, og láta Alþ. lóðina í té til að stækka þinghúsgarðinn eða til annarra afnota. Fyrir nokkrum árum var reist á þessari lóð bráðabirgðahús, sem svo var kallað og ber nafnið Listamannaskáli, og þá var því mótmælt af hálfu forráðamanna Alþ. að gera þá ráðstöfun. Enn fremur er á þessari lóð timburhús, frekar óvandað timburhús, þar sem nú er til húsa Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Þannig stendur á, að nú er verið að byggja stóra heilbrigðisstofnun fyrir Reykjavíkurbæ, og þá verður þetta hús ekki lengur notað til þessara hluta, og það er ætlun okkar að fara fram á það með þessari till., að hæstv. ríkisstj. sé heimilað að gera ráðstafanir til þess, að Alþ. eigi kost á þessari lóð til þeirra nota, sem nauðsynleg eru, og er ekki einasta það, sem fyrir okkur vakir, að stækka þinghúsgarðinn, heldur höfum við einnig í huga það, sem hér hefur verið margsinnis samþ. af hv. Alþ., að byggja þingmannahús, og þess vegna teljum við sjálfsagt, að það séu gerðar ráðstafanir til þess, að þessi lóð sé ekki fest til annarra hluta. — Ég veit, að ég þarf ekki að mæla fleiri orð fyrir þessari heimildartill., því að hv. þm. munu skilja, að hér er farið fram á eðlilegan hlut. Þó að það verði kannske ekki hægt að fullyrða, að hæstv. ríkisstj. geti komið þessu í verk á fjárlagaárinu, þá er þó áriðandi að samþ. þetta, með tilliti til þess, að það verði ekki gerðar ráðstafanir um þessa lóð, sem koma í veg fyrir þá ætlun, sem fyrir okkur vakir.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða hér um fjárlögin eða fara neitt út í almennar umr. um þau, en aðeins vænta þess, að þessar till. mæti velvilja hjá hv. þm. og verði samþ.