15.01.1953
Neðri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

181. mál, ríkisreikningar

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur með samanburði séð, að tölurnar á frv. þessu eru réttar samkv. ríkisreikningnum fyrir 1950, og mælir n. með því, að frv. verði samþ.

Eins og venja er til, eru athugasemdir yfirskoðunarmanna prentaðar með ríkisreikningnum. Að þessu sinni eru þær í 34 liðum. Svör ráðherra við aths. eru einnig birt og loks till. yfirskoðunarmannanna út af aths. og svörum við þeim. Er þar aðeins tveimur aths. vísað til aðgerða Alþ. Önnur þeirra er um óinnheimtar ríkistekjur í lok reikningsársins, en útistandandi tekjur voru þó nokkru meiri, en um næstu áramót á undan. Í svari ráðherra við þeirri aths. er frá því skýrt, að unnið sé af kappi að innheimtu eftirstöðvanna. Verður að vænta þess, að gert verði það, sem unnt er í því efni, án þess að þingið geri sérstakar ráðstafanir þar að lútandi. — Hin aths., sem yfirskoðunarmenn vísa til aðgerða Alþ., snertir ríkisútvarpið. Finna þeir að fjárstjórn þeirrar stofnunar og nefna þar í fyrsta lagi launagreiðslur, sem hafi farið töluvert fram úr áætlun fjárlaga. Það er rétt hjá yfirskoðunarmönnum, að útgjöld ríkisútvarpsins hafa verið allmiklu hærri, en ráð var fyrir gert í fjárlögum, þ. á m. launagreiðslur fyrirtækisins, en því miður er svo um fleiri ríkisstofnanir, þótt þess sé ekki getið sérstaklega í aths. Ég hef veitt því athygli við lauslega athugun á ríkisreikningnum, að hjá nokkrum öðrum stofnunum hafa launagreiðslur farið hlutfallslega meira fram úr fjárlagaáætlun heldur en hjá útvarpinu á árinu 1950. Hafa þó yfirskoðunarmenn ekki gert athugasemdir við þær umframgreiðslur, en finna mjög að fjárstjórn útvarpsins, eins og þeir hafa áður gert. Víst er það verk yfirskoðunarmanna að gera athugasemdir, ef fé er eytt í heimildarleysi eða í óhófi, en þess ber þeim að gæta, að láta eitt yfir alla ganga, svo að ekki sé hægt að segja, að þeir geri upp á milli manna eða stofnana í athugasemdaflutningi. Hef ég stundum rætt um þetta nokkuð áður, þegar ríkisreikningur hefur verið hér til meðferðar.

Það er að sjálfsögðu fleira, sem ástæða getur verið til að ræða um í sambandi við ríkisreikning, heldur en þau atriði í athugasemdunum, sem yfirskoðunarmenn vísa til aðgerða Alþ. Eitt af því eru greiðslur ríkisins vegna ábyrgða, sem hafa farið vaxandi síðustu árin vegna vanskila allmargra aðila, sem hafa fengið ríkisábyrgðir fyrir lánum. Er að þessu máli víkið í athugasemdum yfirskoðunarmanna. Árið 1950 námu þessar greiðslur vegna ríkisábyrgðarlána samtals nokkuð yfir 4 millj. kr., og er sundurliðuð skýrsla um greiðslurnar birt á bls. 113 í ríkisreikningnum. Mesta fjárhæðin þar er vegna síldarverksmiðja ríkisins, 1.669 þús. kr. Að öðru leyti eru þarna aðallega greiðslur af rafveitulánum og hafnarlánum fyrir ýmis bæjar- og sveitarfélög, sem ekki hafa staðið í skilum. Hæst er þar greiðsla vegna rafveitu Siglufjarðar, 800 þús. kr., og þá er Andakilsárvirkjunin með 491 þús. kr. Ég hef heyrt, að Andakílsárvirkjunin sé nú farin að greiða sjálf árgjöld af sínum lánum, og ætti þá, fyrst svo er komið, að taka til athugunar, hvenær það fyrirtæki getur farið að endurgreiða eitthvað af ábyrgðarskuldum sínum til ríkissjóðs, en áframhald mun vera á greiðslum vegna rafveitu Siglufjarðar, og væri sízt vanþörf á að koma rekstri þess fyrirtækis í betra lag, ef þess væri nokkur kostur. Þá er á þessum lista greiðsla vegna útgerðarfélags í Stykkishólmi, Búðaness h/f, 294 þús., og er það fyrirtæki orðið nokkuð dýrt, því að það hefur verið greitt fyrir það áður.

Þá er greitt af síldarverksmiðjuláni vegna Siglufjarðarkaupstaðar 297 þús. og til Skagastrandarhafnar 260 þús., sem líka hefur orðið nokkuð þung á ríkissjóði. Aðrar greiðslur í þessu yfirliti nema innan við 100 þús. kr. hver fyrir sig. Þær eru nokkrar, og eins og ég gat um áður, er þar aðallega um að ræða rafveitulán og hafnarlán. Það er á það bent í athugasemdum yfirskoðunarmanna, að þetta sé vandræðamál við að fást, og mun það rétt vera, og væri sízt vanþörf á, ef mögulegt væri, að gera einhverjar ráðstafanir til þess, að þessar greiðslur fari ekki árlega vaxandi.

Efnahagsreikningar ríkisfyrirtækja eru birtir með ríkisreikningnum eins og venjulega. Vantar þó reikninga frá tunnuverksmiðjum ríkisins, sandgræðslunni og tilraunastöðinni á Keldum. Enn fremur vantar reikning fyrir jarðboranir ríkisins, því að reikningur sá, sem prentaður er á bls. 148 og talinn reikningur þess fyrirtækis, er reikningur aðalskrifstofu raforkumála. Er þar prentvilla í fyrirsögn.

Ég hef stundum áður fundið að því, að ríkisreikningarnir væru óhæfilega seint lagðir fyrir Alþingi. Víst hefur þetta færzt nokkuð í betra horf í seinni síð, en þó er það svo, að enn skortir á, að reikningsskilin séu svo fljót sem þau ættu að vera. Til þess að telja mætti, að reikningsskilin væru komin í lag, hefði endurskoðaður ríkisreikningur fyrir árið 1951 átt að liggja fyrir þessu þingi til afgreiðslu.

Eins og ég hef áður sagt, þá mælir fjhn. með því, að frv. þetta verði samþ. eins og það liggur fyrir á þskj. 417.