15.01.1953
Neðri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

181. mál, ríkisreikningar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir það, sem sagt hefur verið, að það er aðfinnsluvert, að ekki fyrr en nú skuli verið að ræða ríkisreikninginn fyrir árið 1950. Það ætti auðvitað að vera reikningurinn fyrir 1951, sem nú væri lagður til endanlegrar samþykktar fyrir hið háa Alþingi. Segja má, að það hafi ekki mikla þýðingu að vera að ræða einstök atriði í meira en tveggja ára gömlum ríkisreikningi, en fyrst þessar umr. hafa farið svo mjög á við og dreif sem þær hafa nú farið, vil ég leyfa mér að minnast á tvö atriði í athugasemdum yfirskoðunarmanna og óska eftir því að fá á þeim nokkru nánari skýringar.

12. aths. yfirskoðunarmannanna fjallar um viðskipti Skipaútgerðar ríkisins við lögfræðing sinn, en þar telja yfirskoðunarmennirnir, að lögfræðingur Skipaútgerðarinnar skuldi henni um 89 þús. kr. Skipaútgerðin gefur nokkrar skýringar á þessu og segist hafa gert tilraun til þess að gera þessi viðskipti upp við þennan lögfræðing sinn, en það verður ekki séð af svari Skipaútgerðarinnar né heldur af tillögum yfirskoðunarmannanna í tilefni af því svari, að þessi viðskipti hafi verið gerð upp. Yfirskoðunarmennirnir undirskrifa sínar endanlegu tillögur 1. des. 1952, þ.e.a.s. fyrir rúmum mánuði. Ríkisreikningurinn er saminn 31. des. 1950. Þá hefur skuldin verið 89 þús. kr. 1. des. 1952 virðist þessi skuld enn þá vera óuppgerð. Mig langar til þess að fá að vita, hvort svo sé. Eru þessi viðskipti enn óuppgerð, og ef svo er, hvað veldur því þá?

11. aths. yfirskoðunarmannanna er um skaðabætur, sem greiddar hafa verið úr ríkissjóði vegna skemmda, sem olíuskipið Þyrill olli á bryggju á Bíldudal. Ríkissjóður hefur greitt 185 þús. kr. — eða réttara sagt Skipaútgerð ríkisins hefur greitt 185 þús. kr. vegna skemmda, sem olíuskipið Þyrill olli á bryggju á Bíldudal. Fyrir þessari greiðslu er engin heimild í fjárlögum. En það kemur fram í svörum ráðh. við aths., að þessi greiðsla hafi verið innt af hendi í tilefni af bréfi, sem ríkisstj. barst frá fjvn. Alþingis. Nú er það í raun og veru mjög óvenjulegt, ég vil segja alveg sérstakt, — að fjvn. Alþingis skrifi fjmrh. og fari þess á leit við ríkisstj., að hún greiði eða mæli með því, að greiddar séu bætur vegna tjóns, sem skip ríkisins veldur, áður en dómur er fallinn í bótakröfumáli, áður en er vitað, hvernig því máli endanlega reiðir af. Má með sanni segja, að það er nokkuð laust um opinbert fé, þegar slíkar greiðslur eru inntar af hendi, og gegnir mestu furðu, að sjálf fjvn. Alþingis skuli standa að því, að slíkar greiðslur séu inntar af hendi. 1. des. 1952 virðist ekki vera komin nein niðurstaða um þetta mál. Það verður ekki séð, að dómur í þessu máli sé þá enn fallinn. Það verður ekki ráðið af tillögum yfirskoðunarmannanna. Mig langar til þess að fá að vita nánar, hvernig á þessari greiðslu hefur staðið og hvort von kunni að standa til þess, að dómur falli á þann veg, að ríkissjóður eða Skipaútgerðin fái þetta fé endurgreitt.

Fleiri dæmi mætti taka, því að athugasemdir yfirskoðunarmanna og svör stjórnarinnar við þeim eru að ýmsu leyti mjög fróðleg og skemmtileg aflestrar. En sökum þess, hvað hér er yfirleitt um gömul mál að ræða, mun ég nú að sinni að minnsta kosti láta hér staðar numið. En mig langar mjög til þess að fá glöggar upplýsingar um bæði þessi atriði.