15.01.1953
Neðri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

181. mál, ríkisreikningar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af þeim tveimur atriðum, sem hv. 3. þm. Reykv. gerði að umtalsefni, vil ég taka þetta fram: Ég þekki ekki til þessara skuldaskipta við lögmann Skipaútgerðarinnar annað en það, sem stendur í svörum við athugasemdunum. Varðandi greiðsluna vegna Bíldudalsbryggju vísa ég til þess svars, sem samgmrn. hefur látið frá sér fara og er hér á bls. 204 í reikningunum, og þeirra bréfaskipta, sem birt eru með því, sem sýna, að samgmrn. hefur haft forgöngu um það í samráði við fjvn. og þá að sjálfsögðu á sínum tíma í samráði við fjmrn. að greiða þessa fjárhæð út vegna skemmdanna. Hygg ég, að í þessum bréfum og þessum upplýsingum sé allt það, sem um málið er hægt að segja, og fullnægjandi greinargerð fyrir því, að greiðsla þessi var eðlileg og sanngjörn.

Tveir hv. þm. hafa sagt, að reikningarnir væru of seint á ferðinni. Það er rétt, að það þyrfti að koma þeirri skipan á, að reikningur fyrir næsta fjárhagsár á undan væri afgreiddur á haustþingi næsta ár á eftir. Nú hefði þurft að vera hér endurskoðaður reikningur fyrir 1951. Ég hef lagt hina mestu áherzlu á, að þetta gæti orðið, en það hefur ekki tekizt enn þá að koma þessu þannig fyrir. En smátt og smátt eru þessi mál nú að færast í betra horf, þannig að ég tel nú vonir um það, að fljótlega nái menn hala sínum í þessu tilliti. Ef það á að takast, þarf að endurskoða ríkisreikninginn að vorinu til eða að sumrinu til, þannig að allt sé klappað og klárt, þegar þing kemur saman að haustinu. Þetta þýðir, að það þarf að gera reikninginn upp fyrir vorið. Ýmislegt gengur of seint í þessu, t.d. get ég tekið undir það, sem hv. þm. A-Húnv. sagði áðan, að það hefði tekið of langan tíma núna að svara aths. Það er ég honum alveg sammála um. Það hefur tekið of langan tíma, og ég hef rætt um það mál við þá menn, sem var falið það verk, að það tók þá allt of langan tíma. En samt hefur það ekki haft svo mikla þýðingu núna að því leyti til, að reikningurinn fyrir 1951 hefði nú ekki komið fyrir þetta þing, þótt svörunum við aths. fyrir 1950 hefði miðað greiðlegar áfram. En hins vegar hefði þessi reikningur þá komið fram fyrr á þessu þingi. Þessi reikningur hefði átt að geta komið fram í þingbyrjun, ef svörin hefðu verið gefin nógu fljótt. En um það er ekki hægt að saka nema að nokkru leyti þann mann í fjmrn., sem hefur þetta mál með höndum, því að sökin liggur einnig — og það fyrst og fremst hjá þeim, sem hann þarf að fá svörin hjá. Fæstum af þeim atriðum, sem aths. eru við, er svarað af fjmrn., eins og menn vita, heldur af þeim rn., sem hafa staðið fyrir þeim málum, sem aths. eru gerðar við. Samt sækist í rétta átt. Og það, sem sumir hafa sagt hér, að það tæki því ekki að ræða um þessi mál, af því að reikningurinn væri tveggja ára gamall, er vitanlega hégómaskraf. Það er alveg eins hægt að ræða með árangri tveggja ára gömul mál eins og eins árs gömul mál. Það er ekkert frekar hægt að koma við eftir á neinum leiðréttingum eða neinu slíku, þó að við værum að ræða hér mál frá 1951 í stað máls frá 1950. Umræður hafa þess vegna alveg sama gildi að því leyti til. Aðfinnslur í sambandi við reikningana eru yfirleitt miðaðar við það að hafa áhrif á það, sem á eftir að ske. Þess vegna hafa umræður jafnmikla þýðingu, þótt reikningur sé tveggja ára.

Hv. þm. Ísaf. spurði, hvort það mundi vera talið viðunandi eða gott ástand, að það væru 24 millj. af tekjum ríkisins óinnheimtar. Það er náttúrlega ekki gott ástand né æskilegt og þyrfti að breytast. Hitt er annað mál, að fjmrn. hefur ekki enn þá séð ástæðu til þess að fara fram á lagabreytingar út af þessu eða ný lagaákvæði varðandi innheimtu á tekjuskatti t.d. Það getur þó rekið að því, að það verði að taka upp annað innheimtukerfi eða breyta til í þessum efnum. Hins vegar var það sýnilegt, að innheimtan á söluskattinum var gersamlega að falla saman, áður en lagabreytingin var gerð innheimtunni til styrktar.

Þá spurði hv. þm. að því, hvort ég væri sömu skoðunar og hv. þm. A-Húnv., að forstöðumenn teldu sér ekki skylt að hlíta fyrirmælum fjárlaganna. Svona spurningu tel ég ekki skylt að svara og ekki heldur viðeigandi að svara. Það er fast haldið á því, að reksturinn sé miðaður við fjárlögin, — mjög fast haldið á því af hendi fjmrn. og því fast haldið að embættismönnum að gera það. Þetta tekst oft vel, en ekki alltaf. Stundum hafa menn góðar og gildar afsakanir fyrir því, að þetta mistekst. Það kemur fyrir t.d., að áætlanir embættismanna hafa ekki verið teknar til greina, það hafa verið skornir niður rekstrarliðir, þannig að ekki hafi getað staðizt í framkvæmd. Mér leikur grunur á, að sú aðferð hafi verið höfð hér á þingi við ríkisútvarpið ár eftir ár, að það hafi beinlínis verið skornar niður áætlanir ríkisútvarpsins meira, en menn gátu með nokkurri sanngirni gert sér í hugarlund, að fengi staðizt, og þetta jafnvel gert að sumu leyti til þess að geta skammazt yfir því á eftir, að það væri farið fram úr áætlun. Yfirleitt hefur af hendi ýmissa þm. verið fjandskapazt við framkvæmdastjórn ríkisútvarpsins. Það hefur stundum verið pottur brotinn í ýmsu tilliti hjá ríkisútvarpinu, en forráðamenn þeirrar stofnunar hafa heldur alls ekki átt blíðu að mæta hjá þeim mönnum sumum, sem farið hafa með fjárhagsmál á Alþ., og ekki alltaf sanngirni.

Það er reynt að halda fast á því, að reksturinn sé miðaður við fjárlögin, og í sambandi við þennan landsreikning er nú helzt það að segja, ef menn vilja ræða um umframgreiðslur, að hann ber þess ekki vott, að fjárlögin hafi verið hunzuð í framkvæmd. Áætluð rekstrarútgjöld fjárlaganna fyrir 1950 voru sem sé 262 millj. kr., en útgjöldin urðu 265 millj., og eru það minni umframgreiðslur en nokkur dæmi eru til áður, a.m.k. á síðari áratugum.