15.01.1953
Neðri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

181. mál, ríkisreikningar

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. þm. A-Húnv. sagði hér í ræðu sinni um þetta mál, að þetta er ekki í fyrsta sinn, sem þeir yfirskoðunarmenn gera athugasemdir út af útgjöldum ríkisútvarpsins. Þeir hafa oft áður vegið í þann knérunn. Nú segir hv. þm. A-Húnv., að ef til vill séu prósentvís meiri umframgreiðslur annars staðar. Það er einmitt það, sem ég hef haldið fram. Ég hef við athugun á reikningnum rekizt á nokkrar ríkisstofnanir, þar sem launagreiðslur hafa farið hlutfallslega meira fram úr áætlun fjárlaga árið 1950 heldur en hjá ríkisútvarpinu. Ég ætla ekki að þylja hér nein nöfn, því að ég er ekki viss um það, að ég hafi komið auga á þær allar, því að ég hef ekki farið svo gaumgæfilega í gegnum reikninginn, en ég hef þó orðið var við nokkrar. Og hvað er nú það, sem á að athuga, þegar talað er um umframgreiðslur? Vitanlega er það, það hvað þær fara hlutfallslega mikið fram úr áætlun, því að sé borin saman krónutalan aðeins, t.d. hjá fyrirtæki, sem veltir einni millj. kr., við annað fyrirtæki, sem hefur tíu sinnum meiri umsetningu, þá verður myndin auðvitað alröng. Hér þarf að athuga, hvað þetta er mikið hlutfallslega.

Það mætti sýna það með fleiri dæmum, hvernig útkoman verður hjá hv. yfirskoðunarmönnum, ef þeir forðast eins og heitan eldinn að viðhafa nokkurn tíma prósentureikning, þegar þeir eru að athuga ríkisreikninginn. Hv. þm. A-Húnv. var hér að ræða um óinnheimtar ríkistekjur hjá ýmsum embættismönnum. Það er rétt, að þær eru mestar að krónutölu í Reykjavík, enda er þar nú veitan langmest og mest innheimt hjá því embætti. Auk þess nefndi hv. þm. nokkra sýslumenn og bæjarfógeta utan Reykjavíkur. Hann mun hafa nefnt, held ég, Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, hvað þar hefði verið óinnheimt í árslok 1950, sem eru rúmlega 130 þús. kr. Svo man ég, að hann nefndi sýslumannsembættið í Húnavatnssýslu, en þar eru ekki nema 11.500 kr. óinnheimtar, og hjá sýslumanninum í Skaftafellssýslu eru óinnheimtar aðeins 6.500 kr. Þetta eru ekki stórar fjárhæðir. En ef við athugum, hvað þetta er nú hlutfallslega hjá þessum embættismönnum, miðað við þær tekjur í heild, sem þeir innheimta yfir árið, þá kemur það í ljós, að hjá sýslumönnunum í Húnavatnssýslu og Skaftafellssýslu eru eftirstöðvarnar nokkuð yfir 1% af þeim upphæðum, sem þeir hafa innheimt á árinu, en hjá sýslumanninum í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu er það ekki yfir 2%, aðeins tæp 2%, svo að munurinn er í raun og veru mjög litill, þó að tölurnar séu vitanlega hærri hjá þeim, sem hefur margfalt meiri innheimtu. Ég hef athugað bara þessa þrjá liði hér í skýrslunni um eftirstöðvarnar, og mætti sjálfsagt nefna fleiri dæmi þessu lík.

Ég er ekki að finna að því, það er síður en svo, þó að yfirskoðunarmenn geri athugasemdir við fjárstjórn fyrirtækja, þar sem þeir telja, að ekki sé farið gætilega með fjármuni eða fé eytt umfram fjárlagaheimildir, eins og þarna hefur átt sér stað hjá ríkisútvarpinu, en þá tel ég, að þeir eigi ekki að sleppa því að nefna um leið önnur fyrirtæki, þar sem umframeyðslan er meiri. Ef þeir gera það ár eftir ár að taka þannig einstök fyrirtæki út úr í sínum athugasemdum, þó að öðrum, sem eru sekari í þessu efni, sé sleppt, þá geta menn ekki varizt þeirri hugsun, að þeir séu að leggja þarna í einelti ákveðna stofnun og sýni ekki það hlutleysi í starfi, sem þyrfti að vera. Ég vil nú ekki ætla þeim slíkar hvatir, heldur sé þetta sprottið af því, að þeir hafi ekki athugað þessi mál eins og vera þyrfti, að gera samanburð á ýmsum stofnunum og umframgreiðslum þeirra.

Mér skilst á hv. þm. A-Húnv., að hann sé ekki að öllu leyti ánægður með þær viðtökur, sem þeirra athugasemdir fá hér á þingi, og hefur það raunar komið fram áður, og ætlist til þess, að jafnvel fjhn. fari að gera einhverjar till. út af þeim málum. Ég vil nú benda á það, að þó að sú þn. fái frv. um samþykkt á ríkisreikningnum til meðferðar og eigi að bera það saman við ríkisreikninginn, þá hvílir að mínu áliti ekki meiri skylda á þeirri n. heldur en öðrum hv. þdm. til að gera till. út af þessum málum, ef þeir kæmu auga á, að tillöguflutningur um þau og samþykktir gætu komið góðu til leiðar. Mætti í þessu sambandi spyrja hv. þm. A-Húnv. um það, hvar hans till. væru varðandi þessi efni í athugasemdunum, sem yfirskoðunarmenn vísa til aðgerða Alþ., en ég hef ekki orðið var við neinar till. frá honum um það. — Um fyrri liðinn, óinnheimtar eftirstöðvar, er það að segja, að ég hef ekki komið auga á það, að ástæða sé til að fara að samþ. um það nú á stundinni ákveðnar till. eða setja sérstök lög varðandi það efni. — Um síðari athugasemd þeirra, viðkomandi ríkisútvarpinu, sé ég ekki heldur, að ástæða sé til sérstakra aðgerða af hálfu þingsins í því efni, nema þá væru að minnsta kosti um leið teknar til athugunar aðrar stofnanir, sem hafa, eins og ég hef áður nefnt, vikið meira frá áætlun fjárlaga heldur en ríkisútvarpið á þessu ári, sem hér er um að ræða. — Út af þeim umr., sem urðu um greiðslur ríkisins vegna ábyrgðar lána, þá sagði hv. þm. A-Húnv., að í því fælist alvarleg áminning til þm. um að fara varlega eftirleiðis — mér skilst í að veita ríkisábyrgðir. Þetta er alveg rétt, og vænti ég þess, að bæði hann og ýmsir fleiri, sem hlut eiga að máli hér, dragi lærdóm af því, sem skeð hefur í þeim efnum.