15.01.1953
Neðri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

181. mál, ríkisreikningar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hef nú ekki hér nema athugasemdatíma, en skal reyna með nokkrum orðum að víkja að nokkru að sumum þeim athugasemdum, sem hér hafa fram komið.

Þá er það fyrst eitt atriði í ræðu hæstv. fjmrh. Hann lét að því liggja oftar en einu sinni, að hann undraðist það, að yfirskoðunarmenn vísuðu til aðgerða Alþ. aths. um óinnheimtar tekjur, og sagði eitthvað á þá leið, að það hefði verið nær að vísa þessu til ríkisstj. Nú er það svo, að við yfirskoðunarmenn erum starfsmenn Alþingis, og höfum við ekki aðgang að öðru, en þinginu, til þess að veita ríkisstj. það aðhald, sem við álitum að hún þurfi að fá. Og ég þekki engin dæmi til þess, að það hafi nokkurn tíma í nokkurri afgreiðslu ríkisreiknings verið gerð till. um það að vísa till. til ríkisstj. Þá er heldur, að það sé til athugunar framvegis eða eftirbreytni fyrir viðkomandi stofnun. Í þessu tilfelli er það, sem ég tel að ætti að gera, — og hefði þá verið fyrst og fremst skylda fjhn., af því að þessi mál eru undir hana lögð, — að gera till. um það, að innheimtumönnum ríkisins væri veitt sterkara aðhald, en verið hefur varðandi innheimtuna. Það er á ríkisstjórnanna færi að veita það aðhald, og hafa þær á undanförnum árum haft sérstaka menn til þess. Og ef það aðhald er ekki nægilega sterkt, þá ber að auka aðhald til þeirra innheimtumanna, sem reynslan sýnir, að ekki standa eins vel í sinni stöðu eins og aðrir, sem hafa svipaða aðstöðu.

Hv. frsm. fjhn., þm. V-Húnv., hafði þau orð hér um, að við hefðum oftar vegið í þann knérunn, sem er ríkisútvarpið. Bak við þetta virðist liggja sá hugsunarháttur, að það sé að vega að stofnun eða starfsgrein ríkisins, ef yfirskoðunarmenn, sem hafa þá skyldu að benda á misfellur, finna að því, þegar ekki eru virt fyrirmæli Alþ. samkv. fjárlögum. Í þessu orðalagi kemur fram hjá þessum hv. þm. mjög einkennilegur hugsunarháttur, svo að ég hafi ekki um það sterkari orð. — Að öðru leyti hefur hann hér hvað eftir annað verið með dylgjur, órökstuddar dylgjur, um það, að við yfirskoðunarmenn höfum ekki gert athugasemdir við stofnanir, sem hafi farið meira í útgjöldum fram úr áætlun, heldur en þessi stofnun. Hann hefur ekki komið með nein rök fyrir þessu. Og þá fyrst, þegar hann kemur með þau rök, er hægt að svara þeim, því að vitanlega eru útgjöld mismunandi eðlis. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða það, að ef gerður er samanburður á stofnunum ríkisins á 3. gr., þá standist ekki þessar dylgjur hv. þm. V-Húnv. Og ég býst við, að því sé álíka varið eins og þegar hann gerir hér samanburð á þremur sýslumönnum, útkomunni hjá sýslumönnunum í Húnavatnssýslu og Skaftafellssýslu, sem hann segir að sé óinnheimt hjá um 1%, en hjá sýslumanninum í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu sé um 2%, en það er þá helmingi meira hlutfallslega, og auk þess það margfalt, að það eru 132 þús. hjá þessum sýslumanni, en 11 þús. hjá öðrum hinna og 6.500 hjá hinum.

Að öðru leyti skal ég ekki fara langt út í að svara og hef ekki tíma til þess að svara þeim athugasemdum, sem hér hafa komið fram. En varðandi það, sem hv. 3. landsk. nefndi hér varðandi Skipaútgerðina, þá er þeim báðum athugasemdum svarað alveg glöggt frá hálfu þeirrar stofnunar. Það kemur fram varðandi lögfræðinginn samkv. 12. aths., að hann á ógreitt ekki 84 þús., heldur 104 þús. Skipaútgerðin hefur nú losað sig við þennan mann og lofar því í sínu svari að gera upp þessi viðskipti, þó að það hafi ekki verið búið, og yfirskoðunarmenn leggja harða áherzlu á það í sinni úrskurðartillögu, að þessi aths. sé til eftirbreytni. Hvernig þetta verður svo í framkvæmdinni, það sýnir reynslan framvegis.

Það var að skilja á hv. þm. Ísaf. eins og það væri hér yfirskoðunarnefnd eingöngu úr liði ríkisstj., en þetta er misskilningur hjá þessum hv. þm., sem er formaður Alþfl., því að einn af yfirskoðunarmönnum er fulltrúi — og góður fulltrúi hans flokks, og hann er okkur alveg sammála um þær athugasemdir, sem hér eru gerðar. (Gripið fram í.) Ég skal ekki fara lengra út í að tala um það, að það er ekki neinn ágreiningur okkar á milli, þótt hann sé í stjórnarandstöðuflokki, en við hinir, ég og hv. 1. þm. Árn., í stuðningsliði ríkisstj.