28.01.1953
Efri deild: 57. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

181. mál, ríkisreikningar

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ríkissjóðsreikningurinn fyrir árið 1950 liggur hér fyrir í frv.-formi til samþykktar. Ég hef fyrir hönd fjhn. borið tölurnar í frv. saman við prentaða útgáfu reikningsins, sem þm. hafa fengið í hendur, og ekkert fundið við tölurnar athugavert. Þær eru rétt upp teknar.

Hið fyrsta, sem verður fyrir manni, þegar opnað er heftið með ríkisreikningnum, er, að umframgreiðslur samkv. rekstrarreikningi 1950 eru hlutfallslega mínni, en líklega nokkru sinni fyrr, eða a.m.k. um fjölda ára. Þetta er mjög ánægjulegt og á viðurkenningu skilið. Og það, sem maður sér síðast í heftinu, er, að athugasemdir við reikninginn 1950 eru minni en venjulega, og þetta tel ég rétt að nefna, en reikningnum fylgja samt rúmlega 30 athugasemdir og fyrirspurnir og sumar í mörgum liðum frá yfirskoðendum ríkisreikninganna. Þessum athugasemdum hefur svo ráðh. svarað, og fylgja svörin. Auðvitað hafa hlutaðeigandi forstjórar og trúnaðarmenn samið svörin, en ekki fjmrh. sjálfur, enda heyra þau atriði, sem gerðar hafa verið athugasemdir við, ekki nema að litlu leyti undir hans ráðuneyti. Loks eru svo endanlegar niðurstöður endurskoðendanna eða svo nefndar till., að fengnum svörum hinna ábyrgu. Þessar niðurstöður eru aðallega í 5 tilbrigðum. Fyrst er, að svar sé fullnægjandi, annað, að við svo búið verði að standa, þriðja, að athugasemdin sé til athugunar framvegis, og fjórða, að athugasemdin sé til eftirbreytni framvegis, og svo fimmta, að athugasemdinni sé vísað til aðgerða Alþ.

Ég hef nefnt þessar niðurstöður í þeirri röð, sem þær frá mínu sjónarmiði þyngjast stig af stigi. Ég sé ekki verulega ástæðu til þess að ræða í þessari framsögu 1.–4. stigið. En það, sem yfirskoðunarmennirnir vísa til aðgerða Alþ., er sjálfsagt að taka til athugunar.

Þær athugasemdir, sem skoðunarmennirnir vísa til aðgerða Alþ., snerta tvennt. Í fyrsta lagi er athugasemd um, að í lok reikningsársins 1950 hafi verið óviðunandi mikið óinnheimt af tekjum ríkissjóðs. Ráðh. hefur svarað því, að breyt. sú, er síðar var gerð á söluskattslögunum, hafi veitt aðstöðu til bættrar innheimtu og kappkostað sé að ná inn gjaldföllnum tekjum jafnharðan og réttur leyfir. Aldrei má á innheimtunni slaka, vegna þess að þar er svo hæg leiðin til ófarnaðar og örðugt úr að bæta, ef fyrir safnast skuldir. En gott er að heyra, að til betri áttar horfir. Í öðru lagi vísa skoðunarmenn til aðgerða Alþ. athugasemdum um fjármál útvarpsins og þá sérstaklega hækkun útgjalda. Þessum athugasemdum svarar útvarpsstjóri allýtarlega. Hollt er, að skoðunarmenn finni að því, þegar eyðsla fer langt fram úr fjárlagaáætlun. Munu flest fyrirtæki ríkisins vera undir slíka sök seld að undanförnu og einnig enn, því miður. Þess vegna veitir ekki af aðhaldi. Ef litið er yfir ríkisstofnanirnar eins og þær koma fram á reikningnum 1950, sést, að viða er pottur brotinn í þessu efni, enda straumur tímanna þungur, sem á lagðist þetta ár, með gengisbreytingu sem sérstökum fjármálaviðburði. Hefðu yfirskoðendur gjarnan mátt benda á fleiri stofnanir, en útvarpið með varnaðarorðum.

Fjhn. fékk yfirskoðunarmennina tvo, sem sæti eiga á Alþ., á fund til sín og ræddi við þá athugasemdirnar. Sérstaklega voru þeir spurðir um áður nefnd atriði, er þeir vísa til aðgerða Alþ., og gengið eftir, hvaða till. þeir hefðu um afgreiðsluna að gera. Litu fjhn.-menn svo á, að það væri skylda þessara trúnaðarmanna þingsins að bera fram ákveðnar till., ef þeim þætti sérstakra aðgerða þörf. En þeir vikust undan slíku og kváðust ekki líta svo á, að skylda sín væri ríkari, en annarra þm., eftir að þeir hefðu lagt málið fyrir eins og þeir hefðu gert í athugasemdunum. Ég fyrir mitt leyti get ekki gengið inn á þau rök og lit svo á, að þeir telji í raun og veru nægilega að gert með athugasemdunum að þessu sinni. Fjhn. leggur áherzlu á það, að þeir, sem hlut eiga að máli við innheimtu fyrir ríkið og sem forstöðumenn við rekstur ríkisfyrirtækja og starfsmenn ríkissjóðs, taki athugasemdirnar til greina og leiðrétti í framtið það, sem er ábótavant hjá þeim, eins og segir í áliti n. á þskj. því, sem það kemur fram á. Með þeirri yfirlýsingu, sem er í raun og veru sjálfsögð, leggur fjhn. til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Leitt má segja að sé, hve reikningur ríkissjóðs 1950 er seint á ferð. Það er slæmt fyrir Alþ. að fá hann ekki til úrskurðar fyrr en eftir tveggja ára hret og hríðar. Svo gamall reikningur er í ýmsum efnum orðinn eins og kalt járn, sem varla er ástæða til þess að vera að hamra. Vei hefur samt áunnizt frá því, sem áður var. Talið er víst, að reikningurinn 1951 geti orðið lagður fram í byrjun næsta reglulegs Alþ., og vonir standa til, að reikningurinn 1952 verði tilbúinn, áður en því þingi lýkur. Væri þá halanum náð og hin rétta regla hafin. Að því marki ætlast Alþ. að sjálfsögðu til að hlutaðeigandi starfsmenn ríkisins keppi, sem þeir og virðast gera.