28.01.1953
Efri deild: 57. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

181. mál, ríkisreikningar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hér gera ríkisreikninginn almennt að umræðuefni. Ég er sammála hv. fjhn., er leggur til að samþ. frv. óbreytt, eins og hv. frsm. hefur tekið hér fram. Þær athugasemdir, sem hafa komið fram í n. í sambandi við starf yfirskoðunarmanna, komu réttilega fram um þau atriði öll, sem ég sé ekki ástæðu til þess að ræða.

En það eru hér athugasemdir, sem gáfu tilefni til þess, að ég tek til máls hér, og skal þá fyrst bent á athugasemd í 10. lið frá yfirskoðunarmönnunum. Þeir gera þar athugasemdir við nokkrar greiðslur til þjóðvega, sem farið hafa allmikið fram úr því, sem fjárlög ákveða, og stendur þar m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Þá hefur verið veitt á fjárlögum til Barðastrandarvegar 150 þús. kr., en unnið hefur verið fyrir kr. 233.771.25.“ Einnig stendur hér: „Á fjárlögum er veitt til Dalahreppsvegar 50 þús. kr., en greitt hefur verið kr. 100.218.55.“ Vegna þess að báðir þessir vegir eru í því kjördæmi, sem ég er umboðsmaður fyrir, þykir mér rétt að gera hér nokkrar athugasemdir við.

Það varð að samkomulagi við vegamálastjóra og aðila þá, sem búa í viðkomandi hreppum, að flytja á milli upphæðir frá einum vegi til annars og fresta framkvæmdum á þeim vegum, sem féð var flutt frá, á þessu ári, til þess að ljúka ákveðnum verkum í hinum öðrum vegum og alveg sérstaklega til þess að spara flutning á vinnuflokkum og áhöldum frá einum vegi til annars, þegar um litlar fjárhæðir var að ræða. Það fé, sem hér er notað fram yfir það, sem fram hefur verið lagt úr ríkissjóði, er því ekki lagt fram úr ríkissjóði, heldur lánað af viðkomandi hreppum af því fé, sem löglega hefur til þeirra verið veitt á fjárlögum. Þetta gátu endurskoðunarmennirnir fullvissað sig um, enda hlaut þeim að vera kunnugt um, að það hefur verið gert í mörgum héruðum landsins, einnig í þeim héruðum, sem þeir eru þm. fyrir. Það vekur því nokkra furðu, að þeir skuli vera að velja hér úr ákveðnar sýslur til þess að benda á, að þetta hafi skeð, en láta það óátalið í hinum öðrum sýslum, þar sem því hefur verið hagað nákvæmlega eins, auk þess sem vitað er, að þetta snertir ekkert útgjöld ríkissjóðs. Ég vil einmitt í sambandi við þetta mál leyfa mér að taka fram, að það stóð svoleiðis á á s.l. ári, að búið var að nota allt það fé, sem ákveðið var í ákveðinn, nýjan veg, sem verið var að byggja, og ekkert fé var til óeytt frá öðrum vegum í sýslunni, og vegamálastjóri fór fram á það við mig, að ég sækti fast á við hæstv. ríkisstj. að fá aukið framlag til þess að ljúka ákveðnu verki, svo að það væri hægt að spara tugi þúsunda í sambandi við það verk við að þurfa ekki að flytja flokkinn og vélarnar í burt. Ég taldi mig hafa enga heimild til þess, eftir að hafa setið sjálfur sem form. fjvn. og reynt að gæta þar hagsmuna sýslunnar eftir beztu föngum, þótt hins vegar mér hafi ekki tekizt að fá þar allt það, sem ég hefði viljað óska, sem ekki er vonlegt og ég ásaka ekki n. fyrir. En ég taldi, að þá væri það óverjandi, ef ég síðar stæði upp í rn. til þess að krefjast frekari framlaga utan fjárlaga, og væri það ekki af áhuga hjá sjálfum vegamálastjóra og þeim hæstv. ráðh., sem fer með þau mál, að haga þannig verkunum, þá verður það svo að vera, til þess fengju þeir ekki mig að sækja þar neitt á. Það er því algerlega rangt, að hér sé verið að eyða neinu fé frá ríkissjóði fram yfir það, sem er ákveðið með fjárlögum. — Þetta þótti mér rétt að láta koma fram.

Í tölul. 11 er gerð athugasemd út af því, að samgmrn. hafi gefið fyrirskipun til Skipaútgerðar ríkisins að greiða af fé sínu, sennilega eftir mati, segja þeir, eigendum eða umráðamönnum bryggjunnar á Bíldudal árið 1950 100 þús. kr. og einnig 1951 185 þús. kr., og þeir gera hér athugasemd við það, að slíkar greiðslur hafi farið fram, og telja, að það hefði ekki átt að vera. Ég vil í sambandi við þetta skýra nokkuð þetta mál hér, vegna þess að hér litur svo út, að það hafi verið farið inn á eitthvað, sem ekki væri eðlilegt samkv. fjárgreiðslum úr ríkissjóði eða úr ríkisstofnunum.

Það var árið 1950, að skip ríkissjóðs, Þyrill, kom inn að bryggju á Bíldudal að nóttu til, þar sem allir voru í svefni, og renndi beint á bryggjuna, með þeim árangri, að hann þurrkaði bryggjuna alveg út. Það var ekki tangur eða tetur eftir af mannvirkinu, þegar komið var á fætur. Skipstjóri rigsaði í burt án þess að hafa nokkurt tal af íbúunum og braut þar mjög gegn reglum hafnarinnar og hafnarlögum og ætti, þótt ekki væri nú fyrir annað, að sæta þungri sekt fyrir það eitt. Það var síðan gerð krafa til eiganda skipsins eða Skipaútgerðarinnar fyrir hönd ríkissjóðs um að greiða að fullu skaðann. Þeirri kröfu var mótmælt. Síðan var krafizt skoðunar á tjóninu og enn fremur yfirskoðunar á tjóninu, og það var af yfirskoðunarmönnum metið á 185 þús. kr. og þá tekið að fullu tillit til aldurs bryggjunnar og þeirrar afskriftar, sem hefði átt að skrifast af bryggjunni frá því að hún var byggð sem ný bryggja. Þorpið eða höfnin var bryggjulaus í nærri tvö ár, og það var fyrir harðskeytta sókn þeirra aðila, sem þar stóðu að, að ekki varð um lengri tíma að ræða. Ég fór fram á það við hæstv. rn., að þeir borguðu samstundis 185 þús. kr., eins og matsupphæðin var, og því var mætt að fullu frá hæstv. ríkisstj., og ef því hefði verið neitað, hefði að sjálfsögðu verið leitað til Alþingis um það atriði. Að ekki er búið að gera enn út um þetta atriði, er beinlínis að kenna Skipaútgerð ríkisins. Hún hefur haft þetta mál með höndum og látið sinn lögfræðing þvæla málið frá ári til árs, og það er ekki sjáanlegt annað, en að þetta sé beinlínis gert af því, að hann vilji af persónulegum ástæðum reyna að fá þetta mál fyrir hæstarétt, svo að hann geti fengið þar prófmál til þess að geta fengið prófskírteini í sambandi við það til þess að fá hæstaréttarmálaflutningsréttindi. Engin önnur skýring verður fundin á þessum drætti. Það er nú búið að byggja bryggjuna. Hún kostaði 530 þús. kr. Það hafa öll gögn legið fyrir og málafærslumaður vátryggjenda hefur gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá sætt í málinu, vegna þess að honum er fullkomlega ljóst, að sökin er ein og eingöngu hjá skipinu, sem braut bryggjuna niður, og engum öðrum. En eins og ég tók fram áðan, þá hefur fulltrúi Skipaútgerðar ríkisins þvælzt fyrir málinu, eyðilagt möguleikann til að sættast, og nú er þess krafizt, að málið gangi fyrir dóm. En eins og allir vita, þá tekur það ekkert litinn tíma, þegar annað eins mál er sótt í Reykjavík, að eiga að leita allra upplýsinga úti á landi. Þetta er ástæðan fyrir því, að málið hefur ekki verið gert upp enn þá.

En svo í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að henda á, að það hefur skeð allmörg undanfarin ár, að hafnarmannvirki á öðrum stöðum hafa hrunið af öðrum ástæðum. Í Bolungavík hefur brimbrjóturinn þar skemmzt svo, að það kostaði á þriðju millj. kr. að gera við hann, og var samþ. af Alþ. einróma, að ég hygg, að lagt skyldi fram allt það fé af hálfu ríkissjóðs án mótframlags. Það hefur verið deilt um það, hvort það hefur ekki að einhverju leyti verið að kenna vitamálastjórninni, en hvað sem því líður, þá er hitt víst, að það var náttúruöflum að kenna, að tjónið varð svo stórkostlegt sem raun ber vitni um. Það hefur einnig orðið allmikið tjón á Bakkafirði, sem ríkissjóður eða Alþ. hefur einnig fallizt á að skyldi bætt að fullu, án þess að nokkurt framlag kæmi á móti. Bæði þessi tjón og ýmis fleiri hafa, eins og ég sagði áðan, orðið af völdum náttúruaflanna, þótt hins vegar um það sé deilt nokkuð, hvort stjórn vitamálanna eigi þar einhverja sök á. En þegar Alþ. er búið að viðurkenna það og taka þá stefnu, að tjón, sem er af völdum óviðráðanlegra afla, eins og sjávarbrims eða vinda, skuli bætt, án þess að mótframlag komi til, hversu hróplegt ranglæti væri þá ekki fyrir Alþ. að neita Bíldudal um að bæta að fullu og án mótframlags tjón, sem skip ríkisins valda fyrir vanrækslu á hafnarmannvirkjum þar? Og það er náttúrlega algerlega óverjandi, að Skipaútgerð ríkisins skuli hafa haldizt uppi það ranglæti að bæta ekki tjónið að fullu strax og gera málin upp, vitandi þó, að það var tryggt fyrir þessu tjóni og það varð að sækja á erlenda vátryggjendur aftur.

Öll þau rök, sem hafa verið færð fram til tafar málinu frá Skipaútgerð ríkisins, eru til þess að aðstoða útlend vátryggingarfélög til þess að reyna á einn eða annan hátt að komast undan greiðslunni. Þannig hefur þeirra framkoma verið í þessu máli, og mér þykir rétt að láta það koma hér fram, úr því að það er tilkynnt með ríkisreikningunum sem athugasemd.

Ég vil svo aðeins í sambandi við athugasemdirnar um útvarpið, af því að útvarpsstjóri hefur nú talið sér það sæma að láta það vera eitt af sínum síðustu embættisverkum, um leið og hann er að kveðja þjóðina, að skrifa til hv. Alþ. 52 bréf, eitt til hvers þm., með þeim ummælum um mig persónulega, sem hann mundi sjálfsagt fá dóm fyrir, ef ég nennti að vera að höfða mál á gamalmenni, og er það út af því frv., sem ég hef borið hér fram í sambandi við útvarpið. Hann hefur látið það sæma að hafa orð um mig, sem hann gæti nú ekki komizt hjá að fá dóm fyrir. Vil ég aðeins í sambandi við það leyfa mér að benda hér á, að það er eitt af síðustu verkum yfirskoðunarmanna að fella þann dóm, sem hér stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Yfirskoðunarmenn telja fjárstjórn ríkisútvarpsins ekki viðunandi, og er athugasemdinni vísað til aðgerða Alþingis.“

Ég held, að útvarpsstjóri ætti í ellinni að setja sig niður og skrifa ekki 52 bréf, heldur 104 til alþm. út af þessari ádeilu, sem er miklu sterkari en sú ádeila, sem ég gerði á útvarpið í minni grg. og í mínu frv.

Ég vil enn fremur benda á, þó að ég hafi ekki gert um það ágreining í n., að ég er alveg sammála yfirskoðendum ríkisreikninganna um það, að það sé full ástæða til þess að gera aths. við nærri 21/2 millj. kr. útistandandi skuldir hjá Tóbakseinkasölu ríkisins. Ég sé ekki, hvernig hægt er að verja það. Og meðan hæstv. ráðh. beitir eðlilega og alveg sjálfsagt þeim aðferðum að stöðva jafnvel sölu hjá ýmsum fyrirtækjum, ef þau greiða ekki söluskatt, sem er þó engan veginn vel þokkaður í landinu, hvers vegna lokar hann þá ekki Tóbakseinkasölunni, þar til búið er að ná þessu inn? Hvers vegna er henni ekki lokað? Hvers vegna er Tóbakseinkasölunni leyft að halda áfram að lána 21/2 millj. kr. án þess að kalla það inn, einkasölunni í landinu, sem hefur allan aðgang að því að geta ráðið þessum málum eins og henni sýnist?

Ég er líka alveg sammála um það, að það sé engan veginn viðeigandi, að Skipaútgerð ríkisins sé banki upp á nærri 838 þús. kr. fyrir ýmsa aðila í landinu, stofnun, sem tapar 5–6 millj. kr. á hverju ári. Ég held, að það væri mjög athugavert og að hæstv. samgmrh. hefði ekki átt að stöðva rannsóknina á þessa stofnun, eins og hann gerði á sínum tíma, á meðan útkoman er ekki betri en sést hér.

Og ég er einnig alveg sammála endurskoðunarmönnunum í sambandi við 1 millj. kr. útistandandi hjá flugmálum ríkisins og 1.4 millj. kr. útistandandi hjá landssmiðjunni, sem rekin er fyrir ríkisins reikning. Það er ekki að furða, þó að landssmiðjan geti ekki enn þá greitt lögboðna skatta og skyldur til ríkisins, þegar henni er leyft undir þessum kringumstæðum að hafa útistandandi um áramót 1.4 millj. kr.

Ég skal svo ekki að öðru leyti gera ríkisreikninginn að umræðuefni, en mér þótti rétt að láta þessar aths. koma fram.