30.10.1952
Efri deild: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

12. mál, gengisskráning o. fl.

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mig langaði að koma með örfáar athugasemdir við hugleiðingar hæstv. fjmrh. hér áðan. Það er alger rökvilla hjá hæstv. ráðh. og rökvilla, sem kemur undarlega oft fram, að vísitölukerfi í sjálfu sér sé verðbólguaukandi. Þetta er algerlega rangt. Fullkomið vísitölukerfi, sem tekur til allra breytinga, sem verða á verðlagi, merkir það eitt, að raunverulegt kaupgjald, þ.e.a.s. hlutfallið milli kaupgjalds og verðlags, helzt óbreytt. Vísitöluuppbætur eru engin forsenda, heldur afleiðing; fyrst breytist verðið, síðan kaupið. Ef verðið lækkar, lækkar kaupið einnig í slíku kerfi. Allar hugleiðingar hæstv. ráðh. um afleiðingar kauphækkana í sambandi við till. mína eru því alveg út í bláinn. Till. mín er ekki um neinar kauphækkanir; hún er ekki einu sinni um óbreytt kaup, því að framfærsluvísitalan tryggir það engan veginn. Hún fjallar aðelns um það, að kaupið lækki ekki eins stórkostlega ört og það hefur gert undanfarið. Þetta er vissulega litil till. og hófsamleg, eins og ég tók fram í framsöguræðu minni, og mér dettur ekki í hug, að verkalýðssamtökin líti á hana sem neina lausn á hinum stóru vandamálum, sem íslenzkt alþýðufólk á nú við að etja. Hins vegar væri samþykkt slíkrar till. eins og framrétt hönd frá Alþingi, viljayfirlýsing frá Alþingi um það, að það vildi semja við verkalýðssamtökin, sem hafa þegar lýst því yfir, að þau finni sig knúin til að gripa til sinna ráðstafana til að knýja fram umbætur fyrir meðlimi sína. En sem sagt, þetta finnst hæstv. fjmrh. allt of mikið. Hins vegar sýndu hugleiðingar hæstv. ráðh. það, að hann er þeirrar skoðunar, að raunverulegt kaupgjald á Íslandi geti ekki haldizt óbreytt, það verði að halda áfram að lækka, því að afleiðingar þess kerfis, sem nú er, eru þær, að raunverulegt kaupgjald heldur áfram að lækka jafnt og þétt.

Ég sýndi fram á það hér áðan, að ef Dagsbrúnarmaður ætti að halda óbreyttu kaupi sínu frá 1947, miðað við gömlu vísitöluna, ætti hann að hafa um 14 þús. kr. meira í árslaun. Þetta merkir, að það vantar 14 þús. kr. upp á, að kaupgjald hans hafi haldizt óbreytt á þeim fimm árum, sem síðan eru liðin. Og þá þróun vill hæstv. ráðh. láta halda áfram.

Hugleiðingar hæstv. ráðh. og hv. 1. þm. Eyf.

um það, að þessi till. skjóti dálítið skökku við það, að það hafi ævinlega verið stefna sósialista, að Alþingi eigi ekki að skipta sér af samningsrétti verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda, eru einnig út í hött. Þessi till. skerðir auðvitað á engan hátt samningsrétt verkalýðsfélaganna eða samningsrétt verkamanna og atvinnurekenda. Þetta er aðeins till. um það, að gerðar verði örlitlar umbætur á sjálfu vísitölukerfinu, sem er allt annars eðlis og fjallar um það, að raunverulegt kaupgjald haldist að sem mestu leyti óhaggað þrátt fyrir breyt. á verðlagi.

Út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. vék að áðan í sambandi við landbúnaðarverð, er hann var að tala um einhverja yfirbót af minni hálfu fyrir gerðir sósíalista í þeim efnum, vildi ég aðeins segja það, að landbúnaðarverðið er núna ákveðið af 6 manna n., þar af eru 3 fulltrúar neytenda. Af þessum fulltrúum hygg ég að tveir muni vera Alþfl.-menn og þar af einn, sem mjög hefur beitt sér í þessum málum, einn af forustumönnum Alþfl., Sæmundur Ólafsson. Samkv. lögunum er þessum þrem fulltrúum neytenda heimilt að segja upp samkomulaginu hvenær sem þeim sýnist. Þessir þrír menn undir forustu Alþfl. hafa ekki séð neina ástæðu til að segja þessu samkomulagi upp á undanförnum árum, og ég vildi biðja hv. þm. að skýra það út fyrir mér, fyrst þetta samkomulag er svona slæmt, eins og hann vill vera láta, hvernig á því stendur þá, að fulltrúar hans flokks segja því ekki upp.