30.10.1952
Efri deild: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

12. mál, gengisskráning o. fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Út af orðum hv. 1. landsk. í lok ræðu hans áðan vil ég bara segja þetta: Í sex manna n. eru fulltrúar mismunandi stétta, eins og kunnugt er, og þeir geta annaðhvort komið sér saman um það samkomulag, sem áður hefur gilt, gert annað nýtt eða slitið allri samvinnu. En þó að samkomulaginu sé sagt upp og samvinnunni slitið, breytir það á engan hátt þeim reglum, sem gilda um verðlagningu landbúnaðarafurða, þannig að það mein, sem skapað var með löggjöfinni um 6 manna n., situr eftir sem áður. Þó að fulltrúar Alþfl. segðu sig úr 6 manna n. eða vildu ekkert samkomulag hafa við aðra menn í henni, þá breytir það ekki reglunum um verðlagningu landbúnaðarafurða, en einir höfuðsmiðirnir að þeim reglum voru einmitt samflokksmenn þessa hv. þm., eins og ég áður gat um.

Ég vil taka undir það, sem bæði hv. frsm. n. og hv. 1. þm. N-M. sögðu hér áðan um nauðsynina á því að steypa saman gengisbreytingarlöggjöfinni í eina heild. Sannleikurinn er sá, að þó að þessi l. væru nú ekki nein snilldarsmíði í upphafi, — þau voru satt að segja mjög amböguleg, — þá eru þau orðin þannig núna, að varla er hægt að gera sér grein fyrir, hvað er lög og hvað ekki lög. Heilir kaflar úr l. hafa sumpart ekki komizt í framkvæmd, þau hafa sumpart verið felld úr gildi og öðrum ákvæðum breytt. Það verður því frá því sjónarmiði hin mesta nauðsyn að steypa þessu öllu saman. Ég vil taka undir orð þessara hv. þm. um það efni.

Mér skildist á hæstv. ráðh. áðan, að hann teldi, að ef samþ. væri till. á þskj. 153, þá væri þar með í raun og veru verið að lögfesta kaupið. Það er náttúrlega fjarri sanni, eins og hv. .... (Gripið fram í.) .... það er einmitt það, sem um er að ræða hér, það er að lögfesta hluta kaupsins, og er þá ekki gengið inn á neina nýja braut, það er gert núna. Það er aðeins spurningin um það, hvað á að lögfesta, við hvað á að miða við lögfestinguna, enda er þetta alveg fullkomlega eðlilegt á allan hátt. (Gripið fram í.) Hv. þm. mælir þar áður, en hann hugsar, eins og stundum kemur fyrir hann. Þegar samið er um kaupgjald, þá er gengið út frá því, að minnsta kosti af verkamönnum, sem um kaupgjaldið semja, að fyrir það kaup, sem þeir fái, geti þeir fullnægt ákveðnum þörfum sínum og óskum, og þá er að sjálfsögðu miðað við verðlagið á þeim tímum sem samningarnir eru gerðir. Með stórfelldum breytingum á verðlagi, án þess að kaupgjaldið breytist um leið, eru þessir samningar gerðir gagnslausir og ónýtir og einskis virði, eftir því hvað breyt. eru stórfelldar. Alþingi í heild sinni hefur viðurkennt, vegna þeirra stórfelldu verðbreytinga, sem hafa orðið hér, nauðsynina á því að ganga að minnsta kosti í þá átt að tryggja, að kaupmáttur launanna sé nálægt því, þrátt fyrir verðbreytingarnar, sem hann var, þegar samningarnir voru gerðir, og það er fullkomlega réttlátt og eðlilegt. En nú hina síðari tíma hefur verið meira og meira unnið að því að gera þennan hluta kaupsins ekki jafnvissan og til var ætlazt með vísitöluuppbótinni, með því að láta vísitöluuppbótina vera lægri, heldur en svarar hinni raunverulegu verðrýrnun peninganna. Það er því fullkomlega eðlilegt í alla staði, að slík ákvæði séu í samningum eða lögum til þess að tryggja verkamanninum, að það kaup, sem hann semur um í dag, haldist sem næst því óbreytt, þ.e.a.s. kaupmáttur þess hafi sama verðgildi fyrir hann eins og þegar hann gerði samninginn.

Ég veit ekki, hvort maður á að fara að ræða hér um kaupbindingu eða ekki kaupbindingu, rök með eða móti í því efni og hvaða ástæður væri hægt að bera fram til að réttlæta kaupbindingu, en ég býst við, að það sé þarfleysa. Ég býst ekki við, að það sé alvara, að ætlunin sé að binda kaup verkafólks nú á þessu þingi að minnsta kosti. En mér finnst eitt ákaflega eftirtektarvert í sambandi við það, sem fram hefur komið hér um það efni í þessum umr. Í fyrsta lagi var því slegið föstu af hv. 1. þm. N–M., að einmitt nú, eftir að hækkun landbúnaðarvara hefur verið ákveðin nokkuð yfir 12%, sem ég held, að í sumum tilfellum sé nú meiri, en það er það, sem opinberlega er talið, þá sé einmitt kominn réttur tími til að binda kaupið, og þegar raddir hafa komið fram um þetta hér á þingi, hefur það ævinlega hreint verið að afstaðinni stórfelldri verðhækkun á vörum, sérstaklega landbúnaðar- vörum, og eftir að kaupgjaldið hefur verið óbreytt eða lítið breytt langan tíma. Það sýnir, hvert stefnir í þessu efni. Það sýnir, að það á að tryggja það hlutfall að minnsta kosti, sem þeir í augnablikinu telja sínum umbjóðendum hagfelldast. þetta er nú sannleikurinn í málinu. Og á öðrum tímum er því ekki hreyft.

Menn ræða hér um hækkun kaups, um lögbindingu á kaupgjaldi, en nefna ekki lögbindingu á húsaleigu, nefna ekki lögbindingu á álagningu á verzlunarvöru og umsetningu í landinu, nei, það er kaupið fyrst og fremst. Hæstv. ráðh. sagði alveg réttilega, að ef ekki væri annar vandi til að bæta kjör launafólks í landinu, heldur en sá að hækka launin á pappírnum eða með lagaboði, þá væru sannarlega ekki miklir erfiðleikar við að fást. Ég er honum sammála um þetta. Hæstv. ráðh. heldur því enn fremur fram, að launastéttunum sé það gagnslítið, gagnslaust eða jafnvel til skaða, ef laun þeirra séu hækkuð að krónutölu. Þegar svo sé ástatt sem nú er, segir hann, að ekki sé gróði á atvinnuvegunum, þá verði þetta ekki nema sýndur gróði. Það geti farið svo, að launahækkun, eins og hann orðaði það, snúist upp í kjararýrnun eða verði bein kjararýrnun. Nú er mjög fjarri því, að allur sannleikur sé sagður með þessu hjá hæstv. ráðh., því að hann veit það jafnvel og ég og allir aðrir, að tekjur hinna ýmsu atvinnustétta og einstaklinga í þjóðfélaginu eru ákaflega mismunandi, þannig að alveg gersamlega að óbreyttri aðstöðunni í viðskiptunum við útlönd má að sjálfsögðu mikið bæta kjör þeirra, sem lægst eru launaðir, án þess að það hafi áhrif á viðskiptin við útlönd, — það er öllum kunnugt um. En við skulum nú setja sem svo, að þessi kenning hæstv. ráðh. væri rétt og ætti við, en gildir hún þá eingöngu um verkamenn og laun þeirra, þessi fræðisetning hæstv. ráðh.? Er launahækkun til verkamanna og tekjuaukning fyrir þá þeim hættuleg og þjóðfélaginu, en tekjuaukning og launahækkun annarra stétta hvorki hættuleg þjóðfélaginu né þeim sjálfum? Ég vildi fá skýringu hjá hæstv. ráðh. á þessu efni. Ég vil fullyrða, að sé sú kenning hæstv. ráðh. rétt, að það sé kjararýrnun fyrir verkamenn að fá hækkað kaup, þá hlýtur það líka að vera kjararýrnun fyrir bændurna að hækka þeirra tekjur, þeirra afurðaverð. Sé það kjararýrnun, leiði það til kjararýrnunar fyrir verkamenn að fá t.d. kaupið sitt hækkað um 10%, er það þá ekki kjararýrnun fyrir heildsala, ef þeir hækka sína meðalálagningu úr 6% upp í 17%? Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um það, að það sé þjóðfélaginu til bölvunar, að slíkt sé leyft og gert. En ég er ekki alveg viss um, að heildsalarnir telji, að þeir séu að spilla sínum kjörum með því. Ef það leiðir til kjararýrnunar fyrir verkamanninn að fá 50 aura hækkun um tímann, er það þá til hagsbóta fyrir bóndann og fyrir þjóðfélagið yfirleitt að fá krónu hækkun á kjötkílóið? Ég vil mjög vara hæstv. ráðh. við því að bera slíkar fræðisetningar fram hér í þingi, því að það er sagt í góðri bók, að hálfur sannleikur sé oft og tíðum verri en enginn, en það er einmitt sú málfærsla, sem hæstv. ráðh. temur sér í sambandi við þetta mál. Sé það rétt, að þjóðfélagsástandið hjá okkur sé orðið slíkt, að ekki sé hægt að halda óbreyttum kaupmætti launanna hjá verkamönnum, þá er hver skerfur, sem er aukinn til annarra stétta, beinlínis frá þeim tekinn.

Það eru engin önnur fjárhagslögmál, sem gilda um tekjur verkamanna, heldur en tekjur annarra atvinnustétta í landinu, eins og bændastéttarinnar og þeirra, sem í sveitum búa, og ekki nema að litlu leyti, í einu atriði, sem annað gildir um tekjur þeirra, en tekjur gróðamanna og þeirra, sem hafa stærri fyrirtæki umleikis, eins og þeir, sem hafa með verzlunina að gera og annað slíkt. Ég held því, að það sé full ástæða til þess fyrir hæstv. ráðh., ef hann er þeirrar skoðunar, að það leiði til ófarnaðar, bæði fyrir þjóðfélagið í heild og fyrir launastéttirnar og verkamennina sérstaklega, að athuga það gaumgæfilega og með fullum rannsóknarvilja, hvort þá sé ekki einnig hættulegt að hækka svo verðlag á landbúnaðar- vörunni ,sem gert hefur verið og hvort nokkurt vit sé í því að láta einstökum stéttum í landinu, eins og verzlunarstéttinni, alveg í sjálfsvald, hversu miklar tekjur þær skammta sér, af því að dreifa út vörum, meira og minna nauðsynlegum, til almennings í landinu í gegnum heildverzlun og smásölu, og athuga þá einnig um húsaleigu, vexti bankanna og annað slíkt, sem til athugunar kemur í sambandi við dýrtíðarskrúfuna, sem hann var svo mjög fjölorður um áðan. Að sjálfsögðu er rétt, að kaupgjald launamanna í landinu er einn þátturinn í þeim vír, sem snúinn er af þessari dýrtíðarskrúfu, en það er einn þátturinn og ekki einu sinni sá veigamesti, sem ljósast er af því, að allan tímann síðan gengislækkunarlögin voru sett hefur kaupgjaldið alltaf verið fyrir neðan aðra kostnaðarliði í þjóðfé laginu, aldrei náð þeirri hæð, sem framfærslu vísitalan segir til, og er þó ekki sennilegt, að hún sýni fullkomlega alla þá hækkun, sem orðið hefur.