12.12.1952
Efri deild: 39. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Okkur er öllum ljóst, að það eru miklir möguleikar hér á Íslandi til margs konar framfara, en jafnframt sjáum við það daglega, að það eru mikil vandkvæði á því að útvega fjármagn til þess að notfæra sér þau gæði, sem landið býr yfir. Það er ekki hægt að fá fjármagn til þessa nema með tvennu móti. Annars vegar þannig, að landsmenn sjálfir leggi fjármagn til hliðar, sem hægt sé að nota til framkvæmda, og ýmist þá að menn noti féð sjálfir til framkvæmda fyrir sinn reikning eða þá að menn leggi það til hliðar og þá sé hægt að lána það öðrum. Hins vegar, að fjármagn fáist erlendis til þess að standa undir kostnaði við framfarirnar.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er stungið upp á, að stofnaður verði Framkvæmdabanki Íslands.

Þeirri stofnun er ætlað tvennt aðallega: Að hafa forgöngu um að útvega fé, sem gæti orðið fest til langs tíma innanlands eða utan, og á hinn bóginn að hafa nokkra forustu um fjárfestingarmálin, þannig að stofnunin kynni sér þær áætlanir, sem landsmenn hafa um framkvæmdir, og leiðbeini eða verði til ráðuneytis stjórnarvöldunum og öðrum þeim, sem við sögu koma, þegar hrinda þarf hinum meiri háttar áætlunum í framkvæmd, verði þeim til ráðuneytis um það, hvaða verkefni sé rétt að láta sitja fyrir, og annað, sem máli skiptir um fjármálahliðina.

Það er gert ráð fyrir því, að bankinn fái sem stofnfé fyrst og fremst mótvirðissjóðinn, sem safnazt hefur hér á undanförnum árum, bæði þann hluta hans, sem þegar er orðinn að útlánafé, og einnig hinn hlutann, sem ekki hefur enn þá verið lánaður út beinlínis. En um þann hluta, sem ekki hefur enn þá verið lánaður út beinlínis, er þó það að segja, að hann hefur í raun og veru verið lánaður út óbeinlínis, að því leyti sem hann stendur undir útlánum seðlabankans. Er því gert ráð fyrir því, að þessi hluti mótvirðissjóðsins, sem ekki hefur verið lánaður út beinlínis innanlands, heldur óbeinlínis, verði færður yfir til Framkvæmdabankans úr seðlabankanum á 25 árum og komi þannig til ráðstöfunar fyrir Framkvæmdabankann smátt og smátt, eftir því sem seðlabankinn skilar honum. Að vísu er svo til orða tekið í frv., að mótvirðissjóðurinn sé færður yfir í Framkvæmdabankann strax og lögin taka gildi, og er það að því leyti til alveg rétt, að formlega á að færa hann yfir strax, en raunverulega getur ekki fjármagninu orðið skilað nema smátt og smátt, vegna þess að það hefur þegar í raun réttri verið fest í seðlabankanum. Þó er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að seðlabankinn greiði strax Framkvæmdabankanum vexti af mótvirðissjóðnum, sem þar stendur hjá honum, og er ráðgert, að bankarnir semji um vaxtakjörin. Hefur ekki þótt viðeigandi að setja föst ákvæði um það í frv., hversu mikla vexti skuli greiða, heldur hitt réttara, að um það verði samningar á milli bankanna.

Í sambandi við þetta mál mundi kannske vakna sú spurning hjá ýmsum, hvort það sé í sjálfu sér þörf á því að setja á fót nýja stofnun, hvort ekki hefði verið hægt að fela þessa forustu um fjárfestingarmálin einhverri stofnun, sem fyrir er, t.d. Landsbankanum. Því er til að svara m.a., að allir þeir, sem hafa fjallað um undirbúning þessa máls, og þeir eru nú orðnir æði margir, því að málið er búið að vera lengi í undirbúningi, 2 ár a.m.k., bæði þeir, sem fjallað hafa um hann hér, í ríkisstj. og milliþn. í bankamálum og aðrir þeir, sem kvaddir hafa verið til hérlendis, og eins hinir, sem kvaddir hafa verið til ráðuneytis erlendra manna, hafa allir verið sammála um, að það væri einsýnt að hafa þessa forustu um fjárfestingarmálin í sérstakri stofnun, en fela hana ekki t.d. seðlabankanum eða neinum banka, sem fyrir er, aðallega með þeim rökum, að ekki sé skynsamlegt eða hyggilegt að hafa í sömu stofnun lánastarfsemi bæði til langs tíma, þ.e.a.s. fjárfestingarlánastarfsemi, og einnig lánastarfsemi til rekstrarlána. Það sé mjög áríðandi að halda þessu tvennu aðskildu, vegna þess m.a., að það má ekki festa í löngum lánum annað fé en það, sem er fest til langs tíma í þeirri stofnun, sem lánar það. En ef í einni og sömu stofnuninni er blandað saman bæði rekstrarfjárlánaveitingum og lánveitingum til fjárfestingarframkvæmda, þá sé hætt við því, að menn stigi út af þeim vegi, sem menn verða að halda sig á í þessum efnum, ef vel á að fara, og þessi verkefni blandist saman í framkvæmd, þannig að hættulegt geti orðið fyrir fjárhagskerfið. Geti svo farið, að menn fari að lána til langs tíma fé, sem raunverulega er aðeins bundið til stutts tíma, og sett þar með allt fjárhagskerfið úr skorðum. Þess vegna er nú orðið víðast hvar meiri og meiri áherzla lögð á það að skipta þessum verkefnum niður, þannig að út af fyrir sig sé haldið lánastarfsemi til langs tíma og út af fyrir sig þeirri venjulegu bankalánastarfsemi, sem aðallega lýtur að því að lána styttri lán til rekstrar.

Það er enginn vafi á því, að forustan í fjárfestingarmálum hjá okkur hefur verið nokkuð í molum, ýmsar áætlanir ekki hlotið þann undirbúning sem skyldi og tæpast verið lögð eins mikil alúð við það að velja eða raða verkefnunum og ástæða væri til, ekki sízt þegar þess er gætt, að hér er alltaf á ferðinni miklu meira af áætlunum en hægt er að framkvæma, eins og eðlilegt er, þar sem framtíðarmöguleikarnir eru miklir, en fjármagnið og getan takmörkuð. Menn hafa fundið þetta talsvert greinilega undanfarið, og það er ein ástæðan til þess, að farið hefur verið á stað með að undirbúa þá stofnun, sem frv. þetta fjallar um.

Ég vil í þessu sambandi minna á það, að fyrir nokkrum árum var stofnaður alþjóðabanki, og er Ísland þátttakandi. Mjög mörg ríki taka þátt í alþjóðabankanum eða eiga hann sameiginlega. Þessum alþjóðabanka er ætlað að hafa með höndum fjárfestingarlánastarfsemi landa á milli. Hann aflar fjár þar sem fjármagn er að fá, þar sem svo mikið fjármagn er, að fé er afgangs og því hægt að selja þar skuldabréf bankans, og bankinn lánar féð aftur öðrum þjóðum, þar sem minna er um fjármagn, en margt ógert. Þessi banki hefur nú þegar starfað mjög mikið, veitt mörg og stór lán í mörg lönd og orðið að miklu gagni fyrir ýmsar þjóðir, sem að honum standa. Þessi banki er mjög vaxandi stofnun, og er nú svo komið, að flest lán, sem lánuð eru úr einu landi í annað, eru lánuð í gegnum þennan banka. Það er orðið minna um það núna eftir stríðið en áður, að eitt land láni öðru beint. Það eru mjög fá lönd, sem lána þannig. Ísland hefur haft nokkurt samband við þennan banka, enda erum við þátttakendur í honum, eins og ég gat um áðan. Við höfum rætt þessi fjárfestingarmálefni Íslands og fjáröflun til framkvæmda oft og ýtarlega við þessa stofnun. Þeir sendu hingað fyrir hálfu öðru ári hagfræðing af sinni hendi til þess að kynna sér allar ástæður hér. Þeir hafa þann hátt á, að sé sótt um lán, þá senda þeir í það land nefnd manna til þess að kynna sér allt ástandið. Þeir sendu nú hingað aðeins einn hagfræðing. Hann dvaldi hér nokkurn tíma og hafði samband við stjórnarvöld og fjölmarga aðra, og það kom upp einmitt í þeim viðræðum, sem hann átti hér við menn, hugmynd um að koma hér upp nýrri fjárfestingarstofnun eða nýjum fjárfestingarbanka. Síðan hefur verið unnið að framgangi þessarar hugmyndar í samvinnu við Alþjóðabankann. Bankinn sendi síðar hingað einn af sínum fremstu mönnum, höfuðgjaldkera sinn, sem er hollenzkur bankamaður, fyrir um það bil ári, og hann íhugaði þetta mál nánar með okkur og gerði um það till., og eins og segir í grg. þessa frv., þá er mjög stuðzt við þær till. við samningu þessa frv., en frv. má heita samið af milliþn. í bankamálum, þó að því hafi verið breytt í einstökum atriðum af ríkisstj.

Í ýmsum löndum hafa nú á síðustu árum verið stofnaðir bankar hliðstæðir þessum, og hafa þeir fengið nokkuð svipuð verkefni og hér er ráð fyrir gert og síðan haft samband við Alþjóðabankann. Hugmyndin er, eins og frv. ber með sér, sú, að í stað þess, að fram að þessu hefur ríkissjóður sjálfur verið lántakandi, þegar lán hafa verið tekin til fjárfestingarframkvæmda erlendis, þá verði framvegis meira hnigið að því ráði, að það verði þessi banki, sem verði lántakandi og snúi sér þá náttúrlega fyrst og fremst til Alþjóðabankans til þess að fá þar erlent fjármagn í þau fyrirtæki, sem mest áherzla er lögð á hverju sinni að koma í framkvæmd. Alþjóðabankinn lánar að vísu aldrei nema fyrir erlendum kostnaði fyrirtækjanna, en þá yrði það hlutverk þessa banka að reyna að útvega fé hjá Alþjóðabankanum til slíkra framkvæmda að nokkru leyti og útvega svo innanlands, eftir því sem mögulegt væri, fjármagn til þess að leggja á móti því erlenda lánsfé, sem hægt væri að fá.

Það er gert ráð fyrir því, að hv. Alþingi kjósi 3 fulltrúa í stjórn bankans, en fjmrn. hafi þar einn fulltrúa, þ.e.a.s. skrifstofustjóri þess sitji í stjórninni, og seðlabankinn einn fulltrúa. Fram að þessu hefur útvegun erlends fjármagns til fyrirtækja verið í höndum fjmrn., og þótti rétt að tengja bankann við framkvæmdavaldið á þann hátt að hafa þarna skrifstofustjóra fjmrn. sem fastan mann í stjórn bankans og hafa svo einn mann frá seðlabankanum til þess að tryggja það, að alltaf væri hægt að heyra skoðanir seðlabankans um fjárfestingarlánveitingar, og tryggja hæfilegt samband og samvinnu á milli þessa banka og seðlabankans. Meiri hlutinn væri hins vegar valinn af hv. Alþingi.

Ég hygg, að ég hafi þá tekið fram höfuðatriði málsins og geti að öðru leyti vísað til grg. Ég skal að lokum geta þess, að það hefur verið haft samband við stjórn Landsbankans um þetta mál, og gerði hún við það eina aðalathugasemd, sem tekin var til greina.

Ég vil svo leyfa mér að lokum að leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að aflokinni umr., en vildi beina því til n. að hraða störfum, vegna þess að ætlunin er, að þetta frv. geti orðið að lögum á þessu þingi.