20.01.1953
Efri deild: 52. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Meiri hl. fjhn. flytur nýja brtt. á þskj. 555. Hún er smávægileg og aðeins um það, hvenær l. komi til framkvæmda, að í staðinn fyrir 1. jan. 1953, eins og nú stendur í frv., komi 15. febr. 1953. N. hafði nú ekki yfirsézt um þetta, þó að brtt. komi ekki fyrr en nú, heldur var búið að tala um að bera slíka brtt. fram, en það var komið kvöld, þegar ég var að leggja seinustu hönd á nál., og það hefur einhvern veginn farizt fyrir hjá mér að láta þessa brtt. fylgja hinum brtt., og tek ég alla sök á mig persónulega um það, að þessi till. kom ekki þegar í nál.

Um það, sem fram kom í gær um þetta mál, hef ég ekki margt að segja. Það leiðir af sjálfu sér, að meiri hl. n. fellst ekki á dagskrártill. hv. minni hl., hv. 1. landsk. þm., á þskj. 543, og gerði ég fulla grein fyrir því í gær, hvers vegna meiri hl. þvert á móti vill láta samþ. þetta frv., en ekki vísa því frá. Hæstv. fjmrh. svaraði hv. 1. landsk. þm. það rækilega, að ég hef engu við það að bæta eða að minnsta kosti sáralitlu.

Hv. þm. fannst það nú furðulegt, að það skyldi koma fram till. um það að stofna nýjan banka ofan á þá banka, sem fyrir væru, eins og hann orðaði það. Það kann að virðast svo, en það hefur þá eitthvað skeð furðulegt í þeim efnum fyrr. Það er nú ekki nema um það bil ár síðan þessi sami hv. þm. stóð að því að stofna nýjan banka, þó að þrír bankar væru þá fyrir. Ég á við stofnun Iðnaðarbankans, sem hv. þm. og hans flokksmenn munu hafa samþ. að stofna. Ástæða hans og hans flokksmanna hefur sjálfsagt verið sú, að þeim hefur fundizt þeir bankar, sem fyrir voru, ekki sinna nægilega þörfum iðnaðarins og ef til vill ekki geta sinnt þörfum iðnaðarins nægilega og þess vegna viljað, að sérstakur iðnaðarbanki væri stofnaður. Það er nú ákaflega svipað, sem hér er að gerast. Það, sem enn vantar, þrátt fyrir alla þessa banka, til þess að eðlilegri lánsfjárþörf þjóðarinnar sé fullnægt, er það,. að það eru enn litlir möguleikar á að fá stofnlán eða lán til langs tíma af þeim ástæðum, sem ég gerði fyllilega grein fyrir í gær. Á hverju þingi undanfarið hefur ríkisstj. verið falið að útvega ýmis slík lán og endurlána þau svo innanlands. Og enn fleiri till. hafa komið fram um þetta heldur en samþ. hafa verið, og hv. 1. landsk. þm. og hans flokksmenn hafa staðið að mörgum af þeim tili. og samþ. allar þær, sem samþ. hafa verið. Eins og ég gerði grein fyrir í gær, þá á bankinn, sem nú er fyrirhugaður, að taka við þessum verkefnum, þannig að ekki þurfi sífellt að vera að fela ríkisstj. að taka hin og þessi lán til smáibúða, verkamannabústaða o.s.frv.

Það, sem hv. þm. talaði um það, að það liti út fyrir, að þessi Framkvæmdabanki ætti að fá alræðisvald í fjármálum þjóðarinnar, er auðvitað sagt alveg út í hött. Það er, eins og allir sjá, ætlazt til þess, að bankinn verði stofnaður með lögum. Öll lög, sem Alþ. setur, hafa það eðli, að Alþ. getur afnumið þau aftur. Alþ. getur lagt þennan banka niður, ef því sýnist svo, og sjálft ríkið stofnar hann og á hann og rekur hann. Ein ríkisstofnun, sem í öllu lýtur löggjafarvaldi þingsins og framkvæmdarvaldi því, sem þingið ákveður hverju sinni, getur vitanlega ekki haft neitt alræðisvald í fjármálum þjóðarinnar. Ofan við slíka stofnun stendur ríkisstj. og Alþ., sem hvorki gerir með þessu frv. né getur gert það að afsala valdi yfir fjármálum þjóðarinnar í hendur einstakrar stofnunar.

Hv. þm. spurði, hvernig þjóðin hefði komizt af áður eða fram til þessa tíma og hvort hún gæti ekki komizt af enn án þessa banka. Ja, svo hefur nú ef til vill mátt spyrja fyrr. Gat ekki þjóðin komizt af bankalaus eins og áður, meðan enginn banki var til í landinu? Gat hún ekki komizt af, eftir að komnir voru tveir bankar, Landsbankinn og Íslandsbanki, og gat hún ekki komizt af, eftir að komnir voru hér þrír bankar? Þurfti að fara að stofna nýjan banka í fyrra? Þannig er það nú; þjóðlífið er í vexti, og það er talað um útþenslu í opinberum rekstri, bankarekstri sem öðru. Sú útþensla er á ýmsan hátt eðlileg, eftir því sem verkefni þjóðfélagsins vaxa. Hér er fyllilega gerð grein fyrir því verkefni, sem hinni nýju bankastofnun er ætlað að hafa með höndum og ljóst er, að engin bankastofnun hefur nú með höndum.

Tal hv. þm. um, að Bandaríkin fyrirskipuðu það að stofna þennan banka, er auðvitað líka út í hött. Það getur vel verið, að eitthvað hafi verið stuðzt við ráð frá starfsmanni frá Alþjóðabankanum. Ég er því ekki svo kunnugur. En þess ber nú að gæta, að Ísland er aðili að Alþjóðabankanum, og er ekkert meira við það að athuga, þó að Ísland sæki einhver ráð til þessa banka, sem er fyrir að minnsta kosti vestrænar þjóðir og kallaður Alþjóðabanki, heldur en hver annar viðskiptamaður sækir kannske ráð til síns viðskiptabanka. Annars er það nú svo, að hv. þm. virtist nú í sinni ræðu aðallega styðjast við álit eins af stjórnendum Alþjóðabankans, því að ég veit ekki betur, en Jón Árnason bankastjóri sé í stjórn Alþjóðabankans, og uppistaðan í ræðu hv. 1. landsk. þm. var að ýmsu leyti það, sem Jón Árnason hefur til málanna að leggja í bréfi, sem hann hafði skrifað viðskmrh. og prentað er sem fskj. með nál. hv. minni hluta. Þetta er að vísu nýtt. Jón Árnason hefur nú ekki hingað til verið neitt „autoritet“ í augum þessa hv. þm. og hans flokksmanna, en hann virðist vera orðinn það nú, og þó að ég sé ekki að öllu leyti sammála Jóni Árnasyni um þetta, þá hef ég oft verið sammála honum um ýmis mál, og ég harma það, að hv. 1.landsk. þm. skyldi ekki uppdaga það fyrr og löngu áður, að honum væri hollt að fylgja ráðum Jóns Árnasonar.

Út af því, sem hann sagði um mótvirðissjóðinn og afskipti Bandaríkjanna af honum og till. Jóns Arnasonar um að endurgreiða mótvirðissjóðinn á sínum tíma, vil ég segja það, að ég hef alltaf skilið það svo og skil það svo enn, að Bandaríkin hafi ekki nein afskipti af því, hvernig við verjum mótvirðissjóði, nema af fyrstu lánunum, sem úr honum eru veitt. Það liggur undir þeirra samþykki. Þegar svo lánin endurgreiðast og farið er að ráðstafa því endurgreidda fé, þá veit ég ekki til, að það sé á nokkurn hátt háð afskiptum Bandaríkjanna eða samþykki, hvernig með það fé er farið, sem endurgreitt hefur verið, og ef svo er, sem ég veit ekki til, þá verð ég nú að taka undir með hæstv. fjmrh., að ég sé ekki, að þetta frv., þótt að lögum verði, breyti nokkru um það efni. Það eru að minnsta kosti engin ný ákvæði í þessu frv. um það, að Bandaríkin eigi að ráða nokkuð yfir mótvirðissjóði eða því fé, sem í honum er og úr honum er lánað. — Hvað það snertir, að við ættum að endurgreiða mótvirðissjóðinn, þá get ég ekki fallizt á það. Skal ég ekki fara langt út í það og mjög lítið, en mér finnst fyrir mitt leyti, að við eigum hann með fullum rétti. Ég álít, að við Íslendingar getum gjarnan skoðað hann sem eins konar greiðslu fyrir það, sem við höfum látið af mörkum öðrum þjóðum, ekki einasta Bandaríkjunum og öðrum vestrænum þjóðum, heldur öllum þeim þjóðum, sem nú kalla sig hinar Sameinuðu þjóðir. Skal ég ekki rökstyðja það nánar, en þetta er mín sannfæring. Þetta hefur verið látið til okkar sem óendurkræft fé, og mér finnst það vera full eign okkar og það væru allt of mikil „flottheit“, ef svo má að orði kveða, að fara að endurgreiða þetta aftur eða gefa, endurgefa það, og alveg óvíst, að viðkomandi vildi þiggja slíka gjöf. Hitt er svo rétt, sem hv. þm. vék að sem sinni skoðun, að hann sagðist vilja afþakka kurteislega öll amerísk afskipti af fjármálum Íslands; það viljum við allir gera. Hitt er annað mál, að það getur vei verið, að ástæða þyki til að biðja erlenda fjármálamenn um ráð að einhverju leyti viðvíkjandi fjármálum Íslands. Sé ég ekki neitt við það að athuga. Það er ekki meiri minnkun fyrir neina þjóð að biðja um ráð út af fjármálum sínum reyndari menn í því efni heldur en t.d. þegar ein þjóð fær útlenda tæknilega aðstoð til eins og annars; eða ég sé það ekki. Að fá slík ráð er auðvitað allt annað en að viðurkenna yfirráð annarrar þjóðar yfir málefnum landsins, hvort það eru fjármál eða annað. Þó að útlendir verkfræðingar t.d. séu fengnir til að standa fyrir brúarbyggingu hér, á einhverri stórbrú, þá er það ekki það sama eins og að fela þeirri þjóð, sem verkfræðingarnir eru frá, að ákveða, hvað margar brýr skuli byggðar hér á landi og á hvaða ám. Þetta er tvennt ólíkt.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara út í þessa ræðu hv. 1. landsk. þm. frekar og vísa til ræðu hæstv. fjmrh. í því efni.

Hv. þm. Barð. gerði hér grein fyrir sínum fyrirvara, sem hann gerði um fylgi við frv., og hafði það allt saman komið fram í n. Ég get verið honum sammála um það, að 8. gr. frv. er fremum óákveðin, en það er nákvæmlega sú samþykkt, sem Alþ. hefur áður gert, sem í 8. gr. felst, og tímarnir eru nú svo breytilegir, að ég efast alveg um, að við getum í dag gert nokkra tæmandi upptalningu á því, hvað ætti að heyra til landbúnaðar og hvað ætti að heyra til framkvæmda í þágu sjávarútvegsins og sjávarsíðunnar. Maður verður að treysta því, að stjórn bankans meti þetta á hverjum tíma og í hverju einstöku tilfelli.

Það gladdi mig, að hv. þm. gerði sig nokkurn veginn ánægðan með þá breyt., sem meiri hl. hafði gert við 14. gr. frv. Ég get ekki fallizt á það, sem hann virtist nú óttast, að það mundi verða skipt um skrifstofustjóra í fjmrn. í hvert skipti sem stjórnarskipti yrðu, einmitt vegna þessa frv. Með fasta embættismenn er það ekki venja, og ef slíkum embættismönnum eru falin einhver ákveðin störf, þá vinna þeir að þeim sem embættismenn, en ekki sem flokksmenn, og er hægt að fá nóg dæmi til þess og það miklu meira áberandi, heldur en þetta um skrifstofustjórann. Ég skal t.d. nefna það, að hér var um 13 ára bil embættismaður, sem kallaður var landritari og var staðgengill ráðherrans, en þá var ráðh. einn og þurfti oft að vera í siglingum. Landritarinn þurfti beinlínis að koma fram fyrir ráðherrans hönd í mörgum tilfellum, jafnvel mæta fyrir hann á Alþ. stundum og ekki svo sjaldan. Það voru á þessu 13 ára tímabili 5 ráðh. af ýmsum flokkum, og þetta gekk allt vel, að þessi eini maður væri staðgengill þeirra allra, svo að ég held, að þetta sé ekki að óttast.

Viðvíkjandi aths. hv. þm. Barð. við 9. gr., þá skildist mér nú, að hann hefði sætt sig við niðurstöður n., þó að hann geri lítið úr þeirri breyt., sem meiri hl. leggur til að gera á þeirri grein og ég skal játa og játaði í gær að ekki er beint mikils virði. Eins og ég færði rök fyrir í gær, þá sé ég ekki mikinn mun á þessu, eins og ákveðið er í frv., að veita þessa föstu heimild til lántöku erlendis með ábyrgð ríkissjóðs, , eða hinu, sem tíðkazt hefur og vafalaust mundi verða, að stjórnin kannske gæfi út brbl. um heimild fyrir bankann til að taka erlend lán. Hv. þm. Barð. sagði, að slíkar einstakar heimildir þingsins væru tímabundnar og giltu ekki nema til næsta þings. En það er nú hæpið. T.d. þegar heimild er gefin til lántöku til lengri tíma, eins og oft hefur komið fyrir, og lán hefur verið tekið í útlöndum samkv. l. frá Alþ. — eða brbl. í fyrstu og síðar l. frá Alþ. — til margra ára, þá er það ekki tímabundið. Ja, það er að vísu tímabundið, en það er ekki tímabundið til eins árs. — Nú orðlengi ég þetta ekki frekar, því að hv. þm. hefur á allan hátt sýnt lipurð og samvinnuvilja í n., og mér virtist, að hann mundi ekki gera sína sérstöðu að neinu kappsmáli, úr því sem komið er, en láta sitja fyrir það aðalatriðið, sem er, að hann er því meðmæltur, að þessari stofnun verði komið á fót, og vill ekki láta ágreining um ýmis minni atriði valda því að tefla þessu máli á nokkurn hátt í tvísýnu. Kann ég honum þakkir fyrir það.

Hv. 4. þm. Reykv. hefur borið hér fram brtt. á þskj. 556 og boðaði þær brtt. í gær og talaði fyrir þeim. Sú fyrri er um það að fella niður það ákvæði frv., að bankanum sé afhent hlutabréf í áburðarverksmiðjunni, 6 millj. kr., og stofnféð þar með lækkað niður í 95 millj. kr. Meiri hl. n. vildi að vísu ekki afhenda hlutabréfin í Eimskipafélagi Íslands, sökum þess að ríkið er búið að eiga þau bréf lengi og fulltrúi ríkisvaldsins að fara með atkv. á fundum Eimskipafélagsins án milliliða, og þetta var nú meira svona tilfinning fyrir okkur nm. heldur en beinlínis það, að við teldum það svo skaðlegt að afhenda þessi bréf. Það gegnir allt öðru máli með áburðarverksmiðjuna. Hún er að töluvert miklu leyti byggð fyrir sams konar fé og hér er um að ræða, m.ö.o. fyrir lán úr mótvirðissjóði, og á bankinn að taka við þeim skuldabréfum samkv. öðrum ákvæðum frv., og okkur fannst þá ekki saka eða vera neitt viðkvæmt, þó að bankinn fengi þessi hlutabréf sem stofnfé. Bæði hv. 4. þm. Reykv. og hv. 1. landsk. þm. hafa talað um þessa hlutabréfaafhendingu i þeim tón eins og ríkið gæfi þessi hlutabréf og tapaði þar með öllum rétti yfir þeim. Mér skildist meira að segja á hv. 1. landsk. þm., að hann byggist við, að þessi hlutabréf kynnu bara að fara í brask með þessu móti. Hæstv. ráðh. benti honum á það, að bankinn má hvorki selja né veðsetja þessi bréf. Og ég vil þá benda hv. 4. þm. Reykv. á það, að þó að bankinn fái þessi bréf sem stofnfé, þá eru þau eftir sem áður eign ríkisins, því að bankinn er eign ríkisins og allt stofnfé hans er þar af leiðandi eign ríkisins. Það er þess vegna ekki hægt að sjá það, að hér sé nein hætta á ferðum, og þó að meðferðin á þessu, t.d. meðferð atkv. á hluthafafundi, kynni að verða einhver önnur hjá fulltrúa bankans heldur en hjá fulltrúa ríkisins eða ríkisstj., — það kynni að vera hugsanlegt, — þá eru nú allmiklar líkur til þess samt, að þar verði mjög farið að vilja Alþ., þegar þess er gætt, að Alþ. kýs meiri hlutann í yfirstjórn bankans. Þess vegna finnst mér þessi ótti, sem kemur fram út af afhendingu þessara bréfa, alveg ástæðulaus. Og náttúrlega eru það bankanum hagsmunir, að stofnféð sé frekar meira, heldur en minna, og þess vegna er þessi till. frekar til að rýra bankann og gildi hans. Þess vegna er meiri hl. á móti þessari till. Þetta atriði hefur áður verið rætt í n., og a.m.k. þrír nm., sem eru í meiri hl. n., eru því algerlega mótfallnir að fella þetta niður.

Þá hygg ég, að ég megi fullyrða það, að allur meiri hl., 4 nm., sé síðari brtt. hv. 4. þm. Reykv. mótfallinn, þ.e. að fella niður 8. gr., um það, að helmingurinn af fé mótvirðissjóðs, sem verður varið til útlána, skuli fara til þeirra framkvæmda, sem eru í þágu landbúnaðarins, en hinn helmingurinn í annað. Það er ekki nema ár síðan þetta var beinlínis samþ. af Alþ., og það sitja yfirleitt sömu menn á Alþ. nú eins og þá. Þess vegna er það auðsætt, að hv. þm. getur ekki gert sér neina von um það, að þessi till. verði samþ., og jafnvel þó að till. yrði samþ., þá stendur ályktun Alþ. í gildi eins fyrir því. Að vísu er sú ályktun ekki lög, en það er þó líklegt, að eftir henni yrði farið að miklu leyti að minnsta kosti. Ég ætla ekki að fara út í það mál, hvaða rök liggja að því, að það er réttmætt að tryggja þetta. Það vita allir, að það háttar svo til í landinu nú, að ef ekki er fyllilega hlynnt að sveitum landsins, þá liggur við landauðn, að minnsta kosti víða, og munu flestir sammála um það, að slíkt væri ekki til þjóðþrifa. Fyrir hönd meiri hl. legg ég því einnig til alveg eindregið, að þessi síðari brtt. á þskj. 556 verði felld.