22.01.1953
Neðri deild: 55. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er nú nokkuð langt síðan þetta mál var lagt fyrir Ed. þingsins. Frv. fylgir allýtarleg grg., og um málið hafa komið fram allýtarleg nál. í hv. Ed. Sé ég því ekki ástæðu til að flytja hér ýtarlega framsöguræðu um málið, en vil aðeins minnast á örfá aðalatriði.

Það er enginn vafi á því, að miklir eru framtíðarmöguleikar á voru landi og mikil auðæfi fólgin í ýmsum náttúrugæðum. Einkum má þar nefna aflið, sem býr ónotað í orkulindunum. Það er sameiginlegt um svo að segja öll þessi gæði, sem ónýtt eru, að það kostar mikið fé að nýta þau. Það er gífurlega mikill stofnkostnaður við að notfæra sér möguleikana. Til þess að hægt sé að koma því við þarf að afla fjár. Það er hugsanlegt að afla fjár með tvennu móti til þessara framkvæmda, annars vegar með því að afla fjárins innanlands, hins vegar með því að afla fjárins utanlands. Það hefur verið reynt að fara báðar þessar leiðir jafnan og hefur ekki af veitt, því að alltaf stendur á fjármagni til þess að hægt sé að hagnýta sér náttúrugæðin. Sá háttur hefur verið á hafður um öflun fjármagns erlendis frá til meiri háttar framkvæmda, að ríkissjóður hefur yfirleitt verið lántakandi og síðan hefur féð verið lánað frá ríkissjóði til þeirra framkvæmda, sem hverju sinni hafa verið efst á baugi. Það er hægt að segja ýmislegt til stuðnings þessari leið, og það er einnig bægt að benda á ýmsa ágalla, sem fylgja því, að ríkissjóður sé ávallt lántakandinn, þegar um fjáröflun erlendis er að ræða. Ég skal ekki fara langt út í það hér, en þetta frv. er byggt á því, að það muni vera heppilegra að gera minna að því heldur en hingað til, að ríkissjóður sjálfur sé beinlínis lántakandi, en beina þessum málum heldur yfir á þá braut að setja upp í landinu stofnun, sem taki flest þeirra erlendu lána, sem aflað er erlendis og eiga að vera til fjárfestingar.

Fjáröflun innanlands til verklegra framkvæmda hefur verið nokkuð í molum. Enginn þeirra banka, sem starfað hafa í landinu fram að þessu, hefur haft það sérstaka hlutverk að afla lánsfjár innanlands til langs tíma. Þær bankastofnanir, sem við höfum, taka á móti fé í sparisjóði, sem yfirleitt er lagt þangað til stutts tíma, en hafa sáralítið að því gert að reyna að afla lánsfjár til langs tíma. En öflun lánsfjár innanlands til langs tíma er vitanlega alveg óhjákvæmileg nauðsyn, ef fjárfestingarlán eiga að vera lánuð af innlendu fjármagni. Það er ekki hægt að lána í stórum stíl fjármagn til fjárfestingar af innlendu fjármagni, ef féð er aðeins bundið til örstutts tíma, þannig að það getur orðið tekið út úr bönkunum svo að segja hvenær sem er. Útlán til fjárfestingar til langs tíma verða að byggjast á því, að það fé, sem notað er, sé einnig bundið til langs tíma. Það er engin tilviljun, að forusta um það að útvega lánsfé til langs tíma innanlands hefur verið í molum. Þegar farið er að kryfja þetta til mergjar, þá sést, að það byggist á því m.a., að það er ekki hægt að gera ráð fyrir, að þær bankastofnanir, sem aðallega byggja starfsemi sína á sparisjóðsfé og fyrst og fremst hafa það hlutverk með höndum að annast rekstrarlán til framleiðslunnar, gangi mjög hart fram í því að festa fé til langs tíma til fjárfestingarlána. Það er vegna þess, að þetta tvennt rekur sig nokkuð á. Ef lán eru boðin út af mikilli atorku og gerðar ráðstafanir til þess að selja skuldabréf innanlands til langs tíma, þá má gera ráð fyrir því, að eitthvað af því fé, sem gengur til skuldabréfakaupanna, sé tekið út af sparisjóðsreikningunum og verði það þá til þess að þeir bankar, sem annast rekstrarfjárlánin, hafi heldur minna sparifé. Þetta sjónarmið kemur afar oft fram einmitt í sambandi við þessi mál. Þegar um það er talað, hvort ganga eigi fram í því að bjóða út lán innanlands til fjárfestingar, þá kemur það sjónarmið iðulega fram frá bönkunum, að það sé vafasamt að vera að leggja vinnu í slíkt, þar sem féð verði bara tekið út af sparisjóðsreikningunum. En vitanlega er það hættulegt, ef þessi skoðun er ráðandi, vegna þess, hve þýðingarmikið er einmitt að binda eins mikið af sparifénu og unnt er til langs tíma. Það eykur einnig sjálfan sparnaðinn, þegar til lengdar lætur, ef fé er bundið til langs tíma. Það fé er ekki haft handbært til notkunar hvenær sem er eins og sparisjóðsinnstæður.

Þegar Alþjóðabankinn var stofnaður fyrir nokkrum árum, tóku Íslendingar ásamt mjög mörgum öðrum þjóðum þátt í þeirri bankastofnun. Það er hlutverk Alþjóðabankans að afla fjár í þeim löndum, þar sem fé er helzt aflögu, þar sem hægt er að selja skuldabréf, og lána þetta fé aftur í þau lönd, þar sem þörf er á því að flytja inn fjármagn til fjárfestingar og þá eingöngu til fjárfestingarframkvæmda. Alþjóðabankinn lánar eingöngu til fjárfestingarframkvæmda og eingöngu fyrir þeim hluta af stofnkostnaðinum, sem svarar til innfluttra véla eða tækja eða byggingarefnis. Hann lánar ekki fyrir innanlandskostnaði við framkvæmdir í þeim löndum, sem hjá honum taka lán.

Nokkru eftir að Alþjóðabankinn var stofnaður, setti íslenzka stjórnin sig í samband við hann að sjálfsögðu, enda hafa Íslendingar þar fulltrúa, þar sem þeir eiga einn bankaráðsmann eins og aðrar þjóðir, sem taka þátt í þessari bankastofnun. Voru umræður teknar upp um viðskipti Íslands við bankann í framtíðinni og hvort ekki mundi vera hægt að gera ráð fyrir því, að Íslendingar gætu fengið á næstunni lán til ýmissa þeirra framkvæmda, sem mest á riði að koma hér áleiðis.

Alþjóðabankinn hefur þann hátt á, að þegar eitthvert land snýr sér til hans og stingur upp á viðskiptum, þá lætur Alþjóðabankinn sérfræðinga sína, bæði hagfræðinga og aðra fjármálamenn og þá „teknísku“ ráðunauta, sem hann hefur yfir að ráða, — þá lætur hann slíka fulltrúa af sinni hendi kynna sér, hvernig ástatt er í því landi, sem fer fram á lán, bæði hvaða áhugamál eru þar efst á baugi um fjárfestingu, hvort bankanum sýnist skynsamlegt að lána til þeirra framkvæmda, sem þar eru á prjónunum, og enn fremur að kynna sér allan fjárhag, allt fjármálaástand og atvinnumálaástand í viðkomandi landi, allt til þess að gera sér grein fyrir; hversu tryggur viðskiptavinur landið geti orðið og hversu öruggt sé að trúa því fyrir peningum. Þess vegna sendi bankinn að sjálfsögðu, að vísu ekki nefnd manna, heldur einn mann hingað til þess að kynna sér fjárfestingarmálefni Íslands í sambandi við fyrstu lánbeiðnir, sem lagðar voru fram, en það voru lánbeiðnir vegna Sogsvirkjunarinnar og Laxárvirkjunarinnar. Fjárhagsmálin voru mjög ýtarlega rædd við þennan fulltrúa og síðar við fleiri fulltrúa Alþjóðabankans, eftir að samningar héldu áfram um þessi málefni í bankanum sjálfum í framhaldi af þessari sendiför. Varð niðurstaðan sú, að Íslendingar fengu nokkur lán, eins og hv. þm. er kunnugt, lán til virkjananna, lán til áburðarverksmiðjunnar og lán til landbúnaðarins, og í athugun er nú um aðrar lántökubeiðnir til landbúnaðar og sementsverksmiðju.

Í sambandi við þessi mál bentu forráðamenn Alþjóðabankans á einn mjög veikan blett í okkar fjárfestingarstarfsemi, sem okkur var að sjálfsögðu mjög vel ljóst sjálfum að var fyrir hendi. Það var, hve okkur gengi illa sjálfum að leggja fram íslenzkt fé á móti því erlenda fé, sem við fengjum að láni. Í þessu sambandi er það auðvitað einkum áberandi, að til Sogsvirkjunarinnar og Laxárvirkjunarinnar og áburðarverksmiðjunnar er sáralítið annað fé notað, en það, sem fengið er að láni erlendis, fengið er erlendis sem gjafafé og svo fé mótvirðissjóðs. Þegar til frekari stórframkvæmda kemur, þá sýnir sig, að innlenda fjármagnið vantar, þótt erlent fé kynni að fást.

Það var sameiginlegt álit þeirra, sem störfuðu að þessum málum af hendi Alþjóðabankans og íslenzku stjórnarinnar, að það mundi vera skynsamlegt fyrir okkur að setja á fót nýja stofnun, sem hefði forustu um fjárfestingarmálin, fjárútvegun til þeirra erlendis og innanlands, og væri einnig ráðgefandi fyrir stjórnarvöldin á hverjum tíma um val þeirra verkefna, sem væru látin sitja í fyrirrúmi. Upp úr þessum athugunum öllum saman er sprottið það frv., sem hér liggur fyrir, en frv. er samið, - að vísu ekki nákvæmlega eins og það er nú, en að mestu leyti eins og það er, — af mþn. í bankamálum, sem gerði það að fyrsta verkefni sínu að íhuga um fyrirkomulag fjárfestingarlánastarfseminnar.

Hlutverk þessa banka er nokkuð öðruvísi en þeirra bankastofnana, sem fyrir eru hér á landi. Bankanum er sem sagt ætlað að hafa forgöngu um að útvega lánsfé erlendis til fjárfestingarlána, og honum er ætlað að útvega fé hér innanlands til langs tíma til þess að lána út aftur til fjárfestingar. Þá er bankanum einnig ætlað að greiða fyrir sölu á hlutabréfum í fyrirtækjum, sem sérstaklega þætti þýðingarmikið að kæmust á fót. Þess vegna er í frv. ákvæði um það, að stofnuninni sé heimilt að kaupa hlutabréf, og þá með það fyrir augum að selja þau aftur. Bankanum er ætlað að reyna að skapa markað fyrir hlutabréf í nauðsynlegum fyrirtækjum. Erlendis er slík starfsemi mjög tíðkuð af ýmsum stofnunum, að þær reyni að greiða fyrir því, að stofnuð geti orðið hlutafélög um þýðingarmikil verkefni með því að taka að sér milligöngu um að selja til almennings hlutabréf. — En höfuðhlutverk bankans er auðvitað að útvega lánsfé erlendis og innanlands og vera til ráðuneytis stjórnarvöldunum um fjárfestingarmál.

Sú spurning kom upp, hvort nauðsyn væri að koma á fót sérstakri stofnun í þessu skyni, hvort ekki væri alveg eins heppilegt eða jafnvel heppilegra að fela þetta einhverri stofnun, sem fyrir er, t.d. Landsbankanum. En við nánari athugun á því máli komust allir þeir, sem að þessu máli unnu, fyrst og fremst bæði sérfræðingar Alþjóðabankans, sem voru til ráðuneytis um málið, ríkisstj. með sínum ráðunautum og bankamálanefndin, að þeirri niðurstöðu, að það væri alveg óhjákvæmilegt að setja á fót nýja stofnun. Það samrýmist yfirleitt ekki að hafa með höndum rekstrarlánastarfsemi og öflun lánsfjár til stutts tíma og einnig öflun lánsfjár til langs tíma og forustu um fjárfestingu. Þetta munu menn sjá því gleggra sem menn hugleiða það betur og skoða meira okkar eigin reynslu í þessu tilliti. Til þess á hinn bóginn að gera þessa stofnun sem allra ódýrasta, þá var tekið það ráð, að öll afgreiðslustörf stofnunarinnar, bókhaldsstörf, reikningsskil og öll afgreiðslustörf yfirleitt, skuli framkvæmd af Landsbankanum. Þarf bankinn því ekki að hafa neitt starfsfólk til þess að annast slík störf, og getur því orðið fátt starfsfólk og hverfandi kostnaður í samanburði við það gagn, sem af þessu yrði fyrir landsmenn, ef með þessu móti tækist að útvega meira fé erlendis og innanlands til fjárfestingarlánastarfsemi, en með öðru móti. En það er einlæg von þeirra, sem að málinu standa, að með þessu móti muni verða hægt að útvega meira fjármagn til fjárfestingarmála og fá betri forustu um þau mál, en hægt hefur verið með því fyrirkomulagi, sem verið hefur á þessum málum.

Ég skal svo taka það fram að lokum, að mikil nauðsyn þykir að afgreiða þetta mál einmitt nú á þessu þingi. Ég vil því beina því til hv. fjhn. þessarar d., hvort hún treysti sér ekki til þess að gefa út nál. um málið fljótt, þar sem það hefur nú verið allvel upplýst í hv. Alþ. undanfarnar vikur og hefur hlotið mjög góðan undirbúning. Legg ég svo til, að málinu verði vísað til hv. fjhn. d. að aflokinni þessari 1. umræðu.