22.01.1953
Neðri deild: 55. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vonast til, að hæstv. fjmrh. hjálpi til að greiða fyrir því, sem hann var að óska eftir í síðasta hluta ræðu sinnar, og ef hann vill, að þetta frv. gangi tiltölulega fljótt í gegnum þingið, þá gefi hann örugg og greið svör með þeim upplýsingum, sem nauðsynlegt er að fá um þetta frv., ef það á að verða afgreitt þannig, að öllum sé ljóst, hvað í því felst. Hafi hins vegar hæstv. fjmrh. eitthvað að dylja í sambandi við þetta frv., þá býst ég við, að hann þegi við óskum um að gefa þær upplýsingar, sem farið verður fram á. Ég sé, að það hefur a.m.k. við umr. málsins fram að þessu í Ed. gengið all erfiðlega að fá þær upplýsingar, sem íslenzkum þm. er nauðsynlegt að fá, svo framarlega sem þeir eiga að geta gert sér rétta hugmynd um þetta frv., og það gæti þess vegna flýtt fyrir afgreiðslu þess, ef upplýsingar væru nú gefnar.

Ef ég á að draga saman í aðalatriðum það, sem mér finnst koma fram sem stefnuyfirlýsing viðvíkjandi þessu frv. út úr ræðu hæstv. fjmrh. og út úr frv. sjálfu, þá er það eftirfarandi: Héðan af, eftir samþykkt þessa frv., þá á ríkið, þ.e. ríkissjóður eða ríkisstjórn, ekki fyrst og fremst að vera milliliðurinn við væntanlega eflingu atvinnuveganna á Íslandi og sérstaklega virkjun okkar fossa, heldur á að skapa þarna nýjan aðila samkv. sérstöku samkomulagi við ameríska Alþjóðabankann og með sérstöku tilliti til þess að efla einkaauðvald á Íslandi. Og ég skal nú reyna að færa rök að því, sem mér þætti mjög vænt um, að hæstv. fjmrh. mótmælti, ef það væri rangt hjá mér, að þetta muni vera tilgangurinn með þessu frv.

Mér fannst hæstv. ráðh. nokkuð daufur í dálkinn, þegar hann var að lýsa því yfir, að það hefði við athugun á þessum málum komið í ljós, að það væri ekki álitið heppilegt, að ríkið væri milliliður t.d. við útvegun fjár og fjárfestingu í virkjun okkar fossa, og þetta hefði komið í ljós í sambandi við samninga við ameríska Alþjóðabankann. Og í frv. eru, eins og ég mun sýna fram á hér, gerðar sérstakar ráðstafanir til þess, að sérstaklega sé ýtt undir einstaka auðmenn á Íslandi, en ekki ríkið og bæjarfélög. Okkur er öllum kunnugt, að ríkið hefur með lögum einkaaðstöðu til virkjunar fossanna og annars slíks.

Hingað til hefur líka verið gengið út frá því á Íslandi, að öll stóriðja hér væri óhugsandi öðruvísi, en að ríkið ætti hana. Með sérstökum lögum hefur allt atvinnulíf Íslands verið sett undir sérstakt eftirlit ríkisins í gegnum fjárhagsráð og ætlazt til þess, að öll aukning okkar atvinnuvega, öll fjárfesting í landinu væri skipulögð af ríkinu. Nú er því allt í einu lýst yfir, að þarna eigi að breyta um, það hafi komið í ljós í sambandi við umræður við ameríska Alþjóðabankann. Og mín fullyrðing, sem ég mun á eftir leitast við að sanna, er sú, að með þessu frv. sé stefnt að því, að það sé amerískur banki, — og ég kalla Alþjóðabankann í þessu sambandi amerískan banka, vegna þess, eins og hæstv. ráðh. veit, að þá er meiri hl. hlutafjárins í honum eign amerískra manna og bankinn framfylgir algerlega pólitík ameríska auðvaldsins, þrátt fyrir það þó að hin og þessi önnur lönd eigi að nafninu til ofur lítið hlutafé þar í.

Ég álít, að það sé tvenns konar tilgangur með þessu frv., og mun nú reyna að færa sönnur á það, í fyrsta lagi að koma á áframhaldandi eftirliti amerískra auðmanna með íslenzku efnahagslífi og í öðru lagi að knýja fram þá breytingu á íslenzku atvinnulífi að stefna í burtu frá ríkisrekstri og bæjarrekstri yfir í einkarekstur, líka með stóriðjuna. Ég vil aðeins taka það fram, að svo fremi sem það reynist rétt hjá mér, að þetta sé tilgangurinn, þá er það jafnvel í mótsetningu við alla þá stefnu og alla þá venju, sem hingað til hefur ríkt í íslenzku efnahagslífi, og líka í mótsetningu við alla þá stefnu, sem mörkuð var með m.a. þátttöku Sjálfstfl. og Framsfl. í þeirri stj., sem Alþfl. hafði forustuna í 1947, og þar var lögð í lögunum um fjárhagsráð. Ég skal aðeins strax skjóta því inn í, út af því, sem hæstv. ráðh. talaði um, að það hefði gengið svo illa með fjármagn, ef til vill ekki erfiðast að fá að láni þann útlenda hluta, sem þurfti til framkvæmda hér heima, en jafnvel erfiðast með það innlenda, vegna þess, hve lítið fjármagn safnaðist, hve sparnaðurinn væri í molum, — ég skal taka það fram, að þetta, hve illa hefur gengið með þennan hlut, þetta atriði, þessa hlið fjárfestingarinnar, stafar eingöngu af rangri efnahagspólitík ríkisstj. sjálfrar, af því að hún hefur, eins og ég hef svo oftsinnis talað hér um, aldrei skilið, hvað það er, sem skapar auðinn. Hún hefur auðinn gangandi ónotaðan allt í kringum sig, í höndum atvinnuleysingjanna. Hún hefur vinnuafl, sem getur skapað svo skiptir hundruðum millj. kr. á ári af auði, en hún kann ekki, af því að hún skilur ekkert í efnahagslífi þjóðarinnar, að hagnýta þennan auð, sem liggur ónotaður um allt land, til þess að skapa með honum — við skulum segja — stórar virkjanir og annað slíkt. Það er eingöngu fyrir algert skilningsleysi hæstv. ríkisstj., áhugaleysi eða eitthvað annað verra á því, hvaða afl það er, sem skapar auðinn í þjóðfélaginu, að ríkisstj. hefur á undanförnum árum ekki veríð fær um að hagnýta þann auð, sem Ísland á, bæði í sínum auðlindum og í sínum verkalýð. Við hefðum aldrei þurft að vera í neinum vandræðum með það innlenda fjármagn til okkar framkvæmda hér heima, svo framarlega sem ríkisstj. hefði skilið þetta. Þetta er ég reiðubúinn, eins og ég hef lýst oft yfir áður, að ræða við hæstv. ríkisstj., ef hún nokkurn tíma þyrði að hætta sér út í nokkrar umr. um fjárhagsmál, en mun ekki gera frekar að umtalsefni að sinni, aðeins minna hana á, að hún gekk sjálf út frá því, að þessu prinsipi, sem ég hér hef talað um, væri framfylgt, þegar lögin voru sett um fjárhagsráð 1947 og gengið var þá út frá því, að það væri skylda ríkisstj. að sjá um, að allir hefðu næga atvinnu og allt vinnuafl landsins væri þar með fullkomlega hagnýtt.

Ég mun nú þess vegna taka fyrir tvennt, sem ég álit sýna bezt, hvert stefnt er með þessu frv., og reyna að sanna, að það sýni og sanni, að sá tilgangur er með því, sem ég gat um í upphafi míns máls. Ég mun fyrst taka fyrir meðferðina á mótvirðissjóðnum og í öðru lagi áburðarverksmiðjuna.

Eitt höfuðatriðið með þessu frv. er að fá Framkvæmdabankanum sem stofnfé skuldabréfin fyrir lánum úr mótvirðissjóðnum og gefa honum raunverulegt vald yfir þeim sjóði. Og hér er það alveg auðséð á þessu frv., að gengið er sérstaklega út frá því, að þessi mótvirðissjóður eigi að vera nokkurs konar undirstaða að þessum Framkvæmdabanka. Nú vil ég, ef það væri mögulegt, að hv. þm. geri sér ljóst, hvers eðlis mótvirðissjóðurinn er, að minnsta kosti þeir þeirra, sem þykir einhverju máli skipta, hvernig Alþingi ráðstafar eignum ríkisins. Mótvirðissjóðurinn er skilyrðislaus eign íslenzka ríkisins. Íslenzka ríkið á allan mótvirðissjóðinn einsamalt, og það er ekki hægt samkv. lögum að ráðstafa mótvirðissjóðnum án ákvörðunar Alþingis. Hins vegar settu amerísk stjórnarvöld það skilyrði, þegar þau gáfu það útlenda fé, sem mótvirðissjóðurinn er eins konar framlag gegn, að þau þyrftu að samþykkja, til hvers lán íslenzka ríkisins úr mótvirðissjóðnum færu. Mótvirðissjóðurinn er nú sem stendur aðeins sérstakur reikningur í seðlabankanum. Það þýðir, að á sérstökum reikningi í seðlabankanum, sem er — við skulum segja — í eitt skipti 200 millj., annað skipti 300 millj., einhvern tíma kannske 400 millj. kr., — á þessum sérstaka reikningi liggur mótvirði þess fjár, sem við höfum þegið frá Bandaríkjastjórn. Og ég vil strax taka það fram, til þess að fyrirbyggja allan misskilning um, að þessi sjóður þyrfti að gefa Bandaríkjastjórn nokkur sérstök tök á íslenzku efnahagslífi, að þessi mótvirðissjóður er sem sé aðeins sérstakur reikningur í Landsbankanum. Út af fyrir sig er engin þörf á því fyrir Íslendinga að nota nokkurn tíma nokkuð af þessu út úr þessum reikningi. Ég vona, að flestir skilji það, en skal þó skýra það nánar, ef menn væru í einhverjum efa um það, líka fyrir hæstv. viðskipta- eða bankamálaráðh.

Við skulum segja, að inni á mótvirðissjóði, sem sé inni á sérstökum reikningi, sem ríkið á í seðlabankanum, séu 300 millj. kr. Ef þessi reikningur er látinn liggja þarna og ríkissjóður semur við seðladeild Landsbankans um lán sér til handa upp á 300 millj. kr., sem ríkissjóður ver eins og ríkissjóði þóknast og Alþ. ákveður, þá er það gefið mál, að það, hvernig ríkissjóður ver þessum 300 millj. kr. samkvæmt sérstökum samningi við Landsbankann, sem hann fær bara að láni, er einvörðungu komið undir ákvörðunum Alþ. og ríkisstj. Og það þarf engan mann erlendis að því að spyrja, á hvern hátt íslenzk ríkisstj. og íslenzkt Alþ. notar 300 millj. kr., sem Alþ. með lögum hefur heimilað Landsbanka Íslands að lána íslenzka ríkinu. Og gagnvart þjóðarbúskap Íslendinga er það algerlega sama, hvort 300 millj. kr. eru teknar út úr Landsbanka Íslands sem sérstakt lán frá Landsbankanum til ríkisins, en mótvirðissjóðurinn, hinn sérstaki reikningur í Landsbankanum, látinn liggja og aldrei notaður. Það kemur nákvæmlega í sama stað fyrir þjóðarbúskap Íslendinga og hefur engin áhrif, ekki nokkur. Og ég skora á hæstv. fjmrh., ef hann vill halda því fram, að þetta sé ekki hægt, að svara því. Það er engin ástæða í veröldinni, sem knýr Íslendinga til að nota nokkurn tíma þennan sérstaka reikning, og við getum alveg jafnt án nokkurs skaða fyrir íslenzkan þjóðarbúskap látið seðlabankann, sem við eigum og ráðum skilyrðislaust sjálfir, lána ríkinu þær 300 millj. kr., sem seðlabankinn getur vel látið ríkinu í té, og notað aldrei þetta í mótvirðissjóðnum. Þetta vona ég, að hver einasti hv. þm. skilji. Það er eins og ef einhver þm. færi hér prívat til bankastjóra Landsbankans, gæti fengið hjá honum 10 þús. kr. lán, annaðhvort upp á víxil, þar sem einhver amerískur maður skrifaði á sem ábekingur, eða upp á víxil, þar sem bara væru íslenzkir menn sem ábekingar. En hann getur hvort sem er ekki fengið nema 10 þús. kr. lán. Ef hann fer með víxilinn, sem þeir íslenzku menn skrifa upp á, og fær hann út, þá er hann engum frekar háður með það, og hann þarf ekki að nota sér viðskipti út á reikning. Hann getur valið þarna milli. Íslenzka ríkið getur valið alveg um, hvort það tekur heldur lán hjá sjálfu sér í seðlabankanum eða hvort það vill endilega taka lán út úr þessum sérstaka reikningi, sem þýðir það, að amerískur aðili verður að samþykkja, til hvers við notum það. Það er þess vegna, ef allt væri með lögum, ekkert nema blekking, að við þyrftum sérstaklega að taka peninga út úr mótvirðissjóði til þess að verja þeim til fjárfestingar hér innanlands. Það, sem okkar þjóð hefur eignazt, hefur hún eignazt — í þessu sambandi — gegnum þær gjafir, sem Ameríkanarnir hafa gefið okkur, við skulum segja vélar til Sogsvirkjunarinnar eða annað slíkt, og þar með er sá fengur, sem þjóðarbúskapnum er að því, kominn inn í landið. Það, sem eftir er, er aðeins spursmál um reikningsfærslu. En ég skal viðurkenna, að þetta, sem ég nú hef sagt, var amerísku ríkisstjórninni jafnljóst og mér. Þeim amerísku aðilum, sem veittu lánið með mótvirðissjóðnum, var jafnljóst, að Íslendingar gátu hagnýtt sér lán úr seðlabankanum á þennan hátt, sem ég nú hef gert grein fyrir. Og þess vegna munu þeir hafa sett leynilegt skilyrði, sem aldrei hefur fengizt upplýst hér á Alþ., en ég margoft hef haldið fram ómótmælt, og það skilyrði var eftirfarandi: að um leið og mótvirðissjóður var skapaður, þá skyldi bankastjórnum í íslenzku bönkunum, og þá fyrst og fremst Landsbankanum, bannað að auka lánveltingar á Íslandi og auka seðlaútgáfu á Íslandi nema með leyfi amerískra eftirlitsmanna, þannig að íslenzk ríkisstjórn og íslenzkt Alþ. gætu ekki hagnýtt sér þá leið, sem ég var að benda á áðan, vegna þess að það væri bannað að auka lánveitingar úr Landsbankanum til íslenzka ríkisins og bannað að auka seðlaútgáfuna nema með leyfi leynilegs amerísks eftirlitsmanns. Þetta ákvæði er hvergi til í opinberum samningum né í íslenzkum lögum né amerískum lögum. En þetta ákvæði virðist hafa verið í krafti, síðan mótvirðissjóðnum var komið á laggirnar. M.ö.o., það er þarna leynileg stjórn, bak við Landsbankann og bak við ríkisstjórnina, á seðlaútgáfunni og lánveitingunum á Íslandi, til þess að koma í veg fyrir, að Íslendingar hagnýti sér þá aðferð, sem ég benti á áðan, til þess að lána út í fjárfestingu á Íslandi án þess að þurfa að spyrja ameríska menn um leyfi. Þessum leynisamningi hefur ekki verið mótmælt, og tilvera hans er það eina sem skýrir það, að íslenzka ríkisstj. skuli ekki hafa farið þá leið, sem ég benti á.

Nú á hins vegar að færa sig upp á skaftið. Nú á að taka mótvirðissjóðinn út úr Landsbankanum að mestu leyti og setja hann undir stjórn sérstaks banka, banka, sem eftir því sem sjálfur fjmrh. viðurkenndi hér áðan, er myndaður með beinu samkomulagi við Alþjóðabankann. Og við þurfum ekki langt að fara til þess að renna grun í, hvernig muni eiga að starfrækja hann. Fyrrverandi opinber eftirlitsmaður Alþjóðabankans með fjárreiðum Íslendinga, dr. Benjamín Eiríksson, og núverandi leynilegur eftirlitsmaður Alþjóðabankans með fjármálum íslendinga, dr. Benjamín Eiríksson, formaður bankamálanefndarinnar, á að verða bankastjóri þessa banka og þar með fulltrúi ameríska Alþjóðabankans gagnvart Íslendingum um fjárfestingu, eftirlitsmaður þeirra með þessu, til þess að sjá um, að þessum fjármunum Íslendinga sé ráðstafað á þann hátt, sem þeir hafa velþóknun á. Það á að taka úr höndum íslenzku ríkisbankanna og íslenzku ríkisstj. meðferðina á útlendum lánum, meðferðina á mótvirðissjóðnum og öðru slíku. Og þetta á að knýja með slíku offorsi gegnum Alþ., að það á að neita fjhn. Alþ. um möguleika til þess að heyra skoðanir íslenzku ríkisbankanna viðvíkjandi þessum ráðstöfunum. Það er sem sé verið að færa sig upp á skaftið með því að taka nú þennan mótvirðissjóð úr höndum seðlabankans og setja hann í hendur sérstaks banka, sem á að vera í sérstöku sambandi og undir sérstöku eftirliti erlends banka. En það er ekki nóg með þetta, og nú kem ég að þeim punkti, sem ég veit að hæstv. fjmrh. mun kinoka sér við að svara, mun kinoka sér við að gefa upplýsingar um. Og það er eftirfarandi atriði:

Mótvirðissjóður er, eins og menn vita, sérstakur reikningur nú sem stendur í Landsbankanum. Við skulum segja, — svo að ég nefni einhverja upphæð, hún er auðvitað eitthvað mismunandi, — að hún sé 300 millj. kr. Þegar nú lánað er út úr þessum mótvirðissjóði, eins og nú hefur verið gert, til Sogsvirkjunarinnar, til Laxárvirkjunarinnar, til áburðarverksmiðjunnar, þá er meiningin, að þau lán séu af þessum stofnunum greidd aftur. Mótvirðissjóðurinn er eign ríkissjóðs. Þegar lánin, sem ríkissjóður hefur veitt ár mótvirðissjóði, eru borguð aftur, þá getur ekki verið neinn vafi á því eftir öllum lögum, að endurgreiðslan á lánunum úr mótvirðissjóði er skilyrðislaust eign ríkissjóðs, sem ríkissjóður getur ráðstafað eins og honum þóknast og er ekki lengur háður því leyfi, sem nú þarf hjá amerískum stjórnarvöldum til þess að ráðstafa úr mótvirðissjóði. M.ö.o., mótvirðissjóður er sérstök eign íslenzka ríkisins, en það má ekki lána úr honum nema með samþykki amerísku ríkisstjórnarinnar. En það gildir aðeins um lánin úr mótvirðissjóðnum. Jafnóðum sem búið er að lána — við skulum segja — eins og 300 millj. úr mótvirðissjóðnum og hann er þurrausinn, þá er mótvirðissjóðurinn ekki lengur til, þá er ekki lengur til sérstakur reikningur á seðlabankann, sem þarf samþykki amerískra stjórnarvalda til þess að veita úr. Og þetta vil ég að menn geri sér ljóst. Þegar búið er að lána allan mótvirðissjóðinn út, þá er mótvirðissjóðurinn ekki lengur til, þá er þessi sérstaki reikningur í Landsbankanum ekki lengur til og þar með ekki lengur til neinn sérstakur sjóður, sem íslenzk ríkisstjórn þarf að spyrja amerísk stjórnarvöld um, hvernig hún megi nota. Þetta er alveg skýrt, bæði samkvæmt íslenzkum og amerískum lögum.

Svo komum við að allt öðrum hlut, sem ekkert á skylt við mótvirðissjóð, ekki nokkurn skapaðan, hræranlegan hlut, og það er, á hvern hátt þeir íslenzkir aðilar, sem fengið hafa lánið hjá ríkissjóði úr mótvirðissjóði, greiða sínar skuldir, sitt lán til ríkissjóðsins og hvernig ríkissjóður ráðstafar því láni. Þeir peningar, sem áburðarverksmiðjan, Sogsvirkjunin og Laxárvirkjunin greiða til ríkissjóðs, eru alger eign ríkissjóðs, alveg óháð nokkru samþykki Ameríkananna um, hvernig þeim skuli verja. Þetta vil ég taka ákaflega greinilega fram, því að til allrar óhamingju, eins og ég m.a. benti greinilega á í sambandi við samþykkt þáltill. á síðasta þingi, viðvíkjandi því að verja helmingnum til landbúnaðarins, þá hefur hvað eftir annað ruglazt inn í íslenzk lög og þáltill. nafnið á þessum lánum endurgreiddum til ríkissjóðs og þau verið kölluð mótvirðissjóður. Slíkt er hinn hrapallegasti misskilningur út frá lögum. Endurgreiðsla mótvirðissjóðslánanna á eftir lögum og samningum að renna til ríkissjóðs. En mér er spurn, — og nú veit ég, að hæstv. fjmrh. mun hliðra sér hjá að svara, vegna þess að það vill hann dylja: Er það meiningin að greiðslurnar á lánum úr mótvirðissjóðnum, að greiðslurnar á þeim lánum, sem ríkissjóður veitir Sogsvirkjuninni, Laxárvirkjuninni og áburðarverksmiðjunni, eigi að renna til Framkvæmdabankans og vera þar raunverulega sama skilyrði bundnar um leyfi amerískra eftirlitsmanna til notkunar þeirra eins og mótvirðissjóðurinn var? Þessu var skorað á hæstv. fjmrh. að svara í Ed. Og þegar skorað var á hann að svara þessu, þá þagnaði hann, vegna þess að þarna kom hann að atriði, sem hann vildi ekki koma upp um. Þetta á þjóðin ekki að fá að vita. Hún á ekki að fá að vita það, hvort endurgreiðslurnar á lánunum úr mótvirðissjóðnum skuli vera undir sams konar amerísku kontroll og samsvarandi amerískum skilyrðum háðar og lánveitingar úr mótvirðissjóðnum núna. Ég vil skora á hæstv. ráðh. að svara þessu. Og ég vil minna hann í því sambandi, svo að hann haldi ekki, að það sé ég einn, sem ber einhverja umhyggju út af þessu, á athugasemdirnar, sem fram koma frá einum bankastjóra Landsbanka Íslands, Jóni Árnasyni, einmitt viðvíkjandi hinu ameríska eftirliti með mótvirðissjóðnum, þar sem hann meira að segja ber fram þá tillögu, að það geti verið bezt, ef við eigum að komast fram hjá þessu sífellda og ævarandi eftirliti, að endurgreiða heldur mótvirðissjóðinn.

Ef hæstv. ráðh. er í einhverjum efa um, að það sé rétt hjá mér, að eftir lögum og samningum sé það ríkissjóður Íslands, sem sé eigandi mótvirðissjóðsins og ráðstafi lánunum úr honum og lánin skuli greiðast í ríkissjóð, þá vil ég aðeins minna hann á þá lánssamninga, sem hann þegar hefur gert við þær stofnanir, sem fengið hafa lánin úr mótvirðissjóði. Í hans samningi við stjórn Sogsvirkjunarinnar stendur, með leyfi hæstv. forseta, í byrjuninni:

„Sogsvirkjunin gerir hér með kunnugt, að hún er orðin skuldug ríkissjóði Íslands um kr. 11.000.000.00“ o.s.frv. Og svo síðar: „Sogsvirkjunin skuldbindur sig til þess að veðsetja ríkissjóði Íslands með 1. veðrétti allar eignir Sogsvirkjunarinnar fyrir láni þessu og öðrum þeim lánum, er ríkissjóður kann að veita henni.“

Það er þannig ekkert spursmál um það, að eftir öllum lögum og samningum er það ríkissjóður, sem á mótvirðissjóðinn, ráðstafar honum, og greiðslurnar úr honum renna beint í ríkissjóð aftur. Og það er þá sem sé eitthvað nýtt, einhver nýr leynisamningur, sem er til kominn, svo framarlega sem amerísk yfirvöld gera kröfu til þess í gegnum Alþjóðabankann eða öðruvísi að hafa einhver ítök um lánin út aftur á þeim peningum, sem lánaðir hafa verið úr mótvirðissjóði, og slíkt þýðir þá óhjákvæmilega svo að segja ævarandi kontrol, ævarandi eftirlit amerísks auðvalds með því fé, sem einu sinni var gefið hingað og Íslendingar áttu að leggja fram fé á móti. Amerískt auðvald hefur þá áskilið sér það að mega alltaf kontrolera þessar 400 millj. kr., eða hvað sem það verður, sem þeir láta hingað að gjöf, allan þann tíma, sem þetta fjármagn heldur áfram að veltast í íslenzku atvinnulífi og vaxa vegna þeirra háu vaxta, sem af því eru teknir. Þetta vil ég skora á hæstv. fjmrh. að upplýsa, hvernig þarna stefnir.

Ég ætla ekki að fara að rekja hér álitið, sem hér liggur fyrir frá Landsbankanum. Ég vil leyfa mér aðeins að benda hv. þm. á að kynna sér það. Það er prentað sem fylgiskjal með áliti minni hl. fjhn. Ed. á þskj. 543, og ég held, að það sé í fyrsta skipti, sem það kemur fyrir hér á Alþ., að minni hl., og það fulltrúi sósíalista í minni hl. í fjhn., birti álit frá Landsbanka Íslands einn, en meiri hl. fæst ekki til þess. Og það þarf kannske ekki langt að leita til þess að sjá, hvernig á því muni standa. Það var vitanlegt, að hæstv. ríkisstj. óttaðist það, að íslenzku bankarnir fengju að láta sitt álit í ljós á þessu máli. Fjhn. Ed. var fyrirskipað að gefa svo skamman tíma til umsagnar fyrir bankana, — það var bara um helgi, — að þeir vildu ekki þess vegna svara. Og ég heyrði það á hæstv. fjmrh. núna, að hann ætlaðist til þess, að fjhn. þessarar hv. deildar hefði sama hátt á. Það átti að drífa þetta með sama hundapísknum í gegnum Alþ. eins og við hefur verið haft, þegar einhver amerísk hernámsfyrirtæki hafa verið hérna á ferðinni.

En hvernig stendur nú á því, að sá bankastjóri Landsbankans, sem ég t.d. einstaka sinnum hef nú átt í nokkrum deilum við um fjármál, vegna þess að hann hefur tekið oft mjög — að mér hefur fundizt — íhaldssama afstöðu í málum, þar sem ég hef viljað vera róttækur, — hvernig stendur nú á því, að einmitt þessi háttv. bankastjóri Landsbankans, Jón Árnason, skuli nú kveða upp úr með það, að það sé svo komið, eins og hann segir í sínu bréfi, dags. 3. des., sem hann sendir þá til bankamálanefndarinnar, að „ef afskipti Bandaríkjastjórnar halda áfram, eftir að Framkvæmdabankanum hefur verið afhentur mótvirðissjóðurinn, álít ég, að ekki sé um nema tvær leiðir að ræða, og önnur þeirra er að leita samninga við stjórn Bandaríkjanna um endurgreiðslu mótvirðissjóðsins,“ — hvernig stendur á, að svona skuli vera komið á Íslandi?

Landsbankinn hefur löngum í þeim pólitísku deilum, sem fram hafa farið á Íslandi síðustu tvo áratugi, verið vígi innlends afturhalds í fjármálum Íslendinga. Þess vegna hefur á sínum tíma Alþýðuflokkurinn og á seinni tíma Sósialistaflokkurinn mjög oft átt í hörðum deilum við Landsbankann og þá, sem honum hafa stjórnað. Nú hefur hins vegar á síðustu 5 árum gerzt sú þróun á Íslandi, að stjórnarvöld landsins hafa á þessum fáu árum gerzt slíkir skósveinar erlends afturhalds, að sjálfur Landsbankinn mótmælir nú frv. þessarar ríkisstjórnar í nafni þess, að hann er íslenzkur banki. Þótt íhaldssamur sé, þá mótmælir hann sem íslenzkur banki þeim aðferðum, sem hér eru hafðar í frammi, þeim erlendu afskiptum, sem hér koma í ljós, og þeim erlendu yfirráðum, sem hér er verið að skipuleggja yfir atvinnulífi Íslendinga. Og það gerir hann í nafni innlendrar afstöðu. Það er svo komið, að jafnt þeir, sem róttækir eru, íhaldssamir eða jafnvel afturhaldssamir á Íslandi, standa meira eða minna sammála gegn því, sem hæstv. ríkisstj. hér er að reyna að koma fram. Svona djúpt er hæstv. ríkisstj. sokkin í þessum málum. Það er verið að finna út alveg sérstakar aðferðir, eftir sérstakri kröfu Alþjóðabankans, til þess að reyna að tryggja það, að amerísku auðvaldi séu sköpuð ævarandi ítök og yfirráð yfir efnahagslífinu; eftir að búið er meira að segja að klára mótvirðissjóðinn, þá geti þessi ítök haldið áfram. Mér finnst það þess vegna ljóst og ómótmælanlegt, að einn höfuðtilgangur þessara laga sé sá að tryggja framvegis, líka nú eftir að hinni svo kölluðu efnahagsaðstoð er lokið, amerískt eftirlit með atvinnu- og fjármálum Íslendinga.

Þá kem ég að því, sem mér virðist vera annar höfuðtilgangur þessa frv., og það er að gerbreyta þeirri stefnu, sem verið hefur hér á Íslandi undanfarið, það er að koma fyrirtækjum, sem Íslendingar hafa álitið að vegna smæðar þjóðarinnar væri óhjákvæmilegt að væru almannaeign eða ríkiseign, í eign einstakra auðmanna. Það hefur hingað til verið skoðun vor og þótt alveg sjálfsagt, að t.d. öll stærri vatnsorkuver á Íslandi væru eign ríkisins, og það er bundið þannig með lögum, til léttis fyrir bæjar- og sveitarfélög. Sama hefur alltaf verið álitið, þegar um stóriðju hefur verið að ræða á Íslandi, og kom greinilega í ljós, þegar áburðarverksmiðjan var sett á laggirnar og það fyrirskipað, að hún skyldi vera sjálfseignarstofnun. Nú kemur það hins vegar í ljós, að hér á að gera breytingu á. Hér á að gerbreyta þeirri stefnu, sem ríkt hefur á Íslandi fram að þessu, og ég ætla bókstaflega að leyfa mér að fullyrða, að með þessum banka eigi fyrst fyrir alvöru að innleiða og skipuleggja prívatkapítalisma, þ.e. einkaauðvald, á Íslandi, skipuleggja einkaauðvald á Íslandi í slíkum stíl, að það einkaauðvald, sem við höfum þekkt fram að þessu, sé ekki neitt í samanburði við það. Hingað til hefur okkur ekki dottið í hug, að stóriðja á Íslandi væri annað en ríkiseign. Það hefur alltaf verið gengið út frá því sem sjálfsögðu. Nú er auðséð, að með þessum banka og með þeim ákvæðum, sem eru í þessum lögum, þá á að stíla að því að koma upp stóriðju á Íslandi í eign erlendra og innlendra manna og undir þeirra stjórn. Og ég ætla nú að taka fyrir í þessu sambandi alveg sérstaklega ákvæðin í 3. gr. um hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni.

Ég hef nokkrum sinnum áður gert áburðarverksmiðjuna að umtalsefni á þessum stað, og ég held, að það sé rétt að rifja upp í eins stuttu máli og ég mögulega get, hvað gerzt hefur í sambandi við þá áburðarverksmiðju, því að nú held ég, að takmarkinu sé náð hjá hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj., sem stefnt var að með því samsæri, sem hafið var þegar áburðarverksmiðjan var til 3. umr. í síðari deild, í Ed., þegar lögin voru sett, og nú er verið að binda endi á, — samsærið um að stela áburðarverksmiðjunni af ríkinu og koma henni á hendur einstakra manna. Og ég ætla aðeins hérna að minna á nokkur atriði, sem mér virðast nokkuð grunsamleg í sambandi við alla meðferð áburðarverksmiðjumálsins, þegar litið er á það í sambandi við þann endahnút, sem nú á að reka þar á. Ég ætla ekki að fara neitt nákvæmlega út í neitt af því, en ég ætla aðeins að minna á það, til þess að menn sjái, hvernig farið er að því að taka stærsta fyrirtæki, sem stofnað hefur verið á Íslandi, út úr eign ríkisins og koma því til einstakra manna.

Það fyrsta, sem ég vil minna á í því sambandi, er, að við síðustu umræðu í síðari deild á Alþ. á síðustu dögum þingsins er samþykkt brtt. við 13. gr. l. um áburðarverksmiðjuna, um að verksmiðjan skuli rekin sem hlutafélag, svo framarlega sem fáist einstakir aðilar með 4 millj. kr. kapítal. Síðan var það vitanlegt, að einn aðili á landinu, Samband íslenzkra samvinnufélaga, bauðst til að leggja fram allar þessar 4 millj. og átti líklega að fá þær að láni hjá Landsbankanum. Og fyrir sérstaka samninga innan ríkisstj. var sérstökum aðilum í Reykjavik, sem voru taldir svona frekar hlynntir íhaldinu, gefið tækifæri til þess að fá að leggja fram helming á móti, svo að Sambandið eignaðist ekki allt þarna á móti ríkinu. Það var fyrsta atriðið í þessu.

Annað atriðið er svo, að hér á Alþ. gefa nokkrir ráðherrar Framsfl. yfirlýsingu um það á næsta þingi á eftir, að áburðarverksmiðjan skuli vera eign þessa hlutafélags. Í l. stóð, að hún væri sjálfseignarstofnun ríkisins. Í 13. gr. stóð, að hún skyldi rekin af hlutafélagi, en nú lýsa ráðh. Framsfl. því yfir, að hún skuli vera eign þessa hlutafélags.

Svo ætla ég að minnast á þriðja atriðið, sem er hins vegar nú sem stendur myrkrunum háð. Einu sinni kom fram sú hugmynd, að hluti af framlagi Ameríkana og Marshallstofnunarinnar til áburðarverksmiðjunnar hefði verið gjöf, sérstök gjöf til áburðarverksmiðjunnar, og einu sinni var meira að segja hæstv. fjmrh. á þeirri skoðun. Hann mun hafa áttað sig á því seinna. Og meira að segja einn ráðh., sem var með honum í stjórn, þeirri stjórn, sem fór frá 1949, var á þeirri skoðun, að viss hluti þarna væri sérstök gjöf til áburðarverksmiðjunnar. En þeir munu hafa áttað sig á því seinna, að það væri hentugra, að þetta kæmi inn í það venjulega, og seinast, þegar spurt var að, lýsti hæstv. fjmrh. því þess vegna yfir, að það væri engin sérstök gjöf til áburðarverksmiðjunnar. En voru máske í sambandi við það, að hætt var við að hafa þarna sérstaka gjöf, sett einhver sérstök skilyrði frá hendi Ameríkana um, hvernig þessi áburðarverksmiðja skyldi vera rekin og hvernig henni skyldi vera stjórnað og til hvers hún skyldi verða notuð?

Ég ætla að minna á í fjórða lagi, að þegar talað var um, að áburðarverksmiðjan yrði máske sett niður á Hvaleyri, þá komu amerískir liðsforingjar úr hernum til þess að athuga sérstaklega aðstöðuna á Hvaleyri. Hvað höfðu amerískir liðsforingjar úr hernum að gera með að athuga stæði fyrir áburðarverksmiðjuna, ef ekkert sérstakt og engir sérstakir baksamningar voru þar um? Það var ekkert undarlegt, þó að vaknaði grunur um ýmiss konar annan tilgang í sambandi við rekstur áburðarverksmiðjunnar.

Í fimmta lagi kom það fram, að vélarnar, sem til áburðarverksmiðjunnar voru keyptar upprunalega, voru jafnvel hæfar til að framleiða sprengiefni eins og köfnunarefni. Það er að vísu ekki mjög langt á milli, en það var að minnsta kosti fyrst eftir að málið var gert sérstaklega opinbert, að formaður áburðarverksmiðjunefndarinnar sá ástæðu til þess að fara að tilkynna, að það mundi jafnvel eiga að framleiða fleiri áburðartegundir heldur en eina, en til þess þyrfti þá að kaupa sérstakar vélar til áburðarverksmiðjunnar, sem fram að þessu hafði ekki sérstaklega verið hugsað.

Í sjötta lagi, þegar hæstv. fjmrh. kom heim með leyfið frá Ameríkönum til að byggja áburðarverksmiðju í vasanum, þá tilkynnti hann um leið, að það hefði gengið illa með leyfið fyrir sementsverksmiðju. Það var auðséð, að Ameríkanarnir höfðu mun meiri áhuga, hvort sem sá áhugi stendur í sambandi við her eða annað, á því að byggja áburðarverksmiðjuna heldur en á því að leyfa okkur að koma hér upp sementsverksmiðju.

Svo kemur það í sjöunda lagi, að þegar verið er að ráða verkamenn við vinnu við áburðarverksmiðjuna hér inn frá í Gufunesi, þegar loksins er búið að ákveða stað fyrir hana, þá er þeim verkamönnum hvað eftir annað sagt, að þeir þurfi jafnvel að ganga undir eftirlit hjá ameríska sendiráðinu til þess að vera ráðnir þar, ganga í gegnum samsvarandi hreinsunareld eins og menn ganga í gegnum, þegar menn fara á Keflavíkurflugvöll.

Og ég skal í áttunda lagi aðeins minna á, því að það hef ég gert áður hér á þingi, að það var með undarlegum hætti það offors, sem beitt var til þess að pína fram samningana um rafmagnssölu Sogsvirkjunarinnar til áburðarverksmiðjunnar, og hve rafmagnið var þar pint niður úr öllu valdi og þó sérstaklega eitt, heimtað, að það væri samið til 15 ára, án þess að Sogsvirkjunin hefði nokkra möguleika á því að vera búin eftir þrjú ár að auka raforkuframleiðsluna á Íslandi þannig, að hún gæti fullnægt vaxandi þörf Reykvíkinga. Það var auðséð, að það var vald utan frá, sem pískaði þarna á um þetta. Ég hafði góða aðstöðu til þess að fylgjast með því.

Svo kemur nú ákvörðun eftir sérstöku samkomulagi við Alþjóðabankann, eins og allt þetta frv., sem hér liggur fyrir, um, að hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni, sem ríkið á, 6 millj. kr., skuli afhent Framkvæmdabankanum sem stofnfé. Hlutabréf þessi má bankinn hvorki selja né veðsetja án samþykkis Alþ., stendur auðvitað þarna með, en til hvers er Framkvæmdabankinn að fá slíkt stofnfé, ef hann má ekki selja hlutabréfin? Auðvitað væri það ekki til neins. Auðvitað er tilgangurinn, að þessi hlutabréf séu seld, enda er sá tilgangur tekinn fram í 7. gr. l.; og þó að hæstv. ríkisstj. sé ofur lítið feimin, þegar hún er að tala hérna við okkur Íslendinga, við að segja, hver tilgangurinn sé með þessu, þá er dr. Benjamín Eiríksson ekkert feiminn. Hann veit, hverja hann hefur á bak við sig. Hann þarf ekki að leita kosninga í kjördæmum hér á Íslandi á eftir. Hann er kosinn af Alþjóðabankanum til þess að stjórna bönkum hér á Íslandi og segja ríkisstj. okkar fyrir verkum. Hvað segir dr. Benjamín Eiríksson, formaður bankamálanefndar, tilvonandi bankastjóri Framkvæmdabankans, hinn fyrrum opinberi og nú leynilegi eftirlitsmaður Alþjóðabankans með fjármálum Íslands? Hann segir aðspurður á fjárhagsnefndarfundi Ed., að hann hugsaði sér, að hlutabréf þessi yrðu seld síðar. M.ö.o., hann er ákveðinn í því að selja þessi hlutabréf. Það er hans meining. Af hverju ætlar hann sér að selja þessi hlutabréf? Af því að það er einn aðaltilgangurinn, sem er yfirlýst, með öllu þessu frv. að efla einkaaðilana á Íslandi. Það á að efla einkaaðilana, einkaauðvaldið á Íslandi, og það á að selja þessi hlutabréf ríkisins í áburðarverksmiðjunni til þess að efla einkaauðvaldið á Íslandi. Dr. Benjamín Eiríksson hefur lýst þessu yfir. Og má ég spyrja hv. þm.: Hvenær hafa þeir vitað, að hæstv. ríkisstj. gerði ekki það, sem dr. Benjamín Eiríksson nú hugsar sér? Þekkið þið nokkurt dæmi þess? Það, sem dr. Benjamín Eiríksson hugsaði sér, þegar hann kom hérna einu sinni með gengislækkunarlög, — ja, hæstv. ríkisstj. samþ. þau. Hún hristi bara höfuðið og sagði: „Nú, ég hélt ekki, að þetta væri svona mikið.“ Gleypti alla vitlausu útreikningana með. Nei, það, sem dr. Benjamín Eiríksson hugsar sér, það gerir ríkisstj., vegna þess að það, sem dr. Benjamín Eiríksson hugsar sér, er það, sem Alþjóðabankinn fyrirskipar Íslendingum að gera. Sjálfstæða hugsun hefur hann ekki eða sjálfstæða þekkingu á íslenzku atvinnulífi.

Ef til vill mun nú hæstv. fjmrh. segja, að það þurfi l. frá Alþ., það þurfi samþykki Alþ. til þess að selja hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni. Jú, það þarf samþykki Alþ., það þarf l. frá Alþ. Á ég að segja hæstv. fjmrh., hvernig hann ætlar sér að framkvæma það samþykki Alþ.? Samþykki Alþ. er lög frá Alþ. Einn góðan veðurdag, þegar dr. Benjamín Eiríksson í nafni Alþjóðabankans segir: „Nú hef ég ákveðið að selja hlutabréf ríkisins í áburðarverksmiðjunni,“ þá mun hæstv. fjmrh. með samþykki allrar ríkisstj. gefa út brbl., þar sem ríkisstj. er heimilað að selja þessi hlutabréf. Það er engin þörf að vera að kalla Alþ. saman til svoleiðis smáræðis, til þess að selja þessi 6 milljóna hlutabréf þarna einhverjum góðum mönnum. Það er í hæsta lagi, að það þarf það samkomulag innan ríkisstj., að Sambandið fái ekki að kaupa þau öll, ekki allar 6 millj., heldur t.d. að Sambandið kaupi bara 3 millj. og svo verði það ákveðnir menn, sem íhaldið hefur velþóknun á, sem kaupi hinar 3 millj. Þá verða bara gefin út brbl. um að selja þetta. Ég býst ekki við, að það sé nokkur hv. þm., sem mundi dirfast að halda því fram, að ríkisstj. væri ekki trúandi til svona nokkurs. Ég held þvert á móti, að ríkisstj. telji það sjálfsagt og að hún sé fyrir fram búin að fá leyfi til þess að gera allt í slíkum efnum, sem henni þóknast, og ef einhver hv. þm. skyldi efast um, að ríkisstj. yrði hægt fyrir að hafa þennan hátt á, þá vil ég leyfa mér að minna þá sömu hv. þm. á, að það var einu sinni ákvæði í stjórnarskrá Íslands um, að það þyrfti samþykki Alþ. til vissra hluta, t.d. til hernámsins. Ríkisstj. lék sér að því að samþ. þetta án þess að leggja það fyrir Alþ. fyrr en löngu, löngu seinna, mörgum mánuðum seinna. Sú ríkisstj., sem sjálf samþ. hernámið og býr til stjórnarskrána þar með, henni verður litill vandi að gefa út brbl., ef hún þarf á því að halda, til þess að selja úr eign ríkisins hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni, og þá er hringferðinni lokið. Þá er búið með litla agnúanum, sem laumað var í 13. gr. í áburðarverksmiðjulögunum við síðustu umr. í síðari d., að það skyldi rekið sem hlutafélag, — þá er búið að stela áburðarverksmiðjunni allri af ríkinu, búið að láta allt hlutaféð í hendur einstökum aðilum, þær 100 millj. eða þær rúmar 100 millj., sem vafalaust verður, ég býst við, að ríkið muni alltaf verða að lána meira en þessar 104 millj., sem gengið var út frá, eða leggja fram og lána meira, — ætli hún kosti ekki 125 millj., áburðarverksmiðjan? Þá er búið að koma öllum þessum rúmum 100 millj. kr., eftir skilgreiningu framsóknarráðh. á l., undir eignaryfirráð nokkurra manna hér í Reykjavík. Svona á að fara að því að koma upp stóriðju á Íslandi í höndum einkaaðila, í höndum nokkurra einstakra auðmanna. Svona á að skapa það auðvald á Íslandi, það stóra hringaauðvald á Íslandi, sem hingað til hefur verið óhugsandi að skapa út frá okkar þjóðfélagsháttum. Ég sýndi fram á það hérna áður, að annar aðalhluthafinn í áburðarverksmiðjunni, sem lagði fram 2 millj. kr., græddi meira en þessar 2 millj. á því að kaupa vélar til áburðarverksmiðjunnar frá Ameríku frá því hlutafélagi, sem hann á umboð fyrir, þannig að hann fékk greiddar þessar 2 millj. undireins, sem hann lagði fram í áburðarverksmiðjuna. Þessum mönnum verður vafalaust ekki skotaskuld úr að fá þessar 6 millj. í viðbót með álíka ódýrum hætti. Svona á að fara að því að koma bezta fyrirtækinu í íslenzkum iðnaði úr ríkiseign, sem það er eftir l., og í einkaeign. Ég veit það, að þetta mun ekki verða gert fyrir kosningar. Ég veit, að það mun verða látið bíða fram yfir kosningar, þangað til þessu verður ráðstafað, jafnvel þótt Benjamín reki mikið á eftir.

Þannig er þá auðséð, að tilgangurinn með þessu frv., með þessum l., er það tvennt, sem ég gat um í upphafi míns máls, annars vegar að setja efnahagslíf Íslendinga undir ævarandi amerískt kontrol að óbreyttum þjóðfélagsháttum hér, hins vegar að koma stórfyrirtækjum Íslands, eins og áburðarverksmiðjunni, úr ríkiseign og í einkaeign, í eign einkaauðmanna. Þessi banki á að verða braskbanki amerísks auðvalds á Íslandi, til eflingar prívatkapítalismanum á Íslandi gegn ríkisrekstri og bæjarrekstri á Íslandi, og ef það eru einhverjir aðilar, sem efast um það, þá skulu þeir lesa 7. gr., þar sem hlutverk bankans er rakið. Þar er tekið fram — í 3. lið: „að kaupa ný hlutabréf í fyrirtækjum, sem gagnleg eru þjóðarbúskapnum og arðvænleg að dómi bankastjórnarinnar.“ M.ö.o., það á alveg sérstaklega að fara með peningunum frá þessum banka að ýta undir stofnun einkahlutafélaga á hinum og þessum sviðum atvinnulífsins og kaupa þar hlutabréf, en láta það allt saman vera í eign einstaklinga. Og ég vil alveg sérstaklega benda á það, sem Landsbankinn hefur að segja viðvíkjandi þessum hlutum. Hann leggur til, að þessi liður sé felldur niður, það sé óvanalegt, að bankar kaupi hlutabréf. Og bankastjórnin segir þar, að þetta sé bannað í lögunum um Landsbanka Íslands og henni finnist óeðlilegt, að Alþ. gefi í eitt skipti fyrir öll stofnun, sem rekin er á ábyrgð ríkisins, ótakmarkað umboð til hlutabréfakaupa. M.ö.o., það, sem bannað hefur verið hingað til í l. um Landsbanka Íslands, það, sem ekki hefur þótt rétt með tilliti til þeirra þjóðfélagshátta, sem eru á Íslandi, það er alveg sérstakur tilgangur þessa banka, að ýta undir myndun einkaauðvalds á Íslandi, alveg sérstaklega til þess að auka afköst. síðar segir, með leyfi hæstv. forseta, í 7. lið 7. gr.: „að afla lánsfjár erlendis til framkvæmda, sem eru í samræmi við tilgang Framkvæmdabankans, samkv. 2. og 3. tölulið þessarar gr., enda er Framkvæmdabankinn undanþeginn ákvæði 4. gr. l. nr. 105 21. des. 1945.“ Þessi 4. gr. l. er sú grein, sem ákveður okkar samþykkt á reglunum, sem gerðar voru í Bretton Woods. Samkv. 4. gr. var öllum bönkum Íslands bannað að taka lán erlendis án leyfis ríkisstj. Framkvæmdabankinn á að fá alveg sérstakan einkarétt. Hann á að taka lán erlendis, án þess að ríkisstj. leyfi. Þessi banki einn, sem stendur í sérstöku, dularfullu sambandi við Alþjóðabankann, á einn aðila á Íslandi að hafa leyfi til þess að taka lánsfé erlendis. Það er bannað öllum íslenzkum aðilum að taka lán erlendis nú sem stendur. Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, kaupfélögum á Íslandi, byggingarfélögum á Íslandi, hvaða nytsömum fyrirtækjum sem til eru á Íslandi er bannað að taka lán erlendis. En banki Benjamíns Eiríkssonar á að hafa einkarétt til þess að taka lán erlendis eins og honum þóknast til þeirra framkvæmda, sem honum þóknast, af því að gegnum þennan banka sem einkaréttargöng á nú að renna allt útlent kapítal, sem leyft er að flytja inn til Íslands. Það á að einoka allt það lánsfé, sem hægt er að fá til Íslands, og láta renna gegnum þennan banka. Það er þessi bankastjóri, Benjamín Eiríksson, sem á að ráða því, hvaða menn á Íslandi fá þarna útlend lán. Þetta leggur ríkisstj. til, sem undanfarið hefur ekki þorað að veita íslenzkum aðilum heimild til þess að taka lán erlendis, þó að þeir geti fengið það án ríkisábyrgðar og bæjarfélaga. Hæstv. fjmrh. var ekki sérstaklega að skýra frá þessu. Hann var ekkert að skýra frá því, að hann væri að afsala sér og ríkisstj. öllum rétti til þess að hafa nokkurt eftirlit með og nokkurt vald um, hvaða lán væru tekin hingað til Íslands. Eftir þessari grein getur þessi banki tekið hvað mikil lán sem honum þóknast hjá einhverju auðfyrirtæki í Ameríku, lánað það út til hlutafélagsstofnunar hér á Íslandi, til hvaða hluta sem vera skal, til þess að reka hér hvaða gífurleg stóriðjufyrirtæki sem væri, þótt það þýddi, að slík stóriðjufyrirtæki gleyptu algerlega allan íslenzkan þjóðarbúskap og gerðu raunverulega efnahagslíf Íslendinga að engu. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. var að dylja það af ásettu ráði. Hann minntist ekkert á það sérstaklega. Hann var ekkert að skýra það fyrir þm., hvað í þessu fælist. En þetta er það, sem í því felst, og það má vel vera, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki hugmynd um það sjálf, hvað í þessu felst eða hvað það þýðir. Það má vel vera, að hæstv. ráðh. komi upp og segi: Ja, það er nú ekki meiningin, að þetta sé nú notað til þess að taka t.d. 1.000 millj. kr. og fara að virkja hérna einhverjar stórkostlegar aluminiumverksmiðjur eða hernaðarverksmiðjur eða eitthvað þess háttar, — það er nú ekki meiningin. — Hvað veit hann um, hvað meiningin er með þessu? Hann getur einu sinni ekkert við það ráðið. Það er ekki víst, að Framsókn verði endalaust í ríkisstjórn á Íslandi. Ef Framsókn hjálpar Sjálfstfl. vel við breytingu á kjördæmaskipuninni, þá getur hún vel séð til þess, að Sjálfstfl. verði einn í meiri hluta hérna, og þá er ekki einu sinni víst, að S.Í.S. fái umboðslaunin af því að koma einokunar- og einkaauðvaldi á hér á Íslandi. Þegar búið er að samþykkja þennan hlut, þá er búið að úthluta veði, enda er Tíminn alltaf að prédika það núna, að það sé nú ekkert hættulegt, þótt erlent auðmagn streymi hér inn. Og svo kemur áframhaldið í næsta lið á eftir, þar sem kemur alveg greinilega í ljós, hvernig á að nota það auðmagn, sem bankinn fær þannig einkarétt á að flytja inn til landsins. 8. liðurinn í 7. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „að hafa samvinnu við einkaaðila, sem ráðast í arðvænlegar framkvæmdir, og veita þeim fyrirgreiðslu.“

Það er hvergi nokkurs staðar í þessari 7. gr. tekið fram, að þessi banki eigi að stuðla að því, að ríkið, bæirnir og sveitarfélögin öðlist nú ofur litið betri aðstöðu til þess að sjá landsbúum farborða, til þess að halda t.d. lífi í fólkinu úti um þær dreifðu byggðir landsins, til þess að gera mögulegt að láta atvinnufyrirtækin þar, sem það er ef til vill efasamt, hvort það sé arðvænlegt, en þar sem það er lífsnauðsyn fyrir fólk til þess að lifa. Það voru einu sinni gerðar ráðstafanir til þess að koma togurum út um landið, jafnvel þótt þeir, sem ætluðu að kaupa togarana, ættu ekki peninga til að kaupa þá og jafnvel þótt það væri efasamt, hvað arðvænlegt það væri frá peningalegu sjónarmiði, en það var álitin þjóðarþörf. Það var álitið nauðsynlegt með tilliti til framleiðslu þjóðarinnar og atvinnu hinna vinnandi manna. Og þegar lögin um fjárhagsráð voru samþykkt, þá var sérstaklega tekið fram um tilganginn, og jafnvel hæstv. fjmrh., sem var í þeirri stjórn, sem setti þau lög, gerði gott í því að fletta upp 2. gr. laganna um fjárhagsráð og athuga tilganginn, sem þar er mælt fyrir um, að tryggja öllum vinnufærum mönnum í landinu atvinnu, örugga atvinnu, tryggja þeim réttlátar tekjur og annað slíkt, og bera það saman við þessa 7. gr. um hlutverk þessa banka, þar sem sérstaklega er fyrirskipað að hafa samvinnu við einkaaðila, sem ráðast í arðvænlegar framkvæmdir. M.ö.o., það á að traðka íslenzka þjóð niður í skitinn í sambandi við framkvæmd þessara laga, en það á að sjá um, að einstakir menn á Íslandi fái aðstöðu gegnum þennan banka til þess að fá lán erlendis frá með þeim skilyrðum, sem lánveitendurnir setja fyrir þeim. Hæstv. ríkisstj. veit ósköp vel, hverjir þessir aðilar eru. Það á að lána vildarvinum og gæðingum ríkisstj. fé úr þessum banka til myndunar hlutafélaga, sem verða meira eða minna leppfélög amerísks kapítals. Það á að skapa þannig einkaauðvald, — ég segi skapa það, - vegna þess að það verður það mikið, að það einkaauðvald, sem verið hefur á Íslandi fram að þessu, verður ekkert í samanburði við það. Þessu er lýst alveg yfir í þessum lögum, og það er engin afsökun fyrir nokkurn hv. þm., sem þessi lög samþykkir, að koma eftir á, þegar hann sér, að verið er að brjóta niður ríkisrekstur og bæjar- og sveitarfélagsrekstur á Íslandi og verið að setja allt í hendurnar á nokkrum auðmönnum í Reykjavík, og fara eftir á að kvarta yfir því. Þeir vita þetta nú, til hvers þetta er.

Það er ekki tekið fram um samvinnu við neina aðra aðila þarna, en einkaaðila. Ef tilgangurinn væri að halda þeim þjóðfélagsháttum, sem hér hafa verið á Íslandi, þessu einkennilega samblandi, sem hér er af ríkisrekstri í öllum stærstu fyrirtækjum, af bæjar- og sveitarfélagsrekstri í fjölda af stórfyrirtækjum og af tiltölulega litlum einkarekstri, þá væri ekki tekið svona fram. Í þeim samningi, sem Sósfl., Alþfl. og Sjálfstfl. gerðu um stjórnarmyndun 1944, var það sérstaklega tekið fram, að jöfnum höndum skyldi stutt að eflingu allra þessara þrennu mynda af eignar- og rekstrarfyrirkomulagi, sem hér var á Íslandi. Nú er hins vegar tekið sérstaklega fram um þennan banka, sem á að stjórna allri fjárfestingu á Íslandi framvegis, að hann skuli hafa samvinnu við einkaaðila, og þetta gerir flokkur, sem er að predika það hér yfir okkur, að hann sé samvinnuflokkur. Þessi flokkur og þessi hæstv. ráðh., sem hér kemur fram, er öðru hvoru að reyna að telja þjóðinni trú um, að hann hafi sérstakan áhuga á því að fá íslenzka þjóðfélagið rekið þannig, að það verði samvinnufélög, sem reki atvinnureksturinn í íslenzka þjóðfélaginu. Hvílík hræsni! Öll fjárfesting í íslenzku þjóðfélagi hér eftir á í gegnum þennan banka að gerast í samvinnu við einkaaðila, og við vitum alveg, hvernig þetta verður skýrt, — við vitum, hvað Ameríkaninn meinar með þessu. Ameríkaninn hugsar sér ekki að ýta undir ríkisrekstur, bæjarog sveitarfélagsrekstur né raunverulegan samvinnurekstur á Íslandi. Komi þessi banki til með að styðja Samband íslenzkra samvinnufélaga, þá verður það aðeins í slíkum formum og með þeim skilyrðum, að amerískt einkaauðvald gleypi Samband ísl. samvinnufélaga miklu meira en orðið er með Standard Oil og öðru slíku.

Ég sé, að það er ekki nóg með, að þessi banki eigi að veita einungis lán, sem hægt væri að fá hingað til Íslands án ríkisábyrgðar, heldur á með 9. gr. líka að gefa þessum banka heimild til þess að taka lán á ábyrgð ríkissjóðs, án þess að það sé hverju sinni lagt fyrir Alþ. Fjmrh. getur gert þetta einn, ef ekki er um meiri upphæð að ræða en 80 millj. kr., án þess að spyrja Alþ. Ég sé það, að Landsbankinn hefur í sínum athugasemdum sett fram þá spurningu, hvort Alþ. virðist þetta virkilega hæfa. Jón Árnason segir í sínum athugasemdum, með leyfi hæstv. forseta:

„Verður að telja það með ólíkindum, að Alþingi afsali sér afskiptum af slíku stórmáli, enda brýtur þetta í bága við þær venjur, sem hingað til hafa gilt, að Alþ. taki hverju sinni ákvörðun um erlendar lántökur til langs tíma, bæði um lán ríkissjóðs sjálfs og um lán með ríkisábyrgð.“

Það er ekkert að undra, þó að flestum mönnum, sem hafa haft með fjármál Íslendinga að gera á síðustu áratugum, ofbjóði yfirleitt það, sem hér er stefnt að. Það stingur svo gersamlega í stúf við alla þá varfærni, alla þá íhaldssemi, sem við Íslendingar höfum sýnt í því að láta ekki erlent auðmagn gleypa okkur. Það er enginn annar en sá, sem er að búa sig undir það, að erlent auðmagn gleypi okkur, sem leggur fram frv. eins og þetta, sem hérna liggur fyrir, og ætlast til, að það sé samþ. Og ég vil aðeins benda á smáatriði þarna í sambandi við 9. gr. Það á alltaf að reikna erlenda skuld bankans á því gengi, sem var í gildi, þegar lánssamningurinn var gerður eða þegar stofnað var til skuldarinnar án formlegs lánssamnings. Og svo stendur í 10. gr.:

„Nú tekur bankinn fé að láni... og skal þá samið um það við lántakanda eða lántakendur, að þeir beri halla eða njóti hagnaðar, er verða kann vegna gengisbreytinga, þannig að vaxta- og afborganagreiðslur hækki eða lækki í íslenzkum krónum í hlutfalli við slíkar breytingar.“

Mér sýnist tilgangurinn með þessu vera sá, að þeir, sem bankinn lánar hérna heima, bera raunverulega hallann eða njóti hagnaðarins af gengisbreytingu. Það er kannske misskilningur hjá mér, ég hef ekki athugað það svo vel, en mig minnir, að þetta sé þveröfugt við það, sem samþ. var í sambandi við gengislækkunarl., þegar það var sérstaklega tekið fram, að það væri bannað sérstökum bankastofnunum að lána út, þannig að þær áskildu sér að velta yfir á lántakandann gengisbreytingaáhættunni. Það verður nú hægt að athuga þetta nánar, en ef þetta er rétt skilið hjá mér, þá er það mjög ólíkt því, sem við höfum haft fram að þessu. Ég sé ekki betur en í heild sé tilgangurinn með þessum l. að losa Alþ. og að miklu leyti ríkisstj. líka og enn fremur alveg sérstaklega alla banka íslenzka ríkisins við áhyggjurnar af því að þurfa að vera að hugsa um, hvernig stjórna skuli grundvallaratriðunum í efnahagslífi landsins, sem sé fjárfestingarpólitíkinni, — því, í hvaða atvinnugreinum og með hverjum hætti stofna skuli til nýrra atvinnutækja á Íslandi; það sé verið að losa Alþ., ríkisstj. og ríkisbankann við þetta og fá þetta í hendur einum banka, sem skapaður er samkvæmt útlendri kröfu með einum bankastjóra, sem settur er samkv. erlendum fyrirmælum, — banka, sem fær sérstakan einkarétt til þess að veita erlendu auðmagni inn í landið án nokkurra afskipta Alþ., ríkisstj. eða ríkisbankanna. Ég fæ ekki betur séð, en að þetta sé tilgangurinn með þessum banka. Jafnhliða eigi svo þessi banki að hjálpa vissum aðilum hér í námunda við ríkisstj. til að leggja undir sig ríkisfyrirtæki, taka ríkisfyrirtæki, sem kosta hundruð millj. króna, sem þjóðin og ríkið hafa lánað allt til, og gera að sinni einkaeign. Og þegar þannig er búið að fara með áburðarverksmiðjuna, sem var þó sjálfseignarstofnun og er eftír lagafyrirmælum, sem verið er að traðka sundur, þá er náttúrlega gefið, hvernig farið verður með þau fyrirtæki, sem eftir er að koma upp. Það er svo sem auðséð, að það verður ekki mikið farið að framfylgja því að hafa sementsverksmiðju eða eitthvað þess háttar — að vera að dingla við að hafa slíkt ríkisfyrirtæki. Það er bara af því, að Íslendingar eru dálítið óvanir því, að einkaauðvald gleypi svo margt, að það verður að fara dálítið hægt að þeim í þessu, þetta verður að gera svona smátt og smátt, og sérstaklega má ekki gera þetta á óþægilegum tímum, t.d. rétt fyrir kosningar.

Mér sýnist þess vegna, að þetta frv. og afleiðingarnar af því, að það verði samþ., muni verða enn frekar en orðið er — í miklu, miklu ríkari mæli en orðið er efnahagslegt elnræði amerísks auðvalds á Íslandi í samfélagi við nokkra útvalda íslenzka auðmenn, sem gefið er vald yfir atvinnulífi Íslendinga og auðsjáanlega alveg sérstaklega valdið til þess að ráða þeirri stóriðju, sem á að koma upp með okkar fossafli. Það vil ég segja, að þá hefur til lítils verið barizt af hálfu þeirra ágætu manna, sem í baráttunni um fossamálið hér á Alþ. 1919–23 hindruðu, að erlent auðvald gæti haft tökin á okkar fossum. Þegar Guðmundur Björnson, Jón Þorláksson og þeir aðrir, sem meiri hl. mynduðu í fossamálanefnd, “skiluðu endanlega sínu áliti hér fyrir þingið, þá kom það greinilega fram hjá þeim, að þeir álitu það betra, að íslenzkir fossar yrðu ekki virkjaðir í bráð til stóriðju, heldur en að útlent auðvald næði að virkja þá; það væri þá betra að geyma eignina handa afkomendunum. Jón Þorláksson flutti þá í Ed. — ef ég man rétt — þau skilaboð frá Guðmundi Björnsyni, eftir að hann var kominn út úr þinginu, en hafði verið forseti Ed. um langan tíma, að ef farið yrði að þeim ráðum, sem áttu að tryggja þá erlendu auðvaldi ítökin í íslenzku fossunum, þá væri það að sínu áliti landráð, og Jón Þorláksson sagðist nú sjaldan taka sér stór orð í munn, en undir þessi orð vildi hann taka. Ég vil benda á, alveg með sérstakri tilvísun til þess, sem hæstv. ráðh. byrjaði með í sinni ræðu, þegar hann var að tala um hagnýtingu fossanna, að það er engin tilviljun, að hæstv. fjmrh. fer að tala um hagnýtingu fossanna alveg sérstaklega í sambandi við Framkvæmdabankann. Það er vegna þess, að hann veit, hvort sem hann segir það eða ekki, að á bak við liggja fyrirætlanir um að koma virkjun íslenzkra fossa, stórvirkjunum og stóriðjunni í sambandi við þær, í hendur útlends auðvalds í gegnum þennan banka. Ég veit, að hæstv. fjmrh., ef hann svarar, muni kannske segja, að ég hljóti að vita, að það sé engum leyfilegt nema ríkinu að virkja fossana. Vissi ég það, Sveinki. En haldið þið, að ríkisstj. og stjórnarflokkum, sem verður ekki meira fyrir um heldur en raun er nú á orðin, að breyta smátt og smátt áburðarverksmiðjunni án laga úr sjálfseignarstofnun ríkisins í hlutafélag, sem tveir einstakir menn koma til með að eiga og ráða, — haldið þið, að slíkri ríkisstj. og slíkum stjórnarflokkum verði mikið fyrir að annaðhvort jafnvel hafa svo mikið við að breyta l., fossal. og raforkul., eða bara að brjóta þau með nokkrum yfirlýsingum nokkurra Framsóknarráðherra, eins og búið er að gera með áburðarverksmiðjunni? Hins vegar vil ég taka það fram, að allt, sem við þurfum að gera hér á Íslandi, getum við gert án þess að stofna okkur í þá hættu að láta erlent kapítal gleypa okkur. Við getum unnið fyrir þessu sjálfir, og við getum átt okkar stóriðju sjálfir, og við getum haft hana í okkar eigin þjónustu, en ekki til að mala gull handa erlendu auðvaldi og íslenzkum umboðsmönnum og bandamönnum þess.

Ég vil svo að síðustu leyfa mér að mælast til þess, að þetta frv., þegar það nú fer til fjhn., — svo þýðingarmikið sem það er fyrir íslenzkan þjóðarbúskap að fá þá athugun, sem svona mál á rétt á að fá í n., það mál um nýjan banka á Íslandi, banka, sem á að gerbreyta allri þeirri stefnu, sem ríkt hefur um áratugi í íslenzkum þjóðfélagsháttum, — að það frv. fái að athugast af bönkum ríkisins. Ég mun leggja það til í fjhn., að þessu máli verði vísað til Landsbankans og annarra ríkisbanka, og óska eftir umsögn þeirra, og svo framarlega sem meiri hl. fjhn. leggst á móti því að gefa bönkum ríkisins nægilegan umhugsunarfrest til þess að geta svarað og gefið sitt álit á þessu máli, þá er það greinilegt, að hér er á ferðinni mál, sem ekki þolir dagsins ljós, mál, sem á að fara í gegn, mál, sem á að píska í gegn með þægð stjórnarflokkanna, af því að það er verið að vinna verk, sem ríkisstj. treystir sér ekki til þess að láta athuga. Ég vil þess vegna mótmæla því, að hæstv. ráðh. gerir kröfu til, að þessu máli sé flýtt það mikið, að það fái ekki að ganga sinn gang og fá athugun hjá ríkisbönkunum, þegar það nú fer til fjhn.