22.01.1953
Neðri deild: 55. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég sé ekki ástæðu til þess að svara í löngu máli þeirri gífurlega löngu ræðu, sem hv. 2. þm. Reykv. flutti hér, en aðalinntak þeirrar ræðu var það, að með þessu bankafrv. væri stefnt að tvennu, í fyrsta lagi stórkostlega aukinni erlendri íhlutun um öll fjármál landsins, og í öðru lagi væri tekin upp sú stefna með frv., að virkjanir og önnur stórfyrirtæki skuli framvegis ekki vera í almannaeigu, heldur í eigu einstaklinga. Það mun hverjum heilbrigðum manni, sem les þetta frv., væntanlega ofvaxið að sjá, á hverju hv. þm. getur byggt slíkar fullyrðingar, og ekki hygg ég, að málið hafi mikið skýrzt fyrir venjulegum mönnum við þá löngu ræðu, sem hann flutti hér í dag.

Varðandi fyrri fullyrðinguna, þá víl ég leyfa mér að benda á, að það er ekkert í frv., sem gefur minnsta tilefni til hennar. Ef við litum á stjórn þessarar stofnunar, eins og hún er fyrirhuguð, þá skyldi maður ætla, eftir því sem hv. þm. talaði, að fyrirhugað væri að fela Ameríkumönnum að stjórna henni. En það er nú ekki meiningin, heldur er ætlunin, að henni verði stýrt af þremur mönnum, sem kosnir eru af hv. Alþingi, af einum manni frá Landsbanka Íslands, sem nú er allt í einu orðinn merkileg stofnun í augum hv. 2. þm. Reykv., þó að það hafi nú ekki verið fram að þessu, og svo einum embættismanni, skrifstofustjóranum í fjmrn. Þetta eru nú þeir, sem eiga að stýra þessari stofnun fyrir hönd Ameríkumanna. Til viðbótar er svo nægilegt að benda á, að þau miklu réttindi til erlendrar lántöku, sem þessi hv. þm. sagði að bankanum væru gefin með þessu frv., þar sem hann væri frá því leystur að þurfa að sækja leyfi til bankamálaráðherra fyrir erlendum lántökum, eru nákvæmlega sams konar réttindi og Landsbanki Íslands hefur í dag. Þessi nýja stofnun á sem sé að vera hliðstæð Landsbankanum í þessu tilliti. Enn fremur er rétt að upplýsa í því sambandi, að það eru sams konar réttindi og hver íslenzkur borgari hefur í dag. Það er hvergi í íslenzkum lögum eitt einasta orð um það, að íslenzkir borgarar þurfi að sækja um leyfi fyrir erlendum lántökum. Það er bara misskilningur hjá hv. þm., eins og fleira í hans ræðu. Lagaákvæðin, sem vitnað er til í þessu sambandi, eru um það, að sveitarfélög og opinberar stofnanir megi ekki taka lán erlendis nema með samþykki bankamálaráðherra. Undantekinn er þó Landsbankinn. Og þegar þetta ákvæði væri komið í lög, sem hér er gert ráð fyrir, þá væru Landsbankinn og þessi nýi Framkvæmdabanki undanþegnir því að þurfa að sækja um leyfi til erlendrar lántöku, eins og einstaklingar eru yfirleitt og samvinnufélög og önnur félög. Auk þess er rétt að benda á, að ef nota ætti ábyrgðarheimildina, sem í frv. er, þá er það að sjálfsögðu ekki hægt nema með því, að fjmrh. takist á hönd ábyrgðina fyrir hönd ríkissjóðs, og fjmrh. hverju sinni verður vitanlega að styðjast við meirihlutavilja Alþingis. Þegar þetta hefur allt verið tekið til greina, þá held ég, að það sé nú heldur litið eftir af fullyrðingu hv. þm. um, að hér eigi að stofna til sérstakrar erlendrar íhlutunar um yfirstjórn fjármála landsins.

Varðandi mótvirðissjóð er sérstaklega að taka það fram, að þótt mótvirðissjóðurinn verði fluttur yfir í þessa stofnun úr annarri ríkisstofnun, Landsbankanum, þá fylgja því engar nýjar kvaðir. Það verður nákvæmlega sama afstaða um íhlutun þeirra, sem hafa látíð af hendi gjafaféð, nákvæmlega sama íhlutun eins og sjóðurinn hefði verið kyrr í Landsbankanum. Það breytir engu til eða frá. Það er ekki stofnað til neinnar nýrrar íhlutunar með því að færa sjóðinn á milli stofnana. Þetta hygg ég að hver maður geti skilið.

Um síðari fullyrðingu hv. þm., að með frv. væri tekin upp sú stefna, að virkjanir og önnur stórfyrirtæki skyldu ekki framar vera í almannaeigu, heldur einstaklinga, er alveg nægilegt að benda á það, að í 7. gr. og í 2. gr. er aðaltilgangurinn fram tekinn, og hann er sá að veita lán til langs tíma með því að kaupa ný skuldabréf fyrirtækja, sem gagnleg eru þjóðarbúskapnum, o.s.frv. Þetta á vitanlega jafnt við um fyrirtæki ríkisins, bæjar- og sveitarfélaga, sem sé fyrirtæki í almannaeigu, og fyrirtæki samvinnufélaga eða einstaklinga. Þetta getur allt komið til greina, og er ekkert gert upp á milli þessara fyrirtækja í frv., fremur en er í annarri bankalöggjöf, þar sem öllum slíkum fyrirtækjum er opnuð leið, ef þeir, sem ráða yfir lánveitingunum, telja skynsamlegt að lána þeim.

Það hefur verið talað um það í þessu sambandi, að ætlunin mundi vera að selja hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni. Ég get alls ekki skilið þann hugsanagang, sem liggur á bak við þetta tal, þegar þess er gætt, að í þessu frv. er beinlínis lagt bann við því að selja hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni. Það væri undarleg aðferð, ef það væri ætlunin að selja hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni, — það væri undarleg aðferð, ef menn hefðu slíkt í huga, að beita sér fyrir lagaákvæði, sem einmitt bannar að selja hlutabréfin. Þá skyldi maður heldur halda, að sá þingmeirihluti, sem að því vildi stefna, beitti sér fyrir lagaákvæði, sem heimilaði að selja þau.

Varðandi það, sem hv. 2. landsk. þm. (LJós) spurði um, hvort þessum banka væri ætlað að lána t.d. til sömu aðila eða sams konar lán eins og fiskveiðasjóður lánar til einstakra eða ræktunarsjóður lánar til einstakra eða byggingarsjóður til sveitanna, þá er það að segja, að þessum banka er vitanlega ekki ætlað að lána til sömu aðila eins og þessar stofnanir lána, heldur er meiningin, að þessi banki láni þessum sjóðum fjármagn, sem til þessarar lánastarfsemi á að renna, og þeir láni svo til einstaklinganna. Hélt ég nú raunar, að þetta væri augljóst af því, hvernig stofnunin er byggð upp samkv. frv.

Hv. 8. landsk. þm. (StJSt) talaði hér nokkur orð og sagðist ekki hafa átt von á því, að þetta frv. yrði tekið út úr í starfi bankamálanefndarinnar, hefði heldur átt að biða. Það var enginn ágreiningur um það, hvorki í stjórninni né heldur í nefndinni, að taka þetta frv. út úr og afgreiða það á undan, af því að menn voru sammála um, að það væri aðkallandi að setja einmitt löggjöf eins og þessa. Um þetta var enginn ágreiningur heldur í bankamálanefndinni, og sá hv. þm. Alþfl., sem þar á sæti, var sammála um þessa meðferð málsins, og kemur mér það þess vegna dálitið einkennilega fyrir, að hv. þm. skuli finna að þessari starfsaðferð. Auk þess vil ég taka það fram, að í megindráttum var þessi hv. Alþýðuflokksþm. einnig samþykkur því frv., sem hér liggur fyrir.

Hv. þm. minntist dálítið á, að það væri hæpið að veita 80 millj. ríkisábyrgð, sem fjmrh. gæti svo veitt bankanum án þess að bera það undir Alþingi. Það hefur nú verið talið nauðsynlegt af öllum þeim, sem að þessu máli hafa komið, að það væri einmitt svona ábyrgðarheimild til, til þess að ríkisstj. og bankinn gætu gert þær ráðstafanir til lánsútvegunar, sem taldar væru nauðsynlegastar. Hætta fyrir hv. Alþ. er náttúrlega engin í þessu fólgin, vegna þess að þær stjórnir, sem hér sitja, sitja með stuðningi meiri hluta á hv. Alþingi. Fjmrh. notar þetta vald, sem hann þarna hefur, í samvinnu við stjórnina. Varðandi það, að með þessu sé ógætilegar farið en áður, þá vil ég leyfa mér að minna á, að undanfarið hafa verið samþ. hér gífurlega miklar ábyrgðarheimildir og miklu meiri, en hægt hefur verið að nota, þannig að nú eru ábyrgðarheimildir og lántökuheimildir í lögum, sem nema mörg hundruð milljónum, þótt vitað sé, að ekki er hægt að útvega allt þetta fé. Hv. Alþ. hefur haft þann háttinn á undanfarið, að það hefur samþ. ábyrgðarheimildir og lántökuheimildir „á lager“, ef svo mætti segja, sem stjórnirnar hafa svo getað moðað úr. Hv. Alþ. hefur ekki haft strangt taumhald í þessu efni undanfarið, heldur ætlað ríkisstj. vítt svigrúm í þessu, ætlað henni að velja og hafna í raun réttri, þegar um ábyrgð á lántökum hefur verið að ræða.