29.01.1953
Neðri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Mig langar til að víkja örfáum orðum að aðeins einu atriði, sem á góma hefur borið í þessum umr. Um það hefur verið rætt, að til þess hafi verið ætlazt, að hlutabréf þau í áburðarverksmiðjunni, sem ætlazt er til að Framkvæmdabankinn fái til umráða, yrðu seld einstaklingum. Það hefði jafnvel mátt skilja sumt af því, sem sagt hefur verið, þannig, að til þess hafi verið ætlazt af þeim, sem frv. þetta sömdu, en það gerði mþn. í bankamálum, sem skipuð var fyrir rúmu ári af bankamálaráðherra. Þar eð ég á sæti í þessari n. og hef þannig unnið að samningu þessa frv. ásamt meðnm. mínum, vildi ég ekki láta hjá líða að taka það fram, að n. tók eðlilega enga ákvörðun um, að slíkt skyldi gert, hvorki nú né síðar. Þvert á móti var það einróma álit allra nm., að það ákvæði skyldi vera í frv., sem er í 3. gr. þess, að hlutabréf þessi, m.a. hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni, mætti hvorki selja né veðsetja án samþykkis Alþ., þar eð í raun og veru er með þessu frv. engin breyting gerð á skilyrðunum til þess að koma hlutabréfaeign ríkissjóðs yfir í hendur einstaklinga. Það verður nú ekki gert án samþykkis Alþ. Þó að þetta frv. næði fram að ganga, verður það heldur ekki gert án samþykkis Alþ. Þetta frv. veitir því ríkisstj., sem sitja kann á hverjum tíma, engin ný eða bætt skilyrði til þess að koma hlutabréfum ríkissjóðs í áburðarverksmiðjunni yfir í hendur einstaklinga, þótt vilji til þess kynni að vera fyrir hendi.

Ég hef verið í hópi þeirra, sem mjög hafa gagnrýnt ríkjandi skipulag áburðarverksmiðjunnar, og tel það óeðlilegt, ranglátt og jafnvel hættulegt. Ég sé ekki ástæðu til þess á þessum stað og þessari stundu að endurtaka neitt af þeirri gagnrýni, sem ég hef áður og oftar en einu sinni flutt á núverandi skipulagi áburðarverksmiðjunnar, en ég vildi aðeins af því tilefni, sem gefizt hefur í þessum umr., taka fram, að það hefur aldrei hvarflað að mér, að ákvæðin um hlutabréfaeign áburðarverksmiðjunnar í þessu frv. gætu eða ættu á nokkurn hátt að auðvelda nokkurri ríkisstj. að koma þeim bréfum yfir í hendur einstaklinga. Ég hef samþ. þetta ákvæði og mun greiða atkv. með þessu frv. með þeim skilningi, að samþykkt þess auðveldi ríkisstj. engan veginn að stuðla að slíkri framkvæmd sem þessari, því að henni er ég og yrði algerlega andvígur.

Þetta eitt vildi ég aðeins taka fram, til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að af hálfu bankamálan. hefur aldrei komið til mála, að þessi ákvæði skyldi eða mætti skilja á þann hátt, og allra sízt væri þetta nokkur viljayfirlýsing um það, að þetta skyldi gera, og ekki einu sinni ætti það að vera til þess að breyta ríkjandi ástandi hvað snertir eignarhald ríkissjóðs á áburðarverksmiðjubréfunum að nokkru leyti.