30.01.1953
Neðri deild: 60. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég flyt hér tvær brtt. ásamt hv. 5. landsk. þm. við þetta frv. Brtt. okkar eru á þskj. 668. Þær eru báðar við 7. gr. frv. og um það að bæta í hana tveimur nýjum liðum.

Ég lýsti því nokkuð við 2. umr. málsins, að ýmis ákvæði 7. gr. frv. væru þess eðlis, að hæpið yrði, að atvinnulíf t.d. úti á landi og ýmsar greinar okkar atvinnulífs, eins og t.d. sjávarútvegurinn, gætu orðið lánveitinga aðnjótandi frá þessum banka, ef einhvern tíma kæmi til einhverra lánveitinga úr þessum banka. Nú vildi ég gjarnan gera tilraun til þess að fá ný ákvæði inn í 7. gr. nokkuð til styrktar þessu, þannig að það mætti þó eiga von á því, að hægt væri samkvæmt þessum l. að veita nokkurt fé til atvinnuvega einnig úti á landi.

Fyrri brtt. okkar er um það, að bankinn skuli vinna að því með lánveitingum sínum að viðhalda jafnvægi í byggðum landsins með því að lána fé til framkvæmda þar, sem þess er þörf til þess að tryggja þar atvinnu og örugga lífsafkomu manna. Það hefur nú legið hér fyrir Alþ. till. í þessa átt, og ég hygg, að flestir alþm. viðurkenni það, að það er veruleg þörf á því að leggja fram nokkurt lánsfé í þessu skyni, til þess að örva nokkuð atvinnuvegina úti á landi, og jafnvel að láta fé af höndum í þessu skyni, þó að það liggi ekki fyrir, að það sé öruggt, að þau fyrirtæki, sem þar verða stofnuð, geti t.d. á fyrstu árum borið nægilegan arð, eins og stendur í því frv., sem hér er um að ræða, til þess að þau geti borgað vexti og afborganir. En það er m.a. samkvæmt frv., eins og það er núna, skilyrði þess, að bankinn megi veita lán til framkvæmdanna, að þau fyrirtæki, sem þessi lán fá, geti örugglega staðið við vexti og afborganir. Mér er það alveg ljóst, að ef á að fara að veita lán til þess að viðhalda að einhverju ráði jafnvægi í byggðum landsins, þá mundi í ýmsum tilfellum þurfa að veita lán þannig, að ekki væri alveg öruggt, að vextir og afborganir yrðu skilvíslega greidd af slíkum lánum.

Síðari till., sem við flytjum, er um það, að bankanum verði einnig heimilað að veita lán til bæjar- og sveitarfélaga til þeirra framkvæmda, sem gagnlegar verða að teljast og efnt er til á þeirra vegum. Eins og frv. er nú, þá ber það ekki með sér, að bankanum sé ætlað það hlutverk á neinn hátt að veita slíkum aðilum nein lán. Ég hef alveg sérstaklega leitað eftir því í frv., og það kemur hvergi nokkurs staðar fram, að bankinn eigi að veita bæjar- og sveitarfélögum lán til þeirra framkvæmda, sem þau kunna að ráðast í, en hins vegar er mjög greinilega tekið fram í frv., að bankinn eigi að hafa sérstaka samvinnu við alla einkaaðila til þeirra framkvæmda. En nú vitum við það, sem búum úti á landi, að það er nú viða þannig komið málum, að þeir aðilar, sem verða þar að standa undir mestum framkvæmdum og aðalatriði þessara mála verða að hvíla á, eru einmitt bæjar- og sveitarfélög, svo að ef þar á að vinna að einhverjum verulegum framkvæmdum, þá verður varla hjá því komizt, að þessi banki hafi einnig samvinnu við bæjar- og sveitarfélög og veiti þeim lán til þeirra framkvæmda, sem þau vilja ráðast í. Ef það er virkilega tilætlunin með setningu laga um nýjan banka enn að örva til framkvæmda í sambandi við atvinnulíf landsins og það um allt land, þá ætti ekki heldur að standa á þeim, sem fyrir þessu máli beita sér, að samþ. þessar till., sem fara beinlínis í þá átt að gefa þessum banka lagalega heimild til þess að hafa samvinnu við þá aðila í framkvæmdamálum, t.d. úti um land, sem eðlilegastir eru til þess og mest verða að standa í framkvæmdum í þessa átt.

Ég vona því, að þessar till. verði samþ. og geti fengið góðar undirtektir þm.