30.01.1953
Neðri deild: 60. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef flutt hérna brtt. ásamt hv. 2. landsk. þm. á þskj. 668, og hefur hann nú gert grein fyrir þeim, svo að ég þarf engu við það að bæta. En auk þess hef ég flutt hér eina brtt. á þskj. 679, við 7. gr. frv., þar sem lagt er til, að á eftir 7. tölul. komi nýr liður, svo hljóðandi: „Að stuðla að framkvæmdum, er horfa til almenningsheilla og reknar eru á samvinnugrundvelli.“

Mér finnst það vera töluvert athugavert, að í þessari grein, sem telur einmitt upp í ekki færri en 11 tölul. hlutverk bankans, skuli hvergi vera minnzt á framkvæmdir, sem beinlínis eru unnar á samvinnugrundvelli. Að vísu er hér í 11. lið tekið fram, að það eigi að greiða fyrir atvinnuframkvæmdum á þeim stöðum, sem skortir framleiðslutæki, en hafa skilyrði til framleiðslu. En það er mjög skýrt tekið fram einmitt í 8. tölul. þessarar greinar, að bankinn eigi að hafa samvinnu við einkaaðila, sem ráðast í arðvænlegar framkvæmdir, og veita þeim fyrirgreiðslu. Og í þessum lið virðist mér einmitt koma mjög skýrt fram, hvert sé hið raunverulega hlutverk bankans; það sé ekki það, sem kom þó fram í þeirri þál., sem verið var að samþ. hér í gær við fyrri umr., um að gera ráðstafanir til þess að gæta þess, að jafnvægi héldist í byggðum landsins. Það er mjög kunnugt, að einmitt viða úti um land er mjög mikið af smáfyrirtækjum, t.d. smáútgerðarfyrirtækjum, sem eru rekin á samvinnugrundvelli og eðlilegast er að séu rekin þannig. Slík fyrirtæki eru oft aðaluppistaðan í atvinnulífi fjölmargra smástaða úti á landi, og það er litil ástæða til þess að mínum dómi að taka það fram í þeim ákvæðum, sem ákveða um hlutverk þessa banka, að hann elgi einmitt að veita líka fé til einkafyrirtækja, en ekki slíkra atvinnufyrirtækja.

Svo vildi ég enn fremur beina einni fyrirspurn til hæstv. ráðh. í sambandi við 3. gr., sem fjallar um það, hvaða fjármuni Framkvæmdabankinn eigi að fá til meðferðar. Þar er gert ráð fyrir því, að honum eigi að afhenda skuldabréf fyrir lánum úr mótvirðissjóði, og enn fremur er það upplýst, að þegar fé mótvirðissjóðs greiðist inn aftur frá þeim fyrirtækjum, sem fá það að láni í fyrstu umferð, þá skuli það einnig renna til bankans. Ég gerði grein fyrir því við 2. umr., hversu mikil hætta væri fólgin í þeim afskiptum erlendra ríkisstjórna af þessu fé, sem sýnilega eru fyrirhuguð með því fyrirkomulagi, sem hér á að ríkja. Og því hefur alls ekki verið mótmælt nokkurn tíma í umr. um þetta mál, hvorki í Ed. né í þessari hv. d., að raunverulega væri þannig fyrirhugað, að erlend ríkisstj. ætti að hafa íhlutunarrétt um þetta fé þegar það kemur inn aftur og svo þegar það kemur inn þar á eftir og þar með verulegan íhlutunarrétt um fjárfestingar í atvinnulífi þjóðarinnar um ófyrirsjáanlegan tíma.

Nú liggur það fyrir, að í mótvirðissjóði eru rúmlega 300 millj., eða 310–315 millj., og gert ráð fyrir, að eitthvað bætist við. En ég vildi beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hvort þessum skilyrðum eigi einnig að hlíta sá vöxtur, sem verður á mótvirðissjóðnum við það, að vextirnir leggist við. Ég man það nú ekki á stundinni, hversu lengi hver króna er að tvöfaldast við það að vera lánuð út með 5% vöxtum, eins og gert er ráð fyrir um fé mótvirðissjóðs: En ég held, að ég megi fullyrða, að það sé eitthvað milli 10 og 15 ár. Þetta mundi þýða það, að ef vextirnir eiga að leggjast við þennan höfuðstól, sem síðan á að hlíta þessu skilyrði, þá mundi á þessum tíma, 10–15 árum, þessi höfuðstóll verða orðinn helmingi hærri — ekki milli 3 og 4 hundruð milljónir, heldur sennilega um það bil 700 milljónir, og mundi þá verða í vaxandi mæli það fjármagn, sem yrði starfandi í atvinnulífi þjóðarinnar að þessu leyti. Og sé þessu svona varið, sem mér virðist næsta líkur til að sé meiningin, þá þýðir það enn þá meira vaxandi íhlutun af öllu fjármálalífi landsins í framtíðinni heldur en þó getur virzt í fljótu bragði, þegar litið er á höfuðstólinn, — enn þá meiri vaxandi íhlutun á þeim grundvelli, sem aðalbankastjóri Landsbankans talar um í sínu áliti til fjhn. Ed. En þótt það hafi verið ákaflega tregt um svör við spurningum, sem bornar hafa verið fram í sambandi við þetta mál til hæstv. ríkisstj., — ákaflega tregt um svör frá hæstv. ríkisstj., þá vildi ég samt sem áður mjög óska þess að fá svar við þessari spurningu, hvort það er tilgangurinn, að vextir af fé mótvirðissjóðs skuli leggjast við höfuðstólinn og verða framvegis sem vaxandi hluti þess stofnfjár í Framkvæmdabankanum, sem ber þetta nafn og á að lánast út með þessum skilyrðum, sem alls ekki hefur verið mótmælt að séu hin raunverulega fyrirhuguðu.