29.01.1953
Neðri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

211. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég verð að biðja afsökunar, að ég er svo rámur, að ég get tæplega látið til mín heyra, en skal ekki heldur tala langt mál.

Þetta frv. um samkomudag reglulegs Alþingis 1953, á þskj. 648, er mjög á sömu lund og frv., sem samþ. hafa verið um samkomudag Alþ. undanfarin ár. — Væntanlega verður þessu þingi lokið nú innan fárra daga, en þá eru aðeins örfáir dagar þangað til nýtt þing skal hefjast samkv. lögum, eða 15. n. m. Og það liggur í hlutarins eðli, að það muni ekki vera farið að starfa að undirbúningi fjárl. eða annarra mála til þess að leggja fyrir það Alþ. Nú er svo háttað, eins og allir hv. alþm. vita, að á næsta sumri fara fram almennar alþingiskosningar. Virðist af þeirri ástæðu líka sjálfsagt, að það nýkjörna þing gangi frá fjárl. fyrir næsta ár og yfirleitt öðrum þeim málum, sem nauðsynlegt er að taka til meðferðar á þingi fyrir þetta ár, svo að til viðbótar því, sem áður hefur verið eðlilegt um þingfrestun, virðist mér að þetta bætist við núna.

Ríkisstj. leggur til, að samkomudagur sé ákveðinn í síðasta lagi 1. okt. í haust, eins og verið hefur að undanförnu. Að sjálfsögðu geta þeir hlutir gerzt og ekki sízt á þessu ári að afstöðnum kosningum, að Alþ. yrði kvatt saman fyrr á árinu, eins og gefur að skilja. En ríkisstj. fannst eðlilegast að miða samkomudaginn við l. okt. eins og gert hefur verið.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta. — Ég leyfi mér að leggja til að, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. Ég ætla ekki að gera till. um n., en að sjálfsögðu er það á valdi hv. dm., hvort þeir vilja vísa frv. til n. eða ekki, sem þá væntanlega yrði allshn.