29.01.1953
Neðri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

211. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Báðir þeir hv. alþm., sem hér hafa talað, hafa tjáð sig samþykka frv. Er ég þeim þakklátur fyrir það.

Ég skal aðeins geta þess út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. nefndi, um það, að það væri ekki rétt að rjúfa þing strax, þannig að ekki væri hægt að kalla þing saman, ef á lægi, að það hefur náttúrlega ekki komið til mála, að það yrði gert að svo stöddu.

Út af athugasemdum hv. 8. landsk. þm., sem ekki snerta þetta frv. út af fyrir sig, heldur eru aðfinnslur til ríkisstj. um, að hún hefði ekki gefið þinginu nauðsynlegar skýrslur um ástand og horfur varðandi afurðasölu og fleira, sem snertir þjóðarbúskapinn sérstaklega, skal ég aðeins taka það fram, að náttúrlega hafa þessi mál komið mjög til umr. undir meðferð fjárl., bæði fyrr og síðar, hér á Alþ. og ýmsar upplýsingar verið gefnar í sambandi við það.

Ég vil og taka það fram í þessu sambandi, að ef hv. alþm. þykir á skorta, að ríkisstj. gefi nauðsynlegar upplýsingar um þetta eða annað, þá er þeim samkvæmt þingsköpum veitt heimild til þess að bera fram fyrirspurnir og þær víðtækar, eftir því sem verða vill, og sundurliðaðar, sem ríkisstj. að sjálfsögðu svarar þá, og hefði verið auðvelt að koma á framfæri slíkum fyrirspurnum, t.d. um afurðasölumál o.fl., ef hefði þótt á það skorta, að nægar upplýsingar kæmu fram. Ég get ósköp vel skilið það, að ýmsum hv. alþm. og þá kannske einkum þeim, sem eru í stjórnarandstöðu, finnist einmitt oft á þetta skorta. Það getur vel verið, að það sé ekki alltaf að því gáð eins af þeim, sem í stjórn eru. Hygg ég, að það megi þá segja almennt um ríkisstjórnir, að þær gefi kannske ekki ávallt eins nauðsynlegar upplýsingar og a.m.k. sumir alþm. teldu nauðsynlegt vera. En auk þess að hægt er nú að bera fram fsp., ef á slíkt þykir skorta, sem ég hygg að ríkisstj. mundi undireins svara, — enda er hún vön að gera það með fsp. almennt, — þá er vitanlega líka í lófa lagið fyrir alþm. að leita upplýsinga í ráðuneytunum um slík mál, og vænti ég þess, að ekki hafi orðið vart við það, að synjað væri um slíkar upplýsingar. Ég vil aðeins taka þetta fram, án þess að ég á neinn hátt sé að mótmæla því, sem hv. 8. landsk. tók fram um þetta mál. Nokkrir dagar eru enn eftir af þingi og ekki ólíklegt, að sumt af því, sem hann nefndi, komi að einhverju leyti til athugunar, áður en þingi verður slitið.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri.