30.10.1952
Efri deild: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

12. mál, gengisskráning o. fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru nokkur atriði, sem fram hafa komið í umr., sem ég gel ekki látið ósvarað. Fyrst vil ég taka undir ummæli hv. þm. Barð. hér í ræðu hans áðan, að ég er sammála því, að ástandið sé þannig, að það hefði verið vel athugandi á s.l. hausti, þótt ekki hefði verið fyrir aðra, en bændastéttina, að hugleiða a.m.k. það vel, hvort ástæða væri til þeirrar hækkunar, sem gerð var á verði landbúnaðarafurða á síðasta hausti. Þar með hef ég einnig í rauninni að nokkru svarað hæstv. ráðh., sem lýsti því yfir hér áðan, að hann væri því mótfallinn, að bændur gerðu tilraunir til þess að hækka verð á afurðum sínum meira, en orðið væri,. og taldi fjarri lagi að gera ráð fyrir, að bændur mundu reyna að sprengja upp vöruverðið. Honum hef ég því einu til að svara, að það er nú svo um hnútana búið í löggjöfinni, að ómakið er tekið af bændum í þessu efni, eins og reglur 6 manna nefndarinnar eru, eins og hæstv. ráðh. er kunnugt um. Hins vegar er ég alveg sammála því, sem hv. þm. Barð. sagði, að það hefði virkilega verið athugunarefni, hvort ekki hefði verið réttara fyrir bændur sjálfa að íhuga, hvort það væri ástæða til að neyta hækkunar heimildarinnar á s.l. hausti.

Hv. þm. Barð. gaf ófagra lýsingu á ástandinu í fjárhags- og atvinnumálum þjóðarinnar nú. Ég hygg, að það sé að ýmsu leyti ekki fjarri sanni, þótt sú lýsing sé ófögur, en ég vil minna hann á, að ástandið er svona nú, eftir að núverandi ríkisstj. og hennar stuðningsflokkar hafa í næstum 3 ár stöðugt verið að kreppa að þjóðinni með gengislækkun, með bátagjaldeyri, með sífelldum sköttum og álögum, með álagningarfrelsi og með því að afnema þær hömlur, sem áður voru á því. að einstakir menn gætu gert ástandið með öllu óverjandi. Í þessari lýsingu hv. þm. felst mjög eindreginn og ákveðinn og að verulegu leyti að minni hyggju, réttur dómur á afrekum hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar á s.l. tæpum 3 árum.

Hæstv. fjmrh. hefur mjög oft lesið hér upp kafla úr því, sem hann kallar „álit trúnaðarmanna verkalýðssamtakanna“, sem ég hef grun um, að tekið sé upp úr handbók frambjóðenda Framsfl. við síðustu kosningar. En það er eins með þessar fullyrðingar hæstv. ráðh. og aðrar, sem hann kom með í sinni fyrstu ræðu, sem sé það, að það fer mjög fjarri því, að sannleikurinn sé allur sagður. Það er alveg rétt, að fulltrúar verkalýðssamtakanna hafa mjög eindregið varað við því að festa á það trúnað, að einhliða kauphækkanir gætu orðið til frambúðarhagsbóta fyrir verkamenn, eins og ástatt er í landinu. Þess vegna hafa þeir fyrst og fremst beint kröfum sínum til hæstv. ríkisstj. í þá átt, að hún beiti aðstöðu sinni og því valdi, sem hún hefur á málefnum þjóðarinnar, til þess að stöðva eða lækka dýrtíðarflóðið í landinu, og í því hefur legið beint fyrirheit um samvinnu af hálfu verkalýðsfélaganna til slíkra aðgerða. En það, sem hæstv. ráðh. sleppir í þessu áliti trúnaðar- manna verkalýðsfélaganna, er það, að svo framarlega sem þetta sé ekki gert, eigi verkalýðsstéttin enga aðra aðferð til, heldur en þá, að reyna að fyrirbyggja það, að hennar kjör versni frá því, sem nú er, ekki aðeins raunverulega, heldur samanborið við aðrar stéttir, — enga aðra leið, en þá að reyna að fá kaup sitt hækkað. Það er nauðvörn verkalýðssamtakanna, er ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar láta undir höfuð leggjast að halda dýrtíðinni í skefjum og hafna þeirri samvinnu, sem fram var boðin af verkalýðssamtökunum til slíkrar starfsemi. Þessu gleymdi hæstv. ráðh. Allir vita, að á þessu tímabili hefur dýrtíðin sífellt farið vaxandi, sumpart fyrir aðgerðaleysi ríkisstj. og sumpart beinlínis fyrir hennar aðgerðir, fyrir það, að hún hefur haldið að sér höndum, meðan álagning á innfluttar vörur í landinu hefur verið aukin svo gífurlega, að ekkert hóf er á. Jafnvel viðskmrh. sjálfur viðurkennir, að í ýmsum tilfellum hafi verið um óhæfilegt okur að ræða, og ber fram tillögu um, að heimilt sé að birta nöfn þessara manna til þess að setja skorður gegn okrinu. (Forseti: Þetta átti að vera stutt aths.) Ég veit það. — Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um það, að til langframa er það hlutfallið á milli verðlags út- flutningsvaranna og innflutningsvaranna, sem ræður miklu um afkomu þjóðarinnar í heild, og hún getur ekki til langframa miðað hærra heldur en, framleiðslumagn hennar og verðmæti leyfir, það er augljóst mál. En það er enn sem fyrr, ekki nema hálfur sannleikur, vegna þess að þegar talað er um þjóðina í heild, þá verður maður að gæta þess, að þar er ákaflega mikið mismunað hinum ýmsu stéttum og einstaklingum. Það er staðreynd, að á þeim árum, sem kaup verkamanna raunverulega hefur lækkað að verðmæti, þá hafa aukizt tekjur heildsalastéttarinnar og kaupmannastéttarinnar stórkostlega, bæði í krónutali og að raunverulegu verðmæti. Og ég hygg, þó að ég hafi ekki skýrslur í höndum um það, að aukning hafi orðið á tekjum bændastéttarinnar í heild sinni umfram það, sem orðið hefur hjá launastéttum landsins. Það er rannsóknaratriði, ég vil játa það, en bara hlutfallið milli verðlags og kaups bendir mjög eindregið til þess, að svo hljóti að hafa verið. Og það kemur einnig fram, að aukin vinna hefur skapazt ár frá ári í sveitum landsins. En það játa ég, að það er rannsóknaratriði.

Það, sem er hróplegast við andmæli hv. þm. og hæstv. ráðh. í sambandi við þetta frv., er það, að samtímis því, sem það er beinlínis ýtt undir, að einstakar stéttir í landinu auki sínar tekjur, bæði í krónum og raunverulegu verðmæti, þá er ómögulegt að fá viðurkenningu á því, að eðlilegt sé, að verkamaðurinn líti einnig til sinna þarfa í þessum efnum. Hæstv. ráðh. spurði, hví verkalýðssamtökin í Bretlandi berðust ekki fyrir eindreginni almennri kauphækkun. Þau gera það kannske ekki fyrir almennum kauphækkunum, en í ýmsum atriðum gera þau það að vísu. En beri bara hæstv. ráðh. saman ástandið í því landi og hér. Fram til stjórnarskiptanna síðustu í Bretlandi var dýrtíðin þar hverfandi lítið brot af því, sem hér er. Ég vísa hæstv. ráðh. til Danmerkur. Hvernig stendur á því, að í Danmörku er enn haldið vísitölukerfinu með góðu samkomulagi allra aðila? Af því, að sáttasemjari í vinnudeilum, sem er kunnugastur þessum málum, segir: „Bezta ráðið til að forðast launadeilur, kaupdeilur og vinnustöðvun af þeim sökum er að hafa vísitölukerfi — og réttlátt vísitölukerfi, því að ef hægt er að auka dýrtíðina í landinu, án þess að hætta sé á, að kaupgjaldið hækki samkv. lögum, þá er hætta á, að það yrði misnotað, og það leiddi svo til nýrra launadeilna og vinnustöðvana af þeim sökum.“