31.10.1952
Efri deild: 19. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

42. mál, verðlag

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég tel nú ekki mikla ástæðu fyrir mig að fara að elta ólar við þann áróður, sem Alþfl. hefur um langt skeið haldið uppi og hv. 6. landsk. endurtók hér í d. Þetta er eitt af þeim pólitísku flotholtum, sem flokkurinn hefur náð í og reynir að halda sér fljótandi á. En því miður kennir bæði rangfærslna og missagna í þessum málaflutningi, sem túlkar málið á þann hátt, sem verst kemur þeim, sem um málið hafa fjallað, en bezt þeim, sem ætla að nota sér það að árásarefni. Þetta kann að vera eðlilegur breyskleiki. Mönnum hættir við að nota sér málin þannig til framdráttar. Og að minnsta kosti hjá Alþfl. og hjá málgagni hans hefur ekki verið sparað að bera fram neitt af því, sem kann að vera gott til árásarefnis, þó að það í sjálfu sér sé mjög fjarri sannleikanum.

Það, sem hv. þm. sagði um verðlagið, er hvergi nærri rétt. Það er rétt og hefur verið viðurkennt, bæði af mér og öðrum, að það hafa komið fyrir tilfelli og koma enn, er of mikið er lagt á vöruna. Hins vegar er ekki nokkur vafi á því, og getur hver maður gengið úr skugga um það, sem vill, að þetta er ekki almennt. Þeir, sem athuga síðustu verðlagsathuganir, er gerðar hafa verið á mörgum stöðum úti um land, munu sjá, að álagningin á þeim vörum, sem þar eru tilteknar, — sem eru mjög margar vörutegundir, — er mjög hófleg. Og á sumum stöðum, t.d. eins og á Akureyri, er álagningin um og undir því, sem var heimilað með þeim lágu ákvæðum, er giltu hér áður. Og af öllum þeim fjölda dæma, sem tekin hafa verið af handahófi, þá eru ekki í þeirri skýrslu nema tvö tilfelli, sem sýna óhóflega álagningu. Þetta eru síðustu skýrslurnar. Svo eru aðrar skýrslur, sem voru teknar frá febrúar og fram í maí eða byrjun júní. Má segja, að meðalálagning samkv. þeim á matvöru sé svo að segja nákvæmlega sama og heimiluð var undir ákvæðunum, sem þá þóttu svo lág, að kaupmenn og kaupfélög þóttust ekki geta verzlað með vöruna með þeirri álagningu, sem þá var heimiluð. Þetta sýnir, að hér eru áhrif samkeppninnar að koma í ljós, en því miður, eins og ég sagði áðan, verð ég að viðurkenna, að nokkur dæmi koma enn fram um of háa og sums staðar óhóflega álagningu. En þó að æskilegt sé, að slíkt komi ekki fyrir, þá eru þessi fáu dæmi á engan hátt afgerandi um verðlagið í landinu.

Hv. þm. sagði, að það hefði ekki komið fram reglugerð í sambandi við brbl. Í l. stendur: „Ráðherra setur nánari fyrirmæli um framkvæmd þessarar heimildar.“ Þar er ekki sagt, að sett skuli reglugerð. Þetta má skiljast þannig, að ráðh. geti gefið viðkomandi embættismanni fyrirmæli um það, hvernig framkvæmdin á að vera.

Mér er það ljóst, að það er erfitt að framkvæma þetta, án þess að það komi fram sem nokkurs konar hámarksákvæði, því að ef því er slegið föstu í eitt skipti fyrir öll, að nöfn skuli ekki birt, ef álagningin fer ekki fram úr einhverju vissu marki, þá þýðir það, að innflytjendur og kaupmenn mundu telja sér heimilt að leggja á vöruna að því marki. Þess vegna tel ég, að till. hv. 6. landsk. þm. sé raunverulega hámarksákvæði. Hún felur í raun og veru það í sér, að kaupmönnum og innflytjendum er heimilt að leggja á vöruna 50% meira en gert var, þegar ákvæðin voru í gildi, án þess að þeirra nöfn verði birt, án þess að þeir þurfi að taka út þá hegningu, sem birtingin felur í sér. Þetta álit ég vera afar óheppilegt og ekki annað en að taka upp hámarksákvæðin aftur í nýrri mynd. Hitt er svo annað mál, hvernig rétt er að framkvæma ákvæðin, þannig að mönnum sé ekki óbeinlínis heimilað að nota vissa álagningu. Það hefur verið til athugunar, og mun verða reynt að komast að niðurstöðu um það næstu daga. En nú er verið að undirbúa birtingu nafna þeirra, sem telja má að lagt hafi óhóflega á vöru, og geri ég ráð fyrir, að sú birting geti farið fram í næstu viku. En ég vil benda á, að talað er í l. um óhóflega álagningu, svo þó að birt séu nöfn þeirra manna, sem leggja óhóflega á ýmsar vörur, þá er ekki þar með sagt, að það sé samþ., að þeir sem minna leggja á, en kunna þrátt fyrir það að leggja hátt á vöruna, eigi að sleppa framvegis. Það er ekki þar með sagt, að því sé slegið föstu, að þeirra nöfn verði ekki birt síðar. Verzlunarmenn hafa spurt, hvað þeir megi leggja mikið á, til þess að nöfn þeirra verði ekki birt. Þeim hefur verið svarað, að þeir megi leggja á það, sem sé yfirleitt sanngjarnt talið í verzlun, í heildsölu og smásölu. Menn vita það yfirleitt, þeir sem við verzlun fást, hvaða álagning er sanngjörn á ýmsum vörum í heildsölu og smásölu. Álagningin er ekki sú sama á öllum vörum. Hún er mismunandi eftir tegundum.

Ég vil að lokum segja, að meðan framkvæmdin heyrir undir mig, þá mun ég ekki láta birta nöfn þeirra manna, sem ég tel að leggi hóflega á vörurnar og fara ekki fram úr því, sem almennt er talið rétt og heiðarlegt í þessum efnum.