08.04.1954
Neðri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

184. mál, fasteignaskattur

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Þetta frv. er, eins og þegar hefur verið getið um, stjfrv., en hefur verið breytt talsvert í Ed. Sú breytin„ sem Ed. hefur gert á því, er á þá leið, að í stjfrv. var gert ráð fyrir, að sýslumenn önnuðust innheimtu þessara gjalda, en Ed. hefur breytt því á þann veg, að framvegis séu það oddvitar og bæjarstjórnir, sem skulu innheimta gjaldið.

Ég og ýmsir fleiri lítum svo á, að þessi breyting hafi verið til hins lakara, og styðst það við það, að það er yfirleitt reynsla, að innheimta til þess opinbera eða til ríkissjóðs gengur greiðara en allajafna til sveitar- og bæjarsjóða. Í öðru lagi þurfa þessir innheimtumenn, sem eru sýslumenn og bæjarfógetar, að innheimta önnur gjöld 1já þessum sömu aðilum, og venjulega er fasteignaskatturinn svo lítill hluti, að það stendur ekki á þeirri greiðslu.

Það kann einhver að segja, og hefur þetta sennilega verið rökstutt með því, að það væri óeðlilegt, að ríkissjóður færi að innheimta fyrir sveitarfélögin. Þetta er þó það, sem hefur gerzt allt fram að þessum tíma. Sýslumenn hafa innheimt viss gjöld fyrir ríkissjóð og sömuleiðis fyrir sýslusjóði og sveitarsjóði. Má þar nefna t.d. hundaskattinn, sem frá því hann fyrst var lagður á var ávallt innheimtur af sýslumönnum og rann í sveitarsjóði; sömuleiðis sýsluvegasjóðsgjaldið, sem rennur beint til sýslunnar, það er einnig innheimt af sýslumönnum. Ég sé þess vegna ekki, að það séu nein brot á reglum, þó að þeir innheimti það gjald, sem þeir hafa ávallt innheimt síðan það var sett.

Það má líka á það benda, að einmitt fasteignaskattinum verður ávísað að öllum líkindum beinlínis til sýslumanna af oddvitunum, vegna þess að hrepparnir þurfa að inna árlega af hendi allhá gjöld til sýslusjóðs, og þá mun sýslumaður, þegar hann innheimtir þetta gjald, taka það undir sér og færa það viðkomandi hreppi til tekna upp í hans sýslugjöld. Þetta er þess vegna í eðli sínu sá einfaldasti máti, því að þetta eru gjöld, sem hann þarf að fá.

Það er kannske ekki svo mjög erfitt eins og stendur að innheimta, en ég vil benda á það og minnist þess, að fyrir alllöngu, þegar erfitt var um greiðslur, reyndist stundum allerfitt fyrir hreppana að inna af hendi þau gjöld, sem áttu að ganga til sýslunnar og oddvitar áttu að innheimta. Aftur á móti mun ekki hafa borið á því, að þinggjöldin innheimtust ekki nokkurn veginn. Það er einhvern veginn orðið að venju, a.m.k. þekki ég það í sveitum, að það er talið nokkuð sjálfsagður hlutur að greiða þinggjaldið, þó að menn dragi kannske stundum úr hófi fram að greiða útsvörin til oddvita.

Ég held þess vegna, hvernig sem á þetta mál er litið, þá sé skynsamlegast að færa málið aftur í það horf, sem ríkisstj. bar það fram hér á Alþ., og legg því til, að það verði gert, en því miður urðum við svo naumt fyrir, að við höfðum ekki tíma til að fá brtt. okkar prentaðar og verðum því að flytja hér skriflegar brtt., sem ég vil biðja forseta að leita afbrigða fyrir.