09.04.1954
Efri deild: 84. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

184. mál, fasteignaskattur

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta mál hóf göngu sína fyrst hér í efri deild og var þá vísað til fjhn. Að tillögu fjhn. voru gerðar á frv. breytingar þær, sem hv. 10. landsk. (GÍG) minnti á að hér hefðu verið gerðar. Þær till. gerði fjhn. að óskum frá stjórn félags héraðsdómara, sem leit svo á, að það væri erfiðleikum bundið fyrir innheimtumenn ríkisins að annast innheimtu þessa skatts, eftir að hann ætti að falla í hlut sveitarfélaganna. Nú hefur hv. Nd. breytt frv., tekið úr því þær till., sem inn voru settar hér í hv. Ed., og skilað því aftur í sama formi og það var upphaflega fram lagt. Hæstv. forseti óskaði eftir því, að fjhn. athugaði málið á ný, og þó að ekki hafi verið haldinn um það formlegur fundur í n., þá hafa fjhn.-menn ræðzt við um það, og fjórir þeirra af fimm eru ákveðnir í því að mæla með því, að frv. verði nú samþ. óbreytt. Einn maður n., hv. 4. þm. Reykv. (HG), hefur ekki tjáð afstöðu sína í þessum viðræðum. Meiri hl. lítur svo á, að ástæðulaust sé að fara á síðustu dögum þingsins að hefja stríð milli deilda um frv. og leggur því til, að felldar séu þær aðaltill., sem tveir hv. þm. hafa borið fram á þskj. 803 og gerð var grein fyrir hér áðan af hv. 10. landsk. þm.

Enn fremur er það einróma álit þessa meiri hl. fjhn., að ekki sé rétt að samþ. varatill., og til þess liggja ýmsar ástæður, en fyrst og fremst sú ástæða, að með því móti er sama og ekkert gert úr þessum skatti, sem innheimtur hefur verið í meira en 30 ár. Skatturinn er ekki nema 11/2% af húseignum samkvæmt fasteignamati og 3% af lóðum og lendum eftir fasteignamati. Renni maður augum yfir fasteignamatsbók, þá sést, að ef ekki væru innheimtar lægri upphæðir en 50 kr. af fasteign, þá má telja, að í mörgum sveitum yrði ekkert að innheimta og skatturinn félli algerlega niður. Mér skilst, að hér í Reykjavík svari til þess, að venjulegt þriggja íbúða hús komi þá til greina til að reikna af skatt, en ekki minni hús, ef þau eru þá ekki óvenjulega dýrt byggð.

Það var og niðurstaða í ríkisstj. að leggja það til, eftir bendingu skattamálanefndar, að ríkissjóður ávísaði þessum skatti til sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafa óskað eftir endurskoðun á sinni tekjuöflunarlöggjöf, og það hefur verið falið skattamálanefndinni að endurskoða þá löggjöf. Ekki hafði unnizt tími til þess, og í stað þess, að hið háa Alþ. nú gerði eitthvað til þess að bæta hag sveitarfélaganna eða greiða fyrir tekjuöflun þeirra, þá er, eins og hv. þm. vita, hið öfuga gert og tekinn af þeim álögurétturinn á sparifé og einnig tekinn af þeim hluti af stríðsgróðaskatti, með því að hann er ýmist felldur niður samkvæmt breytingum þeim, sem gerðar hafa verið á lögunum um tekju- og eignarskatt, ellegar stórlækkaður. Með því móti að samþ. varatill., þá væri þessi ávísun gerð nálega einskis virði, og væri í raun og veru hreint hégómamál að samþ. frv. eftir slíka breytingu. Hitt er aftur á móti, að dálítið tínist til tekna í sveitarfélögunum, ef skatturinn er innheimtur óskertur, og satt að segja er hann ofur lítið meira virði, ef sveitarfélögin þurfa ekki að annast innheimtu hans, eins og frv. nú orðið hljóðar um og upphaflega hljóðaði um, þó að gengið væri inn á það við afgreiðslu málsins hér í þessari deild um daginn af tilhliðrunarsemi við innheimtumennina, sem áður höfðu starfað fyrir ríkið að innheimtu skattsins, að leggja innheimtukvöðina á sveitarfélögin. Ég lít svo á, að innheimtumennirnir verði að sætta sig við það, þótt þeir verði áfram að innheimta þennan skatt eins og þeir hafa gert í rúmlega 30 ár, enda hygg ég, að það megi slá því föstu, að það verði ekki mörg ár, sem fyrirkomulagið helzt, því að sennilega verður fljótlega lokið endurskoðun á tekjuöflunarlöggjöf sveitarfélaganna, og þá er enginn vafi á því, að þessi tekjulind, sem er litil seytla, verður afnumin og henni veitt í annan farveg. Skattarnir verða af fasteignum a.m.k. aldrei hafðir tveir. En heimilt er nú, eins og allir vita. að sveitarfélög innheimti fasteignaskatt. Þetta er þess vegna aðeins bráðabirgðatilhögun, og mér virðist, að ekki sé hart að ætla innheimtumönnum ríkisins að annast innheimtuna stutta stund eins og verið hefur og sá kostnaður, sem af því leiðir fyrir ríkið, sé varla umtalsverður; hitt sé meira vert, að þegar þessum litla skatti er ávísað til sveitarfélaganna, þá sé hann ekki að engu gerður með því að samþ. till. eins og varatill. er.