07.10.1953
Efri deild: 4. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

12. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. til áfengislaga var lagt fyrir þessa hv. d. á síðasta þingi, en var þá víkið frá með rökstuddri dagskrá. Ég skal ekki ræða um þá afgreiðslu, læt hana liggja í þagnargildi, en vík aðeins að því, að þá var frv. sérstaklega fundið til foráttu í umr. og síðar á mannfundum, að þar var heimilað að brugga áfengt öl í landinu og selja að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu, sem ráðh. átti að hafa heimild til að bjóða. Ég lýsti því þegar yfir í fyrra, að ég teldi ekki rétt, að ráðh. kvæði á um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. heldur yrði það Alþ. sjálft, sem tæki ákvörðun um hana, hvort hún ætti að fara fram eða ekki, og var ég frv. þá þegar að því leyti ósamþykkur, en frv. var lagt fram óbreytt frá því, sem það kom frá þeirri n., sem ég hafði skipað til undirbúnings málinu í samráði við og með samþykki allrar þáverandi ríkisstjórnar.

Þegar taka skyldi ákvörðun um það, hvort Leggja skyldi frv. fyrir Alþ. aftur að þessu sinni, þá taldi ég eðlilegast að fella niður þetta ákvæði um ölbruggið, af þeirri ástæðu í fyrsta lagi, að það var hið mest umdeilda ákvæði frv., og í öðru lagi vegna þess, að ég var ekki samþykkur sjálfur ákvæðinu eins og það var, tel, að Alþ. verði sjálft að kveða á um, hvort slík starfsemi skuli eiga sér stað eða ekki, eða kveða á um, hvort þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram um það eða ekki, en ekki fela í hendur ráðh. að taka slíka ákvörðun. Í þriðja lagi er það augljóst, að ef þingvilji er fyrir slíku ákvæði, sem ég raunar efa, þá er Alþ. mjög auðvelt að bæta því inn í frv., án þess að meginefni þess að öðru leyti þurfi að raskast. En þar sem ég var sjálfur óánægður með ákvæðið eins og það var, taldi ég langhreinlegast að fella það niður.

Að öðru leyti er frv. óbreytt, og þó að það sé auðvitað svo, að mönnum hljóti að sýnast sitt hvað um ýmis þau ákvæði, sem hér eru, — sjálfur er ég ekki ánægður með öll ákvæðin, og ég þykist vita, að ýmsir þingmenn séu óánægðir með hitt og þetta af einstökum ákvæðum, — þá vil ég leggja á það mikla áherzlu, að ég tel ekki fært, að þetta þing láti hjá liða að taka efnislega ákvörðun um þetta mál nú. Ég tel, að þingið verði að gefa sér tíma og færi til að kveða á um, hvaða skipun eigi á vera í þessum málum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að eftir að Alþ. neitaði í fyrra að afgreiða málið, þá bannaði ég með öllu þær heimildir til vínveitinga á veitingahúsum, sem áður höfðu verið veittar, og tók þar með vínveitingaleyfið einnig af Hótel Borg. Ég tel ástæðu að skýra þetta örfáum orðum, en skoðun mín er sú, að það sé með öllu ófært og til fullkomins þjóðarvansa að veita hvergi vín á veitingastað nema á þeim eina frambærilega gististað, sem hér er í höfuðborginni. Líkt ástand mundi leiða til þess óhjákvæmilega og hafði þegar leitt til þess, þó að í minna mæli væri, að alls konar drykkjulæti og ófögnuður þeim samfara setti úr hófi fram svip sinn á þennan helzta gististað landsins. Margir útlendingar, sumir tignir gestir, höfðu haft orð á því við mig, að þeir væru óvanir slíkum bæjarbrag sem var á Hótel Borg og þar í fordyri sökum drykkjuskapar, meðan Hótel Borg var helzti vínveitingastaður bæjarins. Þetta hlaut þó að magnast mjög og verða að hreinni þjóðarskömm, ef hvergi hefði verið hægt að fá vín keypt á almennum veitingastað nema á Hótel Borg. En áður hafði um alllangt skeið, frá því löngu áður en ég tók við meðferð þessara mála, tíðkazt sú framkvæmd á lagaboðunum, að auk Hótel Borgar voru veitt vínveitingaleyfi á mikinn fjölda svo kallaðra skemmtana, hér í bæ sérstaklega. Ég hef aldrei vefengt, að þessi framkvæmd laganna var í raun og veru ákaflega hæpin, og hún gat ekki helgazt af öðru en því, að venja var komin á um hana, venja, sem ekki var verulega að fundið.

Á síðustu þingum gerðist hins vegar það, að mjög var fundið að þessari venju. og mikil blaðaskrif urðu um málið, m.a. af hálfu málgagns þáverandi hæstv. forsrh., þar sem mjög eindregið var fundið að því, að dómsmrh. leyfði slíkt hátterni. Það varð því ekki talið, að nægur stuðningur væri við þessa framkvæmd laganna lengur, og þó að þessi háttur hefði verið, eins og ég hef getið um, óvefengjanlega tekinn upp löngu áður en ég varð dómsmrh., þá vildi ég ekki taka ábyrgð á svo hæpinni framkvæmd laganna, eftir að Alþ. hafði gefizt færi á að taka sjálft afstöðu til málsins, en skotið sér undan því, en engu að síður var haldið uppi harðvítugum árásum á dómsmálastjórnina fyrir að þola þennan hátt. Ég taldi, að slíkt væri ógerningur og þess vegna yrði að fella niður þau vínveitingaleyfi, sem áður höfðu verið heimiluð. Og eins og ég segi, ef þau eru felld niður, þá er, eins og háttum nú er komið, með öllu ómögulegt að ætla að sameina þessar vínveitingar allar á einu litlu hóteli hér í bænum. Það er ekki með nokkru móti boðlegt, allra sízt þar sem það er helzti og raunar að vetrarlagi eini frambærilegi gististaðurinn fyrir aðkomandi menn. Það var því ekki um annan kost að velja en þann að afnema þessi vínveitingaleyfi með öllu.

Það verður aftur á móti að horfast í augu við það, að af þessu hefur leitt ástand, sem engan veginn er gott. Við vitum, að það er því miður töluverður skortur á hreinskilni, sem oft á sér stað í sambandi við umr. um þessi áfengismál, og skal ég engum sérstökum aðila kenna um það eða ásaka einn frekar öðrum. En það er þó ljóst, og við verðum að hafa hreinskilni í okkur til að játa það, að það er einkennilegt fyrirbæri, svo að vægilega sé til orða tekið, að ríkið skuli selja áfengi fyrir marga tugi milljóna, eitthvað milli 50 og 100 millj., — ég velt ekki, hvar það er á því sviði, sjálfsagt er það nær 50 millj. kr. á hverju ári, — en svo skuli vera óheimilt að koma inn á nokkurn almennan veitingastað og neyta þessarar vöru. Annars staðar, þar sem ég hef farið, þá er þessa varnings einkanlega neytt í almennum veitingahúsum og óvíða þannig, að til mjög mikilla leiðinda verði, þó að viða sé þetta að vísu til lítillar prýði, það skal játað, — en á flestum stöðum, þar sem ég hef verið, hafa menn neytt þessa án þess, að nokkur skömm eða vandræði hlytust af. Hér á landi er salan hins vegar leyfð, en hvergi leyft að neyta áfengis á almennum veitingahúsum. Við vitum, að hjá allflestum heimilum eru atvik slík, að ekki er sérstaklega æskilegt, að menn séu hvattir til heimadrykkju áfengis. Það eru margir menn í landinu, sem neyta áfengis, en hliðra sér þó heldur hjá því að vera það t.d. í návist barna sinna eða hálfvaxinna unglinga. Þetta leiðir til þess, að það er eðlilegt, að áfengisins sé þá neytt í bílum, á ferðalögum, á götum úti, í skúmaskotum eða annars staðar, þar sem menn geta brugðið sér í skjól og neytt þessa drykkjar. Þetta leiðir svo aftur til þess, að ölvun er hér miklu meiri á almannafæri og hneykslanlegri í augum gesta og gangandi heldur en víðast hvar annars staðar, þó að sannleikurinn sé sá, að Íslendingar drekki mínna en flestar aðrar þjóðir. En allt setur þetta villimennsku- og siðleysisblæ á þessa iðkun, sem menn geta verið með eða móti, hver eftir sinni vild, en allir ættu þó að geta sameinazt um, að meðan hún á annað borð er heimiluð í landinu, ætti að stuðla að að gæti farið fram með sem siðsamlegustum hætti og játning, að sem minnst spjöll yrðu á til álits hvort heldur einstaklinga eða þjóðarinnar í heild.

Til viðbótar þessu kemur svo það, að þó að vínveitingar séu óheintilar í veitingahúsum nú, þá er það auðvitað gersamlega óframkvæmanlegt fyrir nokkra löggæzlumenn og í raun og veru fyrir nokkra veitingamenn að gæta þess til hlítar, að ekki eigi sér stað drykkjuskapur inni á veitingastöðunum. Sérstaklega á þetta sér þó stað á skemmtunum, þar sem mikið fjölmenni er, þar sem menn hafa gosdrykki um hönd mikið, þar sem menn ganga út og inn með eðlilegum hætti til þess að fá sér frískt loft. Þegar svo háttar til, kann ég ekki neitt ráð til þess og mundi mjög gjarnan vilja fræðast af þeim, sem kann eitthvert ráð til þess að koma í veg fyrir, að verulegur drykkjuskapur eigi sér stað, þegar að öðru leyti stendur eins á og nú gerir hér. Það má því segja, að núverandi fyrirkomulag er frá öllu sjónarmiði mjög óheppilegt og lítt viðunandi.

Það eru í þessu frv. bornar fram ákveðnar till. til lausnar þessu máli. Það er þingsins að taka afstöðu til þess. Ég get skilið, að sumir séu þeim andvígir, býst við, að sumir séu þeim samþykkir. Þeir, sem eru þeim andvígir, mega þó ekki skjóta sér undan í ábyrgðarleysi að taka afstöðu til þeirra. Þeir verða þá sjálfir að bera fram gagntillögur, t.d. um algert bann. Það er afstaða út af fyrir sig. Ég er henni ekki samþykkur, en það er afstaða út af fyrir sig. En núverandi háttur á þessu er með öllu ótækur, og það verður að fást nógu ákveðinn lagabálkur um meðferð málsins, þannig að hægt sé fyrir löggæzlumenn og dómsmálastjórn að framfylgja lögunum eins og þau eru, en eins og þau voru áður, voru þau óframkvæmanleg. Framkvæmdin er einfaldari eftir það bann við vínveitingaleyfum, sem ég gaf út á s.l. vetri, en þó er auk þess óheilbrigðis, sem að sumu leyti leiðir af því, eins og ég segi ómögulegt að tryggja, að ekki sé. drukkið meira og minna á samkomum eftir se!n áður. Þá tel ég miklu heilbrigðara, að um það verði sett skynsamleg, hófsamleg ákvæði, sem Alþ. geti komið sér saman um, heldur en að hver um sig reyni að skjóta ábyrgðinni af sér og reyni að koma henni yfir á einhvern annan, en allir viðurkenni þó, að ástandið sé óviðunandi. Ég vil þess vegna mjög eindregið skora á hv. d. — en allshn. lagði töluverða vinnu í frv. í fyrra — að bregða nú skjótt við og reyna að afgreiða þetta mál tímanlega frá sér og með þeim hætti, að það geti fengið efnislausn á þessu þingi, hver sem hún svo kann að verða.