23.02.1954
Efri deild: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

12. mál, áfengislög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Á síðasta þingi lagði hæstv. dómsmrh. fram frv. til áfengislaga, er samið hafði verið af sérstakri nefnd manna, er skipuð var til þess að athuga þessi mál og gera till. um umbætur á gildandi áfengislöggjöf. Var frv. á því þingi vísað til 2. umr. og hv. allshn., sem ekki gat orðið sammála um afgreiðslu málsins. Við 2. umr. lágu fyrir um 70 brtt., hvar af 27 brtt. voru frá einum nm. allshn., hv. 1. þm. N–M., og 5 brtt. frá öðrum nm., hv. þm. Seyðf., auk þess sem hann þá taldi sig mundu ljá fylgi sitt við ýmsar þær aðrar brtt., sem þá lágu fyrir. Hins vegar lá aðeins ein till. fyrir frá meiri hl. hv. n., en sú till. gekk út á það að vísa málinu frá með rökstuddri dagskrá til frekari undirbúnings, þar sem málið hafði ekki að áliti meiri hl. fengið eðlilegan undirbúning, áður en það var lagt fyrir Alþingi. Var hin rökstudda dagskrá samþykkt, án þess að tækifæri gæfist til þess að fá um það nokkra vitneskju, hvaða fylgi ættu hinar mörgu brtt., sem fyrir lágu hér í þessari hv. d. Og það einkennilegasta í meðferð málsins þá er það, að einmitt sá nm., sem lagt hafði í það mikla vinnu að bæta frv. með því að bera fram yfir 20 brtt., situr hjá við atkvgr. um rökstuddu dagskrána, sem samþ. var aðeins með eins atkv. mun, en hefði fallið með jöfnum atkv., ef hann hefði greitt atkv. gegn henni. Þannig stuðlaði hann að því, að hans eigin brtt. kæmu ekki undir atkvæði í d. Má því segja, að hann hafi þannig sjálfur orðið banamaður allra sinna góðu brtt. í þessu máli.

Í byrjun yfirstandandi þings lagði hæstv. dómsmrh. fram frv. á ný hér í þessari hv. d. Hann hafði ekki, sem von var, látið fara fram neina frekari athugun á málinu, hvorki í þeirri n., sem um það hafði fjallað áður, né heldur skipað til þess aðra menn að athuga málið og búa það betur undir flutning á þessu þingi. Það var vitað, að hin rökstudda dagskrá var ekki sannleikanum samkvæm, og það var ekkert vitað um vilja meiri hluta þessarar hv. d. gagnvart hinum mörgu brtt., sem fyrir lágu, og engan veginn nægilega ljóst, hvorki af nál. né umræðunum, hvaða stefnu hv. d. vildi marka í þessu mikla vandamáli, annað en það, að svo virtist sem meiri hl. vildi þó fella niður úr frv. heimild til þess að láta fara fram þjóðaratkvæði um það, hvort ölbrugg skyldi leyfa í landinu. Allt var þetta þó ágizkun ein, því að um það atriði fór ekki heldur fram nein atkvgr. Hæstv. ráðh. hefur þó þótt rétt að fella þetta ákvæði niður úr því frv., er hann lagði fram á þessu þingi og nú er hér til umræðu. Engar aðrar breytingar þótti hæstv. ráðh. ástæða til þess að láta gera á frv. með tilliti til meðferðar málsins á síðasta Alþingi.

Frv. var vísað til hæstv. allshn. snemma á þessu þingi og hefur því verið þar til meðferðar í um þriggja mánaða skeið, þegar þingfríið er frá reiknað. Í hv. allshn. eiga sæti 3 hinir sömu menn sem athuguðu og afgreiddu málið á siðasta þingi, þ. á m. tveir hv. þm., sem þá stuðluðu ýmist beint eða óbeint að frávísun málsins. Annar þessara manna, hv. 1. þm. N-M., flutti þegar að lokinni 1. umr. aftur flestallar till. sínar til breyt. á frv., sem hann sjálfur myrti svo kyrfilega á síðasta Alþingi. Og nú hefur hv. allshn. skilað sameiginlegu áliti um málið ásamt 13 brtt. Hafa allir hv. nm. undirritað nál. án nokkurs fyrirvara. Og þótt það sé ekki nema örfáar línur og þótt allir hv. nm. séu innilega sammála um nál., kemur þó skýrt í ljós, að þar er enginn sammála um afgreiðslu frv. í heild eða þá stefnu, sem rétt þykir að marka í þessu mikla vandamáli þjóðarinnar. Samtímis þessu, sem ég hef hér lýst, bera svo hv. nm. fram urmul af brtt. á sérstökum þskj., ýmist einir eða með öðrum hv. þm. En allt er á huldu um það, hvort hv. n. ætlar sér að fylgja frv. til 3. umr. eða lengra, ef t.d. allar brtt. verða felldar aðrar en brtt. n. Hefði þó verið fróðlegt fyrir hv. d. að fá um það nokkra vitneskju. Ég skal taka það fram, að mér skildist á hv. frsm., að bak við frv. stæði vilji allrar n., jafnvel þó að engu öðru yrði breytt í frv. en því, sem n. leggur til, þannig að mér skildist á hans ræðu, að jafnvel þótt allar aðrar brtt. yrðu felldar, þá mundi n.— standa einhuga um að fylgja frv. út úr þessari hv. d. Hins vegar kemur ekkert fram um það í nál., eins og sést á þskj. Ég hygg, að það mætti leita lengi í þingtíðindum til þess að finna hliðstæð vinnubrögð nokkurrar hv. þingnefndar í nokkru máli bæði fyrr og síðar. Stafar þetta sjálfsagt mest af því, að hér er um óvenjulega viðkvæmt mál að ræða og óvenjulegan vanda að leysa. En það út af fyrir sig getur ekki réttlætt það, að hv. þm. kasti frá sér vandanum, eða heimilað þeim að hylja hina sönnu skoðun þeirra á málinu. Þjóðin á sannarlega kröfu á því, að þeir menn, sem hún hefur falið að fara með umboð sitt á Alþingi, hafi bæði til þess vit og kjark að mynda sér skoðun á vandamáli og láta hana uppi til leiðbeiningar fyrir allan almenning. Meðferð og afgreiðsla málsins í hv. n. ber þess sannarlega vitni, að til séu hv. þm., sem lita öðrum augum á þessa skyldu þingfulltrúa. Og þó verður aldrei komizt út úr því öngþveiti, sem áfengismál þjóðarinnar eru nú í og hafa verið í um langt skeið, fyrr en nægilega margir hv. þm. telja sér skylt að segja þjóðinni, hvað þeir álíti henni fyrir beztu í þessu máli, og leggja þar við þingsetu og þingmannsheiður. Og það gildir ekki einungis um þetta vandamál, heldur og öll önnur vandamál, sem þingið fær til meðferðar á hverjum tíma.

Mér þótti rétt að benda hér á þetta við þessa umræðu, áður en ég ræði hér þær brtt., sem ég hef borið fram á þskj. 50. Eru þetta sömu brtt. og ég bar fram við frv. á siðasta þingi, að undantekinni fjórðu brtt. á þskj. 111 frá síðasta þingi, við 7. gr. frv. eins og það var þá, þar sem sú gr. var felld úr frv. því, sem hér er til umr., eins og ég áður hef tekið fram. Skal ég þá gera hér ýtarlega grein fyrir till. mínum á þskj. 50, þar sem ég tel, að ýmsar þeirra séu frumskilyrði fyrir þeim umbótum, sem þjóðin óskar að verði á þessum málum í framtíðinni. Afstaða mín til frv. í heild fer svo að sjálfsögðu eftir því, að hve miklu leyti hv. d. samþykkir þessar till.

1. brtt. mín, við 1. gr. frv., er sem hér segir, með leyfi hæstv. forseta: „Greinin orðist svo: Tilgangur laga þessara er sá að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu og útrýma því böli, sem henni er samfara.“

Hér er að vísu aðeins að ræða um ákveðna stefnuyfirlýsingu, en það er þó síður en svo, að slík stefnuyfirlýsing sé þýðingarlítil eða þýðingarlaus, enda er það víst, að orðalag þessarar 1. gr. frv. var mjög róttækt ágreiningsefni í mþn., sem samdi frv. Þetta er ekki heldur neitt undarlegt, því að einmitt um þetta atriði eru meginátökin í landinu. Að afgreiða áfengislöggjöf án þess að marka skýrt í sjálfum lögunum, hver sé megintilgangur þeirra, eins og hv. allshn. leggur til að gert verði, þar sem hún leggur til einróma, að 1. gr. frv. verði felld niður, er beinlínis að bjóða heim glundroðanum og stefnuleysinu í þessu mikla vandamáli. Meiri hl. milliþn. markar hér ákveðna stefnu. Hann vildi, að tilgangur laganna væri sá að stuðla að hóflegri meðferð áfengis og vinna gegn misnotkun þess. Þetta er stefna út af fyrir sig, þótt ég sé henni ósamþykkur. En hún er þó margfalt betri en engin stefna, margfalt betri en sá glundroði, sem hv. n. vill viðhafa í þessu máli. Ég vil hins vegar, að lögin marki þá stefnu að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu og útrýma því böli, sem henni er samfara, og við þetta hef ég miðað allar aðrar mínar brtt. við frv., alveg eins og mþn. miðaði réttilega allar sínar till. við þá yfirlýsingu, sem hún tjáir í 1. gr. Í þessari stefnuyfirlýsingu, sem hér um ræðir, er reginmunur. Þar er allt önnur og miklu linari sókn gegn áfengisbölinu, að stuðla að hóflegri meðferð áfengis og að vinna gegn misnotkun þess, eða að vinna gegn misnotkun áfengis og útrýma því böli, sem henni er samfara. Og hvaða menn eru það í landinu, sem raunverulega eru á móti því, að unnið sé gegn misnotkun áfengis og að útrýmt sé því böli, sem henni er samfara? Er nokkur maður til á þessu landi, sem vill viðhalda misnotkun áfengis, eða er nokkur maður til í þessu landi, sem vill viðhalda því böli, sem ofdrykkjunni er samfara? Ég fullyrði, að slíkir menn eru ekki til, ekki heldur meðal þeirra manna, sem að vanathuguðu máli leggja til, að slíkri stefnuyfirlýsingu sé vikið frá. Þeir hv. þm., sem kynnu að greiða atkv. gegn 1. brtt. minni um, að 1. gr. frv. orðist svo sem þar segir, geta sannarlega ekki vænzt þess að verða taldir liðtækir í baráttunni gegn áfengisbölinu í landinu, hversu blítt sem þeir annars kunna að tala um þetta mál. Til þeirra hv. þm., ef nokkrir eru hér í þessari hv. d., vildi ég mega beina þessari spurningu: Hvað á að vera megintilgangur áfengislaga, ef ekki einmitt sá, sem feist í brtt. minni? Ef hann á að vera einvörðungu sá að afla ríkissjóði sem mestra tekna, þá er langflestum greinum frv. ofaukið. Þar er nóg að heimila ríkisstj. einkasölu á áfengi og ef til vill einnig ótakmarkaða bruggun áfengra drykkja. Mætti síðan með reglugerð setja ákvæði, hvaða hátt skyldi hafa á því að fá fólkið til þess að kaupa sem mest af víninu. Ef það er hins vegar tilgangur áfengislaga að tryggja það, að ríkissjóðurinn einn fái allan ágóða af því vini, sem neytt er í landinu, án þess þó að örva til drykkju, þá þarf einnig að gerbreyta frv. til þess að ná því marki. En þjóðin mundi ekki sætta sig lengi við svo einhliða löggjöf um þetta mál. Meginhluti þjóðarinnar krefst þess, og er henni mestur sómi að því að falla ekki frá þeirri kröfu, að áfengislögin geri allt í senn: tryggi ríkissjóði allar tekjur af innflutningi vínanda til landsins, hverju nafni sem nefnist, tryggi ríkissjóði verulegan hluta af vínsölu í landinu beint eða óbeint, vinni gegn misnotkun áfengis í landinu, verndi hina uppvaxandi æsku frá því að verða vinnautninni að bráð, veiti almenningi vernd gegn hvers konar hættu, sem stafar frá verknaði ofdrykkjunnar, útrými því böli, sem áfengisnautninni er samfara, og tryggi þá fræðslu, sem þjóðinni er lífsnauðsyn til þess að skapa sterka sókn gegn áfengisbölinu, samfara því að byggja upp sterkt almenningsálit, sem fordæmir allt það siðleysi, sem er samfara ofnautn áfengis og nú er ekki talið ámælisvert í vitund þjóðarinnar, en á stærsta sök á því ástandi, sem nú ríkir hér í áfengismálunum. Áfengislöggjöf er nauðsynleg til þess að ná þessu takmarki. Um þetta er ekki heldur deilt. Hitt veldur öllum deilunum, hvaða leiðir skuli fara, og þó einkum, hve nærri skuli ganga frelsi manna með alls konar ákvæðum, er talið er nauðsynlegt að lögfesta til þess að ná settu marki. Skal ég svo láta þetta nægja í sambandi við 1. brtt. mína.

2. brtt. mín er við 3. gr. frv. og miðar að því að banna allan innflutning á öli. Það sýnist alveg óþarfi að leyfa innflutning á öli, þótt það innihaldi minna en 21/2% af vínanda. Annars skiptir það út af fyrir sig ekki miklu máli, þar sem það má sjálfsagt teljast til undantekningar, ef öl er flutt til landsins.

3. brtt. mín er við 4. gr. og er í fjórum stafliðum. A-liðurinn miðar að því að fella niður það ákvæði, að skip megi hafa hæfilegan forða af óinnsigluðu áfengi til neyzlu handa skipsmönnum. Ef á annað borð á að lögbjóða að innsigla áfengi í skipi, ætti ekki að leyfa neinn forða skipsins undanþeginn. Skipverjum er í engu vandara um að vera án áfengis innan hafnar en þeim, sem í landi búa, eða sæta sömu reglu um áfengiskaup, geti þeir ekki án þess verið þá stuttu stund, sem skip er í höfn. Hins vegar torveldar þetta ákvæði mjög eftirlit með því, að engu sé smyglað af áfengi í land úr skipi, og gerir slíkt eftirlit í mörgum tilfellum gersamlega óvirkt. Öll önnur ákvæði 4. gr. eru mjög lítils virði, sé þessu ákvæði siðasta málsl. 3. málsgr. haldið óbreyttu. B-liðurinn er að sjálfsögðu afleiðing af samþykkt a-liðar og þarf því ekki skýringar við. Og c-liðurinn er einnig afleiðing af samþykkt a-liðar, ef hann verður samþykktur. Hv. allshn. hefur efnislega tekið upp d-lið úr minni till. í 2. brtt. sína undir b-lið, svo að ef sú till. verður samþ., er sjálfsagt að taka mína till. aftur.

4. brtt. er við 8. gr. Er rétt að taka þá till. aftur til 3. umr., en þá verður séð, hvort till. n., sem fram eru komnar um að fella niður úr frv. ákvæðin um áfengisvarnasjóð, verða samþ.

5. till. mín er um það, að aftan við 9. gr. bætist, að óheimilt sé að gefa veitingamönnum afslátt frá hinu ákveðna útsöluverði til almennings. Eins og 9. gr. er nú í frv., kveður hún ekkert á um þetta atriði. Þykir rétt að upplýsa í sambandi við þetta, að allt frá því að Hótel Borg var byggt og þar til á árinu 1948 hafði verið gefinn 20% afsláttur á öllu víni, sem selt var hótelinu. Nam þessi afsláttur síðasta árið hvorki meira né minna en rúmlega 500 þús. kr. Jafnskjótt og mér varð þetta ljóst sem formanni fjvn., tók ég málið fyrir í n. og fékk samþykki meiri hl. fyrir því að óska þess, að þáverandi hæstv. fjmrh., hv. þm. Vestm., afnæmi þessi fríðindi. Varð ráðh. þegar við þeim óskum n. Ég tel víst, að því megi treysta, að þessi regla hafi verið látin gilda alla tíð síðan, og ef svo er, þykir rétt, að hún sé lögfest eins og lagt er til í brtt. minni. Hafi hin fyrri regla hins vegar verið tekin upp á ný af núverandi hæstv. fjmrh., sem ég trúi ekki, er enn meiri ástæða til þess að samþ. till. Það getur ekki verið neinn hagur fyrir ríkissjóðinn, að slík venja verði tekin upp, að lækka verðið til einstakra veitingamanna; álagning þeirra er ekki háð neinn verðlagseftirliti og gróði þeirra af þessari sölu slíkur, eftir því sem þeir hafa sjálfir upplýst, að engin minnsta ástæða er til þess að auka við hann á kostnað ríkissjóðs. Þess er því að vænta, að þessi till. mín verði samþ.

6. brtt. mín er við 10. gr., en gr. öll orðuð upp og sami réttur til atkvgr. um héraðsbann gefinn, hvort sem menn eru íbúar í kaupstað eða í sveitarfélagi. Ef um er að ræða einhver fríðindi fyrir kaupstaðarbúa með ákvæðum 10. gr., hvers vegna mega þá ekki íbúar smærri staða einnig njóta þeirra? Sé hins vegar um að ræða einhverja byrði, einhvern kross, einhvern óbærilegan kross, sem verið er að leggja á kaupstaðina, hvers eiga þeir þá að gjalda? Engin löggjöf, sem felur í sér augsýnilegt ranglæti, er viðurkennd af þjóðinni eða nær tilgangi sínum, hversu góður sem hann er. Nú er mjög um það deilt, hvort héraðsbönnin hafi aukið eða dregið úr drykkjufýsn manna á þeim stöðum, sem þeim hefur verið komið á, en hvort sem svo er eða ekki, þá eiga allir aðilar að vera jafnir fyrir þessum lögum sem öðrum, hvar sem þeir búa í landinu. Íbúum hinna fámennu staða er engu siður trúandi til þess að þekkja sinn vitjunartíma í þessu máli en hinum, sem í margmenninu lifa. Það er því alveg óþarft að lögbjóða einhver sérákvæði þeirra vegna.

7. brtt. er við 12. gr. frv. Er lagt til, að gr. verði orðuð um og efni hennar nokkuð breytt frá því, sem er í frv., m.a. samræmt við fyrri brtt., ef samþ. verða. Fellt er niður það ákvæði, að Samband gistihúsa- og veitingahúsaeiganda skuli dæma um flokkun veitingahúsa eða geti haft áhrif á, hvaða aðilar fái vínveitingaleyfi. Er lagt til, að vald þetta sé hjá ráðuneytinu, sem ávallt getur kvatt til kunnáttumenn eða sett um þetta ákveðnar reglur. Þá er einnig lagt til, að 3. málsgr. falli niður, en hún mælir svo fyrir, að ráðh. sé heimilt að veita þeim veitingastöðum vínleyfi, er aðallega séu fyrir erlenda ferðamenn. Ég lít svo á, að óeðlilegt sé, að nokkur sérákvæði séu í lögunum um slíka staði, enda ávallt mjög umdeilanlegt, hverjir kæmu þar til greina og hverjir ekki. Skilyrði fyrir leyfum til veitinga eiga að vera almenn og ein og þau sömu fyrir alla aðila, en ekki að flokkast á þann hátt, sem gert er í frv., svo sem gert er ráð fyrir í þessari gr. Samfara leyfisveitingunum á að gera strangar kröfur til þeirra, sem þau hljóta, og til allra jafnt, hvar sem er á landinu. Skal vikið að þessu atriði nokkru síðar.

8. brtt. er við 15. gr. frv., að fyrri málsl. 2. málsgr. falli niður. Ég sé, að hv. n. ætlast til þess, að síðari málsl. þessarar gr. falli niður, og getur þá orðið samkomulag um að fella gr. alveg niður. Þetta ákvæði heimilar áfengisverzluninni að taka upp skömmtunarkerfi, sem áður gilti hér og reyndist einna verst af öllu, sem reynt hefur verið til þess að draga úr vínnautn almennings. Hefur sama reynsla fengizt um þetta í öllum öðrum löndum, þar sem því hefur verið komið á. Meiri hl. milliþn. var líka sammála um það, að ekki bæri að lögleiða skömmtun áfengis, en með því að einn nm. var á annarri skoðun, var sætzt á að hafa þessa heimild í lögunum. En hún er á engan hátt til bóta og á því að hverfa.

9. brtt. er við 16. gr. frv. og er í tveimur stafliðum. Er a-liðurinn um það að fella niður orðin „né veita“ í 1. málsgr., en sú málsgr. mælir svo fyrir, að ekki megi afhenda né veita áfengi ölvuðum mönnum eða yngri en 21 árs. Með því að fella þessi tvö orð niður er því fyrirmæli haldið, að ekki megi afhenda ölvuðum mönnum og mönnum undir 21 árs aldri áfengi. Er hið fyrra a.m.k. rétt og sjálfsagt, hið síðara má lengi deila um, en aldurstakmark ber þó að setja, því að ekki væri rétt að leyfa afhendingu áfengis til barna. Hitt er svo annað mál, að þessu ákvæði verður almennt ekki framfylgt. Enginn fer að spyrja fullþroskaðan mann um aldur og krefjast vegabréfs, þótt hann vilji kaupa flösku löglega, enda vafasamt, hvort það mundi ekki þoka honum áleiðis til leynivínsalans, ef um neitun væri að ræða. Hitt nær svo engri átt, að neita t.d. 20 ára manni að fá sér létt glas af víni á veitingahúsi, sem hefur leyfi til veitinga, t.d. í félagi með fjölskyldu sinni eða vinum, en leyfa 21 árs gamalli stúlku í sama hópi að drekka að vild. Slíkt ákvæði verður ekki haldið, nær ekki heldur tilgangi sínum og á þess vegna að hverfa úr frv.

Í b-lið till. minnar eru eftirstöðvar 16. gr. orðaðar um, skilyrði fyrir því, að menn fái vín á veitingastað, takmörkuð við framferði manna þar, á meðan þeir dvelja í veitingasal. Þá eru með till. lagðar skyldur á herðar veitingaaðila, þar sem honum er gert skylt að stöðva allar veitingar, þar til fyrirmælum gr. er hlýtt. Einn erfiðasti og mesti vandinn í sambandi við áfengismál þjóðarinnar er sá gróði, sem ríkið og þeir aðilar, sem veitingaleyfi öðlast, hafa af vínsölunni. Ég veit ekki, hvort hv. alþm. hafa yfirleitt gert sér það ljóst, hversu mikill þessi vandi er einmitt út af fyrir sig, alveg án tillits til þess tjóns, sem ofnautn vínsins hefur í för með sér. Vér skulum t.d. hugsa um, hvaða ástand það mundi skapa í þjóðfélaginu, ef gefa ætti einum aðila, segjum t.d. Hótel Borg, einkarétt til þess að selja mjólk í bænum og væri jafnframt undanþegin verðlagseftirliti eða yfirleitt öllu eftirliti við sölu vörunnar. Hvað mundi þjóðin þola það lengi, og hvaða geysileg fríðindi væri ekki verið að skapa aðila, sem fengi slíka aðstöðu? En það ern einmitt sams konar fríðindi, sem verið er að gefa sérhverjum þeim aðila, sem veitt er veitingaleyfi á vini í landinu. Varan sjálf er miklu eftirsóknarverðari en mjólk, og álagningin er miklu stórkostlegri en unnt væri að hafa á mjólkinni, þótt ekkert verðlagseftirlit væri. Hvaða vit er þá í því að veita slík leyfi, nema um leið að leggja þær skyldur á herðar leyfishafa, að hann láti m.a. gæta velsæmis í veitingasölum og láti fjarlægja þegar hvern þann, sem fyrir hans tilverknað er ekki lengur samkvæmishæfur, og að hann láti enn fremur stöðva allar veitingar, þar til slíkt hefur verið gert? Er hægt að krefjast minna af aðila, sem rakar saman milljónagróða af þessum fríðindum? Er nokkur vitglóra í því að leyfa gróða veitingamannsins að vaxa í hlutfalli við þverrandi vit drykkjumannsins? Og er það ekki sjálfsagðasta krafan, að veitingamaðurinn sé ábyrgur fyrir því, að hér sé ekki farið út fyrir allt velsæmi? Þeir hv. þm., sem eru mér sammála um þessi atriði, samþykkja þessa brtt. mína við frv.

10. brtt. miðar að því, að ný grein komi á eftir 20. gr. Er þar svo fyrir mælt, að eftirlit sé haft með áfengisveitingunum í landinu. Hingað til hefur slíkt eftirlit skort víðast hvar, en þar sem komið hefur verið á vísi að því, hefur það gefizt svo vel, að allt annar og betri bragur hefur verið á þeim samkomum, sem eftirlitið hefur verið með. Annars skal þetta atriði rætt nánar í sambandi við 13. brtt. mína.

11. brtt. mín er um það, að á eftir 25. gr. komi ný gr., er ákveður, hvernig fara skuli með brot gegn lögunum. Vegna þess, hversu almenningur veigrar sér við því að kæra yfir slíkum brotum, þó að þau séu á vitorði allra, er nauðsynlegt, að dómsvaldið fyrirskipi réttarrannsókn til upplýsingar á meintum brotum, þó að ekki hafi kæra komið fram.

12. brtt. mín er við 26. gr., en sú grein mælir svo fyrir, að ríkisstj. skuli skipa áfengisvarnaráðunaut sér til aðstoðar. Hefur slíkt starf verið hér árum saman og er því ekki neitt nýtt embætti, eins og hv. frsm. minntist á hér áðan í sinni framsöguræðu, en árangurinn ekki orðið sem skyldi, enda ávallt rekið sem aukastarf, rétt eins og hér væri ekki um nægilegt verkefni fyrir einn mann að ræða. En þetta er mikill misskilningur. Hér er um að ræða meira en nóg starf fyrir einn mann, og því aðeins verður nokkurt gagn í starfinu, að því sé sinnt með mikilli samvizkusemi, miklum áhuga og með löngum starfsdegi. Í minni till. er gert ráð fyrir því, að ráðinn sé læknir til þess að hafa yfirumsjón þessara mála og að hann hafi sérþekkingu á drykkjusýki og meðferð drykkjusjúkra manna, hann verði og jafnframt áfengisvarnaráðunautur ríkisstj. Skulu hér færð rök fyrir þessari till. minni alveg sérstaklega, því að framkvæmd áfengisvarna laganna og umbætur á áfengismálum þjóðarinnar velta kannske ekki hvað minnst á því, hvort við berum gæfu til þess að skipa um þessi sérstöku atriði vel og viturlega.

Skömmu fyrir áramótin síðustu voru samþykkt hér lög, sem mæla svo fyrir, að byggja skuli hæli fyrir drykkjusjúka menn fyrir það í ,sem áfengisverzlunin hefur lagt til hliðar í þessu augnamiði. Hæstv. heilbrmrh. hefur skipað 5 manna n. til þess að hrinda þessu nauðsynjamáli í framkvæmd. Hafa m.a. verið skipaðir tveir læknar í n., sem sýnir bezt, hversu það er ómissandi, að læknar fjalli um þessi mál. N. hefur þegar lagt allmikla vinnu í að athuga, hvernig þessum málum verði skipað á hentugasta hátt, bæði hvað snertir árangur og útgjöld, og hefur margt merkilegt komið fram í þeim athugunum og till. í sambandi við þær. Er það ef til vill langathyglisverðasta tillagan að byggja slík heimili upp í smáum stíl víðs vegar um landið, svo að mennirnir gætu notið sem mest heimilishjúkrunar og þeirrar samúðar og sálarstyrks, sem jafnan er að finna á góðum heimilum. En til þess að sú hugmynd geti orðið að veruleika, er alveg óhjákvæmilegt, að einn maður hafi yfirumsjón með þessum hópi öllum, fylgíst með líðan þeirra og sálarlífi og kynnist þeim persónulega og leiðbeini þeim á margan hátt. Allt annað er vonlaust í því starfi. Enginn væri betur til þess fallinn en góður læknir og mikill mannvinur, og hann mundi í þessu starfi sínu öðlast þá þekkingu, sem áfengisvarnaráðunaut er nauðsynleg, og því á að sameina þessi störf.

Ég vildi því mega vænta þess, að hv. alþm. athuguðu vel og gaumgæfilega þetta sérstaka atriði í tillögunum, áður en þeir greiða um þær atkv. Hér er svo mikið í húfi í sambandi við þær tilraunir, sem verið er að undirbúa til umbóta á þessu sviði.

13. brtt. mín er um það, að ný gr. komi á eftir 27. gr. Er efni gr. það, að dómsmrh. skipi eftirlitsmann með neyzlu og meðferð áfengis í landinu, þar sem útsölur eru leyfðar. Í sambandi við þessa till. vil ég leyfa mér að benda á, að þjóðin vermi yfir 2 millj. kr. árlega í ýmiss konar eftirlit til þess að fyrirbyggja slys á mönnum og munum, m.a. er varið um 1 millj. kr. árlega til eftirlits með bifreiðalögunum. Nú er vitað, að mjög mikill hluti bifreiðarslysa stafar beinlínis af vinnautn þeirra manna, sem bifreiðum aka, þó að það sé ekki undantekningarlaust aðalorsök slysanna, og mörg önnur slys á landi og sjó stafa einnig af þessu sama. Er þá nokkurt vit í því að hafa ekki fullnægjandi eftirlit með þeirri löggjöf, sem hér um ræðir, ef það mætti draga verulega úr þeim slysum, sem vinnautn orsakar, og samfara því draga úr því böli, sem af henni stafar? Án þess að sjá að fullu fyrir þessum þætti málsins má þjóðin ganga að því vísu, að löggjöfin er lítils virði, hversu vel sem til hennar er vandað að öðru leyti. Hv. allshn. leggur á það megináherzlu í till. sinni að draga úr eftirlitinu frá því, sem til er ætlazt í frv. Mun það stafa mest af því, að henni vex í augum það fé, sem til þess þarf. En hvílíkur reginmisskilningur á lausn vandamáls! Hér þarf að ganga feti framar en ráð er fyrir gert í frv., og að því miðar till. mín, sem hér um ræðir.

Þá hef ég ekki viljað gera till. um breyt. á fyrirmælum í sambandi við kostnaðinn af eftirlitinu. Þó er ég fús til þess að hafa alla samvinnu við hæstv. n. um það atriði. Þykir mér ekki einasta eðlilegt, heldur og sjálfsagt, að þeir aðilar, sem njóta fríðinda og fjár við að fá veitingaleyfi, greiði einnig meginhluta af þeim kostnaði, sem eftirlitið hefur í för með sér. Er það beinlínis í samræmi við ákvæði l. um eftirlit á öðrum sviðum, þar sem viðkomandi aðilar verða að greiða kostnaðinn að mestu eða öllu leyti, svo sem er um skipaeftirlit, verksmiðju- og vélaeftirlit, bifreiðaeftirlit o.m.fl. Vildi ég því mega vænta þess, að till. mánar hér að lútandi verði samþ.

14. brtt. mín er við 30. gr. og miðar að því, að kotnið sé upp í öllum skólum sérstakri kennslu í sambandi við áfengisnotkun í landinu. Hv. frsm. tók það fram, að hann teldi, að þessi till. ætti raunverulega að samþykkjast, það þyrfti hins vegar að breyta henni nokkuð, vegna þess að í þessari till. er gert ráð fyrir því, sem gert er ráð fyrir í frv., að hér verði haldið áfengisvarnaráði og áfengisvarnanefndum. Út af þessum ummælum vil ég lýsa því yfir, að ég er fús til þess að taka þessa till. aftur til 3. umr., þegar séð verður, hvernig frv. reiðir af hér við þessa umr., ef hv. n. vill hafa samvinnu við mig um þessi mál. En ég vil, áður en ég lýk máli mínu um þetta atriði, leyfa mér að benda á staðreyndir, sem eru hverjum augljósar hér í þessu landi. Á síðari árum hefur þróunin orðið slík í skólum landsins, þrátt fyrir um 60 millj. kr. greiðslu úr ríkissjóði til menntamála, að það þykir ekki einungis sjálfsagt, heldur heiður, að ég ekki segi skylda manna, sem koma út úr skólum, að fara fyrstu dagana á ósæmilegt fyllirí. Við skulum líta á menntaskólann. Á s.l. 25 árum eða allan þann tíma, sem núverandi rektor hefur verið við skólann, hefur þetta aukizt svo, að þegar stúdentarnir koma út úr skólanum, telja þeir það fyrstu skyldu sína að vera 1, 2 eða 3 daga á fylliríi, og er það ekki af því, — og vil ég leggja á það áherzlu, — að rektor stuðli að þessu, því að hann er kunnur einmitt að því að vilja halda reglusemi í skólanum og hvetja unglinga til þess að haga sér ekki þannig sem hér er gert, en það er beinlínis vegna þess, að það er vanrækt að kenna nemendum frá fyrsta degi í skólanum, hvaða áhrif vinnautn hefur á þeirra sálarlíf og þeirra líkama. Það er ekki gert að þeirri skyldugrein í skólanum eins og ætti að gera í sambandi við aðrar námsgreinar. Það er ekki skylda að sýna þekkingu á þessu máli. Þar er enginn vitnisburður gefinn fyrir fræðslu um þessi atriði. Menn eiga að kunna ýmis tungumál, og menn eiga að kunna ýmsar aðferðir í stærðfræði o.fl., o.fl., þó að þeir noti það aldrei í lífinu, en fram hjá þessu, sem er kannske mest áríðandi fyrir þá, er alveg gengið.

Ég vil enn fremur leyfa mér að benda á, að þetta er ekki eini dagurinn í lífi þessara barna. Fyrsta og eina tilhlökkunin á eftir er að sjá 5 ára afmælisdaginn koma til þess að geta endurtekið þessa ofdrykkju, svo 10 ára, svo 15 ára, svo 20 ára, svo 25 ára, og langmest er tilhlökkunin til þess að geta verið sem fyllstur, þegar þeir eru 40 ára.

Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að benda á, að á meðan menntamenn þjóðarinnar og hinir ráðandi menn þjóðarinnar telja þetta ekki vansæmd, þá verður róðurinn örðugur í sambandi við þessi mál.

Hvernig er svo, þegar komið er inn í háskólann? Mér er sagt, að það sé fyrsta atriðið þar, að þessir nýliðar ásamt kennaraliðinu séu þar allir á fylliríi þegar haldið er það, sem þeir kalla rússagildi. Er þá nokkur furða, þótt almenningi í landinu þyki það ekki neinn ósómi að neyta áfengis í óhófi? (Gripið fram í.) Ég skal með ánægju leyfa mér að upplýsa, hvernig þetta er í árlegu hófi fjvn. Ég hef verið form. fjvn. í 8 ár og aldrei orðið var við slíkan ósóma aldrei, ekki í eitt einasta skipti, og úr því að hv. þm. minntist á þingveizluna, þá vil ég í því sambandi leyfa mér að henda á, að ég minnist þess, þegar ég kom hér á Alþ. 1942, að þá gat það skeð, að menn kæmu hér of ölvaðir, en hvernig er það nú? Nú sést sem betur fer hér enginn maður undir áhrifum víns í þingsölum, og það er beinlínis fyrir þróun þessara mála og fyrir það, að þeim hefur skilizt, að slíkt má ekki eiga sér stað, því að að því er engin sæmd.

Það er alveg áreiðanlegt, að það er einmitt þessi þátturinn í skólakerfi landsins, sem er alveg vanræktur, og það er alveg nauðsynlegt að fá um þetta miklu sterkari ákvæði en nú eru í l. Það er að vísu rétt, að í núverandi áfengislögum er sagt, að það megi skipa svo með reglugerð, en mér er ekki kunnugt um, að þær reglugerðir hafi verið settar á þann hátt eða í nokkurri líkingu við það, sem hér er gert ráð fyrir í mínum till. Ég hef m.a. sett það hér fram sem skilyrði, að sóknarprestar landsins skuli hafa eftirlit með slíkri kennslu í skólunum, og ég tel, að það sé hvorki ofverkið þeirra að gera það né að það sé óeðlilegt, að þeir annist þann þáttinn í uppeldi þjóðarinnar.

Ég vildi því gjarnan fá samkomulag við hv. n. og einnig við hv. þm. Seyðf. um það, að þessi till. yrði orðuð þannig, að fyrir henni mætti fá fullt fylgi, ekki einungis hv. n., heldur og hv. dm., því að ég tel, að það sé eitt meginatriði fyrir því, að nokkur árangur náist af áfengislöggjöfinni, að í frv. sé sett ákvæði um þessi mál.

15. brtt. mín er um það, að allar sektir samkv. ákvæðum þessara l. skuli renna í áfengisvarnasjóð. Nægi þær ekki til að mæta útgjöldum, skal sú upphæð, sem á vantar, greiðast af ágóða áfengisverzlunarinnar.

Þá er hér 16. brtt. mín um það, að 32. gr. falli niður, en 32. gr. l. er um, að 6% af hreinum ágóða áfengisverzlunar skuli leggjast í sérstakan sjóð. Ég sé ekki ástæðu til að fara nánari orðum um þetta atriði, hv. frsm. minntist á það hér, og ég er honum sammála um það, og eru þá líkindi til þess, að sú till. nái fram að ganga, þar sem n. hefur tekið hana upp.

17. brtt. er við 36. gr., þ. e., að aftan við gr. bætist: „Sektarákvæði samkvæmt 34. og 35. gr. gilda einnig um flugvélar og annan farkost, formenn þeirra og áhafnir, ef þeir gerast brotlegir við fyrirmæli þessara laga.“ Er það aðeins til samræmingar, ef flugvélar eru teknar inn í frv. eins og aðrir farkostir.

18. brtt. mín er við 37. gr., að upphaf gr. orðist svo: „Brot gegn 1. málsl. 7. gr. og reglugerð samkvæmt síðasta málsl. 1. málsgr. sömu gr.“ o.s.frv., sem er meira samræming en efnisbreyting.

Síðan eru 19., 20. og 21. brtt. og eru meira breyt. til samræmis, og er ekki ástæða til þess að gera grein fyrir þeim hér.

22. brtt. mín er við 48. gr., að í stað orðanna „í Menningarsjóð“ í 1. málsgr. komi „í áfengisvarnasjóð“, og kemur hún sjálfsagt ekki til atkvæða, ef till. n. verða samþ. um það að stofna ekki áfengisvarnasjóð.

Síðasta brtt. mín er við 51. gr., um það, að sú gr. falli niður, en það er, að þessi lög skuli prenta á dönsku, þýzku, ensku og frönsku og sendast hinum ýmsu mönnum. Ég sá út af fyrir sig ekki ástæðu til þess. Annars er það ekki neitt aðalatriði, hvort sú gr. stendur eða ekki.

Ég hef þá lýst mínum brtt., og ég hef fært rök fyrir því, hvers vegna þær brtt., sem mestu varða í sambandi við þessa löggjöf, eigi að samþykkjast. Ég tel, að ef frv. verður samþykkt eins og hv. n. hefur lagt til, þá séu ekki þar á miklar umbætur frá því, sem nú er, og að þjóðin muni ekki lengi sætta sig við slíka löggjöf, nema því aðeins að það sé þá með viturlegum og ströngum reglugerðum gert unnt að framkvæma löggjöfina eitthvað í þá átt, sem mínar till. fara. Verði það ekki og l. samþ. á þann hátt, sem n. leggur til, og ekkert frekar gert í málinu, þá sé ég ekki, að þessi löggjöf sé miklu betri en sú löggjöf, sem nú gildir og eins mikill styr stendur um og við þekkjum. En ég vildi vænta þess, að hv. Alþ. bæri gæfu til þess að ganga svo frá þessu máli, að það drægi eitthvað úr því böli, sem ríkir í landinu í sambandi við áfengismálin, og á sama tíma skapa eitthvað meira réttlæti og meiri skynsemi í meðferð þeirra mála en nú er.