23.02.1954
Efri deild: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

12. mál, áfengislög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég talaði nú í þessu máli í fyrra, þegar það var hér til umræðu, og ég sé ekki ástæðu til að tala mjög mikið nú né endurtaka það, sem ég þá sagði. Ég var þá með sömu brtt. og nú í öllum aðalatriðum, og flestir sömu menn eru í d. og þarf því ekki sérstaklega að gera grein fyrir þeim.

Hins vegar finnst mér rétt að lýsa í aðalatriðum afstöðu mínni til málsins, og í samræmi við það kemur þá seinna til með að falla atkv. mitt um hinar einstöku brtt.

Ég veit það eins vel og ég stend hérna í stólnum, að ég hef lifað ótal sinnum, áður en ég kom inn í þessa tilveru, sem er kölluð jarðlíf, og nú er fyrst sagt, að ég lifi og kallist Páll Zóphóníasson. Ég veit það, að tilgangurinn með því að vera í þessum skóla, sem nú er kallaður jarðvist, er sá annars vegar að láta okkur, sem í honum erum, ná fullkomnu valdi, líkamlega og andlega, yfir okkur sjálfum og finna okkur sem einn lið í heildinni og læra að haga okkar starfi þannig, að hvað eina, sem við gerum, hvort sem kallað er, að við gerum það fyrir sjálfa okkur eða fyrir aðra, miði allt að því að auka framþróun heildarinnar. Og ég veit, að þegar við erum búnir með þennan bekk skólavistarinnar og höfum lært sem mest og komizt sem lengst í honum, þá er eftir að fara í gegnum marga bekki enn þá, þar til fullkomnun er náð. Nú veit ég það, að eitt af því, sem styður að því að hjálpa okkur til að ná fullkomnu valdi yfir sjálfum okkur, er það að berjast við freistingar og sigrast á þeim, og ein af þeim freistingum er vínið, og það er ekki því að neita, að einstaka manni hefur heppnazt að þroska sjálfan sig mikið með glímunni við þá freistingu. Og án þess að nefna mörg dæmi, þá má benda t.d. á Sigurð sáluga regluboða, sem þroskaðist geysilega mikið og varð allur annar maður einmitt við þá baráttu, sem hann átti í við þá freistingu, sem vínið hafði fyrir hann lagt. Hins vegar þýðir ekki neitt að setja börnum á fjórða, fimmta, sjötta ári lexíur, sem ætlaðar eru börnum, sem eru miklu eldri. Og eins og mannkynið er núna og það brot af því, sú kynkvísl af því, sem lifir hér á Íslandi, þá hefur hún ekki þann þroska, að hún sé fær um að glíma við þessar freistingar enn. Það eru einstöku menn aðeins, sem eru færir um það. Þess vegna eigum við að taka þær eins mikið frá henni eins og við getum. Hún á að fá þær seinna, þegar hún er orðin það þroskuð, að hún geti það, — kynslóðin, sem lifir hérna eftir 100 ár eða 200 ár, er kannske orðin það þroskuð, að hún sé hæf til að glíma við þær, og þá get ég kannske verið með, þegar við lifum þá aftur, við Lárus, kannske með öðrum nöfnum og alltaf í öðrum líkömum, -þá get ég verið með honum í því að láta það allt saman vera frjálst, svo að menn geti þroskazt sem bezt á því að glíma við það. En nú sem stendur tel ég hana ekki vera það, og þess vegna markast öll mín sjónarmið af því, að við eigum að taka þessar freistingar frá okkur, á meðan við erum að þroskast upp í það að geta lært af þeim, að geta þroskað okkur af glímunni við þær. Það getum við ekki enn þá. Það sýna merkin greinilega, að mér finnst. Þess vegna vildi ég helzt, að það væri ekkert vín til í landinu, og vera helzt með hreinu banni og að afnema allt vín. Það væri mér kærast, — það væri mér langkærast. En þar sem það nú ekki gengur, þá ganga mínar till. út á það að takmarka það sem mest, veita lögreglustjóranum heimild til að lofa mönnum innan lokaðs hrings í félagi að hafa eitthvert vín um hönd, ef þeir geta þá þroskað sig á því, og kannske geta menn það helzt á þann veg, en alls ekki láta það vera aðgengilegt fyrir heildina.

Ég mun þess vegna fylgja þeim till., bæði frá mér og öðrum, sem ganga í þessa átt, ákveðið. Það er mín óbifanlega sannfæring, að það verði til þess að hjálpa heildinni til þess að finna sjálfa sig, einstaklingunum til þess að finna sjálfa sig og ná valdi yfir bæði sjálfum sér líkamlega og andlega að taka vinið alveg frá þeim. Með því vex þroski heildarinnar, bæði einstaklinganna og heildarinnar, sem þeir lifa og starfa með. Þess vegna fylgi ég öllum þeim till., sem lengst ganga í þessa átt, og mínar till. ganga út á það, — ég talaði fyrir þeim í fyrra og skal ekki endurtaka það.