02.03.1954
Efri deild: 55. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

12. mál, áfengislög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef lítið skipt mér af þessu máli enn sem komið er, nema hvað ég greiddi atkvæði að sjálfsögðu um það við 2. umr. og var meðflm. að nokkrum brtt. Það hefur samt verið heilsað upp á mig í blöðum út af þessum afskiptum. Það læt ég að sjálfsögðu engu skipta, en ég finn þó ástæðu til — af ýmsum orsökum — að gera nú lítils háttar grein fyrir afstöðu minni til málsins og jafnframt að minnast á sumt af því, sem fram hefur komið.

Hv. 4. þm. Reykv. hélt ræðu við 2. umr. þessa máls og eins konar framhald af henni nú áðan. Hann hélt því þá fram, að það ríktu tvær stefnur í þessu máli. Fyrri stefnan væri meiri og meiri takmarkanir, þangað til áfengi væri útrýmt úr landinu og bann sett á, að því er mér skildist, og hann hefur nú sýnt með brtt. sínum, að hann telur sig ætla að fylgja þessari stefnu og ná þessu marki, að útrýma áfengi úr landinu, — að því er virðist, býst hann við, að það verði 1964. Hin stefnan sagði hann að væri sú að hafa sem mest frelsi í áfengismálum og þar með, að sem allra mest væri drukkið af brennivíni og öðrum áfengum drykkjum, meðfram vegna ríkissjóðsins.

Ég skal nú taka það fram, að ég þekki alls enga, sem hafa þessa stefnu eins og hann lýsti henni. Hitt er aftur satt, að margir eru þeir, sem álíta frelsið betra en þvingunina, bæði í þessu máli og öðrum, og hvað þetta mál snertir er það ekki ósk þessara manna, að sem mest sé drukkið af brennivíni, heldur jafnvel öfugt, og a.m.k. að það, sem drukkið er af áfengi, sé gert á mennilegri hátt en nú er.

Þannig eru til bannmenn og andbanningar, og hefur hv. þm. sennilega átt við það. En ef málið væri svo einfalt, að einungis væru til bannmenn og andbanningar, þegar um þetta mál er að ræða, þá mundu áfengismálin ekki vera svo mikið vandamál sem þau eru, því að önnur hvor stefnan hlyti að sigra á endanum, og væri hægt að una við, hvor stefnan sem það yrði. Ef bannstefnan sigraði, þá sýndi það sig mjög fljótlega, hvort hægt væri að halda slíku við eða ekki. Ég hef ekki trú á því. En því miður er til þriðja stefnan í þessu máli, og það er sú stefna, sem hefur verið ráðandi núna undanfarin ár. Það er hvorki bannstefna né andbanningastefna. Það er sú stefna að hafa til brennivín og aðra áfenga drykki, sjá um það, að ríkið hafi nóg af því á boðstólum, en gera helzt alla þá, sem kaupa þessa vöru eða a.m.k. sem allra flestra þeirra, að lögbrotamönnum, hvernig sem þeir fara að.

Árið 1934 var lagt áfengislagafrv. fyrir Alþ. Það var á margan hátt frjálslegt, og má segja, að þar hafi verið fylgt andbanningastefnunni, þegar þau l. voru sett, sem hlutu staðfestingu 9. jan. 1935. Og svo stóð um nokkur ár. Það var talið, að eftir þá lagasetningu hefði drykkjuskapur vaxið í landinu, og ég veit það, að hann óx nokkuð, eftir því sem skýrslur sýndu, m.ö.o., að neyzla löglegra áfengra drykkja óx. En ég hugsa, að allir hv. þm. viti það, að á árunum áður en þetta var gert var bruggað brennivín svo að segja í hverri sveit á Íslandi og það drukkið í stórum skömmtum, og þessi breyting, sem gerð var með l. frá 9. jan. 1935, og framkvæmd þeirra laga varð til þess að útrýma þessu. Nú heyri ég hvergi, þar sem ég er kunnugur, getið um, að menn bruggi áfengi, en það fer nú að verða, sem síðar skal vikið að, að því er ég býst við. En svo skeður það, að horfið er frá þessari frjálslyndu stefnu, ekki þó þannig, að samþ. væri bann, sem verður þó að telja hreina afstöðu, heldur hitt, að setja á þvingunarráðstafanir, en sjá þó um það, að hægt væri að ná í áfengi. Fyrst var það, þegar l. um svokölluð héraðabönn voru sett, sem mun hafa verið 18. febrúar 1943. Ég man það, að ég spáði nokkru um þau l. hér í þessari hv.d., þegar var verið að ræða um þau, og ég man það einnig, að hér í d. vorum við tveir, sem vorum eindregnastir andstæðingar þeirra l. Það var ég, sem er nú talinn brennivínsvinur, og andbanningur er ég a.m.k., og mun bindindismenn ekki furða á því, þó að ég væri á móti slíkum l. En það var annar maður, sem mælti mjög sterklega á móti þessum l. einnig, og það var maður, sem hefur verið sá einlægasti bindindis- og bannmaður, sem ég hef þekkt, Ingvar sálugi Pálmason. Hann sá það fyrir, að það yrði ekkert gagn að slíkum l., heldur aðeins til þess að efla lögbrot og venja menn á þau og tefja fyrir reglulegu banni, svo að við snerum bökum saman í þessu, þó að skoðanir okkar væru ekki að öðru leyti líkar. En nú voru þessi lög ekki látin koma til framkvæmda strax og gerðu þar af leiðandi ekki beinlínis skaða, fyrr en hæstv. dómsmrh. ákvað svo, að þau skyldu öðlast gildi. Og nú er svo komið, að útsölur áfengis hafa verið afnumdar bæði á Akureyrí, í Vestmannaeyjum og á Ísafirði, en eftir eru þær auðvitað hér í Reykjavík, og heildsalan hér, og á Siglufirði og Seyðisfirði. Ja, ég fullyrði það um þann stað, sem ég er kunnugastur, að þó að sé samþykkt héraðsbann á Akureyri, þá a.m.k. dregur það ekki úr drykkjuskap. Það er ekki mikill vandi að fá brennivín og aðra áfenga drykki frá Siglufirði til Akureyrar og inn um allan Skagafjörð og Þingeyjarsýslur. Það veldur ofur litlum óþægindum og örðugleikum, en það er nú bara eðli manna, að slíkir örðugleikar eggja marga til þess að útvega sér það, sem er verið að halda í við þá, en draga ekki úr viðleitninni.

Ég gerði tilraun við 2. umr. þessa máls hér í d. til þess að fá þessi lög afnumin, með því að ég bað hæstv. forseta um það að bera upp vissa gr. í tvennu lagi, sérstaklega þann hluta gr., sem endurtók ákvæðin um héraðabönn. En það fór svo, að sá hluti gr. var einnig samþ. hér í hv. d. Héraðabönnin eiga því að standa áfram, eftir því sem hv. Ed. vill vera láta, þó að mér kæmi það mjög á óvart, að atkv. skyldu svo falla, ekki sízt samanborið við sumar aðrar atkvgr. hér. En við það verður að sitja, því að ég tel það nú ekki leyfilegt, eins og hæstv. forseti virðist gera, að bera fram brtt. um það, sem búið er að fella. En í raun og veru er búið að fella það hér í þessari hv. d. að hafa magn áfengis, sem má vera í óáfengum drykk, 21/4% að rúmmáli; það er búið að fella það með því að samþykkja annað, að mínu viti. En það tjáir ekki að deila við dómarann, og auðvitað fer ég ekki áð deila á hæstv. forseta út af þessu. En hitt taldi ég mér ekki heimilt, að bera fram brtt. um að afnema héraðabönnin aftur, þar sem við sérstaka atkvgr. var búið að samþ. þau í hv. d. við 2. umr.

Ég ætla að leyfa mér ásamt þremur öðrum hv. þm., 2. þm. Árn., þm. Seyðf. og þm. Mýr., að bera fram litla brtt. við þetta frv. Hún er við 12. gr., 3. málsgr., og hljóðar svo:

„Orðin „ef telja má, að veitingahúsreksturinn sé aðallega fyrir erlenda ferðamenn“ falli niður.“ Ég geri ekki ráð fyrir að vísu, að þessi brtt. hafi mikla raunverulega þýðingu, því að sjálfsagt mundi dómsmrh. á hverjum tíma miða leyfi til vínveitinga á veitingahúsum utan kaupstaða við það, að það væri sérstaklega mikið um ferðamenn á þeim slóðum og þá ef til vill einkum útlendinga. En við flm. kunnum ákaflega illa við að hafa þetta í lögum. Með því er eins og við séum að segja: Ja, þetta er nú svo skaðlegt fyrir okkur Íslendinga. Við viljum leyfa okkar mönnum að njóta þess að koma inn á slíkt veitingahús og fá sér hressingu, en það er fullgott handa útlendingum að drekka þar. — Mér finnst það ákaflega hæpið að gera þannig greinarmun á íslendingum og útlendingum. Sumir mundu enn fremur snúa þessu við og segja: Ja, fyrir útlendinga er þetta gert. Útlendingar eru hærra settir en Íslendingar, sérstakt tillit tekið til þeirra í þessu efni og þeim leyft það, sem Íslendingum leyfist ekki. — Ég kann ekki við það.

Hv. 4. þm. Reykv. hefur nú látið þá stefnu, sem hann boðaði við 2. umr. þessa máls, koma hér sýnilega fram með tveimur brtt. Hef ég áður minnzt á, að sú fyrri er frá mínu sjónarmiði mjög vafasöm, og ótrúlegt, að deildin breyti svo gersamlega um sína stefnu í þessu máli, að hún fari að setja þetta ákvæði í sama horf og í frv. er. Finnst mér nú, að hv. þm. hefði getað farið hóflegar í sakirnar en þetta, þó að hann hefði gert brtt. um það, því að það var leyfilegt auðvitað að setja eitthvert annað takmark en þarna er.

Ég skal ekki ræða meira um þá till. hans. En það er önnur brtt. hans, sem ég vildi aðeins minnast á. Hann boðaði það þegar við 2. umr. málsins, að hann áliti. að það ætti að taka meira og meira af tekjum áfengisverzlunarinnar til sérstakra framkvæmda, til þess að ríkisstj. neyddist smám saman til þess að sjá ríkissjóði fyrir nauðsynlegum tekjum á annan hátt og menn hefðu ekki tilhneigingu til þess að halda áfenginu við tekna ríkissjóðs vegna. En ég verð að segja það, að mér finnst hv. þm. töluvert mislagðar hendur, þegar hann gerir till. í þessa átt. Helmingurinn af tekjum áfengisverzlunarinnar á samkv. hans till. að renna til byggingar drykkjumannahæla og sjúkrahúsa og þess konar. Ég geri nú ekki ráð fyrir, ef tilgangurinn með þessari till., sem hann segir vera, næst, að það þurfi að verja mörgum milljónum til byggingar drykkjumannahæla. Frá hans sjónarmiði ætti það ekki að þurfa. En ég skal ekki fara meira út í þann hluta till. Hinum helmingnum skal varið til að veita hagkvæm og ódýr lán til byggingar verkamannabústaða, smáíbúða, félagsheimila og gistihúsa, sem hafa ekki vínveitingaleyfi.

Mér finnst hv. þm. fara hér mjög klóklega að til þess að afnema drykkjuskap í landinu og vínnautn. Það má svo sem nærri geta, þegar verkamenn eiga að fá margar milljónir af áfengissölunni til byggingar verkamannabústaða og smáibúða og aðrir til félagsheimila og gistihúsa, að þessir menn munu fá mikinn áhuga á því, að hætt verði að selja vín í landinu. Menn eru vanir því að vilja afsala sér fríðindum, sem þeir hafa. Ég hef nú lúmskan grun um það, að ef þetta yrði að lögum, þá yrði ekki mikill áhuginn hjá þeim, sem eiga að fá þarna margar milljónir hvert ár til 1964 og eftir það enn meira, ef áfengisútsala heldur áfram, til þess að útrýma áfengiskaupum og áfengissölu í landinu. Mennirnir eru menn, og flestir líta nú dálítið nær sér. Með öðrum orðum: Hér eru þúsundir manna, samkv. till. hv. þm., margar þúsundir, sem eiga að hafa hagsmuni af því, að vín sé selt áfram í landinu, hreint og beint. Það finnst mér ákaflega einkennileg leið til þess að afnema víndrykkju og vínkaup, eins og hv. þm. segir þó að sé hans takmark og vilji.

Ég mun nú ljúka máli mínu, en vildi þó aðeins minnast á það, áður en ég hætti, að mér þótti hv. 1. þm. N–M., sem talaði hér við 2. umr., vera með töluvert hæpnar röksemdaleiðslur. Hann gekk út frá því, að það væru mörg jarðlíf og hvert þeirra skóli og til þess ætlazt, að við sigruðumst á freistingum og yrðum þar af leiðandi fullkomnari og betri menn. En ég sé ekki, að samkv. þeirri hugsun megi taka þessa freistingu frá nútímamönnum. Hvað er þeim betra í næsta lifi að fara þá að berjast við freistinguna heldur en að ljúka því af í þessu jarðlífi? Mér er ómögulegt að sjá það. Ég held því, að hann ætti að ganga í lið með okkur út frá þessari hugsun, sem höfum viljað hafa þetta frv. ofur lítið frjálslegra en það lítur út fyrir að verða.

Ég er ekki hv. 4. þm. Reykv. sammála um það, að með þessu frv., ef að lögum verður, sé slakað á frá því ástandi, sem var áður en hæstv. dómsmrh. svipti það veitingahús, sem vinveitingaleyfi hafði hér, leyfinu og bannaði allar undanþágur. Hér er að ýmsu leyti í þessu frv. þrengt meira um. Ég er þess vegna ekki neitt sérlegur fylgismaður þessa frv. Ég mun þó greiða því atkv., a.m.k. ef ekki verður farið að setja inn í það nú á elleftu stundu fjarstæður, sem ekki er hægt að samþykkja, eins og t.d. það að taka smám saman allan ágóða áfengisverzlunarinnar af ríkissjóði og verja honum til annarra framkvæmda og tengja þannig hagsmuni mjög margra manna í landinu, svo að þúsundum skipti, eins og ég sagði áðan, við það, að sem mest áfengi sé selt. Það finnst mér ákaflega hæpin leið til þess að draga úr vínnautn.