04.03.1954
Neðri deild: 57. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

12. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, var á sínum tíma samið af mþn. og lagt fyrir Alþingi í fyrra, en var þá vísað frá með rökstuddri dagskrá í Ed. Að þessu sinni var frv. lagt fyrir aftur óbreytt frá því, sem verið hafði, að undanteknu einu veigamiklu atriði, að brott var numin heimild til ákvörðunar um bjórframleiðslu og veitingu á þeim drykk.

Hv. Ed. hefur síðan haft frv. til meðferðar og nú nýlega afgr. það, að vísu með veigamiklum breytingum, en þó svo, að ýmis aðalatriði frv. eru að mestu leyti óbreytt frá því, sem mþn. hafði lagt til.

Frá núverandi ástandi má segja að frv., eins og það nú liggur fyrir, geri tvær meginbreytingar. Önnur er sú, sem hv. Ed. setti í frv., að breytt er skýrgreiningunni á því, hvað teljast skuli áfengir drykkir, og má vera í þeim nokkru meira áfengismagn en áður hefur verið lögheimilað, en þó svo, að drykkurinn verður ekki talinn falla undir ákvæði laganna. Hin meginbreytingin, sem felst í frv., var einnig í frv. í meginatriðum, þegar það var lagt fram af hálfu stjórnarinnar í haust, og það var um að setja reglur um það, með hverjum hætti mætti veita veitingastöðum heimild til vínveitinga. Eins og við vitum, þá hefur gilt í þessum efnum nokkurt undantekningarástand, ef svo mætti segja, um meira en ársbil, og hygg ég, að flestir viðurkenni, að það ástand, sem nú er í þessum efnum, sé með öllu óviðunandi. Það er að sjálfsögðu ekki viðhlítandi, að ríkisstj. stendur fyrir sölu á áfengum drykkjum, þannig að þeir eru seldir fyrir marga milljónatugi á hverju ári, en þó er óheimilt að neyta þeirra nema þá annaðhvort á viðavangi, en þó svo, að ekki teljist til almannafæris, eða í heimahúsum, og mundu margir telja, að ekki væri ástæða til að ýta undir drykkjuskap einmitt þar. Af þessu hefur leitt annars vegar mjög mikinn drykkjuskap í bílum, ýmiss konar skúmaskotum og svo það, sem ómögulegt hefur verið að koma í veg fyrir, að áfengislögin eru vitanlega brotin mjög með óheimilli víndrykkju á veitingahúsum. En þegar hundruð manna eru eindregin í því að brjóta lögin með þeim hætti, sem gert hefur verið, þá er vitanlega með öllu ógerlegt fyrir nokkra lögreglu að hafa á því gæzlu, svo að viðhlítandi sé. Menn getur að vísu greint á um, hvaða reglur eigi að setja um þetta, og hv. Ed. breytti að sumu þeim reglum, sem í frv. voru settar. En meðan vín er flutt til landsins og meðan ríkið annast vínsölu í jafnríkum mæli og raun ber vitni um, þá held ég, að ekki verði um það deilt, að einhverjar betri reglur verði að vera í lögum um þetta heldur en nú eru, sem í senn eru ákaflega hæpnar efnislega og allsendis ómögulegt að framfylgja af hálfu löggæzlunnar. Ég fer þess vegna ekki dult með, að ég tel þessi fyrirmæli um vínveitingar og reglur fyrir veitingahús, um það, með hverjum hætti þar megi vínveitingar eiga sér stað, vera meginefni þessa frv. og tel mestu máli skipta, að þingið afgreiði fyrirmæli um það á einn eða annan veg, fyrirmæli, sem hægt sé að framfylgja og hægt er þá að ásaka lögreglu fyrir, ef ekki er framfylgt eins og lög standa til.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál að svo stöddu. Ég legg til, að málinu sé vísað til 2. umr. og til hv. allshn.